Lausavísur og alls konar kvæði

 

Kvíðasöngur undir haust

Ég kann svo margt en veit þó varla neitt
með vissu um það hvernig málin þróast
en held ég viti örugglega eitt:
Mín óvissa er kvik og síst að róast.

Það streymir glóðheit ólga inní mér
þar eru núna kvikuhlaupin tíðust
og angist mín er fræg í heimi hér
en heyrir blessuð af því allra síðust.

Ég kvíði því sem óvænt getur gerst
það getur hent að skorpan af mér reytist
en óttast meira hitt sem virðist verst
að virknin deyi út og ekkert breytist.

Mig skelfir jörð sem skelfur undir haust
samt skelfir oftar lífið tilgangslaust.

Elvis á meðal vor

Elvis lifir enn og brátt aldraður hann verður;
vill síst um það hafa hátt, hann er þannig gerður.

Elvis karlinn býr í blokk, blessar granna sína
meðan ekkert unglingsrokk eyrun fer að pína.

Dada, dada, dada da
dada, dada, da.

Elvis pókar aldrei mæk eða feisbúkk vini,
fær samt margan lúkkalæk líkt og aðrir syni.

Elvis skröltir út í búð, ein hann plagar þrautin:
kraftasveskjur, krumpuhúð, kaupa þarf í grautinn.

Elvis líkist okkur hér; á sinn blús og lægðir,
biður Guð að gefa sér góðan svefn og hægðir.

Elvis lifir annars hreint ósköp venjulega,
fýlar grön og fattar seint fífl sem kónginn trega.

Miðaldravísa

Klukkan segir tíðum tikk
takk og áfram gengur.
Einu sinni fór ég flikk
flakk en ekki lengur.

Fréttavísa

Allt er gott og allt er rétt.
Ekki get ég kvartað.
Af mér færðu eina frétt:
Ennþá slær það, hjartað.

Sumarnótt við þjóðveginn

Stopp var stationbifreið
um stund í vegarbrún.
Þá gat miðað maður
sem mændi út á tún.

Blundað var á bæjum
þótt byssa segði ræs.
Enginn virtist vera
að vakta sparigæs.

Óljós gæs hlaut örlög
sem aldrei skildi hún.
Stopp var stationbifreið
um stund í vegarbrún.

Nóvemberblús

Eintómt myrkur, fjúk og frost
fátt er hægt að gera.
Eintómt myrkur, fjúk og frost
fátt er hægt að gera.
Biðji ég um betri kost
býðst mér innivera.

Nánast ekki neitt að ske
nema ég að slæpast.
Nánast ekki neitt að ske
nema ég að slæpast.
Fer í kaffi, fæ mér te.
Fáránleikinn hæpast.

Enginn kemur. Allt er hljótt.
Aldrei hringir síminn.
Enginn kemur. Allt er hljótt.
Aldrei hringir síminn.
Ekki dagur. Ekki nótt.
Ekki líður tíminn.

Prjónalimra

Með lagninni legg ég á Skjóna
en læt hann svo fara að prjóna.
Í krúttlega sokka
fer kannski ein dokka
ef klárinn vill gera því skóna.

Tvær Móskarðshnjúkavísur og viðlag

Túristar og tré á Júka-
tan oft fjúka.
Lofsorði skal frekar ljúka
á logn við Móskarðshnjúka.

Ég minnist oft við brjóstið mjúka
sem Móskarðshnjúka
en Sigga Fáfnisbana Gunnu Gjúka
gaman þótti að strjúka

Minnist þú á Móskaðshnúka
er mál að kúka.

Landsmótslimra

Á landsmóti gobbedí gobb
fékk graddinn mitt uppáhalds djobb;
að stæra sig pínu
af stóðlífi sínu
og stunda svo afkvæmagrobb.

Matarvísa

Súpukjötið seigt og feitt
sælkerarnir tyggja
meðan grjónagumsið eitt
grænkerarnir þiggja.

Engan bolta get ég gripið

Engan bolta get ég gripið,
gáfa mín telst einkum fipið.
Fær ég er við flumbruganginn;
flaustrið æfi hvergi banginn.

Ég hef misst og mölvað bolla;
muni læt ég hvergi tolla;
fum er hjá mér fastur liður,
flestu get ég sullað niður.

Aldrei dót ég brothætt blekki:
Betri klaufar finnast ekki.

Vínbarinn ekkert. Næsti bar nada

Út á lífið enginn fór.
Enginn hvergi mætti.
Enginn fékk sér engan bjór.
Enginn drykkju hætti.

Raulað í lægðinni

Úti þessi líka lægð
og líka hérna inni:
Mér sýnir leiðinn litla vægð
þótt litla eirð ég finni.

Öllu ræður eymdin hér
svo ekkert hjá mér gengur.
Ég niðrí rúmið nudda mér
og nenni engu lengur.

Verði sútin söm og jöfn
er sælt að yrkja vísu;
því fylgir bara fyrirhöfn
að farga sér í krísu.

Sjúkrahúsvísa

Trist það verður tæpast sagt
tilbreytingaleysið
meðan hjarta mætt á vakt
mónótónískt slær sinn takt.

Önnur fréttavísa

Hreyfi sig á fugli fló
flýgur sagan óðar.
Eins og fyrrum eru þó
engar fréttir góðar.

Tökum eina skák

Einsog gögn í gígabætunum
við geysumst eftir strætunum
en keyrum inn í kjallara
í kyrrð og annað snjallara.
Stillum okkur augnablik og stöðvum mótorfák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.

Fljótt við eyðum öllum peðunum
sem arfanum úr beðunum
en ráðist svo fram riddari
mun ráða við hann yddari.
Stillum okkur augnablik og stöðvum mótorfák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.

Nú stend ég stjarfur útvið skóg.
Það streymir hér af álfum nóg.
Í tunglsljósinu tryllist ég, í töfrabirtu villist ég.

Ég tek sprell og spé við hrókana
og spara ekki djókana
en heilsi hún mér drottningin
þá heltekur mig lotningin.
Stillum okkur augnablik og stöðvum mótorfák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.

Ein lítil hjúskaparvísa

Þótt vilji engar Jónur Jón
oft Jónar hafa gaman;
það tíðkast jafnt að hjónur, hjón
og hjónar búi saman.

Kveldúlfsvísur

Erfitt líf er oft til sjós.
Uppí sveitum daunillt fjós.
Borgarlíf og bjór frá hrós;
beint úr krana eða dós.

Löggur gjarnan góma fólk.
Grunsemd vekur blómafólk.
Siðað land og sómafólk
seint mun vilja róma fólk.

Fyrir glæparitið Rof
Ragnar J. hlaut mikið lof
spennan varð mér einum of
ekki fékk ég mikið sof.

Lífið allt er eintómt blöff
eflaust gott að vera töff
ekki þarf ég annað stöff
ef ég bara fæ mín köff.

Söngurinn um brunaliðið

Þótt öllum lýðnum ljóst sé að
hér logar mikill eldur
þá spyr samt enginn hvað sé hvað
né hvað sé það sem veldur.

Liðið húkir hér og þar
og hefur fátt að gera.
Aldrei veit neinn hver er hvar
né hvar hann á að vera.

Svo þæg og hlýðin þegjum við
og þannig öllu björgum;
það berst við eldinn brunalið
með bensíndælum mörgum.

Fossavísa

Er ofan af klettum ég kíki
á kraftinn í fossanna ríki
fær lotningin mál
í lítilli sál
með lýriska vatnsorkusýki.

Lúser með afbrigðum

Ég var alltaf viljugur lúser
til volæðis ennþá ég fús er
og hóa í þig, æ hlustað’ á mig
þá heyrirðu loksins hvað blús er.

Það er eins og ekkert sé
öruggt nema hvorki né.

Ég þrái svo mikið og meira
af mörgu og ef til vill fleira
sem lumar þú á, mig langar að fá
æ lofðu mér af því að heyra.

Ég veit allt mun fara til fjandans.
Ég fordæmi bjartsýni landans.
Svo hefi ég mælt og hugsað og pælt
eitt heilmikið stórmenni andans.

Kvöld í sumarbúðum rithöfundafélagsins

Þótt heyrist í skáldunum skrifandi
og skeiðklukka þeirra sé tifandi
spyr tilvistarefið:
Skal taka sem gefið
að telja þau hvert og eitt lifandi?

Þrjár fótboltavísur

Ég stoltur hlæ og hlakka til
að hlaupa út á völlinn;
ég hrollinn úr mér hrista vil
í hressum leik við tröllin.

Mitt helsta kikk og kappsmál er
að komast inn í teiginn.
Þar kannski allt til fjandans fer
en fer þó einhvern veginn.

Ég lífsins deild hef leikið í
og lært að vera digur:
Ég tel það víst og trúi því
að tap sé líka sigur.

Göngukappavísa

Þegar breytist þrek í slen
og þrútnir vöðvar skjálfa
veð ég út í íbúfen
upp í miðja kálfa.


Kosningavísa

Aldrei hef ég fundið frið
fyrir innri kvölum;
allt mitt líf er eins og bið
eftir fyrstu tölum.

Vitlimra

Hvort veit ég að veit ég, það segi
ég vinur minn heiminum eigi.
Ég veit bara það
sem veit ég sko, að
mest vit er í því sem ég þegi.


Einhver Jónsson raular morgunsönginn

Ég er síðasti karlinn í kotinu
með kvölum ég vakna úr rotinu.
Ég man hver var syndin:
Ég meig upp í vindinn.
Æ, æ, æ og aftur æ!
Ég vil ekki gráta, verð samt að játa.

Ég á mínar skvettur og skinnsokka
en skeggið, það veitir mér kinnþokka.

Ég er friðsæll og verðskulda virðinu
og vil hvorki handjárn né girðingu.
Þið trúið mér ekki.
En tregann ég þekki.
Æ, æ, æ og aftur æ!
Fyrr vildi mig svona voða fín kona.

Ég á mínar skvettur og skinnsokka
en skeggið, það veitir mér kinnþokka.

Ég er skáld og mig faðma vill framtíðin
en fráhverf og önug er samtíðin.
Ég lifa vil núið
En líf mitt er snúið.
Æ, æ, æ og aftur æ!
Það skilur mig enginn, skælandi drenginn.

Ég á mínar skvettur og skinnsokka
en skeggið, það veitir mér kinnþokka.

Vísan um dægrin

Dægrin smokrast eitt og eitt
inn um bréfalúgu
safnast einsog ekki neitt
ólesin í hrúgu.

Náttúrulimra

Einn piltur var talsverður Tarsan.
Í trjánum fór stúlka að kjass’ann.
Svo vildu þau fleira.
Samt varð ekkert meira.
Það vantaði náttúrupassann.

Gamalt kvæði með sínu lagi

Staðan var tvísýn og maður á mann.
Markvörður okkar í skinninu brann.
Úrslitasekúndan upp loksins rann:
Ísland var betra, en Noregur vann.

Löngun í afrek mér lygavef spann;
líf mitt og tilvera festust í hann.
Eftir það spakmæli ágætt ég kann:
Ísland var betra, en Noregur vann.

Ástina vestur á fjörðum ég fann.
Framtíðin yfirgaf landshluta þann.
Útrás var málið og útrás með sann:
Ísland var betra, en Noregur vann.

Heimsmyndin er einsog skerpulaust skann,
skilninginn setur í nálgunarbann,
skýrari virðast þau orð sem ég ann:
Ísland var betra, en Noregur vann.


Fyrirlestralimra

Ég kemst oft á kraftbendilssýningu
og kætist við sérfræðirýningu
en pæli þó mest
ef passlega sést
í prófessorsermi og líningu.


Kvæðið um Harriet

Það hefur kvisast furðufrétt
og flýgur um sú kenning
að heiti stúlka Harriet
þá hrynji íslensk menning.

Hér nöldra fremur napra spá
tvær nornir, Hefð og Regla,
sem brosa lítt en bara þrá
að beygja þig og negla.

Oft greiðir för það ferilspil
að falla inn í kerfið
þú verður annars varla til
og vegferð þín gerð erfið.

Það fréttist margt svo furðulegt
svo fáránlegt, svo skrýtið,
margt gamalt úrelt gerist frekt
samt gildir það svo lítið.

En sagan verður sönn og skýr
um síðir birtist endir
því heillaóskir heimur nýr
til Harrietar sendir.

Hringhend vísa

Svör ég tef því ótal ef
ákaft nef mitt þefar;
bara slef úr hundi hef
handa ref sem þrefar.

Ég vil fá að kjósa

Eitthvað gleymdist, gat nú skeð,
garga ég og pósa:
Hér er ég og ég er með.
Ég vil fá að kjósa.

Fljótin æða, fussumsvei,
fram til sinna ósa.
Ég vil meta Já og Nei.
Ég vil fá að kjósa.

Röfli menn, af rugli þeir
reynast gegnumsósa.
Ekkert japl og jaml þarf meir.
Ég vil fá að kjósa.

Sumir herrar hérna í
hroka óverdósa.
Ég kann illa jukki því.
Ég vil fá að kjósa.

Okkur hæfa ólík nöfn,
Ásgrímur og Rósa,
en við teljumst jafnan jöfn.
Ég vil fá að kjósa.

Valdataflsins vonarpeð
vilja sigri hrósa.
Hér er ég og ég er með.
Ég vil fá að kjósa.

Óvissuvísa

Spurull vil ég vita hvar
verði næsta krísa.
Án þess neitt að orða svar
endar þessi vísa.

Fyrir norðan Norðurpól

Hvar fær aumur skríllinn skjól?
Skálkar staðinn kynna:
Fyrir norðan Norðurpól
næðir alltaf minna.

Margur drauma ungur ól
elskulega Hulda.
Fyrir norðan Norðurpól
norpa þeir í kulda.

Þar sem allir eiga jól
eru gildin hlaðin.
Fyrir norðan Norðurpól
nefna margir staðinn.

Enginn þarf að þrífa ból
þjást né svangur líða.
Fyrir norðan Norðurpól
nægar dýrðir bíða.

Hrekkjavökuvísa

Hrekkjavökufól og frík
fara burt og hverfa.
Hversdagsbúin liðin lík
landið munu erfa.

Ferðbúinn

Ég frestað get ferðalagskvíða
því færðin er sögð vera betri.
Svo létt skal hver mínúta líða
og líka hver kílómetri.

Ég finn samt til kjánalegs kvíða
sem kallar á skýringar betri:
Hvað er mínúta lengi að líða?
hve langur er kílómetri?

Evrópusambandsvísa

Þungt ég stíg á þröskuldinn
þar er gott að dvelja
meðan hvorki út né inn
auðnast mér að velja.

Aðventuvísa

Damsí lamsí bamsí bamm
bráðum koma jólin.
Þegar ég hef grennst um gramm
get ég notað kjólinn.

Þorláksmessuerindi

Mörg hetja er í Þorlákssælu sólgin
og situr römm til borðs með augu bólgin.
Þar er á diski mikil munúð fólgin
sem mætast skatan kæst og hamsatólgin.

Þrjár djassvísur

Fram úr rúmi trekk í trekk
mig togar einhver kraftur
ég lifi síðan villivekk
uns velt ég niður aftur.

Það er svona hipsum haps
með hamingjuna mína
þótt yfirleitt hjá Alice Babs
sé allt í þessu fína.

Ég verð aldrei bommsí bomm
en brosi ef ég nenni
og mun svo loks einn daginn domm
í djassinn fylgja henni.

Ferskeytla í vetrarlok

Eftir talsvert mikið magn
af mánudögum svörtum
tökum við loks frelsisfagn
á föstudegi björtum.


Ég um mig frá mér til mín

Ég tilheyri hreint engu landsfundarliði
og lít ekki á mig sem eitthvað úr viði
mér finnst líka vonlaust að vera í þiði
en vitund mín breytist af sífelldu iði.

Pin It on Pinterest

Share This