Lausavísur og alls konar kvæði

Úrval af lausavísum og alls konar tækifæriskvæðum sem hafa orðið til í gegnum árin má lesa hér og skemmta sér við hafi maður intressu fyrir „hefðbundnum formum“ í ljóðagerð. Innhaldið er upp og ofan, oft á tíðum ræður glettnin för en stöku sinnum tekur alvaran yfir og þá getur gamanið orðið grátt. Vakin skal athygli á því að gamlar og nýjar limrur eru í sérstakri færslu hér á vefnum undir heitinu Hálfgerðir englar og allur fjandinn.

 

Talsmaður borgaranna ávarpar verkafólkið

Ég þáð hef margan greiða glaður
og get nú játað eitt
sem býsna klókur bissnessmaður
ég borga aldrei neitt.

Oft píska ég út prívatdúllu
sem puðar löngum þreytt
í ham á neðanbeltis-búllu
en borga aldrei neitt.

Ég nýtti krafta kvinnu einnar.
Hún kom og vann hér sveitt;
dró mig til himna brautar beinnar
sem borga aldrei neitt.

Ef vina mætt til vinnu hefur
með von um að fá greitt
og hjá mér broshýr bara sefur
ég borga aldrei neitt

Þótt fátæk mær sig mögur glenni
þá met ég kjötið heitt
en bergi svo allt blóð úr henni
og borga aldrei neitt.

 

Hrekkjavökusöngurinn árið 2021

Nú ólmast hér titrandi taugar
og truflaðir andvökubaugar
það dúkka upp hauskúpuhaugar
og hrollkaldir nautakjötsdraugar.

Viðlag og aukastef:

       Líflegt er í draugaheimadjammi djamm.
       Flestum hugnast namminamm
       nánast engum skammiskamm.

       Það stendur úti hrekkjavökuhjörð
       sem heimtar áfram gott af Móður Jörð.

Nú líkamnast uppvakningsórar
hér æða um forynjur stórar
svo geifla sig grátandi kórar
og gulltenntir kolaversmórar.

Nú bjóðast með kökunum kúkar
en kviðristan veisuborð dúkar
það læðast um limlestir búkar
og líkfölir hagvaxtarpúkar.

Nú fáum við firringardofa
í framtíð er lítið að rofa
en börnunum birtu vill lofa
ein brosandi olíuvofa.

 

Sveitungi ritunnar

Hann þekktur var meðal þjóðar
sem þöguli sjóarinn
en ræddi í róðrum gjarnan
við rituna, fuglinn sinn.

Hann vissi að vænir draumar
oft veiðast í huga manns;
við rattið einn kóngur ríkti
og ritan var drottning hans.

Hann lifir þótt lítt hann sjáist,
hann lendir í engri vör,
er róinn á regindjúpið
og ritan hans með í för.

 

Mannfólksvísa

Ef allt þetta fólk sem er maður og alls konar menn
fær málvenju samkvæmt að vera það eins og í denn
er hætt við að ég sem vil tolla í tískunni enn
í tegundabreytingu fari að drífa mig senn.

 

Vísa á svörtum fössara

Svart er glensið, svört er tíð
svartur föstudagur;
svart margt tilboð, svört verð stríð
svartur hanaslagur.
Svart er útlit, svört er hríð
svartur efnahagur
svört er vinna, svart er níð
svartur þjóðarbragur.

Nóta úr óbirtri reisubók Armstrongs

Tunglið er sko engu líkt,
það ungur fékk ég kannað,
en ætli fólk í reisu ríkt
er ráð að ferðast annað.

Þótt ég tunglsins tilboð öll
með trega stundum líti
mig dreymir oftar Dyngjufjöll,
Drekagil og Víti.

Ég úti svaf um sumarnótt
í svefnpokanum einum
þar truflaðist ei töfragnótt
af tunglsýkingum neinum.

 

Kvíðasöngur ad infinitum

Kvíðabálið breiðir út
blástur stífra átta.
Sjaldnast er með hræðsluhnút
hugur utan gátta.

Sjaldnast er með fulle fem
flón sem aldrei þegir.
Viltu, heimska, vera memm?
vöflulaust það segir.

Viltu, heimska, vítamín?
Vænisjúka þanka?
Örlög heimsins uppá grín
útá tröppum banka.

Örlög heimsins virðast vís
vegur oní bólin.
Enginn veit hvort aftur rís
upp á himin sólin.

Enginn veit hvort svart er svart
svart er hvítt á litinn.
Kvíðabálið kynt er margt
kaldur er þó hitinn.

 

Fimm tilbrigði

                     Fljúga hvítu fiðrildin
                     fyrir utan glugga
                     þarna siglir einhver inn
                    ofurlítil dugga.

                           Sveinbjörn Egilsson

Hvítar flygsur sjást um sinn
síðan kemur mugga;
kyrrt er láð en lögurinn
lætur skútu rugga.

Gremji sálargrána þinn
gömul vetrartugga
drauma sumardagurinn
dugar til að hugga

Sólin gefur koss á kinn
kallar þó fram skugga;
margur úrvalsómurinn
oft var hávær skrugga.

Gæt þín, ef þú, maður minn
merkingu hyggst brugga.
Tvírætt segir túlkurinn
tæra snilld vill grugga.

Brosin eru bestu skinn
burt skal engu stugga;
senn mun fagri fiskurinn
fljúga hjá með ugga.

 

Útgöngusálmur

Ég taldi að skip eitt til framtíðar færi
þar fagurt og samtaka mannlífið væri
en aftur snýr röflið til ráðstefnu minnar
og Róbinson Krúsó til eyjunnar sinnar.

Fólk hélt oft að seint yrði vitleysan verri
því vart myndi tímanum snúið sem knerri
en óvænt komst rýtingur ruglandans innar
og Róbinson Krúsó til þráhyggju sinnar.

Þín tilvistarangist brátt aftur mun snúa
hér enginn vill lengur í kommúnu búa
nú safnast öll reynslan til raunveru þinnar
og Róbinson Krúsó til einrænu sinnar.

 

Þrjár stökur

Ég sem sjaldan valda veld
valdur telst að ullu,
vellu ollið hef og held
helst ég valdi bullu.

Aldrei lengi stend ég stopp,
stuðmenn alla toppa;
upp og niður eins og skopp-
arakringla hoppa.

Við mér blasir veröld fín
veisluborðið hlaðið.
Áfjáð gleypir öfund mín
í sig tekjublaðið.

 

Eyjar og annes

(Jónas Hallgrímsson á tímum loftslagsbreytinga.)

1. Undir Ólafsvíkurenni

Mín leið virðist greiðfær gata
það glittir í draumalönd
svo ótryggur einhvern veginn
ég ek samt um þessa strönd.

Á þurru mér leiðist lífið
mig langar helst oní sjó
þar held ég sé heimur skárri
en hikandi bíð ég þó.

Um súrnandi haf ég hugsa
sem hörkuna þarf – og vel,
ég spyr hvort mér linum lánist
þar líka að mynda skel.

 

2. Við Hornbjarg

Við Hornbjarg á hættuslóðum
í hópum sjást ferðamenn
en enginn það veit með vissu
hvort verpir þar bjargfugl enn.

Í skemmtiferð sigla skipin
prýdd skorsteinum sínum hjá;
viss útblástur drepur undrin
sem augað kom til að sjá.

Fyrr gilti að glápa víða
og góna á henni jörð
því mönnunum fannst hún flottust
og fyrir þá eina gjörð.

 

3. Í Drangey

Úr eynni sjást feikna fjöllin
með frera í margri hlíð
sem haldi við hlýnun sleppir
svo hrun verða kannski tíð.

Hér fyrrum gat aflandseyja
frá umheimi kúplað mig
en núna fær tæpast nokkur 
af nærsveitum fríað sig.

Ég veifaði hendi heima
þá hreyfingu enginn leit
hún gæti samt valdið vindum
og veðri í næstu sveit.

 

4. Kolbeinseyjar

Enn geislar um gamla daga
þar gerast jú kraftaverk:
Þann bátinn sem ber frá landi
til baka fær trúin sterk.

Vart geta þótt kröftug kæling
mín kaldhæðnu svölu orð
ef hnettinum ógnar hlýnun
og hækkandi sjávarborð.

Það reynist oft flókið ferli
að finna við gátu svar.
Á kaf sökkva Kolbeinseyjar
í Kyrrahafsöldurnar.

 

5. Óvissueyjan

Hér gætir enn flóðs og fjöru
en fæða sem unginn þarf
berst alls engin uppá syllu
hún óvænt úr sjónum hvarf.

Með briminu horuð hræin
af hugmyndum velkjast til …
Í vanda og vá og raunum
og veru ég lítið skil.

Fyrst tunglið á hringferð hrífur
og hreyft getur jarðarsæ
ég vita þarf hvar og hverju
og hvurnig ég stjórnað fæ.

 

6. Fuglaskrúð

Við fjörð einn er fuglaeyja
sem fólk segir gróðurskrúð
þar líkt og við Laugaveginn
er lundi í hverri búð.

Ég fjölbreytni sé og fýla,
mitt fiðraða skyldulið,
og súlu í kasti knúsa
uns kemst hún í næturfrið.

Svo fuglarnir ráði ríkjum
má reka burt karl og hrút
en seint bætir fólkið fyrir
þá fogla sem dóu út.

 

7. Suðursveitir

Ef berangur breiðir úr sér
í birkis og skógar stað
menn grunar hvað gróðri eyði
en greinir samt á um það.

Svo lengi sem féð telst fleira
en fólkið er Bjartur sæll
að heiðum sé hætt við ofbeit
er hjartveikiskvein og væll

Í næðingnum norpa hjarðir
sem nöguðu oní rót
en kjöt fyrir réttir reddast
því rollurnar éta grjót.

 

 8. Minningar af heiði

Með leynd yfir háa heiði 
oft hef ég trukknum keyrt; 
hann bensínið brúkar hljóður 
svo burr geta fæstir heyrt..

Ég rata að laut sem löngum
í leiðslu ég kanna einn
en för eftir dekk og fætur
þar finnur samt ekki neinn.

Þótt ýmislegt muni mosinn
af mér verður fátt eitt sagt
en andvörp og humm úr húddi
fékk himinn á minnið lagt.

 

9. Homo economicus  

Þín óðfúsa iðjusemi 
fer eldi um lönd og heim
en nægt er samt notagildið 
sem náttúran ætlar þeim.

Ef breytir þú blóðrás landsins
á ballans þú vinnur spjöll
því jökulsár, grót og jurtir
að jafnvægi stuðla öll.

HIn óheftu fljót og fossa
á framtíðarbarn með þér
sem hvorki þarf veg né virkjun
en víðerna óskar sér.

 

10. Veisla í farangrinum

Að efast um ragnarökin
er ráðstöfun mikilsverð
því sett var á sama tíma
ein suddaleg jeppaferð.

Það angrar síst ferðafólkið
þótt fækki hér jöklum senn
ef nóg er af köldum klaka
í kampavínsfötur enn.

Margt heyrist í himnaríki,
með hæðni er pískrað þar
um jóðlandi jarðarbúann
og jökul sem eitt sinn var.

 

11. Á ferð við Sogið

Ég veiðikló sá við Sogið
og sú var að hnýta agn
en spyrja má hvar og hvenær
og hvort sé að flugum gagn.

Ég gullhringinn tók í Teslu
samt truflar nú þversögn ein
mig uggir að flugum fækki
og framrúðan verði hrein.

Um mýrar og órækt marga
fór menningin eins og rok;
hún lífríki blés í burtu –
það boðaði ferðalok.

 

12. Einn áningarstaður

Á frýsandi draumafákum
til framtíðar stefnum við,
að baki er mikil móða
en myrkur á hvora hlið.

Í vaklandi trú á vinskap
með vonir og hjartans þrár
við seiglumst á söndum lífsins
og sundríðum jökulár.

Það skyggir og vart fæst vitað
hvert verður að lokum náð.
Einn haga í himingeimnum
við höfum og þar skal áð.

____

Vísur í veðrinu

Utan dyra hafa hátt
hryssingur og bylur.
Nístingskviður norðanátt
nöturlega þylur.

Innilokuð lúrum við
látumst ekkert heyra
þó svo okkar hús á hlið
hallist sífellt meira.

Kannist þú við einhvern ugg
eða soldinn kvíða,
komdu þá í knús og hugg,
kjass og faðminn blíða.

Ef við bara bíðum hljóð
breytist allt og þróast,
jafnvel norðanáttin óð
einhvern daginn róast.

 

Ígrundaravísur

Eftir talsvert mikið magn
af mánudögum svörtum
vil ég taka frelsisfagn
á föstudegi björtum.

Fátt ég veit og fátt ég skil
og fátt hef ég að segja.
Veit þó að ef verð ég til
ég vísast er að deyja.

 

Kvíðasöngur undir haust

Ég kann svo margt en veit þó varla neitt
með vissu um það hvernig málin þróast
en held ég viti örugglega eitt:
Mín óvissa er kvik og síst að róast.

Það streymir glóðheit ólga inní mér
þar eru núna kvikuhlaupin tíðust
og angist mín er fræg í heimi hér
en heyrir blessuð af því allra síðust.

Ég kvíði því sem óvænt getur gerst
það getur hent að skorpan af mér reytist
en óttast meira hitt sem virðist verst
að virknin deyi út og ekkert breytist.

Mig skelfir jörð sem skelfur undir haust
samt skelfir oftar lífið tilgangslaust.

 

Tvístígandinn

Hratt um þennan heim ég fer,
hef þó stundum dokað
þegar hlið sem opið er
ekki reynist lokað.

Þungt ég stíg á þröskuldinn
þar er gott að dvelja
meðan hvorki út né inn
auðnast mér að velja.

Oft til sigurs söng ég mig
sýndi af mér kæti
fékk svo ótal engin stig;
öruggt neðsta sæti.

Hrekkjavökufól og frík
flest að lokum hverfa
hversdagsbúin liðin lík
landið munu erfa.

Jafnt er leið mín rétt sem röng
raunir fáar þyngja;
lífsins blendna lokasöng
lánast mér að syngja.

Út á lífið enginn fór
enginn hvergi mætti.
Enginn fékk sér engan bjór.
Enginn drykkju hætti.

 

Andrés gefur öndunum

Hollustan geislar af Andrési fulltrúa Önd,
engan sá lýðurinn hlykkjast svo stinnan um bakka.
Hann stansar í frjálslegri pósu með poka við hönd;
postulínsgumpurinn rís undan matrósajakka.

Liðið á Tjörninni upphefur ómstríðan brag
athyglisfrekt líkt og hamstola gjallandi símar.
En Andrés fær svarað: „Æ ekki neitt japl eða jag;
Jóakim segir að nú séu erfiðir tímar.

Þekkiði muninn á græðgi og grundvallarþörf?
Gáiði að ykkur. Spariði ruddaleg hrópin.“
Hann þagnar og dvelur við dæmigerð embættisstörf:
Hann dembir úr galtómum pokanum útyfir hópinn.

„Ó, megi hér ríkja sem jákvæðast jafnaðargeð,
Jóakim segir það auglýst í reykvískum blöðum
að einmitt í dag verði kristilegt kvenfélag með
köku- og stríðstertubasar á Hallveigarstöðum.“

Og Andrés hann brosir: „Ég þarf víst að fara á fund.
Fögur er Tjörnin, en mér er þó bannað að doka.“
Hann kveður og hleypur á tauginni Templarasund.
Tíminn er naumur og hádegisbarinn að loka.

 

Tíðarandavísa

Margt er sæðið. Margt er flæðið.
Margt er klæðið. Æðið.
Margt er svæðið. Margt er næðið.
Margt er kvæðið. Ræðið.

 

Hláturstund

Þú hlærð og burt með fingri tekur tár
sem trillar niður kinn úr bláu auga.
Nú rætast mínar allra innstu þrár;
ég á hér stund með þér og fæ að spauga.

Þú hlærð og getur eflaust ekkert sagt
nú eða gert af viti rétt á meðan
en kaffibollan fékkstu frá þér lagt …
í fréttum virðist lítið annað héðan.

Þú hlærð og úti flýgur flugvél hjá
með fólk sem ætlar norður yfir heiðar
en ég vil helst til hamingjunnar ná
með hlátri þínum flýg ég þangað greiðar.

Svo lengi sem mér hlotnast hlátur þinn
ég hlýt að vilja spauga enn um sinn.

 

Veðurvísa

Meðan lægðin kveður kveður
kveður ró mín, tekur frí;
héðan út í veður veður,
veður gerir út af því.

 

Skemmsti dagur

Maður út í myrkrið kalt
mænir einn og ragur.
Löngum virðist lífið allt
langur skemmsti dagur.

Ég er hress þótt heldur í
hugarálinn syrti.
Takist mér að trúa því
tel ég víst að birti.

Efinn háðskur umlar margt,
aldrei frá mér víkur:
Það mun verða þá fyrst bjart
þegar degi lýkur.

 

Elvis á meðal vor

Elvis lifir enn og brátt aldraður hann verður;
vill síst um það hafa hátt, hann er þannig gerður.

Elvis karlinn býr í blokk, blessar granna sína
meðan ekkert unglingsrokk eyrun fer að pína.

Dada, dada, dada da
dada, dada, da.

Elvis pókar aldrei mæk eða feisbúkk vini,
fær samt margan lúkkalæk líkt og aðrir syni.

Elvis skröltir út í búð, ein hann plagar þrautin:
kraftasveskjur, krumpuhúð, kaupa þarf í grautinn.

Elvis líkist okkur hér; á sinn blús og lægðir,
biður Guð að gefa sér góðan svefn og hægðir.

Elvis lifir annars hreint ósköp venjulega,
fýlar grön og fattar seint fífl sem kónginn trega.

 

Eftirmál í einrúmi

Klukkan segir tíðum tikk
takk og áfram gengur.
Einu sinni fór ég flikk
flakk en ekki lengur.

Enginn veit hvað tikk og tif
tímans lengi varir.
Margur er sem eftirlif-
andi þess sem hjarir.

Meðan enn ég andann dreg
inní mér ég fagna
veit að loks mun líka ég
lifa mig og þagna.

Einn ég sit og enginn hér
andköf hjá mér tekur.
Aðeins klukkan inní  mér
endurminning vekur.

 

Fréttavísur

Dægrin smokrast eitt og eitt
inn um bréfalúgu
safnast einsog ekki neitt
ólesin í hrúgu.

Hreyfi sig á fugli fló
flýgur sagan óðar.
Eins og fyrrum eru þó
engar fréttir góðar.

Allt er gott og allt er rétt.
Ekki get ég kvartað.
Af mér færðu eina frétt:
Ennþá slær það, hjartað.

 

Tvær vorvísur

Ekki held ég hætt við því
að hríslur neinar bogni;
viðra tíu tásur í
tveggja stafa logni.

Oná tjörn nú áðan var
allt á fullu spani;
ljótir andarungar þar
eltu hvíta svani.

 

Sumarnótt við þjóðveginn

Stopp var stationbifreið
um stund í vegarbrún.
Þá gat miðað maður
sem mændi út á tún.

Blundað var á bæjum
þótt byssa segði ræs.
Enginn virtist vera
að vakta sparigæs.

Óljós gæs hlaut örlög
sem aldrei skildi hún.
Stopp var stationbifreið
um stund í vegarbrún.

 

Kötluvísa

Fraukan Katla fylgir jarð-
fræðilegum vana;
leysir vind en langvinnt harð-
lífið belgir hana.

 

Nóvemberblús

Eintómt myrkur, fjúk og frost
fátt er hægt að gera.
Eintómt myrkur, fjúk og frost
fátt er hægt að gera.
Biðji ég um betri kost
býðst mér innivera.

Nánast ekki neitt að ske
nema ég að slæpast.
Nánast ekki neitt að ske
nema ég að slæpast.
Fer í kaffi, fæ mér te.
Fáránleikinn hæpast.

Enginn kemur. Allt er hljótt.
Aldrei hringir síminn.
Enginn kemur. Allt er hljótt.
Aldrei hringir síminn.
Ekki dagur. Ekki nótt.
Ekki líður tíminn.

 

Prjónalimra

Með lagninni legg ég á Skjóna
en læt hann svo fara að prjóna.
Í krúttlega sokka
fer kannski ein dokka
ef klárinn vill gera því skóna.

 

Þrjár Móskarðshnjúkavísur og viðlag

Túristar og tré á Júka-
tan oft fjúka.
Lofsorði skal frekar ljúka
á logn við Móskarðshnjúka.

Siggi Fánisbani Gunnu Gjúka
gjarnan vildi strjúka;
brjóstin hennar minntu hann á mjúka
Móskarðshnjúka

Oft í talsvert þröngum skónum kreppist kjúka
sem keppnisandinn gerir sjúka
því æðibunur einatt rjúka
uppá Móskarðshnjúka

        Mörgum verður mál að kúka
        við Móskarðshnúka

 

 

Sjálfuvísur

Ég sjálfu tók af sjálfum mér
og sjálfan mig ég þekki.
Ég myndast vel í sjálfu sér
þótt sjálfið náist ekki.

Oft reddar sjálfu sjálfustöng
og sjálfur Hókus Pókus.
Það skerpir sjálf í sjálfuþröng
ef sjálfa næst í fókus.

Mitt sjálf er á við sjálfukálf
það sjálfur hef ég kannað
en öðlist ég mitt sjálfusjálf
ég sjálf þarf tæpast annað.

 

Skarphéðinn gengur afur

Hann Skarphéðinn Njálsson var náungi klár
sem nokkra í gröfina lagði,
fór aldei að gráta þótt gerðist hann sár
en glotti og brandara sagði.

Er pabbi hans visku að vandræðum bar
og vildi síst stjórnast af reiði
þá ólmaðist Skarphéðinn, ætíð hann var
á einhverju mótþróaskeiði.

Hann eignaðist fjendur og fyrirsátsmenn
sem fagnandi brenndu hann inni.
Sviðinn þar lá hann en lifir þó enn,
hann lifir í framkomu þinni.

Ef atburðir tár vilja hvetja á hvarm
þú hvítnar og svitnar og reiðist.
Þú glottir og reynir að hýsa þinn harm
og höggva vilt allt sem þér leiðist.

En varla mun dólgsháttur duga neinn hér
því dauður er Flosi ei heldur
svo ef ekki temur þú tuddann í þér
þá tendraður aftur skal eldur.

 

 Heilræðavísa

úr jólagjafahandbók stígvélaða kattarins

Það á að gefa börnum bók
að blaða í á jólunum
leyfa þeim að látast klók
í letikeppastólunum.
Lestur hressir haus á blók
jafnt heima sem í skólunum.
Nú verður ekkert aulamók
yfir símatólunum.

 

 Geimfaravísur

Flaug um jörðu fór á braut
flutti með sér cosmonaut
Sælan mjög með sama bát
sá ég fara astronaut.

Útum glugga garpar þeir
glápa núna báðir tveir
sárt finnst þeim að saurgi jörð
sundurorða mannkynshjörð.

 

Fuglarvísur í bústaðnum

Skógarþröstur kringum kjarr
krafsar einsog mýslan
uns á grein hann ber sitt barr
blessuð hrísihvíslan.

Hrossagauk ég hrek í rugl,
hann er stressuð týpa.
Mér er kærri friðsæll fugl
fjarlæg mýrisnípa.

Þó svo veður komi kyrrt
kvikstélurinn fýkur
fær upp margan molann hirt
máríerlu líkur.

Fuglamergðir margir sjá,
meira aðrir greina
telja þúfutittling grá-
tíslu klára’ og hreina.

Út til hliðar held ég mér
hrekkjum orðinn vanur
oft er víst í veröld hér
vatnarjúpan svanur.

Falleg nöfn með fögrum hljóm
fuglar einatt bera
ekkert nema nöfnin tóm
nokkrir reynast vera.

Aldrei sjá nú augu mín
oní skurði fara
lækjarkráku, keldusvín
kofra, rindilþvara.

Fjölda nafna fugl oft ber
flúgandi um sveitir
man svo einn með sjálfum sér
sjaldnast hvað hann heitir.

 

Krákur í Göttingen
 
 
Fugl sem ekki þekkir þú
þörf er á að nefna.
Einhver corvus krunkar nú. 
Kannski það sé hrefna.  
 
Öruggt heiti eða nafn
er svo gott að hafa.
Krákan þarna! Hún er hrafn.
Hann er það án vafa.
 
Svarblár goggur, svarblár haus
svarblátt stél og vængur;
gikkur sá með garg og raus
gæti verið blængur.
 
Margur furðufuglinn hér
fíflast eins og strákur
ef hann stríðinn þykir þér 
þá er fuglinn krákur.
 
 

Fuglavísur í Göttingen

Milli trjánna skjórinn skýst
skrafar margt við heiminn.
Ég sit kjur en jörðin snýst
jákvæð mjög og dreymin.

Svartþröst einn með gulan gogg
garðálfarnir mana.
Ég les mæðið moggablogg
mest af gömlum vana.

Flotmeisan sem fræið tók
fer og kemur aftur.
Ég held að með bók og bók
berist undrakraftur.

Krákan iðkar krákuhopp;
krákustígagaman.
Ég á rauðu stend oft stopp,
stundum dögum saman.

Kirsuberin borða enn 
brúnu gráspörvarnir.
Ég græt einn því innri menn
úr mér virðast farnir.

Yfir mæninn margoft sjást
múrsvölungar þjóta.
Ég með hægð vil hafa ást
heima til að njóta.

Þegar frelsið flýgur greitt
fagurt er í heimi.
Ég flýg sjálfur naumast neitt
nema þá mig deymi.

 

Fuglavísur á degi íslenskrar tungu í Göttingen

Ísaland við lægðarugl
löngum getur rifist.
Kulvís eða feiminn fugl
fær þar aldrei þrifist.

Íslenskan er annað mál,
öllu vænna svæði;
dreymi vængi draumasál
dafnar allt í næði.

Íslenska á undrin spræk
inní gróðurlundum.
Þar á greinum skjór og skræk-
skaði leynast stundum.

Oft í málin krækir klóm
krákan fingralanga
lætur ekki orðin tóm
ein í lofti hanga.

Úr því veður vill í bland
væntingarnar rugla
íslenskan er óskaland
ævintýrafugla.

 

Matarvísa

Súpukjötið seigt og feitt
sælkerarnir tyggja
meðan grjónagumsið eitt
grænkerarnir þiggja.

 

Lífstykkjasálmur 

Í lífstykkjabúðinni lífstykki fást
sem lífstykkjaáráttu magna.
Ef lífstykki kær í þeim lífstykkjum sjást
margt lífstykkið rís til að fagna.

Af lífstykkjaákafa lífstykki slá
í lífstykkjabrjóstunum ungu
og lífstykkjahamingju lífstykkin tjá
með lífstykkjum íslenskrar tungu.

Við lífstykkjaþrengingar lífstykki kvelst
og lífstykkjafjarveru heitir
en lífstykkið sanna það lífstykki telst
sem lífstykkjafyllingu veitir.

Allt lífstykkið vegsamar lífstykkjaheim
og lífstykkin himnarnir mæra:
Á lífstykkjahnetti í lífstykkjageim
skín lífstykki, sólin vor kæra.

 

Erindi klaufans

Engan bolta get ég gripið,
gáfa mín telst einkum fipið.
Fær ég er við flumbruganginn;
flaustrið æfi hvergi banginn.

Ég hef misst og mölvað bolla;
muni læt ég hvergi tolla;
fum er hjá mér fastur liður,
flestu get ég sullað niður.

Ef um verk mín aðrir þegja 
eitt mér sjálfum ber að segja,
best mitt eigið basl ég þekki:
Betri klaufar finnast ekki.

 

Afmæliskveðja til Bobba

Ævin hjá Bobba er endalaus túr
aldrei fæst pása og varla neinn lúr
takmörkin lítil á tiktúrum hans
talsvert það reynir á athygli manns.

Æði er stíll hans og mótsagnamergð 
margt spilast aftur í framandi gerð
hvergi í draumum sést útgönguátt
ekki’er þó myrkur en verður það brátt.

Ætíð ég vakt’ann og fylgi hvert fet
feykst enn með honum í vindinum get
vona þó bara að veðrið í dag
verði samt afmælisbarni í hag.

Hafðu nú karlinn minn hammó frá mér
hamingjuvaktarinn fylgist með þér.

 

Kvæðið mitt um Grímsa grallara

Ef fólk er með grímu þá segir það satt
en sýni fólk andlitið breytist margt hratt.
Sú persóna oftast í einlægni sveik
sem aldrei nam hlutverk í þykjustuleik.

Ég lítið sem ekkert í liðinu skil
sem leitar hér sjálfs sín þó vart sé það til
því skynsamlegt væri að skapa sig fyrst
og skapa svo hluti og allskonar list.

Með revíubrellum er brallað svo margt.
Í boði er ótvíræð heimsmyndin vart
en gjarnan það tengja má heilindum helst
sem haldið er skáldað og upplogið telst.

Á stundum svo kómísk mörg staðreyndin er
sem stílfærð í trúðslega búninga fer
en hafi fólk grímu þá segir það satt
og sannindum grímulaust á þig fær att.

 

 

Antons-heilkenni

Læknavísindin tala um að manneskja þjáist af Antons-heilkenni ef hún er blind en þó sannfærð um að hún sjái.

Ég rek mig oft á harðan heim,
á hurðir, borð og stóla,
en lært hef fátt af lemstrum þeim
í lífsins stranga skóla.

Ég forðast það sem fjöldinn sér
en furðuverk hef kannað.
Ef staðalráð vill stýra mér
ég stefnuna tek annað.

Ég skynja eflaust rangt sem rétt
og ráfa um í blindni,
samt blekkir alltaf lundin létt;
mitt líf er prívat fyndni.

Ég virði hvorki vanans norm
né veruleikans ósið
en birtist mér þín mjúku form
í myrki sé ég ljósið.

 

Raulað í lægðinni

Úti þessi líka lægð
og líka hérna inni:
Mér sýnir leiðinn litla vægð
þótt litla eirð ég finni.

Öllu ræður eymdin hér
svo ekkert hjá mér gengur.
Ég niðrí rúmið nudda mér
og nenni engu lengur.

Verði sútin söm og jöfn
er sælt að yrkja vísu;
því fylgir bara fyrirhöfn
að farga sér í krísu.

 

Sjúkrahúsvísa

Trist það verður tæpast sagt
tilbreytingaleysið
meðan hjarta mætt á vakt
mónótónískt slær sinn takt.

 

Trylltur útí tunglsljósi

Einsog gögn í gígabætunum
við geysumst eftir strætunum
en keyrum inn í kjallara
í kyrrð og annað snjallara.
Stillum okkur augnablik og stöðvum mótorfák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.

Fljótt við eyðum öllum peðunum
sem arfanum úr beðunum
en ráðist svo fram riddari
mun ráða við hann yddari.
Stillum okkur augnablik og stöðvum mótorfák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.

Nú stend ég stjarfur útvið skóg.
Það streymir hér af álfum nóg.
Í tunglsljósinu tryllist ég, í töfrabirtu villist ég.

Ég tek sprell og spé við hrókana
og spara ekki djókana
en heilsi hún mér drottningin
þá heltekur mig lotningin.
Stillum okkur augnablik og stöðvum mótorfák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tökum eina skák.
Tyllum okkur augnablik og tökum eina skák.

 

Ein lítil hjúskaparvísa

Þótt vilji engar Jónur Jón
oft Jónar hafa gaman;
það tíðkast jafnt að hjónur, hjón
og hjónar búi saman.

 

Kveldúlfsvísur

Erfitt líf er oft til sjós.
Uppí sveitum daunillt fjós.
Borgarlíf og bjór frá hrós
beint úr krana eða dós.

Löggur gjarnan góma fólk.
Grunsemd vekur blómafólk.
Siðað land og sómafólk
seint mun vilja róma fólk.

Fyrir glæparitið Rof
Ragnar J. hlaut mikið lof
spennan varð mér einum of
ekki fékk ég mikið sof.

Lífið allt er eintómt blöff
ósköp finnst mér það nú töff
þarf samt ekkert aukastöff
ef ég bara fæ mín köff.

 

Söngurinn um brunaliðið

Þótt öllum lýðnum ljóst sé að
hér logar mikill eldur
þá spyr samt enginn hvað sé hvað
né hvað sé það sem veldur.

Liðið húkir hér og þar
og hefur fátt að gera.
Aldrei veit neinn hver er hvar
né hvar hann á að vera.

Svo þæg og hlýðin þegjum við
og þannig öllu björgum;
það berst við eldinn brunalið
með bensíndælum mörgum.

 

Fossavísa

Er ofan af klettum ég kíki
á kraftinn í fossanna ríki
fær lotningin mál
í lítilli sál
með lýriska vatnsorkusýki.

 

Lúser með afbrigðum

Ég var alltaf viljugur lúser
til volæðis ennþá ég fús er
og hóa í þig, æ hlustað’ á mig
þá heyrirðu loksins hvað blús er.

Það er eins og ekkert sé
öruggt nema hvorki né.

Ég þrái svo mikið og meira
af mörgu og ef til vill fleira
sem lumar þú á, mig langar að fá
æ lofðu mér af því að heyra.

Ég veit allt mun fara til fjandans.
Ég fordæmi bjartsýni landans.
Svo hefi ég mælt og hugsað og pælt
eitt heilmikið stórmenni andans.

 

Þrjár fótboltavísur

Ég stoltur hlæ og hlakka til
að hlaupa út á völlinn;
ég hrollinn úr mér hrista vil
í hressum leik við tröllin.

Mitt helsta kikk og kappsmál er
að komast inn í teiginn.
Þar kannski allt til fjandans fer
en fer þó einhvern veginn.

Ég lífsins deild hef leikið í
og lært að vera digur:
Ég tel það víst og trúi því
að tap sé líka sigur.

 

Aldreivísur

Aldrei þú mig súran sérð
sífra yfir neinu
meðan ég í morgunverð
maulað get á kleinu.

Aldrei lengi leiðast mér 
lög og reglugerðir
undanþágum hampa hér
heima lagaverðir.

Aldrei hef ég fundið frið
fyrir innri kvölum;
allt mitt líf er eins og bið
eftir fyrstu tölum.

 

Hagyrðingur kveður erlendis

Logn er úti, inni rok;
einhver virðist feillinn.
Ég fékk eitthvað upp í kok
Enska var það heillin.

Þó svo alls sem eignast má
utanlands ég njóti
hugur minn er heima á
hagyrðingamóti.

Þar má heyra höfuðstaf
heilsa stuðlum líkum.
Ekki veitir veröld af
vinarhótum slíkum.

Fæstir standa rétt í röð,
reglu enginn greinir;
fella allt í ljúfa löð
ljóðstafirnir einir.

Hratt fer út um víðan völl
vaðall okkar tíma.
Minni er þó mæðan öll
meðan orðin ríma.

Heiminn bæta Hugrún mín
hagyrðingakvöldin.
Víðar mættu guð og grín
gjarnan hafa völdin.


Einhver Jónsson raular morgunsönginn

Ég er síðasti karlinn í kotinu
með kvölum ég vakna úr rotinu.
Ég man hver var syndin:
Ég meig upp í vindinn.
Æ, æ, æ og aftur æ!
Ég vil ekki gráta, verð samt að játa.

Ég á mínar skvettur og skinnsokka
en skeggið, það veitir mér kinnþokka.

Ég er friðsæll og verðskulda virðinu
og vil hvorki handjárn né girðingu.
Þið trúið mér ekki.
En tregann ég þekki.
Æ, æ, æ og aftur æ!
Fyrr vildi mig svona voða fín kona.

Ég á mínar skvettur og skinnsokka
en skeggið, það veitir mér kinnþokka.

Ég er skáld og mig faðma vill framtíðin
en fráhverf og önug er samtíðin.
Ég lifa vil núið
En líf mitt er snúið.
Æ, æ, æ og aftur æ!
Það skilur mig enginn, skælandi drenginn.

Ég á mínar skvettur og skinnsokka
en skeggið, það veitir mér kinnþokka.

 

Bjórvísa í Berlín

Þann eið ég strax sem strákur sór
að stunda aldrei mikið þjór
en ef ég fæ mér barnabjór
í Berlín má hann vera stór.

 

Drög að bardagakapparímu

Einn kappi fór í feikna at
og fékk þar margt að stússa
með beinni vinstri vankað gat
hann voðalegan rússa.

Þá nóttu glumdu húrrahróp
sem heyrðust enn í bítið
og þreyttu mjög hinn þögla hóp
sem þótti atið skrýtið.

En kappinn hét því klár og hreinn
að keppa oft í þessu
uns sá hann blörrað birtast einn
sem barði hann í klessu.

Nú liggur hann og hugsar sitt:
Er heilinn minn í lagi? 
Er slagur eina markmið mitt?
Fær munúð eitthvað vægi?

Það mætast stundum strákar tveir
og stæla sína kroppa
en verst er hvernig vilja þeir
oft vitleysuna toppa.

Ef berir karlar koma á mót
og keppa um fyrsta sæti
þeim hæfa betur blíðuhót
en barsmíðar og læti

Á stundum sigrar fræknir fást
við fálm í kærleiksblossa
þá oft er veitt í verðlaun ást
og vinarklapp á bossa.

Æ bjóðum núna bara pass
við blóði drifnum glímum
og hyllum frekar frygðarkjass
á fjandsamlegum tímum.

 

Gamalt huggunarkvæði

Staðan var tvísýn og maður á mann.
Markvörður okkar í skinninu brann.
Úrslitasekúndan upp loksins rann:
Ísland var betra, en Noregur vann.

Ástina vestur á fjörðum ég fann.
Framtíðin yfirgaf landshluta þann.
Útrás var málið og útrás með sann:
Ísland var betra, en Noregur vann.

Löngun í afrek mér lygavef spann;
líf mitt og tilvera festust í hann.
Eftir það spakmæli ágætt ég kann:
Ísland var betra, en Noregur vann.

Heimsmyndin er einsog skerpulaust skann,
skilninginn setur í nálgunarbann,
skýrari virðast þau orð sem ég ann:
Ísland var betra, en Noregur vann.

 

Haustórar

Andófsbylur úti hvín
upp á gamla móðinn.
Þylur æstur orðin sín.
Engin skilur ljóðin.

Allir hafa illan grun,
eftir hausti bíða.
Senn er komið hrímkalt hrun,
horfin uppgangsblíða.

Sigga litla systir ku
sitja útí götu
sojabaun og möndlumu
mjólkar hún í fötu.

Títt er um það talað hvort
tíðin sé nú betri;
kindarlega kynið vort
kvíðir hlýjum vetri.

Hlaupin eins og hlaupatík
hleypur labradorinn,
ég tek eins og liðið lík
löturhægu sporin.

Ég fæ ekki hætis hót
hikað núna tegur
yfir lífsins leggjabrjót
liggja skal minn vegur.


Fyrirlestralimra

Ég kemst oft á kraftbendilssýningu
og kætist við sérfræðirýningu
en pæli þó mest
ef passlega sést
í prófessorsermi og líningu.


Kvæðið um Harriet

Það hefur kvisast furðufrétt
og flýgur um sú kenning
að heiti stúlka Harriet
þá hrynji íslensk menning.

Hér nöldra fremur napra spá
tvær nornir, Hefð og Regla,
sem brosa lítt en bara þrá
að beygja þig og negla.

Oft greiðir för það ferilspil
að falla inn í kerfið
þú verður annars varla til
og vegferð þín gerð erfið.

Það fréttist margt svo furðulegt
svo fáránlegt, svo skrýtið,
margt gamalt úrelt gerist frekt
samt gildir það svo lítið.

En sagan verður sönn og skýr
um síðir birtist endir
því heillaóskir heimur nýr
til Harrietar sendir.

 

Hringhend vísa

Svör ég tef því ótal ef
ákaft nef mitt þefar;
bara slef úr hundi hef
handa ref sem þrefar.


Ég vil fá að kjósa

Eitthvað gleymdist, gat nú skeð,
garga ég og pósa:
Hér er ég og ég er með.
Ég vil fá að kjósa.

Fljótin æða, fussumsvei,
fram til sinna ósa.
Ég vil meta Já og Nei.
Ég vil fá að kjósa.

Röfli menn, af rugli þeir
reynast gegnumsósa.
Ekkert japl og jaml þarf meir.
Ég vil fá að kjósa.

Sumir herrar hérna í
hroka óverdósa.
Ég kann illa jukki því.
Ég vil fá að kjósa.

Okkur hæfa ólík nöfn,
Ásgrímur og Rósa,
en við teljumst jafnan jöfn.
Ég vil fá að kjósa.

Valdataflsins vonarpeð
vilja sigri hrósa.
Hér er ég og ég er með.
Ég vil fá að kjósa.

 

Óvissuvísa

Spurull vil ég vita hvar
verði næsta krísa.
Án þess neitt að orða svar
endar þessi vísa.


Erindi varðandi bindi

Ef nú þarf að þinga um
þjóðar hag og yndi
gagnast meir en hik og humm
hávær reynslubindi.

Þótt hér ávallt efans þý
undir deilum kyndi
sefar fólkið fussið í
föðurlegu bindi.

Það er oft sem einhver hér
oní polla hrindi
heilli þjóð sem þjökuð sér
þróast talsverð bindi.

Þótt hér oft um þrútinn sjá
þjóðin trufluð syndi
reddast hún með reynslu frá
ráðagóðu bindi.

Ráðvillt þjóð um þjóðarhag
þinga má í skyndi
öll sín mál ber enn í dag
undir pung og bindi.

 

Fyrir norðan Norðurpól

Hvar fær aumur skríllinn skjól?
Skálkar staðinn kynna:
Fyrir norðan Norðurpól
næðir alltaf minna.

Margur drauma ungur ól
elskulega Hulda.
Fyrir norðan Norðurpól
norpa þeir í kulda.

Þar sem allir eiga jól
eru gildin hlaðin.
Fyrir norðan Norðurpól
nefna margir staðinn.

Enginn þarf að þrífa ból
þjást né svangur líða.
Fyrir norðan Norðurpól
nægar dýrðir bíða.

 

Ferðbúinn

Ég frestað get ferðalagskvíða
því færðin er sögð vera betri.
Svo létt skal hver mínúta líða
og líka hver kílómetri.

Ég finn samt til kjánalegs kvíða
sem kallar á skýringar betri:
Hvað er ein mínúta lengi að líða?
hve langur er kílómetri?

 

Þorláksmessuerindi

Mörg hetja er í Þorlákssælu sólgin
og situr römm til borðs með augu bólgin.
Þar er á diski mikil munúð fólgin
sem mætast skatan kæst og hamsatólgin.

 

Þrjár djassvísur

Fram úr rúmi trekk í trekk
mig togar einhver kraftur
ég lifi síðan villivekk
uns velt ég niður aftur.

Það er svona hipsum haps
með hamingjuna mína
þótt yfirleitt hjá Alice Babs
sé allt í þessu fína.

Ég verð aldrei bommsí bomm
en brosi ef ég nenni
og mun svo loks einn daginn domm
í djassinn fylgja henni.

 

Ég um mig frá mér til mín

Ég tilheyri hreint engu landsfundarliði
og lít ekki á mig sem eitthvað úr viði
mér finnst líka vonlaust að vera í þiði
en vitund mín breytist af sífelldu iði.

 

Eitt skondið kvæði um geithafra

Heyrðu núna nafni minn,
einn næmur hafur brækti,
hnífinn brýnir búandinn
og best hann okkur sækti.

Hnífinn brýnir búandkarl
og báða okkur étur;
forlög grimm hér fá nú snarl
því forðað enginn getur.

Forlög grimm hér fá nú sitt
svo formlegheitin dafni,
munum nú að hafa hitt
í huga kæri nafni.

Munum nú að hafa hér
í heiðri frjálsa valið:
Ef að þykkjan þóknast mér
ég þykkjuna hef alið.

Ef að þykkjan þóknast ei,
nú þá er sopið kálið;
þreyttur dreg ég þungann, svei,
en það er ekki málið.

Þreyttur dreg ég þungan vagn;
ef þrumuguð mun ná fram
hafrar teljast gera gagn
og geta lifað áfram.

Hafrar teljast gera gott
þeim gagnast engin borgun,
fara jafnvel étnir brott
og jafna sig á morgun.

 

Jólaregn

Þótt klaka fólk um byggð og ból
af böli einkum fregni
þá koma aftur kærleiksjól
með kæru jólaregni.

Þótt verði nú hið versta ár
og vinnu fáir gegni
þá gleymist börnum bankafár
í blíðu jólaregni.

Ó megi þjóðin þrauka enn
og þiðna eftir megni
hún frið og sælu finnur senn
og fagnar jólaregni.

 

Skýringar í flóðinu

Ég gæti sagt: Það voru mistök mín
að minnast ekki strax á leka kranann
því jafnvel hávært plask og dripp allt dvín
ef dropinn nær að leka inn í vanann.

En hvað um það, nú magnast mikið flóð
og miklir lækir niður stiga renna
og þó að finnist skýring gild og góð
þá getur ýmsu verið um að kenna.

Ég hélt jú stundum poppuð patrý hér
en pípararnir voru samt að slugsa
og Guð sem vakir ávallt yfir mér
hvað eiginlega var sá gaur að hugsa?

Pin It on Pinterest

Share This