Þykjustuleikarnir

Þykjustuleikarnir

Þykjustuleikarnir heitir ný bók eftir Anton Helga Jónsson sem kom út vorið 2022. Bókin inniheldur fjölbreytilegt verk sem leyfir lesendum að fylgjast með skrautlegum persónum sýna kúnstir sínar á hinum ýmsu sviðum mannlífsins. Atriði verksins vekja ýmist hlátur eða grát í draumkenndri óreiðu sem á sér þó upphaf miðju og endi.

Umgjörð verksins sækir innblástur í söguna um Vöndu og Pétur Pan en í stað þess að elta Pétur til Hvergilands flýgur Vanda Þykjustuleikanna með huga sínum inn í margvíslega  leikjaheima nútímans. Þar reynast vera týndir drengir, ásamt sjóræningjum og öðrum skuggalegum persónum sem rekja raunir sínar. Leiðangur Vöndu kallast á við ferðalögin í Gleðileiknum guðdómlega og þótt víða sé dimmt og drungalegt þá birtir í lokin.

Verkið er hugsað eins og samfelld dagskrá eða sýning sem skiptist í tvo hluta, fyrir og eftir hlé, sem aftur skiptast nokkurn veginn í tvo hluta hvor. Fyrsti hlutinn byrjar eins og sagnaskemmtun með kynningu á aðstæðum og persónum en síðan fer hugurinn á flakk og þá birtast smám saman alls konar týpur sem taka á sig margvísleg gervi úr sirkus- og leikjaheimum. Eftir hlé heldur sirkusinn áfram en þá blandast æ oftar inn í þykjustuleikadagskrána atriði sem eru hryllilegur veruleiki en í síðasta hlutanum kemur gleðin til sögunnar.

Alls konar furðufyrirbæri birtast á sviðinu í Þykjustuleikunum. Í einu atriði heldur persóna á kaleik og yfir barma hans gægist fiskur. Þessi mynd vísar beint og óbeint í heim tarotspila. Kaleikur eða bikar í tarotspilum er sagður tákna vatnið sem veitir næringu, en persónan er fulltrúi ungmenna og fiskurinn  stendur fyrir ímyndunaraflið. Þykjustuleikarnir hylla ímyndunaraflið og vekja um leið áleitnar spurningar. Hvernig verða tákn til? Hvernig lærum við merkingu þeirra? Getum við gefið gömlum táknum nýja merkingu?

Margir lesendur munu eflaust kannast við fyrirmyndir úr sirkusheimum fyrri tíma í persónum verksins. Í einu atriði tekur til máls hávaxinn maður sem fær lánaða atburðarás úr ævisögu Jóhanns Péturssonar og á öðrum stað í verkinu er vísað til hennar svo lesendum megi vera ljóst hvaðan hugmyndin kemur. Fleiri persónur úr heimi fjölleikahúsa og íþrótta stíga fram á sviðið, fulltrúar ýmissa lasta og höfuðsynda en líka dyggðum prýtt fólk. Útkoman verður alþýðuleikhús þar sem saman blandast hlátur og grátur, gleði og sorg.

Bókin kom út undir merki Máls og menningar. Hún er 144 síður að stærð í mjúkri kápu með innábrotum. Umbrot og útlitsteikningu annaðist Halla Sigga, hönnuður hjá Forlaginu.

Þykusuleikarnir fást í flestum bókabúðum landins og hér er hægt að panta hana í vefverslun Forlagsins.

Syrpa: Ljóðahljóðarall á degi ljóðsins

 

Samræða á degi ljóðsins

Mér finnst eins og ég hafi verið fugl
í fyrra lífi. Fugl.

Þú ert sami sveimhuginn og hefur ekkert breyst.
Fugl. Himinn. Frelsi.
Bla, bla, bla!

Kannski var ég ekta landnámshæna, ha?

Kannski varstu akurhæna. Plaff, plaff, plaff!

Mér finnst eins og ég sé ennþá ég
í fyrra lífi. Fugl. Ég er kíví-
fugl. Ég er mörgæs.
Ég er eimönd.
Ég er kakapúi.
Ég er kasúi, emúi, strútur.
Ég er nandúi. Fugl.
Ég er fugl. Ég er fugl. Ég er fugl.

 

Ávarp á degi ljóðsins

Hvað er ljóð? spurði sokkur
sem fann að teygjan var farin

svo hann
bara
rann

niður fótlegg mannsins
sem stóð á fætur og
gekk með reisn
inn eftir fagnandi sal til að halda ávarp.

 

Tiltal á degi ljóðsins

Næði trufla hrynþung hljóð.
Hljóð vill skáld og næði.
Kvæði telst oft lipurt ljóð.
Ljóð er sjaldan kvæði.

 

Söngur tuskudýranna á degi ljóðsins

bí bí krunk krunk bra bra voff
mu mu mu-u
me me me-e
gagg-alla nöff nöff í-hí hí

bra bra mjá mjá voff voff nöff
mu mu mö
mö mö mu
mu mö mu me bí bí-bí

err-err arr
arr-arr err
err arr urr arr irr arr orr

krunk krunk kvakk kvakk
mjá mjá mjá
me voff
mu voff
krí-krí krí

me me mu mu í-hí hí
mjá mjá bra bra bíbí-bí

 

Eintal á degi ljóðsins

Þú situr við borð ásamt ljóði.
Þú situr þar dag eftir dag
situr og glápir út í loftið.

Þú sem ert ég sem er skáldið
ég ávarpa þig
til þess að fjarlægjast mig
til þess að geta ráðið þér heilt.

Hlustaðu á mig!

Reyndu að horfast í augu við ljóðið
uns kemur í ljós
hvort ykkar verður fyrst til að líta undan.

Stattu svo upp þegar það verður ljóst.
Gakktu þá út til að anda
án þess að túlka eitt eða neitt.

 

Upplestur á degi ljóðsins

Lesarinn ungi
setur nýja tímareim
í gamla ljóðið.

 

Ákvæði á degi ljóðsins

Ég sem les og yrki
ég sem les þig ljóð mitt
legg svo á og mæli um að þú
verðir að flúgandi móðu báli fjalli
verðir að fuglinum stóra stóra
sem enginn kemst yfir
nema ég nema ég
nema ég sem
les þig ljóð
og yrki.

 

Erindi á degi ljóðsins

Fleiri vegir. Fleiri bílar.
Fleiri erindisleysur.
Þannig ortu skáldin í gamla daga.

Um erindi þeirra og erindisleysur
snýst erindi mitt í dag.

Þetta voru fyrsta og annað erindi ljóðsins.
Þau báru með sér djarfar fullyrðingar.
Hér í þriðja erindinu vaknar spurning
þar sem vottar fyrir efa mínum:
Hvaða erindi á ég við ykkur núna í dag?

Fjórða erindið er eins konar millispil
upptaktur að dramatísku loka-erindi:

Ég hef ekkert erindi.
Ég á ekkert erindi.
Ég er erindið. Ég er erindisleysan.

  

Tilboð á degi ljóðsins

Þetta líf allt er ruglað partí. Halló
viltu kaupa ljóð? spyr þessi gaur. Vá!
segi ég: Aldrei að vita. Á hvað?

Tuttugu þúsund! Og ég bara: Ha?
Maður skítur ekki peningum. Tíu?
segir þá gaurinn. Lítið fyrir afbragðs

efni sem örvar. Nei, ég hef engan
áhuga. Skilið? Má kannski bjóða
þér eina línu? Held það sé dagur

ljóðsins og kvöld eða nótt.
Má kannski bjóða þér eina línu?

 

Köll á degi ljóðsins

Taktu hundinn með þér, kallaði kallinn.
Kallaðu á hundinn, kallaði kallinn.

Komdu hingað kallinn
kallaði ég á hundinn.
Þá kallaði hann kallinn.
Afhverju ertu að kalla á hundinn?
Afhverju ertu að taka með þér hundinn?

Þannig kallaði kallinn.
Hann kallaði kallinn.
Hann kallaði kallaði kallinn.

 

Bannorð á degi ljóðsins

maurildi

og

knattspyrna

eða

gyllinæð

sem

vorfögur

langtímafjárfesting

elskast

er

enginn

valkostur

 

DADA-rímur á degi ljóðsins

Fyrsta ríma; ferskeytt

Dada dada dada da
dada dada dada.
Dada dada dada da
dada dada dada.

Erindið skal endurtaka þar til rímunni lýkur.

Önnur ríma; dverghent

Dada dada dada da
dada dada
Dada dada dada da
dada dada

Erindið skal endurtaka uns næsta ríma birtist.

Þriðja ríma; stefjahrun

Dada dada dada da
dada dada da.
Dada dada dada da
dada dada da.

Erindið skal endurtaka fram að pásu

Fjórða ríma, gagaraljóð

Dada dada dada da
dada dada dada da
Dada dada dada da
dada dada dada da

Erindið skal endurtaka svo lengi sem þurfa þykir.

Fimmta ríma, draghent

Dada dada dada dada
dada dada dada
Dada dada dada dada
dada dada dada

Erindið skal endurtaka þar til rímunni lýkur.

 

Hvatning á degi ljóðsins

Ekki skrifa niður.
Ekki skrifa hugsanir þínar niður.

Skrifaðu til að hugsa.
Skrifaðu til að hugsa upp.
Skrifaðu þínar hugsanir upp.

 

Fyrirmæli á degi ljóðsins

Finndu kjötið í grænmetinu.
Finndu safann í mjölinu.
Finndu allt þitt eftirlæti umbúðalaust.

Settu óvænt ljóð á pokasvæði.
Settu óvænt ljóð á pokasvæði.

Hinkraðu eftir merkingu.

Fáðu kvittun fyrir tilveru.
Fáðu kvittun fyrir tilveru þinni.

 

Koddahjal á degi ljóðsins

Komdu draumur drauma minna
draumatök þín vil ég finna
þér af heilum huga sinna
hangs og yndi saman tvinna.

Komdu næturverk að vinna
værð og ró má hingað ginna
harðstjórn vits þá loks mun linna
lona hneit og gjoðið klinna.

Kondi móm og donni dvinna
dænið mumm að hníða jinna
henað gven og blonúð blinna
blútið glinna flinna hjinna.

Kondi kondi ninna ninna
ninna kninna onn og hninna.

 

 

Ávarp fjallkonunnar

á Austurvelli 17. júní 2021

 

Ein vil ég mæla fyrir okkur öll. Setjum grið.
Virðum tifandi mosann
mosabreiðuna
mosalagið sem hjúpar jörð og nærir líf.

Setjum grið á öllum stöðum
nefndum og ónefndum
milli okkar og mosans. Setjum grið
í móum. Setjum grið í mýrum. Í tjörnum.
Í glitrandi lækjum og lindum.
Á hraunbungum
og í snjódældum.
Á þurrum melakollum og í votlendi.
Setjum grið á brunahrauni
og í botni skógar
þar sem söngvarinn ljúfi tyllir sér á grein.

Hægt, hægt vex undramjúkur mosinn
vex dúandi mosinn sem fæstir kunnu áður að nefna
viðkvæmur mosinn sem margur vild’ ei neitt af vita
glóandi mosinn sem breiddi úr sér
fyrir augum allra án þess að sjást.

Engin mannskepna skal fara með óþarfa traðki út á mosann
enginn málmdreki ógna honum með eiturgufum
og ekki skal ógætileg framrás beittra klaufa
skera í mosann sár
sem óheftir vindar vilja ýfa upp.

Setjum grið á láglendi
setjum grið á hálendi.
alin og óborin,
getin og ógetin,
nefnd og ónefnd
veitum tryggðir og ævitryggðir
mætar tryggðir og megintryggðir
sem skulu haldast meðan mosi og manneskjur lifa.

Allt það líf sem enginn minntist á fyrrum kalla ég fram.
Komið þið silfurhnokki, snúinskeggi, kelduskæna!
Komið dýjahnappur, lindaskart, rauðburi, móabrúskur.
Komið tildurmosi og hraungambri
komið og breiðið úr ykkur til allra átta.

Verum sátt hvert við annað, við jörðina, við gróskuna
við umhverfið sæla, við fjölbreytnina.
Setjum grið, verum ólík en sátt
nemum kyrrð, nemum þolinmæði mosans
sem breiðir lifandi mýkt yfir harðneskju hraunsins.

Ég mæli fyrir mig, fyrir okkur öll. Setjum grið.
Við mælum öll sem ein og setjum grið.

 

 

 

 

 

 

 

Verslunin auglýsir – verslunin Epal auglýsir

Verslunin auglýsir – verslunin Epal auglýsir

Þegar ég sá opnuauglýsinguna frá Epal í morgun hélt ég fyrst að myndin sýndi nokkra af strákunum okkar úr karlalandsliðinu í fótbolta. Síðan fannst mér eins og á myndinni væru forstjórar stöndugra og vel rekinna fyrirtækja sem eru skráð í Kauphöllina. Þegar betur var að gáð reyndist myndin vera af elskulegum mönnum úr menningarlífinu og tekin í tilefni af því að þeir eru samkynhneigðir. Þeir eru allir snyrtilega klæddir og vel á sig komnir líkamlega. Myndin sýnir samt dæmigerða karlmenn. Hver og einn þeirra virðist vera í sínum eigin heimi, það er engin snerting og ekki einu sinni reynt að ná augnsambandi við næsta mann. Samt eru þeir í liði. Fatnaðurinn, litirnir, hárgreiðslan. Allt tilheyrir þetta úthugsuðum búningi, hér er karlalandslið á ferð.

Það er engin tilviljun að þeir eru staddir á þessum stað, Epal. Þessir karlar hafa góðan smekk og eflaust ágætis laun. Ég veit samt ekkert um það. Ég veit bara að víða erlendis eru samkynhneigðir karlar í miklu uppáhaldi hjá auglýsingafólki vegna þess að þeir eru oft vel menntaðir í góðum stöðum og hafa meiri kaupgetu en flestar konur.

Sumir segja að auglýsingafólk hér á landi sé meira með hugann við mannúðarmál en beina sölumennsku. Enginn veit hvað auglýsingafólkinu gekk til við gerð Epal auglýsingarinnar sem birtist í dag en svo mikið er víst að hún hefur vakið athygli.

Það er sjaldgæft að ritstjórar tjái sig um auglýsingar sem birtast í miðlum þeirra en í gærkvöldi gat einn þeirra ekki orða bundist.

Hann sendi frá sér yfirlýsingu og sagði auglýsinguna sem þjóðin fékk að skoða í dag vera meistarlegt svar við þrasi vikunnar. Út á hvað gekk þras vikunnar? Þras vikunnar gekk út á það hvort snyrtimenni úr karlalandsliði ætti að láta feita konu tala óhindrað eða leyfa sér að grípa frammí og minna á hvað hann sjálfur hefði það skítt.

Hvers vegna í ósköpunum var verið að gera þessa auglýsingu?

„Það eru allir velkomnir í Epal, eru það ekki bara skilaboð dagsins?“ sagði eigandi verslunarinnar þegar hann var spurður út í auglýsinguna. Þetta var fallega sagt hjá manninum og ég get vel séð hann fyrir mér standandi á tröppunum í ríki sínu og breiða út faðminn mót lesbískri konu í hjólastól. Hann mun eflaust skottast með hana um hæðirnar og brosa út að eyrum við kassann ef hún tekur upp fyrirframgreitt debetkort frá félagsþjónustunni. Það eru allir velkomnir í Epal. Líka fátækir og feitir.

Pin It on Pinterest