Verslunin auglýsir – verslunin Epal auglýsir

Þegar ég sá opnuauglýsinguna frá Epal í morgun hélt ég fyrst að myndin sýndi nokkra af strákunum okkar úr karlalandsliðinu í fótbolta. Síðan fannst mér eins og á myndinni væru forstjórar stöndugra og vel rekinna fyrirtækja sem eru skráð í Kauphöllina. Þegar betur var að gáð reyndist myndin vera af elskulegum mönnum úr menningarlífinu og tekin í tilefni af því að þeir eru samkynhneigðir. Þeir eru allir snyrtilega klæddir og vel á sig komnir líkamlega. Myndin sýnir samt dæmigerða karlmenn. Hver og einn þeirra virðist vera í sínum eigin heimi, það er engin snerting og ekki einu sinni reynt að ná augnsambandi við næsta mann. Samt eru þeir í liði. Fatnaðurinn, litirnir, hárgreiðslan. Allt tilheyrir þetta úthugsuðum búningi, hér er karlalandslið á ferð.

Það er engin tilviljun að þeir eru staddir á þessum stað, Epal. Þessir karlar hafa góðan smekk og eflaust ágætis laun. Ég veit samt ekkert um það. Ég veit bara að víða erlendis eru samkynhneigðir karlar í miklu uppáhaldi hjá auglýsingafólki vegna þess að þeir eru oft vel menntaðir í góðum stöðum og hafa meiri kaupgetu en flestar konur.

Sumir segja að auglýsingafólk hér á landi sé meira með hugann við mannúðarmál en beina sölumennsku. Enginn veit hvað auglýsingafólkinu gekk til við gerð Epal auglýsingarinnar sem birtist í dag en svo mikið er víst að hún hefur vakið athygli.

Það er sjaldgæft að ritstjórar tjái sig um auglýsingar sem birtast í miðlum þeirra en í gærkvöldi gat einn þeirra ekki orða bundist.

Hann sendi frá sér yfirlýsingu og sagði auglýsinguna sem þjóðin fékk að skoða í dag vera meistarlegt svar við þrasi vikunnar. Út á hvað gekk þras vikunnar? Þras vikunnar gekk út á það hvort snyrtimenni úr karlalandsliði ætti að láta feita konu tala óhindrað eða leyfa sér að grípa frammí og minna á hvað hann sjálfur hefði það skítt.

Hvers vegna í ósköpunum var verið að gera þessa auglýsingu?

„Það eru allir velkomnir í Epal, eru það ekki bara skilaboð dagsins?“ sagði eigandi verslunarinnar þegar hann var spurður út í auglýsinguna. Þetta var fallega sagt hjá manninum og ég get vel séð hann fyrir mér standandi á tröppunum í ríki sínu og breiða út faðminn mót lesbískri konu í hjólastól. Hann mun eflaust skottast með hana um hæðirnar og brosa út að eyrum við kassann ef hún tekur upp fyrirframgreitt debetkort frá félagsþjónustunni. Það eru allir velkomnir í Epal. Líka fátækir og feitir.

Pin It on Pinterest

Share This