Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð

Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð kom út í bókarformi árið 2011, örfáum árum eftir hrun. Þetta er sundulaust verk þar sem skáldið reynir að fanga anda eftirhrunsáranna og kastast milli ljóða sem lýsa ýmist einhvers konar þrá eftir náttúru landsins eða nöturlegum samskiptum fólks í borgarumhverfi. Líkt og groddalegur titillinn gefur í skyn liggja undir niðri samfélagslegar pælingar um hvað sé mitt og hvað sé þitt og hvað sé okkar sameign.

——-

Tannbursti skíðafélagsins

Við sátum á sögulegum fundi
og ræddum stöðu ljóðsins: Gamall
kennari, þurrkað skáld, unglingur
úr menntaskóla
og auðvitað ég.

Ljóðið er ekki fyrir alla.
Ljóðið er fyrir allan heiminn.
Ljóðið er bara fyrir útvalda.
Ljóðið er ekkert einkamál.

Þá komst þú yfir að borðinu
og hafðir ekki séð mig lengi.
Enginn bauð þér að setjast.
Enginn nema þú sjálfur bauð þér að taka þátt í umræðum.

Þú sagðir frá nýlegri ferð inn á Seljalandsdal
og frá manni sem gæti hafa heitið Bernódus eða Sigurgísli.
Þú sagðir í það minnsta frá manni sem var að vestan eins og þú.

Eitt kvöldið stóðuð þið tveir inni á snyrtingu
í skálanum og burstuðuð tennur. Inn kemur sá þriðji.

Sá svipast um og leitar hátt og lágt
en snýr sér loks að vininum
hvað sem hann nú hét
snýr sér að honum með viðbjóði:

Tókstu tannburstann minn?

Svarið lét ekki á sér standa innan úr tannkremsfroðunni: Fyrirgefðu!
Ég hélt þetta væri tannbursti skíðafélagsins.

Þannig svaraði Bernódus
eða Sigurgísli
eða hvað hann nú hét.
Þannig svaraði maður sem er að vestan eins og þú.
Ég hélt þetta væri tannbursti skíðafélagsins.

Allir vita hvað er tannbursti.
Allir vita hvað er skíðafélag.
Allir vita hvað er ljóð.

Þótt ljóð sé ekki öllum ætlað
þá gerir það líka sitt gagn.

Ljóðið er tannbursti skíðafélagsins.
Ljóðið er tannbursti skíðafélagsins.
Ljóðið er tannbursti skíðafélagsins.

 

Morgunkaffi

Ekki veit ég hvar minna krafta gæti verið þörf í dag.

Líti ég í kringum mig í eldhúsinu
virðist augljóst að flesta gagnlega hluti er búið að finna upp:
Ísskápinn. Kaffivélina. Brauðristina.

Líti ég út um gluggann
sé ég að ekki aðeins hafa menn sett tíma og orku
í að finna upp bifreiðina
heldur einnig kantsteinana á gangstéttarbrúninni.

Jafnvel myndavélina sem regnblautur ferðamaðurinn
mundar þarna á horninu
hefur einhver fundið upp.

Nei, ég ætti ekki að gera lítið úr mér.

Ég ætti að fást við eitthvað gagnlegt.
Ég gæti hellt í bollann.
Ég gæti smurt brauðsneiðina.

 

Áleiðis

Framundan melur
og heiðló á þúfu.
Að baki sýndur urriði
í tærum hyl.

Á vinstri hönd fífan.
Til hægri ekkert
nema víðáttan
sjálf.

Uppi blámi og þytur
hrossagauks. Undir
flóinn sem dúar
við hvert okkar skref.

Við reynum að ná áttum. Eitthvað
framundan. Eitthvað að baki.
Til vinstri. Til hægri. Uppi. Undir.

Hægt, hægt
færist miðja alheimsins úr stað.

Hún færist úr stað með okkur
sem kunnum að stíga hamingjuspor
svo lengi sem við höldum áfram
án viðstöðu, án afláts
á dýjamosanum
án
afláts.

 

Leikir barna og fullorðinna

Ég heyrði hvísl og hróp og köll.
Frammi. Uppi.
Í næsta herbergi.
Heyrði nöldrað og líka grátið.

Kristján, þú ert fundinn!
Anna Jóna fundin! Mummi fundinn!

Svo hljóðnaði allt.

Ég fylltist óljósri spennu.
Þorði varla að anda.
Bærði ekki á mér í fataskápnum.

Ég heyrði hjartað slá í brjósti mér.
Annars var hljótt.

Það leið eilífð á hleri
uns ég skildi grínið:
Allir farnir út að leika.

Ég alltaf sóló í einhverjum skáp.
Ég alltaf sóló undir þykkum skráp.

Nú er liðin eilífð margra ára.
Aftur legg ég við hlustir.
Heyri nöfn skólasystkina kölluð upp.
Heyri nöfn vina, samstarfsfólks og ættingja kölluð upp.

Svo hljóðnar allt.
Aftur þessi óljósa spenna.

Og enn slær hjartað í brjósti mér.

 

Föstudagur

Fara í bankann.
Kíkja á þvottavélar.
Kaupa í matinn.
Skila Sigga bókinni.
Frelsa heiminn.
Þvo bílinn.

 

Lágnætti

Hér í lundinum
fer allt loft úr krefjandi vindum.

Mín vegna
mætti eilífðin helga sér þennan stað.

Enginn amast við náttfiðrildi
eins og mér.

Puntstráin veita mér selskap
en spyrja einskis.

 

Í skriðunni

Ég renn til í hverju skrefi, renn.

Ég sem ætlaði mér bara að stunda göngur
stunda nú hreinar ógöngur.

Ég renn til í hverju skrefi, renn.

Og allar þessar ógöngur
allar mínar ógöngur
tókst mér að velja án hjálpar annarra.

Ég renn til í hverju skrefi.

Renn.

Renn til í hverju skrefi, renn.

 

Eftirmiðdagur á Selfossi

Ég man síðast eftir mér á Klaustri.
Ranka svo við mér á Selfossi.

Það reynist auðratað um járnbrautarstöðina
og lestin til Reykjavíkur
stendur mikið rétt við brautarpall númer fjögur.

Klukkan þrettán mínútur gengin í sex
og það er þriðjudagur í maí
en hvergi get ég komið auga á neitt ártal.

Ég ætla samt að halda áfram.

 

Sporin í snjónum

Einn á ferð gaumgæfi ég spor í snjónum.

Í miðjum skógi kvíslast stígurinn.
Hópur fólks gekk í norður.
Stakur göngumaður tók stefnuna vestur.

Ég hika.

Skelf af kulda
skelf af kvíða
og get ekki valið leið.

Mig hryllir við staðreyndum lífsins:

Meirihlutinn hefur sjaldnast rétt fyrir sér.
Þrjóskur einfari nær ekki alltaf á leiðarenda.

 

Flugatvik í Dyradal

Hrafn átti við mig nokkur krunk
í Dyradalnum.

Hann uppi í klettunum.
Ég niðri á göngustígnum.

Allt í einu steypti hann sér af syllunni
flaug í áttina til mín, fór
hring í loftinu, sneri
kviðnum upp, opnaði gogginn.

Opnaði gogginn og gleypti loftanda.

Gleypti loftanda.

Það skil ég heima
þegar ég fletti upp í gamalli bók
sem útskýrir atferli hrafna.

 

 Pizza angoscia

 Tvær síðustu pizzasneiðarnar eru misstórar.

Þú segir: Gjörðu svo vel!

Á ég bara að hugsa um eigin hag og taka þá stærri?
Á ég bara að hugsa um eigin hag og taka þá minni?

 

Fundið ljóð

 Trúin á skilvirkni einstaklingsins 

dregur mig hingað: Úllen dúllen doff.
Frambjóðandi með hávært bindi!
Sá vænti ég að sitji örugglega á tveimur stólum
gegni fullu starfi ásamt þingmennskunni
og stýri að auki ótal nefndum.

Ég er bara viðkvæmt skáld. Heill
og óskiptur sinni ég hverri grillu.
Minn stíll var aldrei tvennt í einu — og núna
þegar ég hugðist munda blýantinn og krossa
varð ég að hætta jórtrinu og losa mig við tugguna.

Ég lauma henni undir stólsetuna.
Viti menn: Þar er ein fyrir. Steingerð!

Ég þreifa. Ég fálma. Ég ýti tjaldinu frá og kíki.
Stofan, kjördeildin, æska mín! Enn
og aftur læt ég fingurgómana
leika um steingerða tugguna. Nú er ég sannfærður.
Þetta eru tannaförin þín, Ragnhildur!
Þessi tugga var í munni þínum.
Þessi tugga lék á vörum þínum og blés út í kúlu sem sprakk.

Kemurðu með á ballið í kvöld?

Ragnhildur. Þetta var einmitt sama kvöldið
og við strákarnir
urðum að redda framtíð heimsins.

Þú mátt brosa, vinan, brosa
þegar fréttamaðurinn segir: Margt skrýtið leynist í kössunum!
Og les síðan þessi orð mín
meðan þjóðin
bíður eftir næstu tölum.

Ég hugleiði aðrar tölur, Ragnhildur: Tuttugu ár!
Og hverju kom nokkur til leiðar?
Ég hefði betur kosið þig. Valið þig og andartakið, valið ástina, já
elskan mín, ég kem
japlaðu á mér í kvöld.

Hugsaðu þér allar vísurnar sem ég hefði getað ort handa þér.
Hugsaðu þér allt útstáelsið sem þú hefðir getað fyrirgefið mér.

Og með þér hefði jafnvel frami minn orðið annar.
Hæverska, biðlaun, opnuviðtal:
Mér leiddist alltaf þingmennskan
ég er framkvæmdamaður, vík frá mér þras!

Þú mátt brosa, vinan, brosa
en tilfinningarnar kunna sig ekki
og viljinn þráir enn að eiga mök við glaðar hendur
sem dreymir um að fæða heilbrigð verk.

Hvar ertu þá núna, Ragnhildur?
Hvar ertu núna, æska?
Og líf mitt, steingert líf mitt — hvar ert þú?

Vill eitthvert ykkar í það minnsta hringja?

 

Bjargfuglinn

Þarna verpir langvían.
Á syllu sem er ekki neitt neitt.

Perulaga eggið
snýst um sjálft sig
stjaki einhver við því.

Veltur ekki svo glatt fram af brúninni.

Það má aðlagast umhverfinu.
Með tíð og tíma má aðlagast umhverfinu.

 

Miðaldra helgi

 Í rauninni vantar okkur hjónin ekki neitt.

Upp úr hádegi á föstudögum
skreppum við í Hagkaup
og Ikea
til að rekast á gamla vini og kunningja.

Fáum fréttir af börnum og barnabörnum.

Nú sitjum við hérna
miðaldra
á laugardagsmorgni. Hvað næst?

Matinn getum við borðað. En hvað
eigum við að gera við lampann
fataslána
og speglana?

Ættum við að leigja söluborð í Kolaportinu
til að geta hitt fleiri gamla vini?

Fara svo með innkomuna
á Vínbarinn í kvöld
og ná restinni?

 

Fundur í hádeginu

Ég mundi strax eftir andlitinu.
Hann sagði: Blessaður.
Helvíti líturðu vel út.
Alltaf jafn flottur.

Þú ert líka flottur.
Hefði verið gaman að segja.

En hann tók af mér orðið:
Heyrðu!
Máttu nokkuð sjá af þrjúhundruð krónum?

Sem ég er hættur að nota?
Hefði ég getað spurt og hlegið.

Sem þú ert hættur að nota!
Hefði hann getað svarað og hlegið dátt á móti.

Ég greiddi mitt gjald fyrir að líta vel út.
Með það fór hann í Ríkið.
Ég tók stefnuna heim.
Flottur.

 

Aflraunir

Þeir heita gáfulegum nöfnum;
Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur.
Það er samt ekkert vit í þessu grjóti
þessum hnullungum, þessum steinum.

Steinn gerir afar fá mistök.
Steinn skiptir sjaldan um skoðun.
Steinn lendir aldrei í mótsögn við sjálfan sig.

Ég er heill og óskiptur, tuldrar steinninn.
Annars segir hann ekki margt að fyrra bragði.

Ef þú vilt berja hausnum við stein
og reyna að lyfta honum upp
má vera að heyrist spurt:
Hvað heldurðu að þú getir?

Aldrei spyr neinn óvænt: Í hverju liggur þungi?
Aldrei hugsar neinn í alvöru: Í hverju liggur styrkur?

Viltu þá reyna að lyfta þessum hnullungum á stall?
Eða ganga burt
með sæmd?

Það kemur enginn viti fyrir grjótið.

 

7 x ávarp fjallkonunnar

eða I miss iceland

 1

Það er bara óreiðufólk sem notar ekki smokk.
Það var hún amma mín vön að segja.
Bara óreiðufólk.

Við afi þinn notuðum alltaf smokk.
Það sagði hún amma mín oft og tíðum.
Alltaf smokk.

Við sýndum alltaf fyrirhyggju.
Útí skemmu.
Inní búri.
Uppá lofti.
Á morgnana í hádeginu um sólarlagsbil.
Smokk smokk smokk.

Grandvarar manneskjur notuðu smokk.
Við afi þinn notuðum alltaf smokk.
Það var hún amma mín vön að segja.

2

Það er svo mikið af hval í hafinu að hann étur allan þorskinn.
Það er svo mikið af þorski í hafinu að hann étur alla loðnuna.
Það er svo mikið af loðnu í hafinu að hún étur allt sandsíli.
Það er svo mikið af sandsíli í hafinu að það étur allan fiskifræðing.
Það er svo mikið af fiskifræðingi í hafinu að hann étur allan sægreifa.
Það er svo mikið af sægreifa í hafinu að hann étur allan íslending.
Það er svo mikið af íslendingi í hafinu að hann étur allan hvalinn.

3

Mig langar í sparnað.
Mig langar í lífeyrissjóð.
Mig langar svo mikið í lífeyrissjóð.
Ó gvuð hvað mig langar í lífeyrissjóð.

Mig vantar svo handsmíðað úr.
Mig vantar svo brekku í Ölpunum.
Mig vantar svo fótboltalið.
Mig vantar svo nýja klósettpappírinn frá Gucci.

Mig vantar svo vantar svo
vantar svo vantar svo vantar svo
vantar svo vantar svo vantar svo
vantar

4

Ég bið ekki um þakklæti
en vissulega fyllist ég stolti
yfir framlagi mínu til samfélagsins
ég finn til skyldleika með alþýðunni
hef ekkert á móti því að mínar hægðir
blandi geði við vandalausa í holræsum borgarinnar.

Öll erum við Íslendingar.

Við erum eina þjóðin í heiminum sem les Njálu á frummálinu
segir forsetinn.

Sagði forsetinn.
Fyrrverandi.

Við erum eina þjóðin í heiminum
segir forsetinn.

Við erum stolt þjóð.
Við erum dugmikil þjóð.
Við erum menntuð þjóð og stefnum alltaf hærra.
Við þurfum ekki að skeina gamalmenni eins og Taílendingar.
Við þurfum ekki að verka fisk eins og einhverjir Pólverjar.
Við látum ekki kúga okkur.
Við Íslendingar.

5

Ekki hafa þeir dauðu miklar áhyggjur
ekki kvíða þeir dauðu morgundeginum
samt eru þeir alltaf í fréttunum

en hér ligg ég
andvaka og ein
hálfsjötug óbyrja
lýðveldið Ísland
lýðskrumið Ísland
vörumerkið Ísland
ungfrú Ísland í vetrargarðinum
hver ef ekki ég er fjallkonan sjálf
hálfsjötug óbyrja með talsverðar áhyggjur.

Hvað verður um barnabörnin mín?

Heimspressan fjallar ekkert um það
bara eitthvert fólk að deyja í Bagdað.

Hvernig eiga barnabörnin mín
nokkurn tíma að geta borgað sínar stöðumælasektir?
Ekkert fjallar heimspressan um það.

Hvar eru meðulin mín?
Hvar eru náðarmeðulin mín?
Núna eru liðnir fjórir dagar
síðan ég fékk að heyra í hagfræðingi
ég veit ekki hvort ég þoli þetta ástand mikið lengur.

 6

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Það er gífurlega mikilvægt að reiði almennings fái útrás.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Enginn mannlegur máttur bætir krónuna en réttlætið sigrar.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Þjóðin fær kost á því að koma með beinum hætti að refsingum.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Líkt og fyrrum verður eiginkonum þeirra gert skylt að bera auðkenni.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Allar bænaskrár fara til Franeks landstjóra og jafnvel beint til Evu sjálfrar.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Guð blessar Ísland og refsar hann refsar hann refsar hann refsar og refsar og refsar.

7

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum á blogginu
gekk kona frá Grenivík niður Strikið á fimmtudaginn
núna á fimmtudaginn
niður Strikið
í mesta sakleysi

þá glotti danskur kaupmaður!

Það glotti danskur kaupmaður:
Það hata allir Íslendinga.

Það hata allir Íslendinga.
Það grætur enginn Íslending
yst á ránar slóðum.

Yst á ránar slóðum er sumarnóttin hörð.
Yst á ránar slóðum er lengi vakað frameftir.
Yst á ránar slóðum finnst öllum erfitt að lifa daginn eftir.

Jafnvel í hefðbundnu kaffisamsæti okkar framsóknarmanna
hafa silfurskeiðarnar bauga undir augum.

Ég lenti bara í því að vera í flokki.
Ég lenti bara í því að segja já og amen.
Ég lenti bara í því að eiga frændur og vini.
Ég lenti bara í því að gera tæknileg mistök.

Hvar ertu Hekla?
Það vantar svo samúð.
Það vantar svo samband.
Það vantar svo samtaka þjóð.

Nú væri gott að fá eldgos
vaknaðu vinan
drífðu þig Hekla að gjósa.

Haust í Reykjavíkurskógi

Allir eiga sér eftirlætisfugl.

Reynitréð nefnir engan
en þrösturinn kemur til greina.

 

Fyrirburðir á heiði

Við leituðum skjóls undan hrottafengnu slagveðri
kynntumst í staðinn saggafullum kofa
þar sem kuldaboli stendur tjóðraður á bás og fnæsir.

Við leggjum traust okkar á gamla kamínu
nokkrar fúaspýtur
og kassastrimil sem einhver grefur úr vasa sínum.

Við erum ekki stór hópur.
Til allrar hamingju
virðist þó enginn skortur á sérfræðingum
sem telja sig geta afrekað meira
en næsti maður á undan.

Hvað sem góðum áformum líður
mistekst öllum að kveikja upp.

Hver birtist þá ekki óvænt meðal okkar
nema þjóðsagnapersóna
sem enginn hélt að væri til
þótt allir hafi heyrt hennar getið:

Síðasta Eldspýtan.

 

Var

Verður þú var?

Jájá.
Ég verð var.

Verð var við fluguna.
Verð var við kyrrðina.

Verð var við hjartslátt minn.
Var við toppöndina sem flýgur hjá.

Já.

Ég verð var. Verð
var.

 

Mynd á veggnum

 Aftur sé ég að myndin á veggnun er skökk.

Enn á ný stend ég á fætur og rétti hana af.

Hvað skekkir myndina?
Hver skekkir eiginlega myndina?

Trekk í trekk stend ég á fætur og rétti myndina af.
Aldrei kemst samt á jafnvægi í lífi mínu.

 

Óvænt kvöldvaka

Undir miðnætti logar á kerti
utan við tjald í Hrafnkelsdal.

Allir viðstaddir bíða átekta
himinninn
dalurinn
þú
og ég.

Aldrei að vita
nema kyrrðin
hafi eitthvað að segja.

 

Nágrannavarsla

Ég sá hann koma út bakdyramegin.
Hann lokaði á eftir sér.
Hann hljóp af stað.
Nokkur skref.
Stoppaði.
Hlustaði.
Heyrði kannski símann hringja inni.

Hann lagði frá sér íþróttatöskuna.
Seildist í vasann.
Tók upp lykla.
Fór svo aftur inn án þess að loka á eftir sér.

Þegar leið á kvöldið bifaðist hurðin.
Skelltist loks aftur í golunni.

Daginn eftir var taskan enn á sama stað.
Það rigndi um hádegið.

Tíðin var einstök allan júlímánuð.
Við tókum bústað í ágúst.
Svo var allt í einu kominn september.

Í landsynningnum stendur hann hérna milli húsanna.
Aldrei haggaðist þó taskan.
Laufið fauk af trjánum.
Aldrei haggaðist taskan.

Það festi ekki snjó fyrr en uppúr miðjum janúar.
Blá taskan áberandi á kyrrum dögum.
Skaftið á badmintonspaðanum alltaf jafnt sperrt.

Vorið hefur komið og farið.
Góðir kaflar inn á milli.
Það er liðið heilt ár.

Í morgun var taskan horfin.

 

Komur

Vélin lenti fyrir tíu mínútum.

Fólk hraðar sér inn í flugstöðina.
Það kaupir súkkulaði og vín í fríhöfninni.
Bíður við færibandið.
Fer í gegnum græna hliðið.

Fyrir utan bíð ég.

Karl í svörtum frakka með handfarangur.
Miðaldra kona með þrjár rauðar ferðatöskur.
Hjón með tvíburakerru, með koffort
með reiðhjól, með hálfa búslóðina.

Ég bíð þín.

Vélin lenti fyrir hálftíma.
Vélin lenti fyrir klukkutíma.
Síðasti farþeginn kominn út.

Alltaf skal ég bíða þín.

Vélin lenti fyrir sólarhring.
Fyrir tveimur dögum.
Fyrir viku.
Mánuði
Ári.

 

Vorganga í Dölum

Held jafnvægi á öðrum fæti

og stíg

hinum

með fullum þunga
á mis
vel skorðaða
steinana

helgarnar í lífi mínu
sem standa uppúr ánni.

 

Ástand kattanna

Fyrir þrjátíu árum kom ég í þetta hús
kom ég í þetta herbergi.

Ekkert virðist hafa breyst.

Sama munstrið á veggjunum.
Sama teppið á gólfinu.
Sama skrifborðið undir glugganum.

Og beddinn?

Hann er eins.

Þessir hlutir hafa beðið eftir mér.
Ekki mundi ég eftir þeim.

Ég man samt morgun að vori.
Ég leit út um gluggann.
Á garðveggnum hímdi læða.

Fressin voru sjö
í röð fyrir neðan.

Nú stend ég við gluggann þrjátíu árum síðar.
Skyldi vera læða á veggnum?
Það er aldrei neinn köttur nema maður gái.

Nei. Núna hímir engin læða á veggnum.
Hún situr efst í kjallaratröppum nágrannans.

Önnur læða. Sama ástand.
Önnur fress. Sama þrá.
Annar tími. Sama líf.

 

Eyðidalurinn

Við stóðum þarna hjá tóftum
á miðju sumri
með sóleyjum í gömlu túni.

Utar í hlíðinni var kletturinn.

Einhver spurði: Hvað
varð um huldufólkið
eftir að fór í eyði?

 

Íslandsvinur

Hún var frá Kyoto.

Sagðist hafa litið á hnattlíkan
í leit að landi sem væri langt í burtu
og fátt um fólk.

Hún skrifaði nafn sitt í gestabókina og trítlaði upp.
Svo gerðist ekki neitt í sólarhring.
Þá fórum við að hlusta við herbergisdyrnar.

Þegar hún lét loksins sjá sig niðri
fengum við skýringu.

Hún þoldi ekki fólkið
troðninginn, var þreytt
og vildi bara komast burt til að sofa.

Hún fór í gönguferð um miðbæinn
og kom brosandi og hissa til baka.
Ég rakst ekki á neinn.
Það ýtti enginn við mér.

Það komst aldrei á dagskrá að tala um Gullfoss og Geysi.

Heima fær hún eflaust spurninguna:
Hvað fannst þér svo um Ísland?

Ég svaf.

 

Einsöngur án undirleiks

Röðin við kassann er löng og hún lengist.
Hún lengist og lengist. Ég bíð og ég bíð.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.
Það er fólk fyrir aftan. Það bíður og bíður.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.
Ég lít ekki um öxl. Ég veit að það sér mig.
Það er ekki heimild. Það þekkir mig enginn.

Það þekkir mig enginn. Það er komið að mér.
Ég ætla að ferðast. Ég bíð og ég bíð.
Dansa frá mér vitið á karnivali í Ríó.
Gantast við norðurljós allsber í potti.
Syndi með höfrungum. Reyki hass.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.

Það er ekki heimild. Ég lít ekki um öxl.
Mæti í úthverfri peysu. Set iljar í sandinn.
Mér hitnar í kinnum. Mín fróun er núna.
Fæ bréf í pósti frá öðrum en banka.
Það bíður og bíður. Ég bíð og ég bíð.

Ég bíð og ég bíð. Það er komið að mér.
Ég næ sáttum við líf mitt. Það bíður og bíður.
Ég reiðist og öskra. Það er ekki heimild.
Loks segi ég: Nei. Mér hitnar í kinnum.

Mér hitnar í kinnum. Helvítis stelpan.
Finn handleggi hlýja um háls minn að nýju.
Það skrjáfar í poka. Ég lít ekki um öxl.

Ég lít ekki um öxl. Það er fólk fyrir aftan.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.

Það er komið að mér. Ég bíð og ég bíð.

 

Átthagar

 Á tjaldstæði í Bæjaralandi
hvarf labrador hollenskrar fjölskyldu en gelti
hálfu ári síðar á tröppunum
heima í Amsterdam.

Allt samkvæmt Morgunblaðinu, Reuters og
minni mínu. Kannski var þó húsið
í annarri borg, tjaldstæðið
í öðru landi
og labradorinn
sjeffer en fyrirsögnina
ættu allir að muna:
Gekk yfir þvera Evrópu.

Annað eins gerist. Jafnvel
hér um slóðir. Þið munið köttinn
sem lokaðist inni í flutningabílnum
á Bragagötunni
og komst til Hornafjarðar
en skilaði sér heim.

Það er lengi von á einum.
Hér um kvöldið var einhver snuðrandi við húsið.
Ég fór niður.
Hver stendur þá ekki geltandi fyrir utan
nema úrvinda reiði mín.

Aðrar tilfinningar hljóta að skila sér líka.
Af gleðinni frétti ég síðast á krá í miðbænum.
Eflaust var strætó hættur að ganga og engan leigubíl að fá.

 

Samræður við fjall

Hvernig á að hefja samræður við fjall
sem maður hefur aldrei áður hitt?

Ekki talar maður um þungar áhyggjur
og þær byrðar sem á manni hvíla
við fjall sem hefur haft á sér heilan ísaldarjökul um aldir.

Góðan daginn.

Hvað svo?
Hvað heitir þetta fjall?
Hvaða fjall er þetta eiginlega?

Þeir sem búa í dalnum hérna megin kunna eitt nafn.
Þeir sem búa handan fjallsins kunna annað.
Þeir sem lásu ritvillu af korti kunna það þriðja.

 

Á Þingvöllum

Ég veit nákvæmlega hvar Ásgrímur stóð
þegar hann málaði Ármannsfellið.

Málaði hann ekki Ármannsfellið?

Einhver málaði Ármannsfellið.

Einhver stóð nákvæmlega hérna.
Ef ekki Ásgrímur
og ef ekki Kjarval
þá stóð hérna amerískur kvikmyndaleikari, nei
stóð hérna heimsfrægur gítarleikari, nei
stóð hérna japanskur ferðamaður
og tók mynd af fjallinu.

Ég stend í sporum hans.

 

Dauði í fjölskyldunni

Ég skildi aldrei hvað ég hafði gert honum.
Ég skildi það ekki fimm ára.
Ég skildi það ekki fimmtán ára.

Honum leið illa á morgnana.
Honum leið illa í sumarfríum.
Honum leið illa um jól og áramót.

Mamma bað mig alltaf að fara inn til hans
og biðjast fyrirgefningar
en ég skildi aldrei hvað ég hafði gert honum.

Kannski hló ég of hátt.

Kannski þagði ég of lengi.

Núna á ég dóttur sjálf. Það er morgunn.
Við erum í sumarbústaðnum.

Ég er mamma en ég er ekki mamma.
Ég er sáttfús en ég vil engar sættir.
Ég banna henni að fara inn til hans.

Ég skil ekki ennþá hvað ég hef gert honum.

 

Nótt í Munaðarnesi

 Ef til vill má velta fyrir sér lífinu 

við stofuborðið í bústað stéttarfélagsins
andvaka
yfir krossgátu
sem fyrri gestir náðu ekki að klára.

Í það minnsta má skrúfa sundur penna
ósjálfrátt og annars hugar
en eyða síðan löngum tíma í leit að gormi
sem óvænt skaust út í loftið.

Það er óttalegt fikt, þetta líf.

Að lokum er bara að gefast upp.
Krossgátan verður ekki ráðin.
Gormurinn finnst aldrei.

Frekar en nokkur lausn.

Út úr leiðindum er þá hægt að draga tjöldin frá.
Uppgötva að enn er ljós í nágrannabústaðnum.
Draga þá í hvelli fyrir til að sjást ekki.

Draga síðan hægt frá aftur.
Til að láta sem ekkert sé.
Til að gefa í skyn að ekkert sé að fela.

Uppí rúmi má svo hlusta á andardrátt við hlið sér.
Spá í skilaboðin sem heimurinn fær:
Dregið frá og fyrir
og samstundis frá aftur.
Hvernig skilja aðrir þetta merkjamál?

Þá kemur hann sem kann svörin
við öllu
hann sem leysir allar gátur, svefninn.

 

Undir hamrinum

 Eitt hægt skref. 

Annað.
Hægt skref.

Eitt. Og annað.
Eitt.
Og annað.

Þar til undirförul skriðan
nær ekki lengur til mín
með efasemdir og hrakspár.

Við hamarinn lít ég fyrst upp.

Skáhallt út úr berginu
teygir sig hvít hönd
og blessar yfir mig:

Klettafrúin.

Ég þakka lífinu.
Tvístígandi þakka ég lífinu hvert skref.

 

Það gerðist ekki neitt

Hann tók mig í einkatíma fyrir prófin.
Það var eftir símtal frá mömmu.
Þau höfðu verið saman í skóla.

Hann strauk mér um lærið.
Hann byrjaði á því að strjúka mér um lærið.

Ég var tólf ára.
Ég var langt frá því að vera til.
Ég var langt frá því að vera manneskja.

Aldrei stóð ég undir væntingum.
Hann vildi fá mig aftur og aftur.

Löngu seinna sagði ég mömmu frá því sem gerðist.
Hún reyndi að fá mig til að kæra.
Í mörg mörg ár reyndi hún að fá mig til að kæra.

Ég gerði ekki neitt.

Ég var ekki neitt.

Ég var ekki til.

Núna þakkar skólinn honum störf sem hann leysti vel af hendi.
Gamlir nemendur slá í glas og rifja upp kynni sín af manninum.

Ég segi ekki neitt.
Trúlega gerðist ekki neitt.
Nei.
Það gerðist ekki neitt.

 

Vekjaraklukkan

 Mamma sendi mig út 

til að leita að vekjaraklukku.

Við bjuggum í risinu
en ég komst á augabragði niður stigana
og út á blett.

Ég fann samt ekki klukkuna.

Núorðið skemmti ég gestum
með frásögum af eldri systur minni:
Hún var úrill á morgnana.
Þoldi ekki að uppfarta á matstofunni.

Einu sinni henti hún vekjaraklukkunni út um gluggann.

Stundum henti hún vekjaraklukkunni út um gluggann.

Hún henti alltaf vekjaraklukkunni út um gluggann.

Þannig var æska mín.
Ég leitaði og leitaði.
Aldrei fann ég samt neina vekjaraklukku.

 

Ódauðlegt ljóð á tindinum

Það var útsýni úr ferðabókunum heima
og það var útsýni úr frásögnum vina
sem vissu að ég stefndi á tindinn.

Ég taldi ekki skrefin á leiðinni upp.
Það voru mistök.
Uppi var bara þokan.

Þar sem ég hímdi í þokunni
datt mér ekki neitt í hug
hafði ég ekki um neitt að tala.

Það var bara þokan.

Bara þokan
og ekki rétta tækifærið
til að láta ferðafélaga heyra
það sem hefði getað orðið ódauðlegt tilsvar
ljóð sem ég orti fyrirfram
innblásin orð um að víðsýni hefji jafnvel mig
yfir svekkelsi skuggsælla daga.

 

Pottur með eyru

Í gærkvöldi læddist ég niður
til að hlera hvað þeir væru að segja.

Einhver sagðist hafa heimþrá
til sinna líka.

Annar sagði:
Ég er framandi í þessu landi
en þetta land er ekki framandi í mér.

Þriðji sagði:
Ég er ekki neitt.
Aldrei verð ég neitt.

Kemur þá ekki mín
ekki veit ég hvaðan
með þennan líka tón:

Sprengjan er stillt á tuttugu mínútur yfir eitt.

Eftir það var vonlaust að ég færi upp að sofa.

 

Hveravellir

 Oft hugsa ég til Hveravalla.

Þangað kom ég í ágústmánuði.
Það var á björtum degi.

Það var á björtum degi og ég með sólgleraugu.
Ég lagði þau frá mér á stein.
Ætlaði mér rétt sem snöggvast að taka mynd.

Allt í einu var ég svo staddur í sjoppu á Blönduósi.
Þá mundi ég eftir sólgleraugunum.

Ég man alltaf eftir Hveravöllum.
Þar gleymdi ég sólgleraugum.

Ég gleymi aldrei Hveravöllum.

 

Refurinn í Hornvík

 Ég lagðist í hvönnina

lauk aftur augum
hlustaði á bjargið.

Þá heyrði ég þrusk
leit upp
og beint í augun á rebba.

Hvað ert þú að gera hér?
spurði hann.

Af hverju fórstu ekki með hinum?
Er lofthræðslan að drepa þig?

Æ þegiðu, svaraði ég
og lagði mig aftur.

 

Símtöl í september

Þú hringdir um nótt.
Ætlaðir að hengja þig.

Næst hringdi konan.

 

Á fullu tungli í borginni

Ég sagði honum hvert ég vildi fara.
Ég þóttist vita hvert för minni væri heitið.
Leiðin getur ekki legið um þessar aðþrengdu hliðargötur.

Nú segi ég honum að stoppa.
Hér geri ég bílinn upp.
Héðan mætti án efa ganga.

Eitt augnablik birtast augu hans í speglinum.
Engin spurning. Hann fer lengri leið.
Skítt með peningana. Núna gildir annað.

Ég breiði úr mér í aftursætinu.
Sýni engin merki hræðslu.
Ég ítreka áfangastaðinn og minnist á breiðstrætin.

Hann læst ekki heyra. Hann ekur hratt.
Fer örugglega aðra leið. Á fullu tungli aðra leið og annað.

 

Dagbókarfærsla að norðan

Dauðinn býr ekki á Skagaströnd.
Það getur ekki verið.
Ég hefði orðið hans var.

Ég átti lengstan dag á Skagaströnd.
Þar fékk ég ábót.
Þar fékk ég hugmynd.
Nei.
Dauðinn býr ekki á Skagaströnd.

 

Eyrun á Blesa

Mikið hafa eyrun á Blesa það gott.

Þau hafa útsýni yfir hagann
og niður að ánni, hlusta á spóa
lóu og gæs.

Þau eru samtaka, eyrun á Blesa
dilla sér og dansa
en einstaklingseðlið virðist þó skýrt:
Komi fluga að því vinstra
kvartar það eitt og sér.

Mikið hafa eyrum á Blesa það gott.
Þau hafa félagsskap hvort af öðru
horfast í augu og hlæja.

Annað er með eyrun á mér.
Á milli þeirra er ekkert
nema eintómur heili og vit.

Mikið hafa eyrun á Blesa það gott.

 

Nýja Ísland

Það gæti verið morgunn hjá spákonunni.
Fyrsta retta dagsins mætt í munnvikið.
Pakki af Chesterfield í viðbragðsstöðu á borðinu.

Stök rúlla þrjóskast ennþá í skjannahvítu hárinu.
Alltaf röndin þar sem liturinn byrjar að vaxa úr.

Hvítur sloppur og undirkjóllinn hvítur.
Húðin samt hvítari og heilagur andi fer hjá sér.

Sú fyrsta réttir þeirri næstu glóðina.
Boðhlaup dagsins hafið.

Kaffið teiknar í bollann.
Það sjást gleðigloppur.
Það sjást lukkustólpar.

 

Rúnir

Í þessu landi snýst allt um ritstörf.
Líka í óbyggðum.
Það hef ég séð með eigin augum.

Hér og þar
hafa verið ristar rúnir í klappir.
Með góðum vilja má túlka þær
lesa sögur og speki
löngu horfinna jökla.

Strá sem bærast
reynast oftar en ekki fjaðurpennar
hripandi ódauðleg ljóð í vindinn.

Jafnvel ólæsar ær
skrá stefnu sína
í moldargöturnar.

Þær stefna alltaf í norður.

 

Bensínstöð við þjóðveginn

 Meðan ég dældi bensíni á bílinn 

horfði ég inn eftir dalnum.

Ég ákvað að snúa aftur við betra tækifæri.
Kanna dalinn.

Ári seinna
stend ég aftur á sama stað og dæli bensíni á bílinn.

Ég horfi inn eftir dalnum
og hugsa með mér:
Hingað verð ég að koma.
Skoða mig um.
Tjalda á grónum stað og kanna dalinn.

Ég gefst ekki upp.

Næsta sumar ætla ég að koma hingað aftur
dæla bensíni á bílinn og horfa inn eftir dalnum.

 

Reykjavíkurannáll

 Alvörugefinn var hann

þessi nýliðni vetur.

Stundum mátti þó kætast í myrkrinu.
Snemma morguns í desember
barst mér til eyrna lóusöngur
ofan úr tré
við Gunnarsbrautina.

Allan þann dag
leið mér töluvert betur.

Mig grunaði auðvitað starrann.
Engar heimildir geta þess að hann
kveði burt snjóinn og leiðindin.

Merkilegt samt
hvað þykjustan getur.

 

Eftirleit

Ég veit ekki hvað er að mér.
Ég geng yfir hálsinn
ég geng og ég geng og ég geng.

Ég geng niður dalinn
geng upp gljúfrið
ég geng.

Ég geng og ég þramma, ég arka
ég mjaka mér áfram
feta mig áfram
ég lalla
ég labba
ég ramba, ég rölti
ég spranga, ég stika
ég geng og ég geng.

Ég geng um í leit að sögu
ég geng um í leit að orðum
í leit að gömlum og nýjum orðum
orðum sem gætu bent mér á steina og grös
og hjálpað mér við að koma auga á landið.

Ég geng og ég geng og ég geng.

 

Huldubókasafnið í Hafnarfirði

I

 Í háskólasafninu fann ég ekki heldur Grænmeti

og ber allt árið; hin lokkandi fyrirheit Helgu Sig.
Þá var fullreynt. En þrjóskan bauð mér far
til æskustöðvanna í Hafnarfirði
svo ég skaust inn á landsbókasafn huldufólksins
sem er staðsett í hamri við Flensborgarskólann.

Nú kemur að þankastriki — Hafnarfjörður
kallast í daglegu tali Fjörðurinn
og fyrrgreindur hamar er aldrei
nefndur annað en Hamarinn. Af Hamrinum er útsýni
en þar fyrir neðan miklast þó lækur
sem heitir einfaldlega Lækurinn.

Nema hvað: Afgreiðslumærin
svaraði fyrirspurn minni á orðlausu máli
og kvaðst ekki hafa bækur á íslensku.

Efins lét ég augu hvarfla um hillur og kili. Þarna!
Þetta er bókin sem ég hef reynt að fá í allan dag!
Og í nýlegri útgáfu! En afgreiðslumærin brosti:
Við notum ykkar stafróf, ykkar letur en okkar
mál er annað og fleira en þér kann að virðast á prenti.
Þetta er ekki verkið sem þú nefndir, heldur þýðing
á ljóðaflokki eftir sjálfan Gian Michele Milani! Hann
orti svo vel um heiminn, útskýrði frumeindakenningu
Demókrítosar og hin vélrænu lögmál hreyfinga.

Grænmeti og ber allt árið
þýdd á huldumál
sýnist þér vera Snorra-Edda á íslensku
en Snorra-Eddu á huldumáli
sérðu sem Vegahandbókina.

Hún bauð mér þær allar og minnti á síðasta skiladag:
36. ágúst, sem er þó ekki 5. sept.

II

 Heimkominn heyri ég þig kalla:
Það stendur ekkert um rifsberjasultu!

Bíðum við! Hvernig myndu skáldin svara þér
sem ólst upp suður með sjó?

Þú hampar bók: Hér birtist ágætis
uppskrift að hugsun
og ef til vill að lífi — en ekki að sultu!

Ég svara: Nei, þessa fékk ég í Norræna húsinu.
Hún fjallar um dauðann …
Ég stari á bókina. Síðan á þig.

Við rýnum í sama letrið en framreiðum ólíkar krásir.
Sömu stafir, önnur merking, annað verk.
Huldukona úr Keflavík!
Hver tryði því að óreyndu?

En hvað veit ég? Bók. Heimur. Sulta. Líf.
Öll þessi orð lærði ég í Hafnarfirði.
Þar stendur örugglega hamar.
Þar miklast jú lækur.
Loks hef ég fyrir satt að í Firðinum sé himinn alltaf blár!

 

 

 

Pin It on Pinterest

Share This