Handbók um ómerktar undankomuleiðir

Náttúra Íslands og ferðalög um landið eru leiðarstef í nýrri bók Antons Helga Jónssonar sem kom út í byrjun október 2020. Bókin inniheldur  ljóðsögu sem auðveldlega má sviðsetja í huganum eins og leikrit eða óperu. Holtasóley, klettar, lofthræðsla og gönguskór leika stór hlutverk ásamt fuglum, dýrum og fleiri náttúrufyrirbærum. Rammi sögunnar er annasamur dagur hjá ónefndri persónu sem bregst við áreitum umhverfisins með því að ferðast í anda til annarra staða og stunda.

Ósamkomulag við morgnunverðarborðið hjá pari sem þarf að staðfesta komu sína á ættarmót ýtir atburðarásinni af stað. Aðalpersóna sögunnar vill bíða með ákvörðun og fer til vinnu áður en niðurstaða næst en hugleiðir ýmsa aðra áfangastaði og ferðamögluleika fram eftir degi. Landið birtist í óvæntum minningabrotum þar sem grjót, jurtir og dýr ögra trekktri nútímamanneskju. Þegar líður á daginn nær parið aftur saman og heldur áfram að íhuga  ferðamöguleika.

Stundum er eina leiðin
til að komast af
sú leið að koma sér undan í huganum.

Á titilsíðu er verkið Handbók um ómerktar undankomuleiðir skilgreint sem líbrettó og þannig undirstrikað að um leik er að ræða, ljóðleik sem snýst um hugarferðalög í önnum hversdagslífsins. Með skilgreiningunni líbrettó er líka minnt á að lesandinn fær bara textann í hendur og verður sjálfur að leggja í hann merkinguna, skapa tónlistina og syngja. Bygging verksins styðst að einhverju leyti við „hefðbundinn“ þriggja þátta strúktúr sem oft einkennir bæði leikin og sungin dramatísk verk. Undirtónninn er alvarlegur en væntanlega geta margir notið verksins og jafnvel brosað út í annað á stundum. 

Handbók um ómerktar undankomuleiðir er níunda ljóðabók Antons Helga Jónssonar. Verkið var lengi í smíðum en einungis tvö af 58 ljóðum komu þó fyrir sjónir almennings áður en verkið allt birtist í bókarformi. Líkt og flestar fyrri bækur skáldsins kom þessi út undir merki Máls og menningar. Það var í byrjun október 2020. Vilji fólk fá hana senda heim getur það auðveldlega tryggt sér eintak með því að panta beint á vef Forlagsins.

 

 

 

Pin It on Pinterest

Share This