Allskonar ljóð um ást og ekki ást

 

 

Kaktus í snjónum

Kaktus í snjónum hét amerísk bíómynd, ástarsaga
sem ég lifði mig inní á táningsaldri. Ég man
bara titilinn en hann nægir til að vekja hugsanir
þegar ég sé þig fara hvískrandi um íbúðina og vökva blómin.

Það gerir plöntunum gott að þú andar á þær, enginn
veit þó hvort þær skilja eitthvað af því sem þú segir.
Ef þær svara þér, svara þær ekki á sama hátt
og fólk, þær hvísla hvorki né hrópa
við eigum ekki orð yfir samskiptamáta þeirra.

Látum blómin tala, hrópar sölufólk á torgum og segir
rósina tákna sanna ást en spyr hana sjálfa aldrei álits um neitt.
Hvað segði rósin í garðinum? Hvað segði friðarliljan?
Hvað segði kaktusinn sem setur stút á rauðar varir
lokaður inni í harðlæstum nóvember?

Kaktusinn sem blómstrar hjá okkur í myrkrinu
og aftur þegar vorar gæti rakið langa sögu, byrjað
á manni í Stokkhólmi sem flúði áræðinn
frá Íran undan ægivaldi klerkanna
en var kannski óviss um rætur sínar
uns systir hans kom nokkrum árum seinna
og færði honum afleggjara af kaktusi að heiman.

Við erum ekki innilokuð og við erum ekki á flótta
getum talað upphátt en þú hvískrar samt og vökvar blómin
vökvar kaktusinn, afleggjara sem þú fékkst fyrir löngu
hjá landflótta manni í Svíþjóð og fluttir vökvandi
og hvískrandi milli landa og íbúða
milli ólíkra tíma og aðstæðna
en þykist samt ekki skilja
hvernig hann geti lifað og dafnað ár eftir ár í tugi ára.

Það er vissulega kaktus í snjónum
einhver kemur og hvíslar til hans
einhver fær hann til að lifa, það ert þú.

 

Ósögðu tíðindin

Mig langaði til að tala við þig
trúa þér fyrir því sem hvíldi á mér
finna næði, segja þér allt
og næði
fannst í sumarbústað
en þar vildi ég ekki spilla helginni
svo ég kom mér aldrei til þess að tala.

Við sátum seinna á flugvelli og biðum
í eilífan sólarhring
eftir vél sem hafði seinkað
en ég kom mér ekki til að tala
vildi frekar endurtaka brandara.

Loks stóðum við hjá æstri umferðargötu
og biðum eftir grænu gangbrautarljósi
þá lét ég það flakka
ég sagði það skýrt og greinilega
sagði það sem hafði hvílt á mér í öll þessi ár.

Ég veit, sagðir þú. Það hef ég alltaf vitað.

Síðan kom grænt og við gengum yfir
og nú man ég ekki lengur
hvað það var sem hvíldi á mér
hvað það var sem þú vissir alltaf.

 

Furulundurinn

Ástin sat þögul hjá okkur í furulundinum á Þingvöllum
þar sem við fundum skjól þegar landið fékk skyndilega
nóg af átroðningi haustlitafólks, minnti þusandi á sig
með óvæntum hraglanda en vogaði sér ekki inn í lundinn
þar sem var borð með áföstum bekkjum
svo við gátum tekið upp nestið, flatkökur
og kaffi. Eða var kannski kakó á brúsanum?

Ég man það ekki en man að ástin var með og þagði
þegar við minntumst þess hvernig við héngum
á brúarhandriðum og rýndum niður í ána
til að eygja urriða á leið til hrygningar.

Þekkir urriðinn þig? spurði ég ástina. Eða
þekkir hann bara eðlið, lífshvötina?
Það var einhver dumbungur í okkur öllum.

Við kláruðum kaffið sem kannski var kakó, en ástin
rauk upp frá borðinu og vafraði um lundinn
þar sem hvítir sveppir dreifðu sér um skógarbotninn.

Við nenntum ekki að dekstra hana í þessum ham
en þegar við stóðum upp til að fara
kom hún óumbeðin með okkur í bílinn og heim.

  

Áfangastaður

Leyfðu mér að segja þér hvað mig dreymdi. Sumir
draumar eru fullir af úthugsuðum táknum, aðrir
gætu verið lífið sjálft, fyrirfram merkja þeir
ekkert: Mér fannst sem bara við tvö
sætum í einni af þekktari
vegasjoppum tilverunnar, þar
sinnti okkur enginn og afgreiddi, nema ástin

óumbeðin skellti hún límonaðiflösku á borðið.
Ég þáði glas
en þú vildir drekka af stút.

Síðan fengum við bæði tilefnislausan hlátur
og þurftum ekki fleira það sem eftir var draums.

 

Opinberun

 
Ég opnaði óvart augun

meðan þú bröltir

ofan á mér

og við kysstumst á stofugólfinu.
 
Út um gluggann greindi ég húsið á móti

og þar í glugga

á efstu hæð

dömu
 með leikhúskíki.
 
Elskan mín, það fylgist alltaf einhver með okkur.

Hver veit nema þetta hafi hreinlega verið Guð.
 
 
 
 
Sólskinsdagur af svölunum
 
Niður með húsinu gengur vonin blíð

gengur fegursta kona í heimi

gengur móðirin unga

með börnin tvö

sem hoppa
 og skoppa um stéttina.
 
Börnin hinkra við gangbrautina

og fara ekki yfir

fyrr en mamma segir hvenær má.
 
Megi hér alltaf ríkja friður

megi alltaf ríkja ást

móðirin unga

og börnin tvö.
 
Já.
 
 
 
brúðkaupsafmælið
 
                  jazz is not dead
                  it just smells funny
 
                                 frank zappa
 
dansi hvar er blái
kjóllinn, ó hvar?
 
dansi er í aldrinum
dansi er í ha ha
 
kondu þá í útsölunni, dansi
ég mun ávallt skilja þig
frá öðrum dansi dansi
 
ástin er og, ó dansi
stundum eða, dansi
aldrei en, ó dansi
 
við eigum saman eigum við
dansi, dansi dansi…
 
 
 
Þrítugasti maí
 
Nú er sumarið komið á vakt;
og ljósastaurarnir hanga aðgerðalausir.
Skemmtiferðaskip
flatmagar á ytri höfninni
en farfuglar tjalda í Laugardal.
 
Inn eftir Hverfisgötunni
kjagar malbikunarvél með ungahóp
og stoppar umferð bifreiðanna.
 
Sjálfur ek ég mína leið í þýðum draumi.
Skipti um alla hjólbarða í vor
vil síður fara á grófa munstrið aftur.
 
Engan veginn reynist mögulegt að vita
hvers konar gata tekur við.
Í staðinn þrái ég trygga birtu.
 
Sumarnóttin hefur takmarkað dvalarleyfi
fer utan í ágúst
og þá kvikna augu ljósastauranna.
 
Með öðrum hætti lifa augu þín.
Þau ljóma í kapp við árstíðina
og ekki trúi ég
að birta þeirra minnki í haust.
 
Að sjálfsögðu
veltur það nokkuð á mér.       
 
 
 
sundhöllin eftir lokun
 
þráhyggja mín: allt
þetta kyrra vatn, öll
þessi eilífð
og hún
 
sem kemur úr djúpi
teygir upp hálsinn
eitt augnablik
 
nefertítí
 
sundhöllin eftir lokun
hugur minn
allt þetta kyrra vatn
 
 
 
sérlega mildur og kraftmikill
 
ein og önnur græn
baun
í uppþvottavatninu
 
það er nú það
 
fer erótíkin í vaskinn með árunum?
 
heyri ég laxinn stökkva í rödd þinni
eða yrki ég eftir tólf ára hjónaband
á máli félagsvísindadeildar
háskólans?
 
þú birtist mér í eldhúsinu
klædd gulum hlátri
hvort á ég að líkja þér við dís eða norn?
 
ég á bara pottana eftir
 
bíddu mín við fyrsta kossinn
snuðaðu mig ekki um óskirnar
veittu mér ástríður
láttu mig elska hata
og anda að mér holdi þínu, anda
 
 
 
Fantasía á morgunvaktinni
 
Bakkarnir mjakast áfram á færibandinu
fá ofan í sig kjötbollur
kartöflumús og sósu
fá utan um sig litríkar umbúðir og hverfa.
 
Með einum þeirra sendi ég þér kveðju.
 
Og það skal vera bakkinn minn
sem þú finnur í búðinni
grípur með þér heim
eftir vinnu á föstudaginn.
 
Pling! segir örbylgjuofninn.
Pling! segir einveran.
Gjörðu svo vel og sestu til borðs.
 
Þú lítur upp og reynir að horfa í augu mín
þar sem ég sit ekki handan við borðið.
 
Þú ert betri en enginn
og ég
gæti líka verið betri en enginn.
 
Þetta segir þú
við mig
þar sem ég sit ekki handan við borðið.
 
 
 
Eftir storminn
 
Öflugur var stormurinn
sem vakti mig í nótt
og hótaði að rífa þakið af húsinu.
 
Öflugri var samt andardráttur þinn 
hann feykti burt öllum mínum áhyggjum.
 
 
 
Leynivinur
 
Ég hef aldrei séð neinn

sem vinnur á skrifstofunni yfir daginn.
 
Ég þríf bara á kvöldin.

Heima yrki ég ljóð 
og plokka gítarinn.
 
Á hæðinni minni er einn öðruvísi.

Ég skoða oft dótið hjá honum.

Hann teiknar krúsidúllur
á minnismiðana.
 
Ég þríf alltaf vel kringum borðið hans.
Í gær fann ég bók undir borðinu:

Tuttugu ljóð um ást.

Ég lagði hana við símann.
 
Ég var andvaka í alla nótt.
 
Í kvöld ákvað ég að festa minnismiða

á tölvuskjáinn hans:

Skógarhöggsmaðurinn vakni.
 
Á morgun ætla ég að standa fyrir utan

þegar þau fara heim
 og reyna að sjá hann.
 
 
 
Hláturstund
 
 
Þú hlærð og burt með fingri tekur tár
sem trillar niður kinn úr bláu auga.
Nú rætast mínar allra innstu þrár;
ég á hér stund með þér og fæ að spauga.
 
Þú hlærð og getur eflaust ekkert sagt
nú eða gert af viti rétt á meðan
en kaffibollan fékktu frá þér lagt …
Í fréttum virðist lítið annað héðan.
 
Þú hlærð og úti flýgur flugvél hjá
með fólk sem ætlar norður yfir heiðar
en ég vil helst til hamingjunnar ná
með hlátri þínum flýg ég þangað greiðar.
 
Svo lengi sem mér hlotnast hlátur þinn
ég hlýt að vilja spauga enn um sinn.
 
 
 
Leyndarmál
 
Innst í huga mér
handan orða og gerða
á ég leyndarmál
sem enginn má vita
 
þó vildi ég 
að einhver
innti mig eftir því
 
 
 
 
Betri heimur
 
Eftirá liggjum við útaf 
máttlaus
og hjalandi undir súð í gömlu húsi: 
Þetta var sú besta sem ég hef fengið.
 
Þetta segjum við einum rómi.
Nú er heimurinn betri.
 
Þá krunkar óvænt hrafninn uppi á mæninum.
 
Verður heimurinn betri við eina fullnægingu?
Varla fækkar atvinnulausum.
Varla hætta stríðsmenn að drepa.
 
Nei, ein gerir heiminn varla betri.
Ein fullnæging er ekki nóg.
Hver og ein manneskja þarf sína.
 
Ein fullnæging á mann gerir heiminn betri.
Ein fullnæging á mann gerir heiminn betri.
 
 
 
 
Augu þín
 
Augu þín eru blámi himinsins
á björtum sumardegi
víðátta mikil
sem hvergi endar.
Nema bak við fjöllin
en þau eru hugur þinn
og hann klífur enginn.
 
 
 
Ég vil yrkja nafn þitt
 
Ég vil yrkja nafn þitt
og mitt og plús á milli
á biðskýli öll
og símaklefa í bænum.
 
Ó þú veist hvað ég meina.
Ó þú
        veist hvað ég meina
slærð á þráð til mín
og í mér er svarað.
Númerið þekkir þú ein.
 
Vagninn okkar er aldrei nýfarinn
aldrei ókominn.
Tvö á sama miða ferðumst við 
með hjörtun að leiðabókum.
 
Ég vil yrkja nafn þitt…
Og gagnrýnendur munu kanna fortíð mína
fræðimenn gegnumlýsa biðskýlin
skólabörn þylja nöfn okkar utanað.
 
Engum hlotnast þó leyndardómurinn.
 
Ég vil yrkja nafn þitt
og mitt og plús á milli
það verður besta ljóðið
skilið til fulls og skynjað
af einni þér.
 
Aðra mun tæplega gruna
til hvers er vísað.
 
 
 
Dansherrar
 
Einn svitadropi sprettur fram 
á enni þínu og hrópar: 
Hér sé ég!
 
Honum skal ekki leiðast
hann skal eignast félaga
hann skal hitta dropa af enninu á mér.
 
Leggðu höfuð þitt að mínu, herra minn
svo stígum við áfram dansinn
þar til dropi hittir dropa.
 
Ég skal fylgja þér í dansinum, herra minn.
Ég skal leiða þig í dansinum, herra minn.
Í dansi tveggja herra.
Í dansi þar sem dropi hittir dropa.
 
Vertu, vertu herra minn 
vertu aldrei herra minn.
 

 

kvöldljóð

varir varir, komið
varir, verið

varir babba
varir mömmu

komið varir verið
blóm blóm blóm

varir varir, komið
varið

 

 
Blossi í rökkrinu
 
Við stöndum tvær á veröndinni
og enginn veit af okkur
nema andvari kvöldsins
sem reynir að kæla niður búkana eftir pottinn.
 
Skál, segi ég og lyfti mínu ímyndaða glasi.
Skál og við krækjum saman olnbogum  
bergjum svalandi kossa af vörum 
þú af mínum 
ég af þínum.
 
Skyndilega blossar þú upp í rökkrinu
blindar mig gjörsamlega
svo ég skil ekki neitt
og sé ekki neitt 
fyrr en ég loka augunum. 
 
Þau standa þögul í kringum okkur 
foreldrar mínir og systkini
frændur og frænkur 
vinir og vinnufélagar.
 
Öll ættin hímir yfir okkur
gjörvöll adamsættin 
hímir yfir okkur
uns ég opna augun og allt breytist.
 
Allur heimurinn breytist
þegar ég opna augun í þrá eftir þér.
   
 
 
 

 

Pin It on Pinterest

Share This