Andvökusenna

 

Þula fyrir tvær hendur og höfuð manns

Segðu mér söguna aftur
þá sem þú sagðir í gær
um kvíðafullu veruna
með undarlega höfuðið og hendurnar tvær.

Það var einu sinni vera sem átti sér athvarf í kompu
innan í kúlu sem þeyttist um geiminn
hún lá undir sæng, undir þykku teppi
lá undir feldi og gat hvorki vaknað né sofnað.

Veran var maður og maðurinn var ég, en samt ekki ég
ég er leikari sem leikur þennan mann, trúður að segja sögu.

Þetta er saga um veru sem vissi ekki hvað hún átti af sér að gera
veru sem hafði einkum höfuð og hendur til að skemmta sér við.

Uppúr leiðindum hrópaði veran: Hægri hönd, hægri hönd, hvar ert þú?
Í myrkinu tautaði veran: Vinstri hönd, vinstri hönd, hvar ert þú?
Síðan hlúði hún með höndunum að viðkvæmum gróðri.
Hún mótaði með þeim leirker, hlóð með þeim hús og smíðaði tæki.

Þegar maðurinn lék við hvern sinn fingur var gaman í kompunni hans.
Þumalputti, þumalputti, hvað finnst þér um ástand og horfur?
Langatöng, langatöng, hvernig líka þér straumar og stefnur?
Þá kom lilli putti spilleman með stríðni og spurði: Hver var að prumpa?

Oft fer dagurinn út í hreina vitleysu svo höfuð og hendur hlæja.
Enginn hlær samt þegar kemur að skrýtnasta ævintýri dagsins.
Það var einu sinni slys sem var ekki neinum að kenna.
Það var einu sinni mannshönd sem startaði vél.
Síðan startaði mannshöndin hundrað þúsund milljón vélum.

Þetta var ég, en samt ekki ég.

Það var gaman að lifa og vélarnar gátu endalaust unnið.
Þær fengu fæðu sem gaf þeim kraft
en fæðan olli vindgangi líka
svo vélarnar þurftu að prumpa.
Þegar vélar prumpa verður lyktin svo vond.
Þegar vélarnar prumpa verður loftið þyngra
leggst yfir allt og alla eins og þykkasta teppi
undir teppinu magnast svækja og hiti uns varla er hægt að anda.

Loft. Loft, hrópaði maðurinn inni í kúlunni
hrópaði maðurinn undir feldinum. Gefið lífsanda loft.

Hvað er hægt að gera? spurði höfuð mannsins
Vélarnar verða að prumpa minna.
Gefum vélunum annað að borða svo þær prumpi minna.

Höggvum færri tré og ræktum fleiri svo lyktin batni.
Lyktin af blöðunum grænu gerir loftið betra.

Þumalinn tautaði: Ég hlusta ekki á neina vitleysu.
Langatöng baulaði: Hér er sko allt í þessu fínasta lagi.
Baugfingur þusaði: Það er best að hver treysti á sjálfan sig.

Þegi þú, þumall, sem aldrei lest á umbúðir.
Þegi þú, langatöng, sem snattast um á bensínháknum.
Þegi þú, baugfingur, sem aldrei vilt borða lífrænt ræktað.

Hægri hönd, hægri hönd, hvar ert þú?
Vinstri hönd, vinstri hönd, hvar ert þú?

Það var einu sinni par sem lá í grasinu
andaði að sér fersku sumri
og kysstist í sólinni.
Það flaug þröstur hjá og settist á grein.
Það var einu sinni skógur.
Það var einu sinni tré.
Þar söng einu sinni þröstur og aldrei meir.

Það var einu sinni mannshönd sem gróðursetti tré.
Það var einu sinni mannshönd sem hjó niður tré.

Þetta var ég, en samt ekki ég.

Það var einu sinni hönd sem lék mannshönd og hjó niður tré.
Síðan felldu margar hendur hundrað þúsund milljón tré.

Þegi þú, trúður, ég leik ekki mannshönd
ég vil vera hönd sem leikur kúfskel.
Ég var til á undan öllum vélum.
Ég hef lifað í þrjú hundruð ár.
Ég gæti vel lifað annað eins.
Ég gref mig í botninn og lifi hægt.
Segðu mér höfuð, þú sem veist allt:
Á athvarf mitt eftir að endast svo lengi?

Vonandi gerist ekkert næstu árin, sagði höfuð mannsins.
Vonandi ekkert meðan við erum á lífi, sögðu fingurnir allir.

Ég get ekki sofið. Ég get ekki andað.
Ég þarf loft.
Ég þarf von, kæri trúður.

Segðu mér söguna aftur.

Það segir enginn söguna aftur.
Einu sinni var og aldrei meir.
Allt var einu sinni og aldrei meir.

Það var einu sinni dúdúfugl.
Það var einu sinni úruxi.
Einu sinni geirfugl og aldrei meir.
Einu sinni tígrisdýr og einu sinni górilla.
Það var einu sinni nashyrningur og aldrei meir.

Það var einu sinni margt.
Það var einu sinni ég.
Það var einu sinni við.
Það var einu sinni mannvera og aldrei meir.

Kæri trúður, ekki þetta; segðu mér aðra sögu
sögu mannverunnar sem lifði hægt
segðu mér hvernig hún verður
segðu mér söguna aftur, segðu hana upp á nýtt.

Pin It on Pinterest

Share This