Hálfgerðir englar og allur fjandinn

Limrutilbrigði við dauðasyndir

1. Hroka- og derringslimrur

Grandalaus morgunhani

Öll þjóðin hún gefur mér gætur.
Mig grunar að ég þyki sætur.
Ég lifna sé við,
allt landið og mið,
um leið og ég dríf mig á fætur.

Baldur magister mælir fyrir um legstein sinn

Ég léti mér líka sem nár
þótt legsteinninn minn yrði blár
og fagnaði hlyti
hann fjölbreytta liti
svo fremi hann endaði grár.

Anna Lísa heldur fyrirlestur í hússtjórnarskólanum

Því litla sem Guð manni gaf
skal gorta sig óhikað af.
Það hljómar sem skrýtið
en hógværð um lítið
er hroki og drýgindaskraf.

Spenna undir niðri í gleðigöngu

Ég pósa sem drottning og dama
í dressi og síst veldur ama
þitt stílfærða spé
að strákur ég sé.
Mér stendur hið innra á sama.

Lítilsvirt prentvilla öðlast hlutdeild í eilífðinni

Þótt lesendum geri ég gramt
í geði skal stoltið mér tamt
og víst telst ég skaði
sem villa í blaði
en villa í Mogganum samt.

Hulda mín leysir af sem birgðastjóri hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar

Að hagræða hlutum er brýnt;
ég hef á þeim skipulag fínt.
Á lagernum tóma
er lífið til sóma
og leitun að því sem er týnt.

Járngerður matráðskona í eldhúsbílnum kjaftstoppar göngufólkið

Ef sjóða skal sjálfdauðar ær
í sérstakan pott fara þær
sem brytarnir græja
en bomsurnar nægja
ef barasta sjóða skal tær.

Lúlli vinur gerist kóngur um stund

Á loðið og lágvaxið hross
legg ég minn hnakk og verð boss:
Með réttu ég sjálfur
á ríki og álfur
ef ruglar mig smávegis hoss.

Hyggni ráðgjafinn

Hvað ég ætla og vona og vil
ég veit svei mér ekki og skil
enn síður hvað veldur
og set mér því heldur
að segja þeim rugluðu til.

Nonni þó á eintali við Baldur magister

„Svo hissa ég höfðinu sný:
Við heila er kvenþjóðin frí.“
„Sá vandi er slunginn,
þær vantar sko punginn
sem vant er að geyma hann í.“

2. Ágirndar- og græðgislimrur

Bíbí straujar angistina

Alltaf svo kokhraust á útsölur fer ég
þó ergir mörg summan, það sver ég
– en korti ég veifa
það kvíðann vill deyfa:
Ég kaupi og þess vegna er ég.

Engar afsakanir í vanskilum

Það tekst oft með tækni að hanka menn
því tilboðum frábærum jánka menn.
Ég skil þetta vel
sem skuldirnar tel
og skúrkana þekki sem banka menn.

Júlí að norðan í Víðidalnum

Ég skil vel að gleðjist nú gumar
við grillið með sveppi og humar
og kaldranann hér
þeir klæði af sér
því komið er hávaðasumar.

Léttir í leikskólanum

Nú birtist það blessaða vorið,
og burt fer úr nebbanum horið
þá hljóðnar allt pex
en hláturinn vex
og hleypt verður fjöri í sporið.

Lúlli vinur freistar gæfunnar í Smáralind

Þau kort öll á kassanum taka
en klókur ég seðlunum blaka.
Í verslunum má
oft vextina fá
ef vitlaust er gefið til baka.

Bráðlátur vinningshafi

Ég lifi sem höfðingi hátt,
fæ happdrættisvinninginn brátt!
– en bölva svo einu
með betlið á hreinu:
Að bíð’ ekki fram yfir drátt.

Beggi Stínu fer um Hálfdán í hauströkkrinu

Tvílráð er trú mín á heiðinni
en treysta má sjálfrennireiðinni.
Ég bensínið gef
í botn en ég hef
samt bremsurnar niðri í leiðinni.

Stundakennari í hagfræði ályktar um úthald og aflabrögð

Þeir liðtæku hlutinn sinn hljóta
og hlunninda ágætra njóta.
Við færið er glatt;
hið fornkveðna satt:
Þeir fiska sem róa með kvóta.

Lúlli vinur sér ljósið í kreppunni

Víst kemur, ef nánar menn kanna,
með kreppunni hamingjan sanna.
Það glatast margt drasl
en gjaldþrot og basl
er gósentíð bölsýnismanna.

Lúlli vinur gerist metrósexúal

Karlmannlegt klúður vill há mér
svo krullujárn þarf ég að fá mér.
Ég hressist í vetur
ef hugsa ég betur
um hárin í nösunum á mér.

3. Öfundar- og afbrýðislimrur

Sérstakur áhugamaður rannsakar málin og leysir gátuna

Minn grunur að grannanum beindist.
Margt gruggugt í fari hans leyndist
og sönnun ég fann
því sekur loks hann
um sakleysið algera reyndist.

Passíusálmainngangur

Um svikin, um píslir og pakk,
um Pílatus, Júdas og makk
þú, drottinn, varst hljóður
en djöfulli góður
að deyja samt fyrir mig, takk.

Kantmaður

Ég læt mér um lífsreglur annt
og lifi því mest upp á kant
við nákvæmnisbjálfann
og nördinn, mig sjálfan,
sem normin vill skoða of grannt.

Íslensk góðkunningjalimra

Þú færð aldrei sakleysið sannað
þótt sérhvert þitt spor verði kannað
því siðvenjan er
að sekur telst hver
uns samböndin vitna um annað.

Blendin fagnaðarlæti

Þegar ég rímurnar rappaði
með rytmanum salurinn stappaði
og barfólkið kátt
það blístraði hátt
en bara sá einhenti klappaði.

Þúsund mínútur á færibandinu

Mér finnst eins og nú þokist nær
það nú sem að áður var fjær
svo nú fæ ég kannað
eitt nú sem telst annað
en núið sem var hér í gær.

Gamall félagi rifjar upp samböndin

Ég var aldrei valinn í liðið,
það vildi mig enginn á sviðið;
en Kristur var memm
í KFUM –
hann kemur mér innfyrir hliðið.

Einmana sjálfboðaliði hringir óvænt í vinalínuna

Hér stend ég í stanslausu puði.
Ég sting upp í mannkynið snuði.
En vinn allt á laun.
Þið viljið í raun
fátt vita af mér, henni Guði.

Helgir dagar í athafnalífinu

Ef nóttin er nöpur og dimm
þá nagar mig tilveran grimm
en dagarnir líða
án drunga og kvíða
með Dolly frá níu til fimm.

Haust í Þingholtunum

Það komst eitt sinn kenning á sveim
um kyrran og laufgrænan heim.
Af rigningum barið
er reynitréð farið
að ryðga í fræðunum þeim.

4. Reiði- og ólundarlimrur

Einelti af verstu sort

Ég margsagði: Þekki ég þig?
við þrjótinn sem reið mér á slig.
Ég spenntist af stressi
er spjátrungur þessi
úr speglinum glápti á mig.

Spakur að vanda gefur Baldur magister ráð í fjármálakrísu

Ef miðlarar markaðsins falla
á miðla í staðinn skal kalla;
margt falið þeir sjá
og fólk þarf að ná
í framliðnu bankana alla.

Sjálfstætt starfandi álitsgjafi í vettvangsferð

Af vonbrigðum víbrar allt hverfið
því verðbólgan reynist svo erfið.
En langi nú fólk
í lítra af mjólk
það lofsyngur raðgreiðslukerfið.

Septembermorgunn á Skólavörðuholtinu

Það blæs nú af ruddaskap rokið
svo reyndar er mér öllum lokið;
hér skelf ég sem strá
og skiljanlegt þá
að skuli í mig geta fokið.

Skapstilling í Keiluhöllinni

Þegar ég kúlunni kasta
að keilunum engan ég lasta
þótt straumar frá þér
– stjaki við mér.
Þar standa þær. Punktur og basta.

Anna Lísa á vísindavefnum

Ég spurt margan spekinginn hef
úr spjörunum: Til hvers er nef?
Þeir hrylla sig bara
og hnerrandi svara:
Svo hægt sé að vera með kvef.

Nonni þó trúr yfir litlu

Ég þyki víst nettur að neðan
og nánast því aldrei hef séð ‘ann.
Ein frauka var hér
að fikta í mér
og flísatöng hafð’ún á meðan.

Óvæntur gestur úr fortíðinni

Það gleymdist í fataskáp frakki
sem fékkstu í jólagjöf krakki.
En kvöld eitt í haust
þú kjaftshöggið hlaust:
Hann kom út úr skápnum sem jakki.

Pottþéttur pragmatisti

Það sat maður í mannætupotti
og mælti um leið og hann glotti:
Víst sýður í mér
en sannleikur er
að sokkunum veitt’ ekk’ af þvotti.

Anna Lísa hittir samferðafólkið á opnum borgarafundi óvirkra í Ölkjallaranum

Það örlar á fússi í fasinu.
Um fjandann er losnað í masinu.
Já, tíðin er breytt,
fólk töluvert heitt
og tekið að hvessa í glasinu.

5. Leti- og dugleysislimrur

Iðjuþjálfinn Sísí Fors í svefnrofunum

Í bæli er bannað að slóra,
enn bíður mín hlutverkið stóra,
öll vinnan í dag
og vaninn, mitt fag,
og verkefnið mikla að tóra.

Skammdegismorgunn í Leifsstöð

Ef birtist með vetrinum vandinn,
mun viturlegt ráð, segir landinn,
að stelast á brott
í strandlífið gott
og stinga þar hausnum í sandinn.

Frjálslegur andi á ritstjórninni

Ég sannleikann set niðrá blað
ef samviskan býður mér það;
hún kvelur og meiðir
en kaupið mér greiðir
sem kemur í óvissu stað.

Bíbí ákveður að drífa sig á fætur

Ég varla fæ breytt mínum vana nú.
Útí vitleysu nýja ég ana nú
því aldrei skal hikað
við óráð né hvikað.
Ég er bara svona og hananú!

Hulda mín á góðum degi í Hólminum

Það ágerist einkennaleysið;
ófötluð geng ég um pleisið.
Allt virkar svo flott
og veðrið er gott
en volæðið hreint ekki beysið.

Guðmundur eilífðarstúdent ver doktorsritgerð sína á Næsta bar

Við fræðimenn reynda ég ræði
um rannsóknir mínar í næði;
þó kvelst ég og brenn
því kaos mun enn
mín kenning og aðferðafræði.

Lúlli vinur eftir þriðja bjór í óvissuferðinni

Það svíður að mig enginn meti
þótt maður sé frískur og geti,
ef djobbi ég tek,
sýnt dæmalaust þrek
og dugnað við framkvæmd á leti.

Iðrandi vinnuþjarkur

Á vinnu- og verkefnafundum
mín vitund og ég sosum undum.
Nú jarm þess er trist
sem jafnvel gat misst
af jarðarför sinni á stundum.

Gamall trabbi lítur yfir farinn veg á 17. júní

Menn álíta andvörp mín hátíð
því afrekin segja þeir fátíð.
Það álit er hart.
Ég afreka margt
en einkum og langmest í þátíð.

Nonni þó grípur mækinn og fjallar um stöðu sína í samfélaginu

Ég sannlega sagt get hvað blús er
því sérhæfing mín er sko lúser;
þótt vinning ég fái
og velmegun sjái
til volæðis ávallt ég fús er.

6. Munúðar- og lostalimrur

Anna Lísa fílósóferar á snyrtivörukynningu í Debenhams

Ef velja skal varalit gilda
varfærnir litir sem milda
og róandi telst
sá rauðasti helst
því rautt merkir stöðvunarskylda.

Tröllasaga að austan

Í fangið á ferlegri skessu
reið fjallkóngur vor eftir messu.
Hún blessaði það
en bóndi, hann kvað:
Ég botna nú ekkert í þessu.

Lúlli vinur útnefnir besta hjálpartæki ástarlífsins

Með ástarlífs tækjum og tólum
má tryggja sér viðreisn í bólum:
Oft virkar það eitt
ef vinan kveðst þreytt
að vera þá allur á hjólum.

Beggi Stínu leystur úr álögum

Ég fæ það í froskmannabúningi
hjá frúnni og uni þeim snúningi
því konan er þrá
vill krónprinsi ná
með kjassi og örvandi núningi.

Óvæntur sjortari á Suðurnesjum

Hann stamaði: Viltu einn stuttan?
Hún stundi þá: Komdu með guttann.
Og másaði fyrst
en mælti svo byrst:
Ég meint’ ekki litlasta puttann.

Veðurspá í Grafarvoginum

Nú líður mér þannig í lendinni
að lægð hygg ég vera í grenndinni,
sagði konan á túr
en karlinn varð súr
og kippt’ undan pilsinu hendinni.

María Júlía andvaka og ástarþurfi á hótel Norðurljósum

Hjá þér get ég dundað á dýnum
í draumheimi mjúkum og fínum
og gæfi mig skjótt
að gleði í nótt
ef gleymdi ég hrotunum þínum.

Draumkonan ávarpar Nonna þó

Ef lobban er lufin og beik
en laturinn giðar um neik
við gelúðugt spæði
hjá glúbíða tæði
fær gotíran belandi speik.

Kosmískar sveiflur

Öll sólkerfin glitra og glansa
því gleðin vill hreint ekki stansa;
í taktinum sæl
sinn tangó með stæl
þau Tunga og Snípur nú dansa.

Unga stúlkan og eldhúsverkin

Ef biðlarnir bónorðum flíka
er best fyrir meyna sem slíka
að gæinn sé vitrari
en G-blettatitrari
þá græjar hann uppvaskið líka.

7. Óhófs- og bílífislimrur

Geirþrúður rifjar upp helgarferð í Eden

Ég kallaði rósina rós
og rósunum á hana jós
því rósu skal kjósa
og rósinni hrósa
uns rósirnar koma í ljós.

Basic work-out undir morgunleikfimi útvarpsins

Það lúkka best kallar og kellingar
sem kyrr æfa liggjandi stellingar
því minna ber á
að mikli sig þá
við miðbikið óþarfa fellingar.

Nonni þó mætir á Voginn

Til ógagns var ofneyslan svert
því öllum má vera það bert
að hún ein er líknin
ef hófsemd er fíknin
og hófsemisfíkill þú ert.

Borðbæn í föstulok

Ég finn það á lokkandi lyktinni
að leggja má blessaðri vigtinni.
Við hátíðlegt smjatt
skal haft fyrir satt
að hamingjan mælist í þykktinni.

Vandræði í könnunarleiðangri

Jú, flest virðist Kringlunni flott í
og framboðið verslunum gott í
en blankheit mig hrjá
ég biðja þig má –
að bíma mig upp, kæri Scotty.

Baldur magister gefur út yfirlýsingu vegna fjárhagsstöðu sinnar

Mér leiðist hún, lausafjárkrísan.
Ég lystauka hvergi á vísan
því kampavínsfrír
og kavíarsrýr
er kosturinn: þverskorna ýsan.

Anna Lísa biður menn að fara varlega með orð

Þótt varúð sé viðhöfð í slúðrinu
þá valda samt orð mörgu klúðrinu:
Þær gellur má jarða
sem gráta með farða;
það getur sko vöknað í púðrinu.

Bíbí með útskýringar daginn eftir afmælisfund í saumaklúbbnum

Ég gærdagsins lexíu læri
og léttvínið alls ekki mæri.
Ég talaði hátt
og tafsaði brátt
þótt töluvert edrú ég væri.

Hulda mín í kraftgöngu á Egilsstöðum

Ég geng allan guðslangan daginn
af geðveikum krafti um bæinn
svo brosi ég móð
ef brennslan var góð
og brjóstin ná framar en maginn.

Óvæntur koss og eftirleikur

Í dinnernum Kata mig kyssti.
Mér krossbrá og andlitið missti
ég niður á gólf
en náði um tólf
að nudda því á mig og gisti.

Pin It on Pinterest

Share This