Sjö tilbrigði við Jökulsárlón

 

1. Jökulsárlón

Það er fjarri mér að líkja jökunum við dauðann
þar sem þeir lóna í vatninu
og bíða þess eins að bráðna.

Þeir eru miklu frekar eins og lífið
með öll sín forgengilegheit.

2. Jökulsárlón

Innan úr sterílbláum hveflingum jakanna
sem mara í lóninu
endurómar dropatal.

Þessir jakar eru aldagömul rigning
sem aftur er byrjuð að falla.

Það toppar ekkert aldagamla rigninginu
svo varla er hægt biðja um neitt meira
nema kannski snjóinn
sem féll í fyrra.

3. Jökulsárlón

Það andar köldu frá jökum
sem líða daufdumbir um lónið.
Þeir minna mig á dauðann
segir vinkona mín.

Það finnst mér skrýtið, segi ég.
Mig minna jakarnir á lífið
þeir eru að leysast upp
þeir minna á allt sem hverfur.

Þannig er einmitt dauðinn
segir vinkona mín
dauðinn
hann er einmitt lífið.

Ekkert fleira þarf að segja
við Jökulsárlón í dag.

4. Jökulsárlón

Jakarnir dreifa sér um lónið
líkt og trúðar í hringleikahúsi
sem veltast um
og hrekkja í djóki
áhorfendum til skemmtunar.

Þeir eru áþekkir þessir trúðar á lóninu
þessir jakar í hringleikahúsinu
aldrei er þó neinn
alveg eins og sá næsti.

Þetta er enginn staður fyrir börn.

Það er eins og þeir hlægi á lóninu
eins og þeir gráti á lóninu
lifandi dauðir trúðarnir
en ekkert heyrist í þeim allan daginn
fyrir yfirgnæfandi áhorfendaskaranum.

Þegar kvöldar má heyra illsku og íshjarta slá.

5. Jökulsárlón

Jakarnir silast um lónið.

Tilgangslausir
og merkingarlausir
silast jakarnir um lónið.

Líkir mér og líkir þér
silast jakarnir um lónið.

Tilgangslausir eins of lífið
merkingarlausir eins og dauðinn
silast jakarnir um lónið.

Jakarnir silast um lónið.

6. Jökulsárlón

Mér hryllir við þér nafnlausi jaki
sem nálgast mig í súldinni.

Ekki vildi ég eiga þig sem elskhuga
nema þú værir dauðinn sjálfur
kysstir einn koss og búið.

Þú ert alltof mikið eins og lífið
sendir svala fingurkossa
þar til setur að mér hroll.

7. Jökulsárlón

Ef ég er eitthvað einsog
þá er ég einsog jaki
sem lónar í lóninu.

Það er meira til af mér
en eitt erindi á yfirborðinu.

Undir niðri er ég miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu miklu meiri.

Pin It on Pinterest

Share This