Sálumessa yfir skotmanni

 

Ég bið ekki neinn um að miskunna mér

og alls ekki þig

sem ef til vill hlustar

ég veit ekki hvort þú ert til

ég bið hvorki þig né aðra að miskunna mér eða honum.

 

Ég veigra mér við að nefna nafn hans.

Ég verð samt að nefna nafn hans.

Hann skal ekki taka nafnið með sér í dauðann.

 

Ég þekki Ómar sem reiðist stundum.

Ég þekki líka Ómar sem brosir og hlær.

Ég þekki enn annan Ómar sem grætur og kvíðir.

 

Margir skulu áfram heita Ómar.

Margir elskulegir menn skulu heita Ómar.

 

Ómar sem drap er dáinn og búinn að vera

hann er ekki lifandi, þarf ekki hvíld

hann þarf enga miskunn, hann þarf enga náð.

 

Það er fátt hægt að segja um líf hans og störf.

Hann hefði getað drepið fleiri.

Hann hefði getað drepið færri.

 

Hann hefði getað skúrað gólfið

eða starað á vegginn í átta tíma á dag

og reynt að lesa merkingu úr graffinu.

 

Hann hefði getað feisað tilgangleysið en valdi að drepa fólk.

Hann hefði getað skúrað gólfið en valdi að drepa fólk.

 

Ræfilstuska. Aumingi. Ógæfumaður.

Skotmaður. Morðingi. Terroristi.

 

Það vantar ekki titlana sem honum geta hlotnast dauðum.

Þú

þarft ekki að hefja hann upp.

 

Hann skaut, hann drap, hann myrti.

 

Sumir segja, drap til að komast í himnaríki.

Aðrir segja, drap og þá fer hann til helvítis.

 

 

Sorrí, segi ég. Hann er dauður og fer ekki neitt.

Það er ekkert himnaríki nema þetta jarðlíf

og það er ekkert helvíti nema þetta jarðlíf

þar sem við nuddumst hvert utan í annað og þurfum að skúra gólf.

 

Sál hans fer aldrei á flakk. Hann kemur aldrei aftur.

Það kemur annar.

Það koma aðrir.

Það hermir alltaf einhver eftir öðrum.

 

Það veist þú sem ef til vill hlustar.

Allt þetta veist þú sem ef til vill hlustar og fylgist með.

 

Hvað verða þeir margir?

 

Ég man eftir fréttum af þeim sem kom sér fyrir í turni

og skaut á fólk sem gekk um háskólalóðina.

Hann var fallisti, fugl sem engin skildi

eða allir höfðu gleymt

en skáldin túlkuðu gjörðir hans:

Hvert skot var spurning: Er ég, er ég til?

 

Hver og einn sem dó þann dag gaf ekkert svar

en síðan hafa skotmennirnir verið svo margir

að enginn nennir að gefa verkum þeirra skáldlega merkingu.

 

1986 skaut og drap starfsmaður póstsins í Oklahoma 14 manns á vinnustaðnum.

1987 skaut annar maður 16 manns til bana á litlu markaðstorgi í Englandi.

1989 skaut maður í tækniskólanum í Montreal níu manns og sjálfan sig að auki.

1999 mættu tveir í skólann sinn í Colorado og skutu 12 og drápu og sjálfa sig á efir.

2002 mætti einn í skólann sinn í Þýskalandi og skaut 12 kennara og tvo nemendur.

2007 skaut einn og drap átta í finnskum framhaldsskóla.

Það var varla liðið ár þegar annar í sama landi skaut tíu manns í verkmenntaskóla.

Ári síðar skaut maður sem vann hjá olíufélagi í Azerbaijan tólf vinnufélaga.

 

Gleymum samt ekki þeim sem drap og gat ekki drepist sjálfur.

Þeim sem skaut og drap 77 unglinga úti á eyju.

Ég annast hann alla daga.

Ég færi honum matinn.

Ég heyri hann kvarta.

Það er mitt líf.

Ég skúra gólfið og annast hann alla daga

stari á vegginn í átta tíma á dag og reyni að lesa merkingu úr graffinu.

 

Skot hafa enga skáldlega merkingu.

Skot hafa enga trúarlega merkingu.

Skot hafa enga pólitíska merkingu.

 

Bara tilgangsleysið réttlætir tilveru skotmannsins.

 

Hann hefði getað drepið fleiri.

Hann hefði getað drepið færri.

 

Ég veit ekki hvort þú hlustar.

Ég veit ekki hvort þú býrð

í næsta eða þarnæsta húsi

veit ekki hvort þú vilt leika guð og skjóta.

 

Ég veit ekki hvort þú ert til en hræðist þig samt

þess vegna verð ég að tala

en ég bið þig ekki um miskunn

og hann sem drap þarf enga miskunn, hann þarf enga náð.

 

Hann gat ekki feisað tilgangsleysið og valdi að skjóta fólk.

Við sjáum bara tilgangsleysið en gætum reynt að skúra gólf.

 

 

 

Pin It on Pinterest

Share This