Rappið mitt í flugstöðinni

 

Við komumst ekki heim fyrir jólin.
Við erum stökk. Við erum föst.
Við komumst ekki neitt. Við
komumst ekkert heim þessi jólin.

Það er enginn á staðnum
sem veitir okkur upplýsingar.
Það talar enginn við okkur.
Það veit enginn neitt.

Áðan dúkkaði upp önug
kona í einkennisbúningi.
Hún úthlutaði miðum
svo við gætum fengið okkur að borða.

Smábörn gráta.
Unglingar geispa.
Gamalmenni segja ha.

Allt í kringum okkur eru gluggaveggir
en við höfum ekkert útsýni
það er myrkur fyrir utan
og við sjáum ekkert út um rúðurnar
horfum bara á okkur sjálf
þar sem við speglumst í glerinu.

Þarna stendur kona sem segir í sífellu
að hún skilji ekki neitt í neinu.
Þarna situr dama sem bólgnar út
af öllu sem hún keypti á útsölu.
Þarna húkir piltur yfir spjaldtölvu og hlær upphátt eins og fífl.
Þarna skálmar skáld milli sætanna
og hrækir frá sér djöfla.
Þarna flettir móðir upp peysunni
og gefur barni brjóst.
Þarna sefur bílstjóri
sem nauðgaði konu í Þórsmörk.
Þarna situr viðutan dulspekingur
og borar í nefið.
Þarna situr dólgur
sem á heimsmet í bjartsýni.

Þarna sit ég og horfi á alla hina.

Ég er bjartsýnasti maður í heimi
borða þunglyndislyf í morgunmat
þunglyndislyf í hádeginu
þunglyndislyf á kvöldin.
Ég hef samt mína veikleika:
Milli mála narta ég í kleinuhringi og slátur.
Ef ég kemst heim
þá fer ég í ræktina eftir áramótin.

Margra klukkustunda töf
og enginn veit neitt.
Margra daga töf og enginn veit neitt.
Margra ára töf og enginn veit neitt.

Alltaf öðru hvoru stendur einhver upp
og hrækir á næsta mann.
Þú er glæpamaður.
Þú ert dóni. Þú ert nauðgari.
Þarf ég virkilega að vistast undir sama þaki og þessi maður?

Nei. Við komumst ekkert heim þessi jólin.

Skúringamaður nálgast með vagn sinn.
Þekki ég þennan mann?
Viltu halda jól með mér, bakvið heiminn?

Ég er stökk og kemst ekki neitt
stökk í þessari flugstöð,
í þessari von,
í þessu vonleysi öllu.

Á miðju gólfi trónir sextugur bangsi
með vinalega ístru
og hlær sínum föðurlega hlátri
lætur ekkert koma sér úr jafnvægi
uns hann tryllist og missir alla stjórn
þegar fermingarstelpa
tiplar framhjá með beran nafla.

Um salinn gengur flandrari
sem starfar við að heilsa.
Hann þráir að deyja í embætti
og nýtur þess að skipuleggja útför sína.
Með handabandi
tryggir hann enn eitt nafn á gestalistann.

Í gangveginum stendur jakkamaður sem bað aldrei um já,
aldrei um nei.
Allir halda að þessi maður eigi peninga svo hann fær allt frítt.
Það er minkur í sálarlífinu.
Það er minkur í æðunum.

Gosdrykkurinn tilbiður guð sinn og deyr.

Ef ég kemst heim skal ég rökræða við storminn um öll mín hjartans mál.
Ekki vera neikvæður
eða segja neitt biturt og ljótt.
Ekki hlusta á annað en vandað
og vel orðað tuð.
Ekki segja að maðurinn í jakkanum
hafi lamið mig í æsku.
Ekki segja að maðurinn sem heilsar
andi oní hálsmálið á mér.

Skúringamaðurinn kemur aftur með vagninn sinn.
Siturðu hérna ennþá?
Sama hvað ég streða
þá fæ ég aldrei jafn mikið og þú.
Sama hvað ég hef það skítt
þá skal einhver hafa það verra.

Við eigum þetta land,
tónar maðurinn í jakkanum.
Við eigum þessa flugstöð,
tónar maðurinn sem heilsar.

Ég telst aldrei með þegar þeir segja við.
Ég telst aldrei með þegar þeir segja við.

Við.

Við erum rík en ekki ég sem safna dósum
Við eigum fiskinn í sjónum en ekki ég.
Við kaupum dýra bíla en ekki ég.
Við sjáum framtíðina brosa en ekki ég.

Við komumst ekki heim.
Við komumst ekki út.
Ég elska þessa flugstöð.
Ég hata þessa flugstöð.
Þessa flugstöð þar sem við erum föst.
Þessa flugstöð þar sem ég er stökk.

Það er ekkert við
þessi jólin.
Það er bara ég
ekkert við, bara ég, bara ég.

Draumurinn sem átti að sækja okkur kemst ekki í loftið.
Hugsjónin sem skipulagði ferðina er löngu orðin gjaldþrota.

Við komumst ekki heim fyrir jólin. Við erum stökk. Við erum föst.
Við komumst ekki neitt. Við
komumst ekkert heim þessi jólin.

Pin It on Pinterest

Share This