Verslunarljóð og limrur

Dagur í mollinu

Tilgangur lífsins klæðist aldrei jakkafötum
þegar hann fer að kaupa í matinn.
Hann mætir í gömlum pólóbol
og hnésíðum buxum.

Tilgangur lífsins ýtir á undan sér innkaupakerrunni
berfættur í fótlaga sandölum
og allir sem vilja geta haft á því skoðun
hvort hann mætti fara oftar í fótsnyrtingu.

Kona sér hann koma með pokana út á bílastæðið.
Hún hallar sér að eiginmanninum og spyr:
Svenni, getur þetta verið tilgangur lífsins?

Svei mér þá, segir maðurinn og ræsir jeppann.
Þetta er tilgangur lífsins.
Hann er bara ekki í jakkafötum.

 

Bíbí straujar angistina

Alltaf svo kokhraust á útsölur fer ég
þó ergir mörg summan, það sver ég
– en korti ég veifa
það kvíðann vill deyfa:
Ég kaupi og þess vegna er ég.

Búðarþula

Það fæst ekki hér.
Það er búið.
Það er uppselt.
Kondu þér burt. Það fæst ekki lengur.

Reyndu ekki að biðja um brennimerkt siðgæði.
Þú færð ekki að smakka neina stóriðjuhneigð.
Hún er búin.
Hún er búin.

Hér fæst ekki niðursoðin einstaklingshyggja.
Við bjóðum ekki hráan samtakamátt.

Frændsemin er uppseld.
Kunningjatengslin þrotin.
Flokkadrættirnir kláruðust í gær.

Ekki koma og biðja um meðvirkni og þögn.
Ekki koma og spyrja um augu sem líta undan.
Þetta dót er allt búið.
Það er búið og hillurnar tómar.

Við erum að loka. Farðu.

Hér færðu ekki heimagerða þrælslund.
Hún fæst ekki lengur.
Hún er ekki til.
Ekki biðja um þannig krúsidúllur. Þær fást ekki hér.

Þetta gamla dót er allt búið.
Það vill þetta enginn lengur.

Það er búið.
Það er búið.

 

Eftirmiðdagur í mátunarklefanum

Gráu buxurnar passa.
Þær klæða mig vel.
Þær lykta vel.
Ég held ég taki þær gráu.

Þessar svörtu eru þó betri í mittið.
Einsog sniðnar á mig.
Ég tek þær frekar.
Já.
Kannski ég taki þær svörtu frekar.

Skálmarnar eru samt víðari á þeim gráu.
Ég ætti bara að skella mér á þær.

En það getur svosem verið um fleira að velja.
Ég þarf ekkert að kaupa buxur hérna.
Ég lofaði engu þótt ég fengi að máta.

Þegiðu.
Þótt mér líki þessar svörtu
og þótt ég vilji þessar gráu
get ég gengið héðan út eins og ekkert sé.

Það eru hundrað verslanir neðar í götunni.
Það er nóg af buxum í heiminum.
Maður þarf ekkert að binda sig við svart.
Á góðum degi má líka hugleiða
annað en grátt.
Hver segir að ég vilji ekki skræpótt?

Ég gæti fundið aðra verslun ef mér bara sýndist.
Ég gæti fundið aðra verslunargötu eða jafnvel hverfi.
Ég gæti fundið heilu verslunarmiðstöðvarnar
sem bara selja buxur.

Ég þarf ekkert að ákveða mig strax.
Aldrei.
Mín bíða alltaf endalausir möguleikar
neðar í götunni.

 

Rauðu skórnir

Ég mátaði rauða skó í London.
Stúlkan sagði: Þetta er síðasta parið.

Ég ákvað samt að bíða.
Hver trúir sölufólkinu?
Ég ákvað að ganga einn hring í verslunarmiðstöðinni.

Þetta var góður dagur og margt að sjá.

Þegar ég kom til baka voru skórnir farnir.
Hún þóttist ekkert vita.

Það eru bráðum liðin fjörutíu ár.
Engir skór hafa enst mér eins vel.

 

Fornbókasalan

Skyndilega kallaði fornbókasalinn:
Ég verð enga stund.

Það mátti heyra dyrnar opnast.
Það heyrðist í bíl fyrir utan.
Það heyrðist í fólki.
Svo lokuðust dyrnar og allt varð hljótt.

Ég var í miðri skáldsögu.
Hinkraði við.
Hélt svo áfram að fletta.

Þá fór síminn að hringja
og hringja aftur
innan við diskinn.

Enginn kom til að svara og síminn
hélt áfram að hringja og hringja
uns hann hætti að hringja og allt varð hljótt.

Það var undarlegt að standa þarna einn
í miðri sögu.

Þá heyrði ég þrusk eða andvarp.

Ég hikaði. Kíkti loks fyrir endann
á hillu og horfði í augu sem kíktu
fyrir endann á hillu innar í búðinni.

Síðan birtust önnur augu
ennþá innar í búðinni
inni í sagnfræðiskotinu
og enn önnur birtust hjá ljóðunum
og enn önnur birtust hjá þjóðlegum fróðleik.

Allt í einu var undarlegt að vera ekki einn
í miðju
einhverju.

Þá, einmitt þá
hurfu þau
öll þessi augu
bak við ótal hillur
bak við alls konar fræði
og allt var svo hljótt og svo hljótt
og síminn var löngu hættur að hringja.

 

Hulda mín leysir af sem birgðastjóri
hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar

Að hagræða hlutum er brýnt;
ég hef á þeim skipulag fínt.
Á lagernum tóma
er lífið til sóma
og leitun að því sem er týnt.

 

Prófarkalesari ávarpar tómatana

Illa sofinn prófarkalesari
rápaði inn í ávaxta- og grænmetiskæli
á einhvers konar föstudegi.

Þá heyrðist rödd. Það heyrðist rödd. Já rödd.

Tómatur í kös
í bláum kassa
kallaði og spurði:
Svara þú mér, spekingur:
Hvort er tómaturinn ávöxtur eða grænmeti?

Þetta var í hádeginu á föstudegi.
Þarna var ekki neinn til svara
nema illa sofinn prófarkalesari.

Skyndilega risu gúrkurnar upp.
Þær tóku dansspor og sungu viðlag:
Hvað er ég?
Hver er ég?
Hvert er eðli mitt?

Prófarkalesarinn hristi af sér drungann.
Hann taldi í
og svaraði
með mjaðmasveiflum:

Tómaturinn er kóróna sköpunarverksins
en margir
margir
aðrir
hafa eitthvað sér til ágætis.

Frammí brauðinu stendur karl.
Inní mjólkinni stendur kona.
Okkur hin kalla sumir grænmeti.
Okkur hin kalla aðrir ávexti.

Prófum nú aðra spurningu:
Hvaða rullu spila ég
í þessu ágæta lífi?

Það ræðst af hlutverki okkar í borðhaldinu
hvað við erum
í raun og veru.

Húrra, hrópuðu tómatar í bláum kassa.
Það var lagið, góluðu paprikur og epli.
Meira meira, kyrjuðu spergilkál og vínber.

Gúrkurnar tóku fleiri dansspor
og sungu annað viðlag:
Síld og fiskur.
Bókmenntir og listir. Heimurinn og ég.

Þetta var í ávaxta- og grænmetiskælinum
á einhvers konar föstudegi.

 

Anna Lísa fílósóferar á snyrtivörukynningu í Debenhams

Ef velja skal varalit gilda
varfærnir litir sem milda
og róandi telst
sá rauðasti helst
því rautt merkir stöðvunarskylda.

 

Einleikur án undirleiks

Röðin við kassann er löng og hún lengist.
Hún lengist og lengist. Ég bíð og ég bíð.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.
Það er fólk fyrir aftan. Það bíður og bíður.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.
Ég lít ekki um öxl. Ég veit að það sér mig.
Það er ekki heimild. Það þekkir mig enginn.

Það þekkir mig enginn. Það er komið að mér.
Ég ætla að ferðast. Ég bíð og ég bíð.
Dansa frá mér vitið á karnivali í Ríó.
Gantast við norðurljós allsber í potti.
Syndi með höfrungum. Reyki hass.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.

Það er ekki heimild. Ég lít ekki um öxl.
Mæti í úthverfri peysu. Set iljar í sandinn.
Mér hitnar í kinnum. Mín fróun er núna.
Fæ bréf í pósti frá öðrum en banka.
Það bíður og bíður. Ég bíð og ég bíð.

Ég bíð og ég bíð. Það er komið að mér.
Ég næ sáttum við líf mitt. Það bíður og bíður.
Ég reiðist og öskra. Það er ekki heimild.
Loks segi ég: Nei. Mér hitnar í kinnum.

Mér hitnar í kinnum. Helvítis stelpan.
Finn handleggi hlýja um háls minn að nýju.
Það skrjáfar í poka. Ég lít ekki um öxl.

Ég lít ekki um öxl. Það er fólk fyrir aftan.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.

Það er komið að mér. Ég bíð og ég bíð.

Pin It on Pinterest

Share This