Án titils

 

Kötturinn eltir
svartþröstinn kringum runnann.
Ég elti köttinn.

 

Hrekkleysi mitt sprakk
með óbrjótandi glasi
á steingólfinu.

 

Í eyrað berst krí.
Söngvakeppni evrópskra
varpstöðva hafin.

 

Ég skrúfaði barn
sundur penna og leita
enn að gorminum.

 

Suðrið færði mér
vorið kátt með fjaðraþyt
hrossasælugauks.

 

Snjórinn er kominn
að kveða burt lóuna.
Hún pípir á það.

 

Um allt sem gerðist
þegir bleikt krakkareiðhjól
í miðjum læknum.

 

Óþörf ferðalög
mannanna ræðir mosinn
við lofthjúp jarðar.

 

Í fjarska jökull.
Óstöðvandi sólarlag.
Við stöndum saman.

 

Árfarvegurinn
uppþornaður eins og jól
á miðju sumri.

 

Fjallið Skaldbreiður
má vera þar sem það er.
Ég fer ekki fet.

 

Túrista sem spyr
bendi ég á rétta leið.
Heima villist ég.

 

Ég klæðist engu
nema fínofnum blænum
og náttleysunni.

 

Fátt segir af mér
en áðan sá ég plómu
detta af trénu.

 

Huldukonunni
finnst gaman að vera til
í þykjustunni

 

Sjóðheit gangstéttin
bauð mér að gleyma um stund
svalanum heima.

 

Á maga þinum
fundu leitandi fingur
mínir gamalt kitl.

 

Hvergi ský að sjá
svo ekkert skýrir dropann
sem féll á ennið.

 

Konuna sem sest
hrellir eftirliggjandi
dropi á setu.

 

Enginn ábót býðst.
Þaulsætinn drekk ég blankur
loft úr bollunum.

 

Á minjasafni
ber gömul fóstra mín fram
óendanleikann.

 

Vörubílstjóri
með enga hönd á stýri
reykir og smessar.

 

Heppna fiðrildið
flögrar um engið og sest
á rétta stráið.

 

Hér í Corfino
gladdi það mig að haninn
gól á íslensku.

 

Þegar við mætumst
ert þú með háu ljósin.

Þá blikka ég þig.

 

Andvarinn vefst mér
eins og silkimjúk slæða
um herðar og háls.

 

Hreina framrúðan
sem vekur gleði fólksins
boðar ferðalok.

 

Ertu með lykla?
Ertu með allt sem þú þarft?
Ertu með? Ertu?

 

Þú hringdir um nótt.
Ætlaðir að hengja þig.
Næst hringdi konan.

 

Nóvembersólin
bankar á svaladyrnar
og vill fá mig út.

 

Hamingjan sanna!
stjörnur á himni og við
á leið útí pott.

 

Yfir húsþökin
dreifir örlátur morgunn
gagnsæu logni.

 

Vindinum býður
örlátt kirsuberjatréð
gullnu laufin sín.

 

Í himnaveislu
býðst okkur fullþroskaður
osturinn hvíti.

 

Mér líður svo vel.
Loksins þögn á Íslandi.
Áramótaskaup.

 

Grimmur morguninn
gefur mér eina stjörnu
fyrir viðleitni.

 

Hér lengir nú dag
og um leið vaknar flugþrá
á suðurhveli.

 

Starrinn í trénu
hermir eftir lóusöng
á svarta morgni.

 

Syngjandi vakna
óskabörnin sem einlægt
sofna syngjandi.

 

Snjór yfir öllu
og ekki létt að eygja
hvítu hrafnana.

 

Inní þokunni
á minn óljósi grunur
lögheimili sitt.

 

Yfir þrúgandi
skýrslur um hlýnun jarðar
fellur hvít lygin.

 

Jafnvel baðviktin
virðist gera lítið úr
áhyggjum mínum.

Pin It on Pinterest

Share This