Ljóð um plöntur og fugla

Haust í Þingholtunum

Það komst eitt sinn kenning á sveim
um kyrran og laufgrænan heim.
Af rigningum barið
er reynitréð farið
að ryðga í fræðunum þeim.

 

Grjót. Mosi. Vatn.

Grjót. Mosi. Vatn.
Vatn. Mosi. Grjót.

Grjót. Vatn. Mosi.
Mosi. Grjót. Vatn.

Vatn. Grjót. Mosi.
Mosi. Vatn. Grjót.

Land, okkar land.

 

Ljóðið um hjartapuntinn

Hvers vegna nefnir enginn hjartapuntinn
sem bara vex í Grafarvogi?

Það hvín oft í stráum
og grösum í sveitinni.
Hlustum frekar á hjartapuntinn
sem hvergi vex nema í Grafarvogi.

Við gætum átt svo góðar stundir.

Förum og leitum að hjartapuntinum
sem bara vex í Grafarvogi.

 

Sumar á landinu bláa

Sjá, lúpínan blánar við brún
því bærilegt samband á hún
við gróðursins höfund
– en grænir af öfund
hér gerast nú dalir og tún.

 

aðalbláber

gæti verið ágætis titill á ljóði!
Og þetta er þá afrek mitt í dag:
Ég hef plokkað orðið aðalbláber upp úr bók.
Ég veit það má finna bláber
í öðrum verkum. Og kannski
grunar mig líka mun handan orða
þótt ég komi hvorki fyrir mig bragði né lit.
Ekki verður aðalbláberið
aðalbláber eitt og sér.
aðalbláber. Alltaf skal mínu óviti
heppnast að slíta orðin úr samhengi.
En hver eru vensl mín við þetta?
Gegnum hana mömmu?
Já, gegnum hana mömmu.

Stundum á haustin tíndi hún berin fyrir vestan.
það er freistandi að skrifa: hún las, en
hún tíndi berin á æskustöðvunum fyrir vestan.

Aðalbláber náttúrunnar spruttu
eflaust í öðrum landshlutum
og þau vekja ekki áhuga minn.
Enda hef ég fátt að gera við heiminn
þarna úti. Og minna við samheiti.
En dugar aðalbláber sem líking
í sambandi okkar mæðgina?
Var ég aðalbláberið hennar?

Nei, ég mun aldrei framar yrkja ljóð.
Mér líður ekki einsog.
Nú reyni ég að einbeita
mér að lestrinum, nei, ég les ekki meir.

 

Undir hamrinum

Eitt hægt skref.
Annað.
Hægt skref.

Eitt. Og annað.
Eitt.
Og annað.

Þar til undirförul skriðan
nær ekki lengur til mín
með efasemdir og hrakspár.

Við hamarinn lít ég fyrst upp.

Skáhallt út úr berginu
teygir sig hvít hönd
og blessar yfir mig:

Klettafrúin.

Ég þakka lífinu.
Tvístígandi þakka ég lífinu hvert skref.

 

Vísur um vetrarblóm
 
Vorið sýnir vinarþel

með vetrarblómi.

Losar mig úr læstri skel
og leiðans tómi.
 
Eftir langan mæðumel

sést mikill ljómi.
Vorið sýnir vinarþel
með vetrarblómi.
 

 

Haust í Reykjavíkurskógi

Allir eiga sér eftirlætisfugl.

Reynitréð nefnir engan
en þrösturinn kemur til greina. 

 

Sambrýnda konan

Segjum brúnirnar hennar dökku:
Örninn í uppstreymi ennis.

En hvaða mófugl hefur þá orpið þessum augum?

 

Flugatvik í Dyradal

Hrafn átti við mig nokkur krunk
í Dyradalnum.

Hann uppi í klettunum.
Ég niðri á göngustígnum.

Allt í einu steypti hann sér af syllunni
flaug í áttina til mín, fór
hring í loftinu, sneri
kviðnum upp, opnaði gogginn.

Opnaði gogginn og gleypti loftanda.

Gleypti loftanda.

Það skil ég heima
þegar ég fletti upp í gamalli bók
sem útskýrir atferli hrafna.

 

Bjargfuglinn

Á syllu sem var ekki neitt neitt.
Þar sat langvían.

Perulaga egg langvíunnar
snýst um sjálft sig
stjaki einhver við því.

Veltur ekki svo glatt fram af brúninni.

Það má aðlagast umhverfinu.
Með tíð og tíma má aðlagast umhverfinu.

 

Reykjavíkurannáll

Alvörugefinn var hann
þessi nýliðni vetur.

Stundum mátti þó kætast í myrkrinu.
Snemma morguns í desember
barst mér til eyrna lóusöngur
ofan úr tré
við Gunnarsbrautina.

Allan þann dag
leið mér töluvert betur.

Mig grunaði auðvitað starrann.
Engar heimildir geta þess að hann
kveði burt snjóinn og leiðindin.

Merkilegt samt
hvað þykjustan getur.

 

Horft til himins af planinu hjá sjúkraþjálfaranum

Mér heyrðist hálfvegis klappað
uppi við þakbrún
þegar ég gekk yfir planið til sjúkraþjálfarans.

Eitt augnablik sá ég dúfur flögra í hring
og hverfa.

Einu sinni var ég alltaf dúfa.
Einu sinni flaug ég alltaf um í hóp.

Ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist svo.

Ég veit bara að núna er ég á leið í sjúkraþjálfun
með stífan olnboga
eftir líf og starf við eitthvað annað.

 

Skoðunarferð um nágrennið

Má ég kynna ljótustu blokkina
í ljótasta hverfinu
ljótustu
ljótustu blokkina.

Á annarri hæð býr maður með finkur
sem tísta og syngja
ótal finkur sem tísta
og syngja
og tísta
í ótal búrum
í heilu herbergi.

Ég hef hitt þennan mann.

Hann sat við næsta borð
og hafði fengið sér bjór
en ég trúi honum samt.

Í ljótustu blokkinni
í ljótasta hverfinu
býr sá
sem á
herbergi fullt af finkum.

 
 
sunnudagsfeðgar
 
dugar öskjuhlíðin sem ísland
og náttúra? ég spyr. sjáðu
fuglinn, segi ég upphátt við drenginn
 
sem lítur á mig með hvað? á vör.
 
gláptu ekki hingað, þú ert
barn og enginn hvolpur
átt hvorki að vakta puttann
né kvíslgreina stöðugt
vísifingursorðin.
 
það er lóa, manstu
í vísnabókinni, lóa!
 
og lóan hún söng dirrindí
hjá skáldinu, en sumir
hallast að öfugum tvílið.
 
margur daninn gisti hér lengi
án þess að læra íslensku
og um kjörlendi kana þarf ég ekki að fjölyrða.
 
spurðu því ekki hvaðan
þessi sumargestur komi eða hverjir
fyllist heimþrá
þegar hann syngur.
 
við getum hampað bæði vísnabók og tungu
eignað okkur hlíð og söng og fugl.
 
 
Hækusyrpa um fugla
 
Suðrið færir mér   

vorið kátt með fjaðraþyt

hrossasælugauks.
 
Kötturinn eltir

svartþröstinn kringum runnann.

Ég elti köttinn.
 
Í eyrað berst krí.

Söngvakeppni evrópskra 

varpstöðva hafin.
  
Frelsarann trompar
flórgoðapar sem taktvisst
dansar á vatni.
 
Alltaf jafn óvænt  
fýkur Máríuerla
í blankalogni.
 
Súla í kasti.
Ég á mínum daglegu
hugmyndaveiðum.
 
Hér í Corfino

gladdi það mig að haninn

gól á íslensku.
 
Starrinn í trénu

hermir eftir lóusöng

á svarta morgni.
 
Hér lengir daginn

og um leið vaknar flugþrá 

á suðurhveli.
 
Snjór yfir öllu

og ekki létt að eygja

hvítu hrafnana.
 
 
Fuglaskrúð
 
Við fjörð einn er fuglaeyja

sem fólk segir gróðurskrúð

þar líkt og við Laugaveginn

er lundi í hverri búð.
 
Ég fjölbreytni sé og fýla,

mitt fiðraða skyldulið,

og súlu í kasti knúsa

uns kemst hún í næturfrið.
 
Svo fuglarnir ráði ríkjum

má reka burt karl og hrút

en seint bætir fólkið fyrir 

þá fogla sem dóu út.
 
 
 
Samræða á degi ljóðsins
 
Mér finnst eins og ég hafi verið fugl

í fyrra lífi. Fugl.
 
Þú ert sami sveimhuginn og hefur ekkert breyst.

Fugl. Himinn. Frelsi.

Bla, bla, bla!
 
Kannski var ég ekta landnámshæna, ha?
 
Kannski varstu akurhæna. Plaff, plaff, plaff!
 
Mér finnst eins og ég sé ennþá ég

í fyrra lífi. Fugl. Ég er kíví-

fugl. Ég er mörgæs.

Ég er eimönd.

Ég er kakapúi.

Ég er kasúi, emúi, strútur.

Ég er nandúi. Fugl.

Ég er fugl. Ég er fugl. Ég er fugl.
 
 
Tvær vorvísur
 
Ekki held ég hætt við því

að hríslur neinar bogni;

viðra tíu tásur í

tveggja stafa logni.
 
Oná tjörn nú áðan var

allt á fullu spani;

ljótir andarungar þar

eltu hvíta svani.
 
 
 
Mýrisnípa
 
Mýrisnípa flæmist
undan mér í votlendinu
 
ég hrekk við 
og heyri
 
ýmist hrellingu fugls og kvak
eða hjartslátt í brjósti mér.
 
 
Sumarnótt við þjóðveginn
 
Stopp var stationbifreið

um stund í vegarbrún.

Þá gat miðað maður
s
em mændi út á tún.
 
Blundað var á bæjum

þótt byssa segði ræs.

Enginn virtist vera

að vakta sparigæs.
 
Óljós gæs hlaut örlög

sem aldrei skildi hún.

Stopp var stationbifreið

um stund í vegarbrún.
 
 
Eilítið um smáfugla og páfugla
 
Ef smá fugl hér smælandi sá fugl 
um smáfugl oft hugsaði þá fugl.
Eitt er að þrá fugl.

annað hvað má fugl.

Hvað á fugl að gera sem páfugl?
 
 
Fuglarvísur í bústaðnum
 
Skógarþröstur kringum kjarr
krafsar einsog mýslan
uns á grein hann ber sitt barr
blessuð hrísihvíslan.
 
Hrossagauk ég hrek í rugl,
hann er stressuð týpa.
Mér er kærri friðsæll fugl
fjarlæg mýrisnípa.
 
Þó svo veður komi kyrrt
kvikstélurinn fýkur
fær upp margan molann hirt
máríerlu líkur.
 
Fuglamergðir margir sjá,
meira aðrir greina
telja þrúfutittling grá-
tíslu klára’ og hreina.
 
Út til hliðar held ég mér
hrekkjum orðinn vanur
oft er víst í veröld hér
vatnarjúpan svanur.
 
Falleg nöfn með fögrum hljóm
fuglar einatt bera
ekkert nema nöfnin tóm
nokkrir reynast vera.
 
Aldrei sjá nú augu mín
oní skurði fara
lækjarkráku, keldusvín
kofra, rindilþvara.
 
Fjölda nafna fugl oft ber
flúgandi um sveitir
man svo einn með sjálfum sér
sjaldnast hvað hann heitir.
 
 
Fuglavísur í Göttingen
 
Milli trjánna skjórinn skýst

skrafar margt við heiminn.

Ég sit kjur en jörðin snýst

jákvæð mjög og dreymin.
 
Svartþröst einn með gulan gogg

garðálfarnir mana.

Ég les mæðið moggablogg

mest af gömlum vana.
 
Flotmeisan sem fræið tók

fer og kemur aftur.

Ég held að með bók og bók

berist undrakraftur.
 
Krákan iðkar krákuhopp;

krákustígagaman.

Ég á rauðu stend oft stopp,

stundum dögum saman.
 
Kirsuberin borða enn 

brúnu gráspörvarnir.

Ég græt einn því innri menn

úr mér virðast farnir.
 
Yfir mæninn margoft sjást

múrsvölungar þjóta.

Ég með hægð vil hafa ást

heima til að njóta.
 
Þegar frelsið flýgur greitt

fagurt er í heimi.

Ég flýg sjálfur naumast neitt

nema þá mig deymi.
 
 
Krákur í Göttingen
 
Fugl sem ekki þekkir þú
þörf er á að nefna.
Einhver corvus krunkar nú. 
Kannski það sé hrefna.  
 
Öruggt heiti eða nafn
er svo gott að hafa.
Krákan þarna! Hún er hrafn.
Hann er það án vafa.
 
Svarblár goggur, svarblár haus
svarblátt stél og vængur;
gikkur sá með garg og raus
gæti verið blængur.
 
Margur furðufuglinn hér
fíflast eins og strákur
ef hann stríðinn þykir þér 
þá er fuglinn krákur.
 
 
Fuglavísur á degi íslenskrar tungu í Göttingen
 
Ísaland við lægðarugl

löngum getur rifist. 

Kulvís eða feiminn fugl 

fær þar aldrei þrifist.
 
Íslenskan er annað mál,

öllu vænna svæði; 

dreymi vængi draumasál

dafnar allt í næði.
 
Íslenska á undrin spræk

inní gróðurlundum.

Þar á greinum skjór og skræk-

skaði leynast stundum.
 
Oft í málin krækir klóm

krákan fingralanga

lætur ekki orðin tóm

ein í lofti hanga.
 
Úr því veður vill í bland

væntingarnar rugla

íslenskan er óskaland

ævintýrafugla.
 
 

Pin It on Pinterest

Share This