Ljóð um plöntur og fugla

Haust í Þingholtunum

Það komst eitt sinn kenning á sveim
um kyrran og laufgrænan heim.
Af rigningum barið
er reynitréð farið
að ryðga í fræðunum þeim.

 

Grjót. Mosi. Vatn.

Grjót. Mosi. Vatn.
Vatn. Mosi. Grjót.

Grjót. Vatn. Mosi.
Mosi. Grjót. Vatn.

Vatn. Grjót. Mosi.
Mosi. Vatn. Grjót.

Land, okkar land.

 

Ljóðið um hjartapuntinn

Hvers vegna nefnir enginn hjartapuntinn
sem bara vex í Grafarvogi?

Það hvín oft í stráum
og grösum í sveitinni.
Hlustum frekar á hjartapuntinn
sem hvergi vex nema í Grafarvogi.

Við gætum átt svo góðar stundir.

Förum og leitum að hjartapuntinum
sem bara vex í Grafarvogi.

 

Sumar á landinu bláa

Sjá, lúpínan blánar við brún
því bærilegt samband á hún
við gróðursins höfund
– en grænir af öfund
hér gerast nú dalir og tún.

 

aðalbláber

gæti verið ágætis titill á ljóði!
Og þetta er þá afrek mitt í dag:
Ég hef plokkað orðið aðalbláber upp úr bók.
Ég veit það má finna bláber
í öðrum verkum. Og kannski
grunar mig líka mun handan orða
þótt ég komi hvorki fyrir mig bragði né lit.
Ekki verður aðalbláberið
aðalbláber eitt og sér.
aðalbláber. Alltaf skal mínu óviti
heppnast að slíta orðin úr samhengi.
En hver eru vensl mín við þetta?
Gegnum hana mömmu?
Já, gegnum hana mömmu.

Stundum á haustin tíndi hún berin fyrir vestan.
það er freistandi að skrifa: hún las, en
hún tíndi berin á æskustöðvunum fyrir vestan.

Aðalbláber náttúrunnar spruttu
eflaust í öðrum landshlutum
og þau vekja ekki áhuga minn.
Enda hef ég fátt að gera við heiminn
þarna úti. Og minna við samheiti.
En dugar aðalbláber sem líking
í sambandi okkar mæðgina?
Var ég aðalbláberið hennar?

Nei, ég mun aldrei framar yrkja ljóð.
Mér líður ekki einsog.
Nú reyni ég að einbeita
mér að lestrinum, nei, ég les ekki meir.

 

Undir hamrinum

Eitt hægt skref.
Annað.
Hægt skref.

Eitt. Og annað.
Eitt.
Og annað.

Þar til undirförul skriðan
nær ekki lengur til mín
með efasemdir og hrakspár.

Við hamarinn lít ég fyrst upp.

Skáhallt út úr berginu
teygir sig hvít hönd
og blessar yfir mig:

Klettafrúin.

Ég þakka lífinu.
Tvístígandi þakka ég lífinu hvert skref.

 

Haust í Reykjavíkurskógi

Allir eiga sér eftirlætisfugl.

Reynitréð nefnir engan
en þrösturinn kemur til greina.

Sambrýnda konan

Segjum brúnirnar hennar dökku:
Örninn í uppstreymi ennis.

En hvaða mófugl hefur þá orpið þessum augum?

 

Flugatvik í Dyradal

Hrafn átti við mig nokkur krunk
í Dyradalnum.

Hann uppi í klettunum.
Ég niðri á göngustígnum.

Allt í einu steypti hann sér af syllunni
flaug í áttina til mín, fór
hring í loftinu, sneri
kviðnum upp, opnaði gogginn.

Opnaði gogginn og gleypti loftanda.

Gleypti loftanda.

Það skil ég heima
þegar ég fletti upp í gamalli bók
sem útskýrir atferli hrafna.

 

Bjargfuglinn

Á syllu sem var ekki neitt neitt.
Þar sat langvían.

Perulaga egg langvíunnar
snýst um sjálft sig
stjaki einhver við því.

Veltur ekki svo glatt fram af brúninni.

Það má aðlagast umhverfinu.
Með tíð og tíma má aðlagast umhverfinu.

 

Reykjavíkurannáll

Alvörugefinn var hann
þessi nýliðni vetur.

Stundum mátti þó kætast í myrkrinu.
Snemma morguns í desember
barst mér til eyrna lóusöngur
ofan úr tré
við Gunnarsbrautina.

Allan þann dag
leið mér töluvert betur.

Mig grunaði auðvitað starrann.
Engar heimildir geta þess að hann
kveði burt snjóinn og leiðindin.

Merkilegt samt
hvað þykjustan getur.

 

Horft til himins af planinu hjá sjúkraþjálfaranum

Mér heyrðist hálfvegis klappað
uppi við þakbrún
þegar ég gekk yfir planið til sjúkraþjálfarans.

Eitt augnablik sá ég dúfur flögra í hring
og hverfa.

Einu sinni var ég alltaf dúfa.
Einu sinni flaug ég alltaf um í hóp.

Ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist svo.

Ég veit bara að núna er ég á leið í sjúkraþjálfun
með stífan olnboga
eftir líf og starf við eitthvað annað.

Skoðunarferð um nágrennið

Má ég kynna ljótustu blokkina
í ljótasta hverfinu
ljótustu
ljótustu blokkina.

Á annarri hæð býr maður með finkur
sem tísta og syngja
ótal finkur sem tísta
og syngja
og tísta
í ótal búrum
í heilu herbergi.

Ég hef hitt þennan mann.

Hann sat við næsta borð
og hafði fengið sér bjór
en ég trúi honum samt.

Í ljótustu blokkinni
í ljótasta hverfinu
býr sá
sem á
herbergi fullt af finkum.

Pin It on Pinterest

Share This