Lina Dardonah

Hún fetar sig um laskað hús
með bangsa í fanginu, lítil stúlka.

Í fjarlægum stjórnklefa
situr ungur karl
með krullur niður vangana
maulandi súkkulaði og snakk.

Deyi fólk þá getur það sjálfu sér um kennt.
Íbúum er alltaf ráðlagt að yfirgefa húsin.

Þeir segja mér ekkert fyrir verkum
möglaði faðir úti á stétt
en þegar árásirnar hófust
var þó enginn eftir innandyra
nema kannski bangsi með ofsalega rauð eyru.

Herveldið tortryggir ásýnd vanmáttarins
fjölbýlishús gæti verið bækistöð skæruliða
leikskólabarn gæti verið dulbúinn vígamaður.

Eftir aðgerðir dagsins hófst leit í rústum
og tólf ára stúlka, Lina Dardonah
náðist á mynd
þar sem hún stígur varfærin
yfir mulning úr hrundum veggjum:
Hún heldur á bangsa með ofsalega rauð eyru.

Herveldin ætla sér víst aldrei að drepa börn.
Hvar ert þú núna, Lina?
Þú sem fannst huggara í rústunum. Lifir þú?

Lina Dardonah
lítil stúlka
með bangsa í fanginu
með ógnvekjandi bangsa í fanginu.

Pin It on Pinterest

Share This