Hringurinn með útúrdúrum

Flugatvik í Dyradal

Hrafn átti við mig nokkur krunk
í Dyradalnum.

Hann uppi í klettunum.
Ég niðri á göngustígnum.

Allt í einu steypti hann sér af syllunni
flaug í áttina til mín, fór
hring í loftinu, sneri
kviðnum upp, opnaði gogginn.

Opnaði gogginn og gleypti loftanda.

Gleypti loftanda.

Það skil ég heima
þegar ég fletti upp í gamalli bók
sem útskýrir atferli hrafna.

Rain at Thingvellir

Í Reykjavík
skreið hundurinn undir sófa
tók ekki í mál að setjast
og heilsa með framlöppinni.

Sonurinn brást líka
neitaði að syngja fyrir útlenska manninn
og hér –
hér ætlar að vera sama þrjóskan.

Ó Kodachrome-Ísland
óskalandið
hvar ert þú?
Á Þingvöllum

Ég veit nákvæmlega hvar Ásgrímur stóð
þegar hann málaði Ármannsfellið.

Málaði hann ekki Ármannsfellið?

Einhver málaði Ármannsfellið.

Einhver stóð nákvæmlega hérna.
Ef ekki Ásgrímur
og ef ekki Kjarval
þá stóð hérna amerískur kvikmyndaleikari, nei
stóð hérna heimsfrægur gítarleikari, nei
stóð hérna japanskur ferðamaður
og tók mynd af fjallinu.

Ég stend í sporum hans.

Hekla

Óvanur útsýni til heimsfrægra fjalla
renni ég augum til Heklu
hinnar skapmiklu samlöndu minnar.

Ég kem á bæ en bóndi er að heiman
þotinn eftir hjálp við brotið drifskaft.
Ég snakka við húsfreyju um votviðri og sprettu
hún sendir yngsta krakkann með skræling í hænsnin.

Á hlaðinu núllar áttræður afinn
Mjólkurbílstjórinn lýgur í hann fréttum.

Niður heimkeyrsluna hugsa ég um fjallið
Brysti það þolinmæði hyldust túnin ösku
á löngum morgni.

Ég yrði fjarri en þættist heyja vel
í viðburðahlöðu mína.

Þórsmerkurljóðið

Það er nótt.
Það er kyrrt.
Enginn vindur. Engin María María.

Ekkert truflar næturfriðinn
nema hroturnar

þær stökkva um skálann
þær sveifla sér upp í kojurnar
þær naga sig í gegnum eyrnatappana.

Svo dettur á algjör þögn
eins og allt sé hætt
eins og loksins verði hægt að sofna.

Þá byrjar eitthvað aftur
en í þetta sinn ekki hrotur
heldur mannvonskan sjálf.

Ég á aldrei eftir að sofna
aldrei eftir að sofa.
Hér á ég eftir að liggja í hundrað ár.
Hér á ég eftir að liggja og rotna í hundrað ár.

Á Skeiðarársandi

Kvæði barnaskólans þoldi ég verst;
ónæmur fyrir skáldskap af utanbókarromsum.
Leit hornaugum þetta rómaða ættland
sem ekki varð séð úr kjallaraglugga.

En líka ég fer Hringinn nú í ár.

Og augun drekka sig full
af níutíuogsex pósent fegurð.

Samt efa ég að aki þessa leið
fólk er dreymi jötuninn í núpnum
samræður eigi við blóm eða steina.

Bryrnar tengja þjóðleið milli söluskála
og smábílar flæða yfir sandana.
Börnin dotta í aftursætum
uns kemur að straumþungu kóki.

Djúpivogur

Bakvið gluggatjöldin leynast augu
þetta pláss er sem önnur með forvitin tillit.
Allt virðist leika á meginásum lífsins
kaupfélagi, fiski.

Á hótelinu eru einhleypir karlar í fæði.
Aðrir kvænast innan við tvítugt
framleiða síðan á eigin kostnað
verðandi sjómenn og dætur.

Ef þokunni léttir sést píramídi
Búlandstingur
minnisvarði norræna konungakynsins.

Hér um slóðir má lesa úr hörundslitnum
að menn af ýmsu þjóðerni
vörðu stofninn gegn úrkynjun.

Undir hamrinum

Eitt hægt skref.
Annað.
Hægt skref.

Eitt. Og annað.
Eitt.
Og annað.

Þar til undirförul skriðan
nær ekki lengur til mín
með efasemdir og hrakspár.

Við hamarinn lít ég fyrst upp.

Skáhallt út úr berginu
teygir sig hvít hönd
og blessar yfir mig:

Klettafrúin.

Ég þakka lífinu.
Tvístígandi þakka ég lífinu hvert skref.

Hádegi á Þórshöfn

Fiskifluga suðar við eldhúsgluggann
en í útvarpinu sveltur Indland.
Togarinn Júní seldi í Cuxhaven.
Tóbak og brennivín hækkar.

Brátt má hún í stígvélin og hlaupa
slekkur undir hömsunum og lagar kappann.
Strákarnir ekki komnir í mat.

Annað kvöld spilar Amon Ra á balli.
Síðast var hljómsveit að vestan
og eilítið masgefinn vopnfirðingur laminn.

Drengirnir halda sig í fjörunni
leita að smásteinum og fleyta kerlingar.

Á lygnu daglegra anna skoppar hver og einn
til fjarlægari stranda spyrjast engar gárur.

Óvænt kvöldvaka

Undir miðnætti logar á kerti
utan við tjald í Hrafnkelsdal.

Allir viðstaddir bíða átekta
himinninn
dalurinn
þú
og ég.

Aldrei að vita
nema kyrrðin
hafi eitthvað að segja.

Dettifoss

Þú dettur ennþá Dettifoss
laminn niður af sálarlausu fljóti
bíður færis að rísa upp á háspennumöstrin
og flýja til byggða.

Ógæfulegur ertu
myndavélin drepur tittlinga við að sjá þig.
Mig snertu önnur vatnsföll dýpra
lekur krani
draup mér fyrrum andvökum.

Ég skoða víðfræg fjöll og ástsæla fossa
en hugsunin rennur í farvegi upprunans
borgariðunnar
og fuglunum læt ég það eftir
að yrkja lofsöngva utan vegar.

Á Siglufirði

Hér var aldrei skógur milli fjalls og fjöru
en í landlegum síldaráranna
þöktu siglutré fjörðinn.

Þá var eyðingin hvergi nálæg
gróskan ekki hlaupin í endurminningarnar.

Þegar reika um plönin
vinirnir Söknuður og Fúi
er vitanað í stóru köstin
munað
hvernig óðu torfur af röskum mannskap.

Smábær í herpinót skyndigróðans
úr brúnni stjórnuðu hverfulir peningamenn.
Síðan hefur lóðað á einni spurningu:
Var það örugglega síldin sem brást?

Dagbókarfærsla að norðan

Dauðinn býr ekki á Skagaströnd.
Það getur ekki verið.
Ég hefði orðið hans var.

Ég átti lengstan dag á Skagaströnd.
Þar fékk ég ábót.
Þar fékk ég hugmynd.
Nei.
Dauðinn býr ekki á Skagaströnd.

Bensínstöð við þjóðveginn

Meðan ég dældi bensíni á bílinn
horfði ég inn eftir dalnum.

Ég ákvað að snúa aftur við betra tækifæri.
Kanna dalinn.

Ári seinna
stend ég aftur á sama stað og dæli bensíni á bílinn.

Ég horfi inn eftir dalnum
og hugsa með mér:
Hingað verð ég að koma.
Skoða mig um.
Tjalda á grónum stað og kanna dalinn.

Ég gefst ekki upp.

Næsta sumar ætla ég að koma hingað aftur
dæla bensíni á bílinn og horfa inn eftir dalnum.

Refurinn í Hornvík

Ég lagðist í hvönnina
lauk aftur augum
hlustaði á bjargið.

Þá heyrði ég þrusk
leit upp
og beint í augun á rebba.

Hvað ert þú að gera hér?
spurði hann.

Af hverju fórstu ekki með hinum?
Er lofthræðslan að drepa þig?

Æ þegiðu, svaraði ég
og lagði mig aftur.

Ísafjörður

Fjöllin verka ýmist á mig líkt og greip
reiðubúin til að hremma eyrina
eða lófi sem skýlir flöktandi kveik.

Enn standa lífsreynd hús
frá kaupmennskutíð í Neðsta og Efsta.
Marga sáu þau rata í sálarháska
áður en breiðir menntavegir komu til.

Ég heyri sögur um kröftugt alþýðufólk;
erfiði þess hlóð undir skólana
þar sem nöfn höfðingja eru varðveitt
og tímar átaka ætíð liðnir.

Afkomendurnir kannast síður við þrengingar
snúa baráttusöngnum
í róman með farsælum endi.

Við Patreksfjörð

Í dag hef ég hugleitt
gildi minnar vinnu og fólksins.
Tæplega rekast á ljóð mín
aðrir en kjölfróðir vinir.

Hingað kem ég gestur
þekki engin handtök við fiskinn
hef spurnir af fólki sem skapar auð
og hóglífi öðrum en sér.

Hver fiskar þreyttur eftir skáldskap
meðan léttilega verða dregnar ýsur
á grynningum sjónvarps og blaða?

Hér ýtti Jón úr vör og réri á ókunn mið.
Seinna rak á fjörur bók um þorpið
eftir það var skáldið talið af.

Hveravellir

Oft hugsa ég til Hveravalla.
Þangað kom ég í ágústmánuði.
Það var á björtum degi.

Það var á björtum degi og ég með sólgleraugu.
Ég lagði þau frá mér á stein.
Ætlaði mér rétt sem snöggvast að taka mynd.

Allt í einu var ég svo staddur í sjoppu á Blönduósi.
Þá mundi ég eftir sólgleraugunum.

Ég man alltaf eftir Hveravöllum.
Þar gleymdi ég sólgleraugum.

Ég gleymi aldrei Hveravöllum.

Sækonan

Sækona festist á öngli
hjá manni sem var að veiðum
rétt undan landi við Stykkishólm.

Öngullinn hafði krækst undir beltið hjá henni
og maðurinn dró hana um borð
án þess að hún gæti nokkuð að gert.

Þennan dag var hæglætis veður við Breiðafjörðinn.

Sækonan bað manninn að leyfa sér aftur í sjóinn
en hann var tregur
og því tregari sem hann horfði lengur á konuna.

Þá bauðst hún til þess að dvelja hjá manninum
ef hann skilaði henni aftur eftir þrjá vetur.

Maðurinn féllst að lokum á þetta
og eftir samvistir í umsaminn tíma
sleppi hann sækonunni á sömu miðum
en hélt eftir barni þeirra.

Sagan er að líkindum frá manninum komin.
Enginn veit hvernig frásögn konunnar hljómaði.

Við afkomendurnir staðfestum þó tilvist hennar
um æðar okkar streymir blóð hennar
streymir löngunin eftir sjónum
löngunin í að komast heim.

Ólafsvíkurrútan

Kraftur jökulsins orkar ekki á bílinn.
Ég stoppa og tek bensín
þá verður fyrir mér Ólafsvíkurrútan.

Hæ, þarna er Stína spaugsömust allra
horfin frá námi en síst frá menntun.
Hennar bíður að draga orm úr þorski.

Flunkunýr kærastinn glottir hægt
í farangri hans eru sjópoki og stígvél
en camelpakki hjúfrar sig í þykkri hendi.

Sjómannsekkjan móðir hennar er líka með
nýkomin af Landspítalanum æðahnútalaus.

Og traustlegi bílstjórinn ekur þeim vestur
en hvorki er hans né þeirra að svara
hvar að lokum endastöðin verður.

Ljóðið um Akranes

Yfir bæinn gnæfir hinn mikli skorsteinn
og glöggir lesa úr reykmerkjunum véfrétt:
Sement er gullfótur íslendinga.

Nýjar byggingar spretta upp á grundunum
standa ólíkt betur en kartöflugrösin
en mennirnir bregðast sem fyrr til beggja vona.

Hjá Haraldi er unnið fram á kvöld
fangamarkið á útveggjunum afdráttarlaust;
miskunnsami samverjinn skapar fólkinu velsæld.

Minning útgerðarmannsins lifir
brjóstmyndin verður eflaust séð úr flugvél
og Bíóhöllin kynnir laxerandi filmur.

Í logninu stefnir svartbakur á Akrafjall.
Við tvílyft hús hanga bleiur á snúru.

Hvalfjörður

Með ugg í brjósti einatt lít ég Hvalfjörð.
Þar vafra draugar um hálsa
í tjörnum leynast skrímsl.
Tíðum eru skipakomur bendlaðar við dauðann
og hvergi var dyggilegar ort um eymd og písl.

Geigvænlegur er vegurinn
eilifðarlangur og holum settur.
Á því verður margur yndissnauður
að krækja fyrir botninn.

Í þyrpingu húka braggarnir
á litlum sandi
fyrirsögn nýrrar Íslandssögu.

Siðferðisástandi þeirra sem reistu
ber stíllinn ennþá vitni.

Vegagerð

Síðasti bærinn í dalnum hét fyrsta
íslenska myndin. Verkstjórinn bendir mér
innfæddum
útlendingnum
á rúst: þarna reistu þeir kotið.

Kondu seinna.
Kondu
með glókoll
og frú til að gaspra um arf.

Uppruna sínum getur enginn neitað.

17di júní í Reykjavík

Á Stjórnarráðinu blaktir þrílit pjatla við hún
lævís auglýsing á ullarvörum
ætluð bjórvana túristum
snýtuklútur vinda
sem elska erlenda reykháfa.

Nýkomið úr verkfalli
ráfar spariklætt fólk um bæinn
telur sig sömu þjóðar og viðsemjendur.

En milli herðibreiðra steinhúsa gægist Esjan
öðrum fjöllum pólitískari.

17di júní og Lækjargata
hjá ykkur hjónum er sopinn alltaf góður
og andstæðingar gleyma dægurþrasi
fyrir áhrif þjóðhátíðavakningar.

sunnudagsfeðgar

dugar öskjuhlíðin sem ísland
og náttúra? ég spyr. sjáðu
fuglinn, segi ég upphátt við drenginn

sem lítur á mig með hvað? á vör.
gláptu ekki hingað, þú ert
barn og enginn hvolpur
átt hvorki að vakta puttann
né kvíslgreina stöðugt
vísifingursorðin.

það er lóa, manstu
í vísnabókinni, lóa!

og lóan hún söng dirrindí
hjá skáldinu, en sumir
hallast að öfugum tvílið.

margur daninn gisti hér lengi
án þess að læra íslensku
og um kjörlendi kana þarf ég ekki að fjölyrða.

spurðu því ekki hvaðan
þessi sumargestur komi eða hverjir
fyllist heimþrá
þegar hann syngur.

við getum hampað bæði vísnabók og tungu
eignað okkur hlíð og söng og fugl.

Frægð erlendis

Um leið og ég skaust fyrir hornið
smellti ferðamaðurinn af
og kirkjan
túristasegullinn
lenti í bakgrunni.

Fyrir tilviljun hlýt ég frægð í Japan
sem stressaði Íslendingurinn.

Í Straumsvík

Verksmiðjan liggur sem tröll útí hrauni;
ásjónan grá af styrkleik og elju
svipurinn hafnar hjali um fegurð
voli máttlausra skrúðgarðsjurta.

Þetta er frumburður veiklykdrar gálu
efldist til dáða af kjarngóðu rafmagni
gefur með föður sem þvælist um heiminn.

Eftir þurrum æðum verksmiðjuskrokksins
dæla stimpilklukkur fersku blóði
það er lífsvökvinn
upprunninn úr Firðinum og Breiðholtinu.

Svo er nótt og svo er dagur.
Handan blárrar móðu leynist íslensk sól
en tröllið í hrauninu virðist ekki breytast.

Í Keflavík

Frá Keflavík er að vísu lítil fjallasýn
en bærinn hefur ómetanlega kosti
ég leyfi mér að nefna fótboltavöllinn.

Eitt sinn sá ég hér ráðast úrslit í deildinni;
áhorfendur þóttu mér besta liðið.
Ég fylgdist ungur lítið með knattspyrnu.
Ekkert með framlengdum leik á annars konar velli.

Ég var krakki og mig hefði síst grunað
að fullorðnir sníktu flöskur
undir landsleik
þar sem framtíð íslendinga ræðst.

Fótboltavöllurinn er hérna enn.
Í dag er ekki leikur
en spengileg er styttan af Ólafi Thors.

Pin It on Pinterest

Share This