Ljóð af ættarmóti

Núna í haust kom út hjá Máli og menningu bókin Ljóð af ættarmóti með 82 áður óbirtum ljóðum eftir Anton Helga Jónsson. Þetta er óvenjuleg bók– skemmtileg, harkaleg, stundum jafnvel nöturleg. Þar heyrast raddir fólks sem fagnar og gleðst, sem harmar og skammast, sem áfellist aðra eða engist af
samviskubiti. Bók sem vert er að lesa.

Flokkurinn „Ljóð af ættarmóti“ kom úr í bók árið 2010 og sver sig í ætt við leikverk þar sem heyrast ólíkar raddir, ungar og aldnar. Það er engu líkara en fluga, kannski geitungur, flögri um á íslensku ættarmóti og hlusti eftir því hvað fólk hafi að segja.

________

Þú spyrð hvað hafi orðið úr mér.
Hvað ég hafi afrekað.

Ég hef gert ágætis mistök
í lífinu
ágætis mistök.

 •

Ég vakna og ligg lengur.
Ég vakna og rýk fram úr.
Ég vakna ein.
Ég vakna kátur.
Ég vakna hjá henni.
Ég heyri blaðberann rjála við lúguna.
Ég heyri að sonurinn hleypur berum fótum.
Ég má kúra lengur.
Ég verð að stökkva fram úr.

Ég heyri hrygla í kaffivélinni.
Ég heyri að einhver kveður og fer út og til vinnu.
Ég er ein í húsinu.

Ég hlusta á útvarpið.
Ég elska þögnina í byrjun dags.

Ég borða morgunverðinn ein.
Ég er ekki vanur að borða á morgnana.

 •

Hvernig er spáin?

Spáin er góð.

Hverjir mæta?

Mætingin verður góð.

Andvari kemur
Blíða með honum
Gola og Gjóla
og Lygna og Blær
Stilla og Molla
Gustur og Garri
Garður og Hviða
Roka og Bylur
Næðingur líka
og Strekkingur lætur sig sjaldan vanta
svo jafnvel má búast við Stormi.

Síðan koma Súsan og Húgó að vestan.

 •

Einu sinni ég er ég.
Tvisvar sinnum ég.
Er ég
þrisvar sinnum?

Ég er ég fjórum sinnum.
Ég er ég fimm sinnum ég.
Er ég sex?
Sinnum ég er ég sjö.
Sinnum ég er ég átta sinnum ég
er ég níu sinnum ég
er
ég.

Ég man alltaf þegar ég fæddist.
Það rigndi.
Það var vor.

Svartþröstur hoppaði um garðinn.
Þrífættur köttur gægðist fyrir horn.

Ég missti af lest í Kaupmannahöfn.
Ég missti af stúdentauppreisninni.
Ég missti af skiltinu Gæsavatnaleið.
Ég missti af Hale Bopp-halastjörnunni.
Ég missti af Paul McCartney á píanóbarnum.

Ég missti af útsölunni hjá Guðsteini.
Ég missti af uppsveiflunni.
Ég missti af niðursveiflunni.
Ég missti af skilafrestinum.

Ég missi ekki af þér.

Af hreinni heimsku opnaði ég augun í dag.
Sama dillan hrjáði mig í gær.
Og daginn þar á undan.
Ég er afglapinn.
Ég er bjálfinn sem ekkert skilur.

Vitrir menn og spekingar hafa reynt að tala um fyrir mér.
Þeir hafa sagt: Þetta er þinn síðasti dagur
á morgun muntu ekki opna augun.

Af hreinni heimsku hef ég opnað augun.
Ég finn mér nýja og nýja blekkingu
og afhjúpa drauma mína fyrir öðrum.

Þeir segja: Þessu kemurðu aldrei í verk.
Og þegar þeir vilja hrósa sigri og inna mig eftir framkvæmdum
hef ég löngu gleymt því fyrirtæki og farið á hausinn með önnur.

Ég er bjálfinn sem ekkert skilur.
Jafnvel hæðnishlátur þeirra örvar mig til nýrra afglapa.

Grjót. Mosi. Vatn.
Vatn. Mosi. Grjót.

Grjót. Vatn. Mosi.
Mosi. Grjót. Vatn.

Vatn. Grjót. Mosi.
Mosi. Vatn. Grjót.

Land, okkar land.

Hér allt um kinrg var mikið berjaland í æsku minni
Krækiber, bláber og ekki síst aðalbláber.

Hversu mikið sem við tíndum
þá var alltaf jafnmikið eftir.

Dalurinn var allur grasi vaxinn.
Það var nóg af fugli
og það var fiskur í vatninu.

Samt var það eitthvað sem togaði í fólkið.

Ég var meðal þeirra síðustu sem fermdust hérna.
Síðasti ábúandinn hélt út í nokkur ár eftir það.
Hann endaði á elliheimili í Firðinum.
Þar varð honum tíðrætt um draum.

Honum þótti sem hann væri kominn til himna.
Lykla-Pétur leiddi hann inn í dýrðina.
Hann litaðist um og spurði: Hvar er mitt fólk?

Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur.
Þitt fólk er allt farið suður.

 •

Allar fengu boðskort nema ég.
Allar töluðu um það hvernig yrði nema ég.

Auðvitað kemurðu, sögðu þær samt.
Alltaf þegar ég segi eitthvað þagna þær.

Ég mæti í nýjum kjól og enginn tekur eftir mér.
Ég mæti í nýjum kjól og allir glápa.

Ég vil bara vera eins.
Ég vil ekkert skera mig úr.

Ég vil ekkert vera eins.
Ég vil bara skera mig úr.

 •

Nei, er það ekki hann sjálfur?
Drottinn minn dýri!
Eftir öll þessi ár.

Að ég skyldi hitta þig hér.
Að við skyldum hittast hér.
Á ég að trúa því?
Kvíðinn sjálfur!
Þú hefur ekkert breyst.

Ertu skyldur þessu fólki?

Manstu þegar við spáðum saman
í mistökin
í sigrana
í mig
og lífið.

Og hér ertu þá aftur.
Gamli.
Kvíðinn sjálfur.
Gaman að ég skyldi þó þekkja einhvern.

 •

Ég hélt það kæmi nýr dagur
hélt það kæmi alltaf nýr dagur
en þennan
hef ég séð áður
og er þó ekki viss um að hann hafi
verið föstudagur þá
og ekki var hann í júní
heldur í mars
drungalegur og þungbúinn
og á allan hátt niðurdrepandi.

Allt er breytt
allt er öðruvísi en ég veit
að þetta er hann
leiðinlegi dagurinn
frá því í mars í fyrra
mættur í gervi annars
sem átti að vera nýr.

Hvað varð þá um þann nýja
varð hann veikur á leiðinni
og þurfti þessi gamli að stökkva inn
fyrir hann?

Það er þá huggun
maður veit að verði einn veikur
þá hleypur annar í skarðið
og þeir halda áfram.

Það er skárra að fá einn leiðinlegan
en að enginn mæti.

 •

Ekki amast við geitungnum, elskan mín.
Láttu mig ekki segja þetta aftur.

Ekki amast við geitungnum.
Hann er fulltrúi lífsins.
Hér á þessum stað.

Þetta vill lifa.
Þetta veit ekki betur.
Vill koma sér upp afkomendum.

Ekki bölva.
Ekki amast við geitungnum.
Elskan mín.

Við hittumst alltof sjaldan.
Segðu mér eitthvað af þér.

Og hvað er að frétta af honum þarna …?

Það gerist ekki neitt.

Ekkert hefur gerst.

Það gerist ekki neitt.

Tvisvar.

Ekki neitt.
Og núna endurtekur það sig.

Enn eina ferðina.

Ekki neitt.

Ekki neitt.
Ekki ekki neitt.
Ekki ekki ekki ekki
ekki ekki neitt.

Og endurtekur sig bara.

 •

Tvö og hálft barn.

Það er kjarnafjölskyldan.

Kvótinn hefur ekkert breyst;
pabbi, mamma,
Stebbi, Dóra og ég.

Stebbi eðlilegur.
Dóra kúl.
Og ég er víst alltaf hálfgert barn.

 •

Hver erum við?
Hvar erum við?
Erum við
við?

Ég er við.
Þú ert við.
Hann er við.
Hún er við.
Við erum við.

Hvar erum við við?

Hér erum við við.
Heima við.
Í vinnunni við.
Í börnunum við.

Í málæðinu við.
Í orðunum við.
Í mistökunum við.
Í draumunum við.
Í eldamennskunni við.
Í kássunni við.

Við við.

Alltaf við.

Við.

 •

Sjáið þið, krakkar
þarna í holtinu fórum við í fuglaleik.
Ég var kría
setti saman hreiður
úr alls kyns drasli
og fann mér síðan litla steina
sem ég verpti í hreiðrið.

Sjáið þið afa fyrir ykkur?

 •

Þú hefðir getað verið hérna
hefðir getað verið í fótbolta með krökkunum.

Af hverju þetta?

Það hefði verið hægt að gera svo margt annað.
Það hefði verið hægt að hlusta á Vilhjálm og gráta.
Það hefði verið hægt að leggja sig og sofna.

Hefði verið hægt að hringja í mig.
Hefði verið hægt að gera eitthvað annað.

Hefði verið hægt að fara í fótbolta með krökkunum.

Hvers vegna á ég að hengja haus
og skammast mín?

 •

Mig langar í eitthvað.
Ég veit ekki hvað
samt opna ég alltaf ísskápinn.

Það kemur engin hugmynd.

Áður en ég opna
finnst mér skápurinn vera fullur.

Því oftar sem ég glápi inn í hann
því minna er í honum.

Maður er ekki endilega svangur
mann langar bara í eitthvað
opnar ísskápinn
sér ekki neitt
og lokar honum aftur.

Mig langar í eitthvað.

 •

Nei, við frændurnir heilsumst ekki lengur.

Ég hjálpaði honum heilan dag í flutningum
burðaðist með kassa niður af þriðju hæð í Hlíðunum
og síðan upp fjórar hæðir í Vesturbænum.

Heilan laugardag
og fékk ekki einu sinni bjór.

Þegar ég kom seinna í búðina til hans
átti ég þó hálfpartinn von á góðum afslætti.

Hann minntist ekki einu orði á burðinn.

Ég þarf ekkert að heilsa.
Ég læt ekki frændsemina sliga mig.

 •

Ég kann ekki við mig í bænum.

Ég fer út
ég fer á barinn

hleyp svo heim
leggst til svefns
vakna og stekk fram úr.

Ég slepp hvergi undan mér.

 •

Hann er hérna morðinginn.
Líka hann er hér á meðal okkar.

Ég heilsaði
ég hugsaði
þetta er höndin sem reiddi til höggs
fyrir tuttugu árum.

Hvað er hann að gera hérna?
Heldur hann að allt sé gleymt?

Við erum að skemmta okkur!

Hvað er maður lengi morðingi?
Hvað er maður lengi maður?

 •

Ég vil lambakjöt.
Skyr.
Ég vil skyr.
Og pönnsur.
Ég vil eitthvað íslenskt.
Ég vil kaffi.

Þá er bara að fíra upp í andskotans grillinu.
Finna til marineringuna.
Lambakjötið klikkar aldrei.
Lambakjötið klikkar aldrei með skyri.

Enga sveppi og lauk.
Engan hvítlauk.
Ekkert andskotans kál.

Allir saman nú:

Ég vil lambakjöt.
Skyr.
Ég vil skyr.
Og pönnsur.
Ég vil eitthvað íslenskt.
Ég vil kaffi.

Ég á eftir að koma heim.

Það er hægt að fara land úr landi
skipta um nafn
skipta um kennitölu
skipta um maka
skipta um kyn
flýja frá frændum
feðrum og mæðrum
en það er ekki hægt að sleppa.

Til hvers að venja sig við leiðinlega vinnufélaga?
Venja sig við sjálfan sig?

Ættin heldur sér
hérna
inní mér
hérna.

Ég á eftir að koma heim.

 •

Við verðum að fara að hittast.

Hérna stöndum við
og kætumst yfir endurfundum.

Höfum þó ekki hugmyndaflug
til annars en að tyggja upp sömu setninguna
aftur og aftur.

Við verðum að fara að hittast.

Komum okkur aldrei að neinu efni.
Hittumst loks og höfum bara eitt að segja
allt kvöldið:

Við verðum að fara að hittast.

 •

Vill einhver rétta mér saltið?
Það hlýtur að vera salt.

Það hlustar enginn.
Enginn hlustar á mig.

Það er hægt að velja sér álegg
en ekki velur maður fjölskyldu
ættingja
land
eða uppruna.

Það má þó biðja um salt.
Það hlýtur að vera salt.

Hvað er svo glatt
undir bláhimni blíðsumarnætur?

Lítil fjóla grær við skriðufót
landið okkar góða, þú og ég.

Ég trúi ekki á orðin þín.
Hér á reiki er margur óhreinn andinn.

Fyrr var oft í koti kátt.
Hlýtt ég tók í hönd á Kötu.
Ennþá geymist það mér í minni, María María.

Ef ég væri ógnarlangur áll
og ef ég væri orðin lítil fluga.

 •

Ef ég bara gæti stoppað tímann.

Tími. Stopp.
Hingað og ekki lengra.

Bíddu eitt augnablik
meðan ég klára.
Leyfðu mér aðeins að hugsa.

Ég þarf að slaka á.
Ég þarf að lifa.
Ég þarf.
Ég þarf.

Tími.
Ég þarf.

 •

Er þetta niðjatalið?

Já, þetta er niðjatalið.
Svona tala niðjarnir.

Ég nenni ekki lengur að þrífa.

Ég átti börn með tveimur.
Svo kom Hannes.

Það var alltaf sama sagan
ég ryksugaði alla íbúðina
ég þreif ísskápinn
ég þreif klósettið.

Hann sagði: Þú gast átt börn með Gísla.
Þú gast átt börn með Dengsa.
Þú getur ekki átt börn með mér.

Ég hringdi í vinkonurnar.
Ég mátaði buxur.
Svo tók ég ákvörðun og henti honum út.

Eitt hefur breyst
engir gulir taumar
utan á klósettskálinni lengur.

 •

Það vilja auðvitað allir ná í mig.
Þetta er minn sími.
Ég nenni ekki að svara.

Ég skilaði ekki af mér í gær.
Ég skilaði ekki af mér í dag.

Ég á ekki að vera hérna uppi í sveit.
Á eyðibýli.
Með huldufólki.
Mín er beðið annars staðar.

 •

Ég get ekkert sagt.
Ég er sonur mömmu.
Ég er frændi. Ég er mágur. Ég er vanhæf.
Ég er dóttir pabba. Ég er frænka.
Ég get ekkert sagt.

Ég er ömmubarn. Ég er afabarn.
Ég er langafabarn. Ég er systir.
Ég er kjörsonur.
Ég get ekkert sagt.

Ég er barnabarn. Ég er barnabarnabarn.
Ég er faðir.
Ég get ekkert sagt.

Ég er vanhæfur. Ég er vanhæf.
Ég er föðurbróðir. Ég er móðursystir.
Ég get ekkert sagt.

Ég er bróðir. Ég er systir.
Ég er sonur. Ég er dóttir.
Ég er frændi. Ég er frænka.
Ég er systursonur, systurdóttir
bróðursonur, bróðurdóttir
tengdasonur, tengdadóttir
tengdapabbi, tengdamamma.

Ég er vanhæfur. Ég er vanhæf.
Ég get ekkert sagt.

Ég hef alltaf verið mesta skutlan.

Sextán sautján átján
alltaf mesta skutlan
með alla á eftir mér
skutla skutla.

Nítján tuttugu
tuttugu og eins
tuttugu og fimm
og tuttugu og sjö.

Mesta skutlan.

Þá komu krakkarnir.
Þá varð breyting um tíma
fyrst var ég á eftir þeim
nú eru þeir á eftir mér:
Skutla skutla.

Það er leikskólinn og skólinn
ballettinn og tónó
tónó og ballettinn
skólinn og leikskólinn.

Ég hef alltaf verið mesta skutlan
aðalskutlan
skutla skutla.

 Mér líður eins og ég hafi gleypt brunnklukku í morgun.

Ég finn að hún nagar sig í gegnum innyflin.

Hún nartar í lifrina.

Þú mátt hlæja.
Og ég skal hlæja með þér.
Samt finn ég fyrir brunnklukkunni innvortis.

 •

Aldrei segir hún neitt.
Heilsar mér varla í stigaganginum.

Kallinn hennar kemur alltaf til að rukka hússjóðinn.
Argast yfir því að strákarnir séu með hjólin á ganginum.

Ég kann ekki að meta þessar kvartbuxur hennar.
Ég veit ekki hvað hún er alltaf að fara í litun.

Hún gæti sagt eitthvað.
Hún gæti gert eitthvað.

Þegar strákarnir eru yfir helgi hjá Dodda
kemur hann enn eina ferðina með þennan blessaða hússjóð sinn
leitar lags með þennan hússjóð sinn, argast
yfir því að strákarnir séu með hjólin á ganginum.

Svo leyfir þetta helvíti sér að ríða mér á stofugólfinu.

 •

Ekki hæla mér fyrir dugnað.
Ég lærði á klukku fimm ára.
Síðan hef ég alltaf mætt á réttum tíma.

Ég sinnti öllu sem ætlast var til af mér.
Stóð alltaf í skilum.
Var engum til ama.

Ekki hæla mér fyrir dugnað.
Ég sat af mér lífið í ágætu starfi.

 •

Leiðinlegt fólk finnst mér skemmtilegt.
Ég tala nú ekki um ef það þegir mikið.
Ef það þegir mikið og lengi.

Ég hef gaman af leiðinlegu fólki.

Skemmtilegt fólk er leiðinlegt.
Einkum ef það dregur athygli frá mér
þegar ég ætla að vera fyndinn.

Núna áðan var ég næstum því kominn
með sniðugt tilsvar fram á varirnar.

Tókuð þið eftir því?

Þá birtist skemmtilegur maður
og reif frá mér athyglina.

Skemmtilegt fólk hefur einstakt lag á því að dúkka upp
þegar aðrir ætla að vera fyndnir.
Þessu hef ég oft tekið eftir.

Skemmtilegt fólk þolir ekki aðra.
Leiðinlegt fólk finnst mér miklu skemmtilegra.

 •

Ég sakna föstudagsins langa.

Það gerðist ekkert
allan daginn.

Hvar er þessi dagur núna?
Ég gæti vel þegið hann núna.

Ég sakna
föstudagsins
langa.

 •

Ertu þá ekki farinn að kíkja á stelpurnar? Veistu …

Margir strákar skemma hann á sér með vitlausu fikti;
þegar þeir svo hitta stelpur þá verða þær ekki hrifnar.

Þú ættir ekki að drekka kók.
Það fer ekki vel með eistun.
Það fer illa með eistun að drekka kók. Veistu …

Ég get leiðbeint þér með stelpurnar;
ég get sýnt þér hvernig á að eiga við kónginn
án þess að skemma neitt.

Ekki núna, ekki hérna. Seinna.
Ég er með nýjustu diskana úti í bíl. Viltu heyra?

Það gladdi mig að heyra um strandað skip í fréttunum.

Áhöfnin komst í land.
Það var gott.

Þetta var upplífgandi fréttatími.
Engin sprengjutilræði úti í heimi.
Bara strandað skip hér heima.

 •

Einu sinni þvældist Ég alltaf fyrir Mér
og Mér fannst Ég alveg óþolandi.

Ekki þoldi Ég heldur Mig
og hvar sem Ég var
og hvert sem Ég fór
þá fór
Ég
líka í Mig.

Það var aldrei friður.
Ég var alltaf öðruvísi.

Ég jafnaðist aldrei á við Mig.
Ég líktist aldrei Mér.
Ég gat aldrei verið eins og Mín.

Oft grét Ég fram á nótt.
Svo kom alltaf einhver dagur.

Tilveran hefur aldrei verið einföld.
Tilveran hefur aldrei verið eins.
Tilveran er alltaf sitt á hvað.
Það er vetur.
Það er sumar.
Það er vor og það er haust.

Núorðið hef Ég tekið Mig í sátt.
Núorðið hef Ég vanist Mér.
Núorðið er jafnvel spurning hvort Ég geti lifað án Mín.

Þótt ég hafi tæmt sparibauk barnanna
horfi ég stolt framan í heiminn
ég er ennþá Íslendingur
ég á ennþá nokkur hundruð
þúsund tonn af þorski í hafinu.

Þótt þeir hafi lokað fyrir símann
hitann og rafmagnið
hef ég ekki yfir neinu að kvarta
sjálf á ég 40 þúsund kílóvatta raforkuver
og nokkur óvirkjuð stórfljót að auki.
Þótt börnin séu nokkrum krónum fátækari
þá er ég alltaf rík

ég á börnin.

 •

Íslendingur er maður
sem leitar að öðrum.

Á krá erlendis
líta fæstir upp úr kollunni
þótt einhver síðbúinn komi inn.

Bara einn lítur til dyra.
Hann væntir þess alltaf að hitta annan.

Það besta sem ég sagði í dag var: Nei.
Nei. Nei. Nei.

Eftir daga og ár.
Eftir blóð svita og tár.

Loksins, loksins: Nei.
Í dag sagði ég: Nei!
Nei. Nei. Nei.

Nei.

Það var jákvætt: Nei.
Það vekur von um bjartsýni: Nei.
Fyrir lífið: Nei.

Gott að ég sagði: Nei.
Full af bjartsýni segi ég: Nei.

Nú segi ég bara: Nei.
Ég var alltaf útundan
valdi mig aldrei í liðið
fékk mig ekki til að vera með.

 Einn sagði að mamma sín hefði verið á Benidorm.

Kom í vetur.
Sagði að mamma sín hefði verið á Benidorm.

Vitiði hvað: Mick Jagger var með svítuna
á einmitt þessu hóteli
og einn daginn lentu þau saman í lyftunni.

Sagði hann.

Vitiði hvað mamma sagði?
Sagði hann.
Hann var svo lítill.
Sagði mamma.
Sagði hann.
Svo lítill.

Ég hef svo sem heyrt þetta áður.
Sástu Bítlana? spurði ég systur mína
þegar hún kom frá Englandi ’66.

Nei.
En ég sá þegar Rolling Stones
var hent út af hóteli í Manchester.

Já, já, já, já.

Það hendir bara enginn Stones út af hóteli.

Það segir enginn að Mick Jagger sé lítill.
Sólin sest aldrei í ríki hans.
Sólin sest aldrei í ríki Rolling Stones.

 •

Mér leiddist kvabbið
og ég beit frá mér.
Fékk loksins frið.

Nú sakna ég þess að einhver hringi.

 •

Ekki segja að þú skiljir tilfinningar mínar.
Ekki segja að þú skiljir hvernig mér líður.

Svaraðu mér bara.
Hvar er prívatið?
Hvar finnur maður prívatið á þessum stað?

Ég man Sjaldan.
Ég man Oft.
Ég man bæði Sjaldan og Oft.

Ég elskaði Oft.
Ég hataði Sjaldan.

 •

Á svona nóttu er ekki hægt að sofa.

Hann býður mér upp.
Býður mér upp í dans.

Og ég dansa
alla nóttina.

Alla nóttina
alla eindaganóttina stíg ég dans.

Eindagarúmbu.
Eindagavals.

 •

Óþolandi þessi flegni bolur.
Óþolandi hvernig hún brosir til þeirra.
Óþolandi hvað hún lætur glápa á sig.

 •

Ég veit ekki hvað ég segi vitlaust.
Einhver verður að vera sá misheppnaði.
Það gæti verið ég, kallinn þinn.

En þú þarft ekki alltaf að skamma mig fyrir það sem ég segi.
Og þú þarft ekki alltaf að minna á það sem ég hef ekki gert.

Kondu frekar í pottinn.
Það er farið að fara í pottinn.

 •

Nafn mitt á eftir að lifa.
Símaskráin frá 1994 þykir nú þegar safngripur.
Í henni stendur nafn mitt.

Ég finn fyrir stolti
þótt konan hafi neitað að skrá titilinn hryðjuverkamaður.

Það skiptir ekki alltaf máli hvað maður gerir
eða hvort maður gerir yfirleitt eitthvað.

Nafnið lifir.

Í gær var ég slæm
en í dag er ég góð.

Veit samt ekki hvernig ég verð á morgun.

Það hjálpar mér enginn
það er sama hvern ég spyr
allir hafa það einhvern veginn verra en ég.

Ég var góð í gær
en í dag er ég slæm.

Á ég að skrifa undir?
Á ég að segja nei?

Ég vil ekki þekkja þá
sem vilja þekkja mig
en þeir sem ég vil þekkja
vilja ekki þekkja mig.

Á ég að vera á móti?
Á ég að vera með?

Hvað er að frétta? spyrðu.

Hvað ertu að gera? spyr ég
kvöld eftir kvöld.
Heima.

Ekkert.
Alltaf sama svarið: Ekkert.
Hvað er svona fyndið?

Baðvörðurinn, eftirlitsmaðurinn, þjálfarinn.
Nú þyki ég of gamall fyrir rullurnar.

Hann svarar mér engu.

Hvað ertu að gera?

Ég ráfa um íbúðina.
Ekkert.
Alltaf sama svarið: Ekkert.
Hvað ertu að hugsa?

Ekkert
ekkert ekkert.

Ég er að fitna.
Ég er að verða gamall.

 •

Þær eru mikið í þessu núna.

Horfðu á mig!
Lít ég út fyrir að vera fimmtug?

Brjóstin á mér sem engin eru – hver vill þau?

Kötturinn segir: ekki ég.
Hundurinn segir: ekki ég.
Svínið segir: ekki ég.

Litla gula hænan segir:
Dama vekur alltaf athygli.

Það er ekkert að marka kallana.
Sést í tútturnar, hugsa þeir.

Í hverju er hún? spyrjum við.

Halló er hérna staddur læknir?
Það er neyðarástand. Það er hjartað.

Halló. Læknir.
Eða eðlisfræðingur kannski.
Það gæti verið eðlið.

Já, það er eðlið.
En líka hjartað.
Þvílíkt ástand.

Komið með lækni.
Komið með eðlisfræðing.
Komið með karlmann, með eitthvað.

Ég er sjúk.
Ég er frísk.
Ég er sjúklega frísk og þarf að fá eitthvað.

Ég er sjúklega frísk.
Það er neyðarástand.
Það er hjartað, það er eðlið.

Halló er hérna staddur læknir?
Eðlisfræðingur?
Eitthvað?

 •

Það hefur verið settur upp markaður í gamla sláturhúsinu.
Ekki það að vanti fé.
Ef þarf að slátra
verður að slátra samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins
og þá þarf að keyra féð um hálft landið.

Svo nú er búið að setja upp handverksmarkað í gamla sláturhúsinu.

Þær sem prjóna selja peysur.
Svo eru konur sem sulta
og ein selur harðfisk
og handmálaða ramma.

Það er aftur líf í gamla sláturhúsinu.

 •

Það kemur enginn lengur
enginn tekur sénsinn á því að lenda á henni.

Hún gæti verið á því.

 •

Ef ég missi sjónina
get ég alltaf hlustað á hlátur þinn.

Og ef heyrnin bilar
finn ég hönd þína strjúka hörund mitt.

 •

Á vissan hátt hef ég alltaf verið ég.

Þarna ert þú, segir fólk.
Það heilsar.
En aldrei mér.
Það heilsar einhverri annarri en mér.

Ég hef aldrei verið sú sem aðrir héldu að ég væri.

Allir þóttust vita hver ég væri
og hvernig ég væri
en ég hef bara látist vera ég.

 •

Nú ætla þeir að hækka á okkur skattana
það geta þeir
hækkað skattana.

Það er sama rassgatið undir þeim öllum
sama hvernig þeir snúa sér
sama hvernig þeir vinda uppá sig
sama hvernig þeir skipta um flokk
rassinn er alltaf á sínum stað.

Á einhverju verða menn að sitja
og það er sama rassgatið
við komumst aldrei frá því.

 •

Það er í mér eitthvert slen.

Ég veit ekki.

Ætli ég nenni nokkuð?
Ætli ég vilji nokkuð?

Það er í mér eitthvert slen.

Ætli eitthvað sé að ganga?
Ætli lífið sé að ganga?

 •

Farangurinn fór annað.

Þarna stöndum við meðan aðrir tínast út.

Farangurinn kemur ekki.
Enginn frá ferðaskrifstofunni til að svara.

Vélinni seinkaði.
Hótelið glatað.
Skoðunarferðin hreinn horror.

Og farangurinn fór annað.

 •

Sækona festist á öngli
hjá manni sem var að veiðum
skammt undan landi við Stykkishólm.

Öngullinn hafði krækst undir beltið hennar
og maðurinn dró hana um borð
án þess að hún gæti nokkuð að gert.

Þennan dag var hæglætisveður við Breiðafjörð.

Sækonan bað manninn að hleypa sér aftur í sjóinn.
Hann var tregur til
og því tregari sem hann horfði lengur á konuna.

Þá bauðst hún til þess að þýðast manninn
ef hann skilaði henni aftur eftir þrjá vetur.

Maðurinn féllst að lokum á þessa skilmála
og eftir samvistir í umsaminn tíma
sleppti hann sækonunni á sömu miðum.

En barni þeirra hélt hann eftir.

Sagan er að líkindum frá manninum komin.
Enginn þekkir frásögn konunnar.

Við afkomendurnir staðfestum tilvist hennar.
Um æðar okkar streymir blóð hennar
streymir löngun eftir sjónum
streymir löngun til að komast heim.

Þegar ég geng frá kirkjunni hugsa ég
það sem ég veit að ég má ekki hugsa:
Af hverju þú
þegar svo mörg fífl fá að lifa?

Allir þeir sem ég þekki ekki neitt
þeir lifa
en af hverju ekki þú?

Ég fékk fötin af bræðrum mínum.

Ég eignaðist hvítan jakka, manstu
var í honum þegar við fórum í Tívolí
hann var fóðraður og fóðrið slitið
veskið datt milli laga.

Ég sakna hans ennþá.

Ég man líka eftir ljósbláum gallabuxum.
Ég man eftir teinóttum jakkafötum.

Ég hef aldrei þurft að skammast mín.

Samt er eins og ég geti ekkert eins og þeir.
Samt er eins og ég sé öðruvísi.

 •

Þeir kölluðu mann alltaf Ísland.
Allra þjóða kvikindi.
Ágætir strákar.

Við erum eins, þetta fólk.
Sama harkan.

Eitt kvöldið fórum við á nýja krá.
Þegar við höfðum verið þar um stund
tók ég eftir því að þar var ekkert kvenfólk.

Nú er þetta allt viðurkennt.

Svo voru klefar
þar settust menn niður
gat á miðjum vegg
handan veggjar stóð einhver
sem setti bísperrtan vininn í gegn og vildi þjónustu.

Hvað segirðu um þetta, Ísland?

Þeir hlógu og sýndu mér þetta allt.
Ætluðu víst að gera lítið úr mínum.

Þetta var uppúr þorskastríðinu
maður var nú harður af sér þá.

Ég lét ekki bera á neinu.

 •

Sölumennirnir hringja um kvöldmatarleytið
segja þau
og kynna frábær tilboð.

En það hringir enginn í mig.
Enginn spyr hvað ég ætli að kjósa
hvar ég ætli að ávaxta
eða hvað ég ætli að borða.

Ég sit ein yfir ýsunni og kartöflunum.

 •

Eftir að ég hætti fer ég stundum inn eftir.
Þeir hafa bara gaman af því að ég líti í kaffi, þessir gömlu.

Annars er allt breytt. Og að sjá þessa krakka.
Af hverju er þessu ekki kennt að vinna?

Ég þarf nú ekki nema að fara út á stétt.
Það var bara í vikunni.
Ég sé þau koma
strák og stelpu
hún með fangið fullt af rusli og greinum
og strákurinn á eftir
fimmtán ára kannski
heldur á grein
heldur á einni grein.

Þá var mér öllum lokið.

Ég kallaði nú bara til hans:
Passaðu þig að ofreyna þig ekki, vinurinn.

Þetta var öðruvísi þegar maður var látinn bera poka á eyrinni
fimmtíu kíló með pabba gamla
þrettán ára
með kallinum
sem orti níðvísur um allt og alla.

Það vantar alveg einhvern til að yrkja níðvísur núna.

 •

Ég man ekki hvort hann sveik mig
um kaupið. Ég man ekki allt.
Til allrar hamingju man ég ekki allt.

Ef ég væri skáld
myndi ég yrkja lofsöng um gleymskuna.

Það hafa margir ort um Guð
um guði
um gyðjur
um gvuð má vita hvað.

En ef einhver á skilið að fá lofsöng
þá er það gleymskan.

Hún hreinsar burt það sem er óþarft.
Hún tekur af mér byrðar sem ég vil ekki bera.

Hvað haldiði að ég muni þetta?
Til allrar hamingju man ég ekki allt.

Ég er hérna til þess að gleðjast.

Ég mátaði rauða skó í London.
Stúlkan sagði: Þetta er síðasta parið.

Ég ákvað samt að bíða.
Hver trúir sölufólkinu?
Ég ákvað að ganga einn hring í verslunarmiðstöðinni.

Þetta var góður dagur og margt að sjá.
Þegar ég kom til baka voru skórnir farnir.

Hún þóttist ekkert vita.

Það eru bráðum liðin fjörutíu ár.
Engir skór hafa enst mér eins vel.

 •

Öll mín góðu áform
og ýmsar hugmyndir
sem mætti koma í verk
á ég ennþá í fórum mínum.

Líttu inn hjá mér einhvern daginn.
Þú færð þetta allt fyrir lítið
ef þú lítur inn.

Láttu bara í þér heyra.
Hafðu bara samband.

Komdu.

Ég er alltaf við.
Ég fer aldrei neitt.

Talaðu við mig.
Segðu eitthvað.

Hlustaðu á mig. Hringdu.

Menn segja að ég hafi lokið störfum.
Það segir enginn að ég sé einskis nýtur.

Ekki batnar mér af ellinni.

 •

Núna kemur hann dag eftir dag
boðunarmaðurinn.
Dag eftir dag
til að birta mér stefnu, dag eftir dag.

Hvað hefur fallið á mig?
Ég man ekki til þess að hafa skrifað uppá neitt.
Við svörum ekki.

Slökkvum ljósin.
Svörum ekki.

 •

Það er komið að hópmyndinni.

Hvar er skeggjaða konan?
Hvar er risinn?
Hvar er dvergurinn?

Hvar er samviskan?
Hvar er lygin?
Hvar er gleðin?

 •

Ég finn alltaf verk.
Hef lengi fundið verk.

Í síðunni hef ég fundið verk.
Í höfðinu hef ég fundið verk.
Í vinstra hnénu hef ég fundið verk.

Það gefur mér enginn von
um veikindafrí eða afsökun
fyrir því að sleppa.

Ekkert merkilegt með mig.
Ekkert finnst.
Það finnst aldrei neitt.
Það finnst aldrei neitt nema lífið.

 •

Það fær mig enginn í garðinn.
Hvað hef ég að gera í garðinn?

Ég á ekkert erindi í garðinn.

Ekkert erindi
segi ég
í garðinn
enn.

 •

Fyrst kunni ég ekki við að hringja.
Hvað átti ég að vera að hringja
þótt ég hefði frétt að hún væri veik?

Hvað gat fólk verið að halda um mig?

Svo hringi ég.
Svo hef ég mig í það að hringja.
Ekki bara einu sinni
heldur aftur og aftur.

Aftur og aftur
sama röddin:
Hér býr ekki neinn með þessu nafni.

Því miður, vitlaust númer.

Hættu að hringja, segir röddin.
Hættu að hringja.

 •

Nú er hann aftur látinn
elsti Íslendingurinn.

Dáinn horfinn
harmafregn.

En varla á heimsvísu
elsti jarðarbúinn kvað vera dáinn líka.

Samt eru bara nokkrar vikur
síðan hann dó síðast.

Svo er páfinn nýlega dáinn
og konungurinn
er hann ekki eilíft dáinn?

Jú, konungurinn er dáinn.
Lifi konungurinn.

Það deyr allt sem getur dáið
deyr bara og deyr
það deyr og deyr
aftur og aftur.

Elsti Íslendingurinn er látinn.

Lifi elsti Íslendingurinn.

 

 

Pin It on Pinterest

Share This