Angistarljóð og einræður

Telefunken
 
Mamma greinir að nýju frá brunanum.
 
Hún rankaði við sér í alelda herbergi
og hugsaði: út. Og hljóp. Út. Hljóp.
það eina sem hún fékk með sér, gat
fengið með sér var útvarpstæki, Telefunken.
 
En hvar var ég, spyr drengurinn hennar.
 
þá tekst henni að fela endurminninguna í brosi.
þú varst ekki fæddur.
þetta var fyrir þína tíð.
 
Hún kemur eftir mér inn í logana.
Hún kemur eftir mér inn í logana.
 
Ég vakna, vakna. Einn. Spyrjandi, einn.
 
 
 
Leikir barna og fullorðinna
 
Ég heyrði hvísl og hróp og köll.
Frammi. Uppi.
Í næsta herbergi.
Heyrði nöldrað og líka grátið.
 
Kristján, þú ert fundinn!
Anna Jóna fundin! Mummi fundinn!
 
Svo hljóðnaði allt.
 
Ég fylltist óljósri spennu.
Þorði varla að anda.
Bærði ekki á mér í fataskápnum.
 
Ég heyrði hjartað slá í brjósti mér.
Annars var hljótt.
 
Það leið eilífð á hleri
uns ég skildi grínið:
Allir farnir út að leika.
 
Ég alltaf sóló í einhverjum skáp.
Ég alltaf sóló undir þykkum skráp.
 
Nú er liðin eilífð margra ára.
Aftur legg ég við hlustir.
Heyri nöfn skólasystkina kölluð upp.
Heyri nöfn vina, samstarfsfólks og ættingja kölluð upp.
 
Svo hljóðnar allt.
Aftur þessi óljósa spenna.
 
Og enn slær hjartað í brjósti mér.
 
 
 
Nótt í Munaðarnesi
 
 Ef til vill má velta fyrir sér lífinu 
 
við stofuborðið í bústað stéttarfélagsins
andvaka
yfir krossgátu
sem fyrri gestir náðu ekki að klára.
 
Í það minnsta má skrúfa sundur penna
ósjálfrátt og annars hugar
en eyða síðan löngum tíma í leit að gormi
sem óvænt skaust út í loftið.
 
Það er óttalegt fikt, þetta líf.
 
Að lokum er bara að gefast upp.
Krossgátan verður ekki ráðin.
Gormurinn finnst aldrei.
 
Frekar en nokkur lausn.
 
Út úr leiðindum er þá hægt að draga tjöldin frá.
Uppgötva að enn er ljós í nágrannabústaðnum.
Draga þá í hvelli fyrir til að sjást ekki.
 
Draga síðan hægt frá aftur.
Til að láta sem ekkert sé.
Til að gefa í skyn að ekkert sé að fela.
 
Uppí rúmi má svo hlusta á andardrátt við hlið sér.
Spá í skilaboðin sem heimurinn fær:
Dregið frá og fyrir
og samstundis frá aftur.
Hvernig skilja aðrir þetta merkjamál?
 
Þá kemur hann sem kann svörin
við öllu
hann sem leysir allar gátur, svefninn.
 
 
 
Tvífari gerir sig heimakominn
 
Ég stend við útidyrnar og kemst ekki inn.
 
Einhvers staðar grætur yfirgefinn lykill.
 
Borgin myrkvuð.
Enginn á ferli.
Nágrannar sofnaðir.
 
Ég kemst ekki inn.
Kemst ekki inn í líf mitt.
Kemst ekki inn í drauma mína.
 
Ég stend hér utan við mig.
Utan við veröld mína.
 
Takk.
Ég hef átt ágætis líf.
 
Ég er löngu kominn heim.
Ég sef í mínu rúmi.
Mig dreymir.
 
 
Poste restante
 
Vinur. Bréfum
þínum seinkar og ég
hugleiði stundum að senda þér ljóðið
um stúlkuna sem tregar
elskhuga sinn og bróður. En þú
myndir kannski öfundast útí
frumlegheitin og leggjast í þunglyndi.
Ég læt vera að yrkja. Enda
þarf ég hvorki að bregða mér í kjól
né aðskornar líkingar til að viðurkenna
opinskátt og edrú að ég sakna þín. Verst
hvað ég er mikið skáld. Verst hvað ég
skammast mín fyrir orðin. Verst hvað
ég óttast lágkúruna sem gæti vakið
grunsemdir um að mér sé alvara.
 
 
Sporin í snjónum
 
Einn á ferð gaumgæfi ég spor í snjónum.
 
Í miðjum skógi kvíslast stígurinn.
Hópur fólks gekk í norður.
Stakur göngumaður tók stefnuna vestur.
 
Ég hika.
 
Skelf af kulda
skelf af kvíða
og get ekki valið leið.
 
Mig hryllir við staðreyndum lífsins:
 
Meirihlutinn hefur sjaldnast rétt fyrir sér.
Þrjóskur einfari nær ekki alltaf á leiðarenda.
 
 
 
Fundið ljóð
 
Trúin á skilvirkni einstaklingsins 
dregur mig hingað: Úllen dúllen doff. 
Frambjóðandi með hávært bindi! 
Sá vænti ég að sitji örugglega á tveimur stólum
gegni fullu starfi ásamt þingmennskunni
og stýri að auki ótal nefndum.
 
Ég er bara viðkvæmt skáld. Heill 
og óskiptur sinni ég hverri grillu.
Minn stíll var aldrei tvennt í einu — og núna
þegar ég hugðist munda blýantinn og krossa 
varð ég að hætta jórtrinu og losa mig við tugguna.
 
Ég lauma henni undir stólsetuna.
Viti menn: Þar er ein fyrir. Steingerð! 
 
Ég þreifa. Ég fálma. Ég ýti tjaldinu frá og kíki. 
Stofan, kjördeildin, æska mín! Enn 
og aftur læt ég fingurgómana 
leika um steingerða tugguna. Nú er ég sannfærður.
Þetta eru tannaförin þín, Ragnhildur! 
Þessi tugga var í munni þínum.
Þessi tugga lék á vörum þínum og blés út í kúlu sem sprakk.
 
Kemurðu með á ballið í kvöld?
 
Ragnhildur. Þetta var einmitt sama kvöldið 
og við strákarnir 
urðum að redda framtíð heimsins.
 
Þú mátt brosa, vinan, brosa
þegar fréttamaðurinn segir: Margt skrýtið leynist í kössunum!
Og les síðan þessi orð mín
meðan þjóðin 
bíður eftir næstu tölum.
 
Ég hugleiði aðrar tölur, Ragnhildur: Tuttugu ár!
Og hverju kom nokkur til leiðar? 
Ég hefði betur kosið þig. Valið þig og andartakið, valið ástina, já
elskan mín, ég kem
japlaðu á mér í kvöld.
 
Hugsaðu þér allar vísurnar sem ég hefði getað ort handa þér.
Hugsaðu þér allt útstáelsið sem þú hefðir getað fyrirgefið mér.
 
Og með þér hefði jafnvel frami minn orðið annar. 
Hæverska, biðlaun, opnuviðtal:
Mér leiddist alltaf þingmennskan
ég er framkvæmdamaður, vík frá mér þras!
 
Þú mátt brosa, vinan, brosa
en tilfinningarnar kunna sig ekki
og viljinn þráir enn að eiga mök við glaðar hendur
sem dreymir um að fæða heilbrigð verk.
 
Hvar ertu þá núna, Ragnhildur? 
Hvar ertu núna, æska? 
Og líf mitt, steingert líf mitt — hvar ert þú? 
 
Vill eitthvert ykkar í það minnsta hringja?
 
 
Höfðingjadjarfur
 
Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Eitthvert kvöldið
mun ég leggjast útaf í hreinum nærbuxum
og gleyma því að trekkja upp vekjaraklukkuna.
 
Þegar líður á mánuðinn kemur lúmskur húseigandinn
með aukalykil og potar í skrokkinn: Hér
geturðu ekki legið rotnandi og skuldað leigu. En ég
verð þá farinn út á lífið dauða
afturgenginn til ábyrgðarleysis
og forréttinda hinnar eilífu sálar.
 
Hvergi verður mér meinaður aðgangur. Ósýnilegur
hvísla ég formælingum í eyru dyravarðanna, tylli mér
við frátekna borðið, fer án þess að hugsa um reikninginn.
 
Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Vélasalurinn
verður ekki minn höfuðverkur og verkstjórinn
má rausa að vild um ómennsku og léleg afköst.
Afturgenginn fer ég ótilkvaddur uppá teppi
og þegi. Afturgenginn mun ég líta helgidómana
í vöruhúsinu girndaraugum án þess að hræðast 
afgreiðsluprestinn eða kaupskyldu mína. Og starfsemi
kirtlanna mun ekki angra mig. En fari mér að leiðast
get ég alltaf svifið inn í kvennaklefann og þefað.
 
Enginn skal heyra mig bera fram afsakanir
enginn skal heyra mig biðja …
 
Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Dagarnir
langir og nóg að gera við kuldahláturinn. Óvíst
hvort ég nenni að svara ítrekunum gjaldheimtunnar
óvíst hvort ég fylli í skattskýrsluna.
 
Og þegar rýtingarnir gefa orðið laust á hverfafundi
munu ekki smáatriðin vefjast fyrir mér og enginn
fær að benda á mótsagnir í ræðu minni.
En á sjálfan kosningadaginn
mun ég jafnvel skila auðu.
 
 
 
Uppvakningur
 
Hver engla hlustar? Hver heyrir mig hósta? Hver
andvarpar þegar mér skolar að ströndum
einnar óbyggðrar nætur enn? Hver
stendur yfir mér blautum af svita
og man ekki eigin hryglu
meðan biturðin blæs
í mig lífi og hatrið
hnoðar
hjartað? Hver nema Heilagur Heiftugur sjálfur?
 
Án þess að þjást af estetískum höfuðverk, án þess
að kvarta yfir nykraðri tilveru minni, án þess
að biðja um ábyrgðarmenn mun hann gyrða mig
kjarki, mun hann veita mér styrk til að lyfta
myndrænu sverði gegn öldurótinu, gegn
lögregluþjónum sem krefja mig um ökuskírteini
í vitund þar sem sól kemur upp, gegn nafnleysinu
þegar ég vöðla eyðublaðinu saman og byrja upp á nýtt.
 
Mann þyrstir í svalandi vanda
á villuráfi um auðnir
áhyggjuleysis og værðar.
 
En ég er ekki verður þessarar náðar, þessarar
andvöku. Auðvitað vil ég ekki síður en aðrir frelsa
eðalborið svar úr klóm sannleikans eldspúandi. Ég
mun þó ekki höggva hausinn af neinum. það vaxa
bara nýir í staðinn. Og ég var aldrei einn af þeim
sem fórnar sér svo Réttlætið eitt megi lifa þegar
fólkið verður dáið. Kannski er ég hann sem var
uppi vegna smánar í banka, kannski er ég hann
sem að óreyndu fékk ekki ljóðin sín birt.
 
Bráðum kemur hún af vaktinni. það birtir
en hugsun mín fellir engan skugga og sami
botninn rímar við alla mína fyrriparta: þegar
mest ég þurfti við
þá var ég sjálfur hvergi.
 
 
Dauði í fjölskyldunni
 
Ég skildi aldrei hvað ég hafði gert honum.
Ég skildi það ekki fimm ára.
Ég skildi það ekki fimmtán ára.
 
Honum leið illa á morgnana.
Honum leið illa í sumarfríum.
Honum leið illa um jól og áramót.
 
Mamma bað mig alltaf að fara inn til hans
og biðjast fyrirgefningar
en ég skildi aldrei hvað ég hafði gert honum.
 
Kannski hló ég of hátt.
 
Kannski þagði ég of lengi.
 
Núna á ég dóttur sjálf. Það er morgunn.
Við erum í sumarbústaðnum.
 
Ég er mamma en ég er ekki mamma.
Ég er sáttfús en ég vil engar sættir.
Ég banna henni að fara inn til hans.
 
 
Heimsóknartíminn
 
Gömlu stefin láta mann aldrei ósnortinn:
Afhverju getur þú
ekki verið eins og hann?
 
Ég hnupla mér nýjum degi
og í leit minni að glæp
sem hæfi sektinni
vitja ég þín aftur í hinsta sinn.
 
Ég segi: Svo þú ert þá bara með sjónvarp.
Ég segi: Djöfulli var ég timbraður í gær.
Ég segi: Og hvenær kemurðu heim?
 
En kannski var það ekkert af þessu
sem olli vonleysi þínu
og óvæntri gremju.
Kannski vissir þú meira en ég.
Kannski leituðu spurningarnar á þig.
 
Lifi ég í huga hans? Í huga hins?
 
Sjálfur veit ég ekki
í huga hvers
eða hverra
né hvernig ég lifi.
Gömlu stefin láta mann aldrei ósnortinn.
 
Einasta huggun mín er minningin um daginn
þegar ég mun koma
inn í stofuna og sjá þig heilan á fótum.
 
 
 
Mynd á veggnum
 
Aftur sé ég að myndin á veggnun er skökk.
 
Enn á ný stend ég á fætur og rétti hana af.
 
Hvað skekkir myndina?
Hver skekkir eiginlega myndina?
 
Trekk í trekk stend ég á fætur og rétti myndina af.
Aldrei kemst samt á jafnvægi í lífi mínu.
 
 
 
Sálumessa yfir skotmanni
 
Ég bið ekki neinn um að miskunna mér
og alls ekki þig
sem ef til vill hlustar
ég veit ekki hvort þú ert til
ég bið hvorki þig né aðra að miskunna mér eða honum.
 
Ég veigra mér við að nefna nafn hans.
Ég verð samt að nefna nafn hans.
Hann skal ekki taka nafnið með sér í dauðann.
 
Ég þekki Ómar sem reiðist stundum.
Ég þekki líka Ómar sem brosir og hlær.
Ég þekki enn annan Ómar sem grætur og kvíðir.
 
Margir skulu áfram heita Ómar.
Margir elskulegir menn skulu heita Ómar.
 
Ómar sem drap er dáinn og búinn að vera
hann er ekki lifandi, þarf ekki hvíld
hann þarf enga miskunn, hann þarf enga náð.
 
Það er fátt hægt að segja um líf hans og störf.
Hann hefði getað drepið fleiri.
Hann hefði getað drepið færri.
 
Hann hefði getað skúrað gólfið
eða starað á vegginn í átta tíma á dag
og reynt að lesa merkingu úr graffinu.
 
Hann hefði getað feisað tilgangleysið en valdi að drepa fólk.
Hann hefði getað skúrað gólfið en valdi að drepa fólk.
 
Ræfilstuska. Aumingi. Ógæfumaður.
Skotmaður. Morðingi. Terroristi.
 
Það vantar ekki titlana sem honum geta hlotnast dauðum.
Þú
þarft ekki að hefja hann upp.
 
Hann skaut, hann drap, hann myrti.
 
Sumir segja, drap til að komast í himnaríki.
Aðrir segja, drap og þá fer hann til helvítis.
 
 
Sorrí, segi ég. Hann er dauður og fer ekki neitt.
Það er ekkert himnaríki nema þetta jarðlíf
og það er ekkert helvíti nema þetta jarðlíf
þar sem við nuddumst hvert utan í annað og þurfum að skúra gólf.
 
Sál hans fer aldrei á flakk. Hann kemur aldrei aftur.
Það kemur annar.
Það koma aðrir.
Það hermir alltaf einhver eftir öðrum.
 
Það veist þú sem ef til vill hlustar.
Allt þetta veist þú sem ef til vill hlustar og fylgist með.
 
Hvað verða þeir margir?
 
Ég man eftir fréttum af þeim sem kom sér fyrir í turni
og skaut á fólk sem gekk um háskólalóðina.
Hann var fallisti, fugl sem engin skildi
eða allir höfðu gleymt
en skáldin túlkuðu gjörðir hans:
Hvert skot var spurning: Er ég, er ég til?
 
Hver og einn sem dó þann dag gaf ekkert svar
en síðan hafa skotmennirnir verið svo margir
að enginn nennir að gefa verkum þeirra skáldlega merkingu.
 
1986 skaut og drap starfsmaður póstsins í Oklahoma 14 manns á vinnustaðnum.
1987 skaut annar maður 16 manns til bana á litlu markaðstorgi í Englandi.
1989 skaut maður í tækniskólanum í Montreal níu manns og sjálfan sig að auki.
1999 mættu tveir í skólann sinn í Colorado og skutu 12 og drápu og sjálfa sig á efir.
2002 mætti einn í skólann sinn í Þýskalandi og skaut 12 kennara og tvo nemendur.
2007 skaut einn og drap átta í finnskum framhaldsskóla.
Það var varla liðið ár þegar annar í sama landi skaut tíu manns í verkmenntaskóla.
Ári síðar skaut maður sem vann hjá olíufélagi í Azerbaijan tólf vinnufélaga.
 
Gleymum samt ekki þeim sem drap og gat ekki drepist sjálfur.
Þeim sem skaut og drap 77 unglinga úti á eyju.
Ég annast hann alla daga.
Ég færi honum matinn.
Ég heyri hann kvarta.
Það er mitt líf.
Ég skúra gólfið og annast hann alla daga
stari á vegginn í átta tíma á dag og reyni að lesa merkingu úr graffinu.
 
Skot hafa enga skáldlega merkingu.
Skot hafa enga trúarlega merkingu.
Skot hafa enga pólitíska merkingu.
 
Bara tilgangsleysið réttlætir tilveru skotmannsins.
 
Hann hefði getað drepið fleiri.
Hann hefði getað drepið færri.
 
Ég veit ekki hvort þú hlustar.
Ég veit ekki hvort þú býrð
í næsta eða þarnæsta húsi
veit ekki hvort þú vilt leika guð og skjóta.
 
Ég veit ekki hvort þú ert til en hræðist þig samt
þess vegna verð ég að tala
en ég bið þig ekki um miskunn
og hann sem drap þarf enga miskunn, hann þarf enga náð.
 
Hann gat ekki feisað tilgangsleysið og valdi að skjóta fólk.
Við sjáum bara tilgangsleysið en gætum reynt að skúra gólf.

 

 

Pin It on Pinterest

Share This