Bókaljóð og möppuljóð

Ljóðabækur Antons Helga Jónssonar eru átta og flestar þeirra hafa komið út undir merki Máls og menningar; Dropi úr síðustu skúr árið 1979, Ljóðaþýðingar úr belgísku 1991, Ljóð af ættarmóti 2010, Tannbursti skíðafélagsins 2011, Tvífari gerir sig heimakominn 2014 og Handbók um ómerktar undankomuleiðir 2020. Þá gaf Mál og menning einnig út aukna og endurbætta útgáfu af limrukverinu Hálfgerðir englar og allur fjandinn árið 2012 en fyrri útgáfan sem kom út árið 2006 fór ekki á almennan markað. Fyrsta bókina Undir regnboga, sem kom út árið 1974, gaf skáldið út sjálft. 

Nýrri bækur skáldsins er auðvelt að panta á vef Forlagsins eða kaupa í bókabúðinni á Fiskislóð en texta þeirra flestra er þó hægt að lesa og kynna sér áður hér á síðunni. Ein bók er ótalin; Ljóð nætur kom út árið 1985 og var gefin út í 60 eintökum. Hvatamaður útgáfunnar var vinur skáldsins, Guðjón Davíð Jónsson, en hann teiknaði myndir og hannaði bókina sem hluta af skólaverkefni við MHÍ. Flest ljóðin voru síðan endurprentuð í Ljóðaþýðingum úr belgísku, en þó ekki öll og ekki eitt merkilegasta ljóðið sem birtist hér undir hnappnum Alls konar utanbókarljóð ásamt tveimur öðrum úr kverinu.  Undir nefndum hnappi er trúlega „lengsta og stærsta“ ljóðabók skáldsins en þar má finna samtíning af alls konar ljóðum sem ekki hafa ratað í bækur, sum hafa þó birst í blöðum og tímaritum og önnur verið lesin upp. 

Þá má einnig finna hér nokkuð af þýddum ljóðum sem sum hver hafa hvergi birst annars staðar en einnig safn af tækifærisvísum og alls konar kvæðum frá ýmsum tímum.

 

Pin It on Pinterest

Share This