Alls konar utanbókarljóð

 

Vor

Kettirnir mættir
og skíta í sandkassann
á leikvellinum.

Boðorð undir fjögur augu

Þú skalt heiðra.
Þú skalt virða.
Þú skalt heiðra og virða föður þinn.
Þú skalt hlýða. Þú skalt.

Leyfðu mér nú að sjá þig brosa.
Þú mátt brosa.
Brostu.
Það verður leyndarmálið okkar.

Þú skalt ekki kjafta frá.
Þú skalt ekki búa neitt til.

Þú skalt ekki blaðra í ógáti.
Þú skalt ekki slúðra um föður þinn.

Þú skalt ekki segja neitt.
Þú skalt ekki tala. Þú skalt ekki

Ljóð til Vilborgar

Það stóð hús í hjarta borgarinnar
í Vonarstræti
alveg við Tjörnina
með Alþingishúsið í bakgarðinum.

Þar í risinu bjuggu Vilborg og Þorgeir
og synirnir tveir.

Í kjallaranum var þvottahús.
Einn daginn var Vilborg í kjallaranum
með yngri soninn. Allt í einu
verður henni litið upp frá suðupottinum
og sér að drengurinn var hlaupinn út.

Allt vill út í heiminn.

Börn vilja sleppa út í heiminn.
Hugsanir vilja sleppa út í heiminn.
Ljóð vilja sleppa út í heiminn.

Vilborg elti soninn.
Sá hann hverfa fyrir hornið á Alþingishúsinu.

Hún hljóp á eftir drengnum fyrir hornið
og þá mætir hún hópi virðulegra karla
hersingu ráðherra
með forsetann í broddi fylkingar.

Hún mætir þeim ein
í klassískum klæðnaði kvenna
sem stunda þvotta í kjallara.

Eitt hikandi augnablik –
uns forsetinn heilsar
einkar mektuglega
og tekur ofan
og fyrst forsetinn heilsaði
tóku þeir allir ofan, herrarnir.

Allir höfðingjar taka á endandum ofan
fyrir skáldinu
fyrir móðurinni
fyrir þvottakonunni

Vilborgu
skáldi í Vonarstræti.

Barnagæla frá nýju Íslandi

Fjárfestar hafa áhyggjur.
Fjárfestar óttast.
Ástandið veldur áhyggjum og fjárfestar óttast.

Það rignir á blómin. Og fjárfestar óttast.
Krakkarnir syngja. Og fjárfestar óttast.
Það er gaman í bíó. Og fjárfestar óttast.
Loksins er Sigríður ólétt. Og fjárfestar óttast.

Þeir óttast að gjaldmiðlar veikist.
Þeir óttast að gjaldmiðlar styrkist.

Það er fiðringur í loftinu. Og fjárfestar óttast.

Strákur kyssir stelpu og stelpa kyssir strák.
Stelpa kyssir stelpu og strákur kyssir strák.
Allir kyssa einhvern og einhver kyssir alla.
Fólk kyssist og kyssist.
Og fjárfestar óttast.

Öndum nú inn. Og fjárfestar óttast.
Öndunm nú út. Og fjárfestar óttast.
Fjárfestar óttast.
Þeir óttast.
Þeir óttast.

Íslandsvísur

Eldgos.
Helvítis eldgos.
Helvítis eldgos alltaf hreint.

Eldgos.
Djöfulsins eldgos.
Djöfulsins eldgos alltaf hreint.
Helvítis djöfulsins eldgos alltaf hreint.

Eldgos.
Andskotans eldgos.
Andskotans eldgos alltaf hreint.
Helvítis djöfulsins andskotans eldgos alltaf hreint.

Eldgos.
Helvítis eldgos.
Djöfulsins eldgos.
Andskotans eldgos.
Helvítis djöfulsins andskotans eldgos alltaf hreint.

Stefnumót í myrkri

Þegar við mætumst
ert þú með háu ljósin.
Þá blikka ég þig.

Annar morgunn í Svíþjóð

Morgunn í Svíþjóð og
ekkert að gera, kannski
ætti ég að yrkja upp ljóð
skáldsins Lars Gustafsson
um morgun í Svíþjóð
á máli æskustöðva minna: Morgunn

það blés, það blakti, það hvein
í fánum bensínstöðvarinnar, það
lá ís undir björkunum

hvítu. Kemur þá ekki einn
framhjá
í vetrar-
hjálparfötum og gengur með þessum líka skrefum
líkt og hann ætli/eigi langt að fara.

Vegurinn rís upp í brekku
þar sem durgurinn
þrammar.

Auðvitað þekki ég manninn
og gæti ýmislegt sagt.
Um hann
og alla þá vegi sem hann hefur afplánað.

Nú blæs
minna, bjarkirnar standa
kyrrar, glampandi október niðri við rót, sólskin.

Úr fjarska
þar sem birta himinsins er jafn sterk og hér
nálgast lítill rälsbuss á spori sínu.
Hér STANNAR hann um stund
eins og gamall Hafnarfjarðarstrætó – og hverfur
án þess að nokkur stígi út.

(Nei, rälsbuss gerir sig ekki á íslensku.
Hafiði engar lestir á Íslandi?
æpir oft hinn dæmigerði Svíi
og er homo sapiens í sinni forundran.)

Þetta var útúrdúr, eða morgunn
í Svíþjóð. Það sem ég vildi
segja er þetta: Einhver steig út.
Þrátt fyrir allt. Hvort er ég þorpið eða farartækið?
Steig skáldið út
hjá mér
eða ég hjá skáldinu?

Ein með öllu, ein

Nóttin er opin en einungis bjarmi frá lugt
við hljóðnað torgið
gerir sér ferð að lúgunni.

Inni seilist konan örg í útvarpstækið og slekkur.

Segið mér ekkert um leiða, þið skræku nornir.
Færið mér þjóðhátíð, sýnið mér vökular hendur.

Þá skal ég dansa við laukinn
við brauðið, við óskirnar
snúast og stappa í algleymi
fram undir lamandi morgun
stappa uns gólfið rumskar
uns gólfið togar í fætur
þreifar um kálfana, hangir við mjöðm.

Hver ætli minnist á þreytu?
Komið og heyrið mig hlæja!

Eirðarlaus grípur hún tusku, hún nuddar burt flekki
burt ímyndað sinnep, hún skimar – og enginn

hreint enginn á ferð nema bjarmi
frá lugt, nema sigðin á himni
og sindrandi þögnin sem hraðar sér út í tómið.

Krossað

Ég prútta hvorki við guð né menn.
Læt mig samt hafa það.
Krossa að lokum yfir gröfina.

Augu ættarinnar innheimta athöfnina
svo lítið ber á

Nótt
Nótt: Ó
hjalandi nótt. Ó
gáskafulla nótt.
Nótt sem skellir uppúr.
Tvíræða nótt. Nótt.

Nótt
óhemjunnar.
Óhemju nótt. Ó
nótt.

enn í sveita andlitis


maður hélt að ástandið færi batnandi
maður hélt að aftur kæmu áhyggjulausir dagar
já, maður þóttist eiga heiminn
og hvíldartímans
þarfa
naut

en alltaf beiða þær upp
stundir manns í aldingörðum
hinar þurrmjólka stundir manns í aldingörðum

hvað er svo glatt

ég drekk með nýjum félögum á nýrri
krá í nýju landi, margur jónsson

hefur að venju frá einhverju þorpi að segja
og einn man eftir fávita sem slefaði
og annar minnist aumingja sem klagaði
og þriðji man ræfil sem flúði

alla langar eitthvert heim

og þetta eru víst bros
og þetta eru að líkindum hlátrar

ég sit þá af mér
þegi þá af mér

reyni ég að laumast út
mun þögnin fylgja mér til dyra, þeir
kannast alltaf við baksvipinn

hættan í samskiptum

áður ef trúa má bókum
höfðu soldátar eitt til marks
það var hvítan í augum hinna

og samkvæmt bókum
féllu þeir í góðri trú
hver fyrir sitt land
eða hreinlega skipun að heiman

þá er vottað að leiðtogar þjóða
eigruðu inn í andvökunóttina
áhyggjufullir útaf þeim óhörðnuðu

sannast sagna virðast stílbrögðin mörg
sannast sagna skiptir um fleira en merkingu orða
enn eru samt óbreyttir kallaðir til
enn er hættan ljós á andvökunóttum

nú eru þessir tímar offramboðs á hagsmunum
þessir tímar efasemda varðandi hollustu
tímar þegar þingsalir spöglera í öryggi landa
en leiðtogar álykta: alltaf
má búast við því
að þeir sem standa augliti til auglitis falli
gersamlega
hverjir fyrir öðrum

svo nú mega dátarnir stara
í blinda skjái, stara
nú mega þeir bíða eftir hvítum
og loksins
ótvíræðum deplum, deplum

Notre Dame

Hér væri gaman
að vera syndum hlaðinn
og geta iðrast.

Óðal í Evrópu

hvernig spyrjiði, hundurinn
hundurinn heitir sama nafni

en þið munið sjálfsagt eftir honum stærri
það bakkaði trukkur í fyrra og hundurinn drapst
í ár er hann ekki fullvaxinn

hundurinn heitir sama nafni
ættlið eftir ættlið
hefur hundurinn heitið sama nafni


Óreglubróðir

Vinátta þín mun ekki varða við lög
ekki beinlínis, gamli þrjóskur
en útífrá heyri ég fáa mæla kenjunum bót.

Í nótt er minn úrvinda
í nótt talar hann varla um fyrir þér
haltu bara iðju þinni áfram
forstokkaði vinur
spilltu bara fyrir honum leiðindunum.

Hann orkar litlu án hjálpar.
Hvort sem væri. Gamli. Hvað sem verður.

Svo litlu, gamli, svo litlu.

spámaður á mölinni
ég kem aldrei af fjöllum
ég kem af mölinni, ég
boða ljósið, lýsið

lýsið sem nærir
lýsið sem smyr

lýsi
lýsi lýsi

lýsi menn konur börn
lýsi þeim orðin
lýsi þeim vonin
hér uppi í heimskautanóttinni

burt með þurrar oblátur og svikið mjöl
burt með andskotans blóðið
prestar, biskupar
gefið fólkinu lýsi
ljós norðursins
hinn eina sanna krist eyjarskeggja

Á kafbátaslóðum

Maður staðnæmist óvænt
á horni Lokastígs
og Baldursgötu
og fær þá snjöllu hugmynd að rölta
niður á höfn til að skoða kafbáta.

Annað eins hafa menn látið sér detta í hug
annað eins hefur gerst
þótt menn þykist eiga
annað erindi í þessu lífi.

Eigi hugmynd að komast í verk er um margar leiðir að velja.
Út á Skólavörðustíg. Niður Lokastíg. Nú eða niður Freyjugötuna.

Það væri líka hægt að ganga í hring.
Æða upp á holtið og velja leið
til vinstri niður að Skuggahverfinu
eða þá að nudda sér hægra megin við Hallgrímskirkjuna
beygja fyrirvaralaust niður Mímisveginn
og þaðan inn á Fjölnisveg.
Trítla síðan óséður í átt að miðbænum.

Nú eru bara nokkrir möguleikar nefndir.
En hafi maður hernaðaráætlun er skynsamlegt að ganga
upp í Hlíðar og þaðan suður Kringlumýrarbraut
gegnum Kópavoginn og yfir Vatnsendahæðina
upp í Heiðmörk og skemmstu leið í Árbæ
Þá er stutt með stöndinni norðan megin.

Möguleikarnir eru óteljandi.
þegar maður hugleiðir leiðir um líf og borg.

Ónefndur maður á Baldursgötunni æðir hugsunarlaust af stað.
Hann styttir sér leið til að skoða kafbáta. Hann segir:
Vissulega eru margir möguleikar í lífinu
þar með er ekki sagt að maður þurfi að prufa þá alla.

Er það besta aðferðin? Er þetta rétta hugsunin?

Oft hef ég staðið á horni Lokastígs
og Baldursgötu og reynt að velja leið um lífið.

Stefnumótið

Við hittumst í rjóðri.

Ég man það var neðst.
Á síðunni.
Neðst.
Ég man það var neðst.

Á hægri síðu neðst.
Vinstra megin neðst.
Ég man það var neðst.

Við hittumst í rjóðri.
Ég man það var neðst.
Á síðunni neðst.

Álitsgjafi

Ég vakna um nætur og dríf mig á lappir.
Ég fæ mér eitthvað.
Geispa.
Glápi út í nóttina og tómið.

Svo fer ég að hringja.

Ég hringi mest í vinnufélaga.
Leyfi þeim að geispa.
Ég byrja rólega: Þú ert fífl. Ég þoli þig ekki.

Stundum skella þeir á um leið.
Þá hringi ég strax aftur.

Ég þoli ekki svona rakkarapakk eins og þig.
Ég þoli ekki svona kellingar eins og þig.
Ég þoli ekki svona kalla eins og þig.

Ég tek þá fyrir einn af öðrum.
Nótt eftir nótt.
Hringi og flyt þeim þulur mínar og ljóð.
Held áfram svo lengi sem einhver hlustar á mig.

Ég man ekki neitt.
Svona hlýtur þetta að vera.
Einhvern veginn svona hlýtur þetta að vera.

Ég mæti alltaf á réttum tíma.
Það talar enginn við mig.
Allir líta mig hornauga.

Ég man ekki neitt.

 

Þula frá liðinni öld

Hann var vélamaður. Hann var skipstjóri. Hann var stýrimaður.
Hann var fyrsti vélstjóri. Hann var matsveinn. Hann var háseti.
Hann var háseti. Hann var stýrimaður. Hann var háseti.

Hann var matsveinn. Kyndari. Aðstoðarmaður í vél.
Hann var netamaður. Hann var annar vélstjóri.
Hann var stýrimaður. Loftskeytamaður. Háseti.

Hún var matsveinn og háseti. Hann var háseti. Skipstjóri. Háseti.
Hann var háseti. Fyrsti vélstjóri. Hann var háseti.
Hann var matsveinn. Hann var stýrimaður. Hann var háseti.

Hann var 23 ára. Hann lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Hann var 48 ára. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn.
Hann var 37 ára. Hann lætur eftir sig konu og þrjú börn.

Hann var 22 ára. Hann lætur eftir sig konu og tvö börn.
Hann var 39 ára. Hann lætur eftir sig móður.
Hann var 26 ára. Hann lætur eftir sig konu og fjögur börn.

Hann var 27 ára. Lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Hann var 23 ára. Lætur eftir sig eiginkonu.
Hann var 21 árs. Lætur eftir sig unnustu og eitt barn.

Hann var 19 ára. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Hann var 28 ára. Ókvæntur og barnlaus.
Hann var 18 ára. Ókvæntur, en lætur eftir sig eitt barn.

Hann var 28 ára. Hann var fráskilinn, en lætur eftir sig eitt barn.
Hann var 42 ára. Hann lætur eftir sig konu og fjögur börn.
Hann var 27 ára. Hann lætur eftir sig konu og þrjú stjúpbörn.

Hann var 37 ára. Hann lætur eftir sig unnustu og föður.
Hann var 25 ára. Hann var ókvæntur og barnlaus.
Hún var 36 ára. Hún lætur eftir sig eiginmann og tvö börn.

33 ára. Lætur eftir sig foreldra.
52 ára. Lætur eftir sig tvær uppkomnar dætur.
34 ára. Lætur eftir sig eitt barn.

42 ára. Lætur eftir sig aldraða móður.
32 ára. Lætur eftir sig þrjú börn.
21 árs. Lætur eftir sig föður.

41 árs. Lætur eftir sig átta börn.
28 ára. Lætur eftir sig tvö börn.
19 ára. Lætur eftir sig móður og systkini.

Pin It on Pinterest

Share This