Ljóð um plöntur og fugla

Ljóð um plöntur og fugla

Haust í Þingholtunum

Það komst eitt sinn kenning á sveim
um kyrran og laufgrænan heim.
Af rigningum barið
er reynitréð farið
að ryðga í fræðunum þeim.

 

Grjót. Mosi. Vatn.

Grjót. Mosi. Vatn.
Vatn. Mosi. Grjót.

Grjót. Vatn. Mosi.
Mosi. Grjót. Vatn.

Vatn. Grjót. Mosi.
Mosi. Vatn. Grjót.

Land, okkar land.

 

Ljóðið um hjartapuntinn

Hvers vegna nefnir enginn hjartapuntinn
sem bara vex í Grafarvogi?

Það hvín oft í stráum
og grösum í sveitinni.
Hlustum frekar á hjartapuntinn
sem hvergi vex nema í Grafarvogi.

Við gætum átt svo góðar stundir.

Förum og leitum að hjartapuntinum
sem bara vex í Grafarvogi.

 

Sumar á landinu bláa

Sjá, lúpínan blánar við brún
því bærilegt samband á hún
við gróðursins höfund
– en grænir af öfund
hér gerast nú dalir og tún.

 

aðalbláber

gæti verið ágætis titill á ljóði!
Og þetta er þá afrek mitt í dag:
Ég hef plokkað orðið aðalbláber upp úr bók.
Ég veit það má finna bláber
í öðrum verkum. Og kannski
grunar mig líka mun handan orða
þótt ég komi hvorki fyrir mig bragði né lit.
Ekki verður aðalbláberið
aðalbláber eitt og sér.
aðalbláber. Alltaf skal mínu óviti
heppnast að slíta orðin úr samhengi.
En hver eru vensl mín við þetta?
Gegnum hana mömmu?
Já, gegnum hana mömmu.

Stundum á haustin tíndi hún berin fyrir vestan.
það er freistandi að skrifa: hún las, en
hún tíndi berin á æskustöðvunum fyrir vestan.

Aðalbláber náttúrunnar spruttu
eflaust í öðrum landshlutum
og þau vekja ekki áhuga minn.
Enda hef ég fátt að gera við heiminn
þarna úti. Og minna við samheiti.
En dugar aðalbláber sem líking
í sambandi okkar mæðgina?
Var ég aðalbláberið hennar?

Nei, ég mun aldrei framar yrkja ljóð.
Mér líður ekki einsog.
Nú reyni ég að einbeita
mér að lestrinum, nei, ég les ekki meir.

 

Undir hamrinum

Eitt hægt skref.
Annað.
Hægt skref.

Eitt. Og annað.
Eitt.
Og annað.

Þar til undirförul skriðan
nær ekki lengur til mín
með efasemdir og hrakspár.

Við hamarinn lít ég fyrst upp.

Skáhallt út úr berginu
teygir sig hvít hönd
og blessar yfir mig:

Klettafrúin.

Ég þakka lífinu.
Tvístígandi þakka ég lífinu hvert skref.

 

Vísur um vetrarblóm
 
Vorið sýnir vinarþel

með vetrarblómi.

Losar mig úr læstri skel
og leiðans tómi.
 
Eftir langan mæðumel

sést mikill ljómi.
Vorið sýnir vinarþel
með vetrarblómi.
 

 

Haust í Reykjavíkurskógi

Allir eiga sér eftirlætisfugl.

Reynitréð nefnir engan
en þrösturinn kemur til greina. 

 

Sambrýnda konan

Segjum brúnirnar hennar dökku:
Örninn í uppstreymi ennis.

En hvaða mófugl hefur þá orpið þessum augum?

 

Flugatvik í Dyradal

Hrafn átti við mig nokkur krunk
í Dyradalnum.

Hann uppi í klettunum.
Ég niðri á göngustígnum.

Allt í einu steypti hann sér af syllunni
flaug í áttina til mín, fór
hring í loftinu, sneri
kviðnum upp, opnaði gogginn.

Opnaði gogginn og gleypti loftanda.

Gleypti loftanda.

Það skil ég heima
þegar ég fletti upp í gamalli bók
sem útskýrir atferli hrafna.

 

Bjargfuglinn

Á syllu sem var ekki neitt neitt.
Þar sat langvían.

Perulaga egg langvíunnar
snýst um sjálft sig
stjaki einhver við því.

Veltur ekki svo glatt fram af brúninni.

Það má aðlagast umhverfinu.
Með tíð og tíma má aðlagast umhverfinu.

 

Reykjavíkurannáll

Alvörugefinn var hann
þessi nýliðni vetur.

Stundum mátti þó kætast í myrkrinu.
Snemma morguns í desember
barst mér til eyrna lóusöngur
ofan úr tré
við Gunnarsbrautina.

Allan þann dag
leið mér töluvert betur.

Mig grunaði auðvitað starrann.
Engar heimildir geta þess að hann
kveði burt snjóinn og leiðindin.

Merkilegt samt
hvað þykjustan getur.

 

Horft til himins af planinu hjá sjúkraþjálfaranum

Mér heyrðist hálfvegis klappað
uppi við þakbrún
þegar ég gekk yfir planið til sjúkraþjálfarans.

Eitt augnablik sá ég dúfur flögra í hring
og hverfa.

Einu sinni var ég alltaf dúfa.
Einu sinni flaug ég alltaf um í hóp.

Ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist svo.

Ég veit bara að núna er ég á leið í sjúkraþjálfun
með stífan olnboga
eftir líf og starf við eitthvað annað.

 

Skoðunarferð um nágrennið

Má ég kynna ljótustu blokkina
í ljótasta hverfinu
ljótustu
ljótustu blokkina.

Á annarri hæð býr maður með finkur
sem tísta og syngja
ótal finkur sem tísta
og syngja
og tísta
í ótal búrum
í heilu herbergi.

Ég hef hitt þennan mann.

Hann sat við næsta borð
og hafði fengið sér bjór
en ég trúi honum samt.

Í ljótustu blokkinni
í ljótasta hverfinu
býr sá
sem á
herbergi fullt af finkum.

 
 
sunnudagsfeðgar
 
dugar öskjuhlíðin sem ísland
og náttúra? ég spyr. sjáðu
fuglinn, segi ég upphátt við drenginn
 
sem lítur á mig með hvað? á vör.
 
gláptu ekki hingað, þú ert
barn og enginn hvolpur
átt hvorki að vakta puttann
né kvíslgreina stöðugt
vísifingursorðin.
 
það er lóa, manstu
í vísnabókinni, lóa!
 
og lóan hún söng dirrindí
hjá skáldinu, en sumir
hallast að öfugum tvílið.
 
margur daninn gisti hér lengi
án þess að læra íslensku
og um kjörlendi kana þarf ég ekki að fjölyrða.
 
spurðu því ekki hvaðan
þessi sumargestur komi eða hverjir
fyllist heimþrá
þegar hann syngur.
 
við getum hampað bæði vísnabók og tungu
eignað okkur hlíð og söng og fugl.
 
 
Hækusyrpa um fugla
 
Suðrið færir mér   

vorið kátt með fjaðraþyt

hrossasælugauks.
 
Kötturinn eltir

svartþröstinn kringum runnann.

Ég elti köttinn.
 
Í eyrað berst krí.

Söngvakeppni evrópskra 

varpstöðva hafin.
  
Frelsarann trompar
flórgoðapar sem taktvisst
dansar á vatni.
 
Alltaf jafn óvænt  
fýkur Máríuerla
í blankalogni.
 
Súla í kasti.
Ég á mínum daglegu
hugmyndaveiðum.
 
Hér í Corfino

gladdi það mig að haninn

gól á íslensku.
 
Starrinn í trénu

hermir eftir lóusöng

á svarta morgni.
 
Hér lengir daginn

og um leið vaknar flugþrá 

á suðurhveli.
 
Snjór yfir öllu

og ekki létt að eygja

hvítu hrafnana.
 
 
Fuglaskrúð
 
Við fjörð einn er fuglaeyja

sem fólk segir gróðurskrúð

þar líkt og við Laugaveginn

er lundi í hverri búð.
 
Ég fjölbreytni sé og fýla,

mitt fiðraða skyldulið,

og súlu í kasti knúsa

uns kemst hún í næturfrið.
 
Svo fuglarnir ráði ríkjum

má reka burt karl og hrút

en seint bætir fólkið fyrir 

þá fogla sem dóu út.
 
 
 
Samræða á degi ljóðsins
 
Mér finnst eins og ég hafi verið fugl

í fyrra lífi. Fugl.
 
Þú ert sami sveimhuginn og hefur ekkert breyst.

Fugl. Himinn. Frelsi.

Bla, bla, bla!
 
Kannski var ég ekta landnámshæna, ha?
 
Kannski varstu akurhæna. Plaff, plaff, plaff!
 
Mér finnst eins og ég sé ennþá ég

í fyrra lífi. Fugl. Ég er kíví-

fugl. Ég er mörgæs.

Ég er eimönd.

Ég er kakapúi.

Ég er kasúi, emúi, strútur.

Ég er nandúi. Fugl.

Ég er fugl. Ég er fugl. Ég er fugl.
 
 
Tvær vorvísur
 
Ekki held ég hætt við því

að hríslur neinar bogni;

viðra tíu tásur í

tveggja stafa logni.
 
Oná tjörn nú áðan var

allt á fullu spani;

ljótir andarungar þar

eltu hvíta svani.
 
 
 
Mýrisnípa
 
Mýrisnípa flæmist
undan mér í votlendinu
 
ég hrekk við 
og heyri
 
ýmist hrellingu fugls og kvak
eða hjartslátt í brjósti mér.
 
 
Sumarnótt við þjóðveginn
 
Stopp var stationbifreið

um stund í vegarbrún.

Þá gat miðað maður
s
em mændi út á tún.
 
Blundað var á bæjum

þótt byssa segði ræs.

Enginn virtist vera

að vakta sparigæs.
 
Óljós gæs hlaut örlög

sem aldrei skildi hún.

Stopp var stationbifreið

um stund í vegarbrún.
 
 
Eilítið um smáfugla og páfugla
 
Ef smá fugl hér smælandi sá fugl 
um smáfugl oft hugsaði þá fugl.
Eitt er að þrá fugl.

annað hvað má fugl.

Hvað á fugl að gera sem páfugl?
 
 
Fuglarvísur í bústaðnum
 
Skógarþröstur kringum kjarr
krafsar einsog mýslan
uns á grein hann ber sitt barr
blessuð hrísihvíslan.
 
Hrossagauk ég hrek í rugl,
hann er stressuð týpa.
Mér er kærri friðsæll fugl
fjarlæg mýrisnípa.
 
Þó svo veður komi kyrrt
kvikstélurinn fýkur
fær upp margan molann hirt
máríerlu líkur.
 
Fuglamergðir margir sjá,
meira aðrir greina
telja þrúfutittling grá-
tíslu klára’ og hreina.
 
Út til hliðar held ég mér
hrekkjum orðinn vanur
oft er víst í veröld hér
vatnarjúpan svanur.
 
Falleg nöfn með fögrum hljóm
fuglar einatt bera
ekkert nema nöfnin tóm
nokkrir reynast vera.
 
Aldrei sjá nú augu mín
oní skurði fara
lækjarkráku, keldusvín
kofra, rindilþvara.
 
Fjölda nafna fugl oft ber
flúgandi um sveitir
man svo einn með sjálfum sér
sjaldnast hvað hann heitir.
 
 
Fuglavísur í Göttingen
 
Milli trjánna skjórinn skýst

skrafar margt við heiminn.

Ég sit kjur en jörðin snýst

jákvæð mjög og dreymin.
 
Svartþröst einn með gulan gogg

garðálfarnir mana.

Ég les mæðið moggablogg

mest af gömlum vana.
 
Flotmeisan sem fræið tók

fer og kemur aftur.

Ég held að með bók og bók

berist undrakraftur.
 
Krákan iðkar krákuhopp;

krákustígagaman.

Ég á rauðu stend oft stopp,

stundum dögum saman.
 
Kirsuberin borða enn 

brúnu gráspörvarnir.

Ég græt einn því innri menn

úr mér virðast farnir.
 
Yfir mæninn margoft sjást

múrsvölungar þjóta.

Ég með hægð vil hafa ást

heima til að njóta.
 
Þegar frelsið flýgur greitt

fagurt er í heimi.

Ég flýg sjálfur naumast neitt

nema þá mig deymi.
 
 
Krákur í Göttingen
 
Fugl sem ekki þekkir þú
þörf er á að nefna.
Einhver corvus krunkar nú. 
Kannski það sé hrefna.  
 
Öruggt heiti eða nafn
er svo gott að hafa.
Krákan þarna! Hún er hrafn.
Hann er það án vafa.
 
Svarblár goggur, svarblár haus
svarblátt stél og vængur;
gikkur sá með garg og raus
gæti verið blængur.
 
Margur furðufuglinn hér
fíflast eins og strákur
ef hann stríðinn þykir þér 
þá er fuglinn krákur.
 
 
Fuglavísur á degi íslenskrar tungu í Göttingen
 
Ísaland við lægðarugl

löngum getur rifist. 

Kulvís eða feiminn fugl 

fær þar aldrei þrifist.
 
Íslenskan er annað mál,

öllu vænna svæði; 

dreymi vængi draumasál

dafnar allt í næði.
 
Íslenska á undrin spræk

inní gróðurlundum.

Þar á greinum skjór og skræk-

skaði leynast stundum.
 
Oft í málin krækir klóm

krákan fingralanga

lætur ekki orðin tóm

ein í lofti hanga.
 
Úr því veður vill í bland

væntingarnar rugla

íslenskan er óskaland

ævintýrafugla.
 
 

Verslunarljóð og limrur

Verslunarljóð og limrur

Dagur í mollinu

Tilgangur lífsins klæðist aldrei jakkafötum
þegar hann fer að kaupa í matinn.
Hann mætir í gömlum pólóbol
og hnésíðum buxum.

Tilgangur lífsins ýtir á undan sér innkaupakerrunni
berfættur í fótlaga sandölum
og allir sem vilja geta haft á því skoðun
hvort hann mætti fara oftar í fótsnyrtingu.

Kona sér hann koma með pokana út á bílastæðið.
Hún hallar sér að eiginmanninum og spyr:
Svenni, getur þetta verið tilgangur lífsins?

Svei mér þá, segir maðurinn og ræsir jeppann.
Þetta er tilgangur lífsins.
Hann er bara ekki í jakkafötum.

 

Bíbí straujar angistina

Alltaf svo kokhraust á útsölur fer ég
þó ergir mörg summan, það sver ég
– en korti ég veifa
það kvíðann vill deyfa:
Ég kaupi og þess vegna er ég.

Búðarþula

Það fæst ekki hér.
Það er búið.
Það er uppselt.
Kondu þér burt. Það fæst ekki lengur.

Reyndu ekki að biðja um brennimerkt siðgæði.
Þú færð ekki að smakka neina stóriðjuhneigð.
Hún er búin.
Hún er búin.

Hér fæst ekki niðursoðin einstaklingshyggja.
Við bjóðum ekki hráan samtakamátt.

Frændsemin er uppseld.
Kunningjatengslin þrotin.
Flokkadrættirnir kláruðust í gær.

Ekki koma og biðja um meðvirkni og þögn.
Ekki koma og spyrja um augu sem líta undan.
Þetta dót er allt búið.
Það er búið og hillurnar tómar.

Við erum að loka. Farðu.

Hér færðu ekki heimagerða þrælslund.
Hún fæst ekki lengur.
Hún er ekki til.
Ekki biðja um þannig krúsidúllur. Þær fást ekki hér.

Þetta gamla dót er allt búið.
Það vill þetta enginn lengur.

Það er búið.
Það er búið.

 

Eftirmiðdagur í mátunarklefanum

Gráu buxurnar passa.
Þær klæða mig vel.
Þær lykta vel.
Ég held ég taki þær gráu.

Þessar svörtu eru þó betri í mittið.
Einsog sniðnar á mig.
Ég tek þær frekar.
Já.
Kannski ég taki þær svörtu frekar.

Skálmarnar eru samt víðari á þeim gráu.
Ég ætti bara að skella mér á þær.

En það getur svosem verið um fleira að velja.
Ég þarf ekkert að kaupa buxur hérna.
Ég lofaði engu þótt ég fengi að máta.

Þegiðu.
Þótt mér líki þessar svörtu
og þótt ég vilji þessar gráu
get ég gengið héðan út eins og ekkert sé.

Það eru hundrað verslanir neðar í götunni.
Það er nóg af buxum í heiminum.
Maður þarf ekkert að binda sig við svart.
Á góðum degi má líka hugleiða
annað en grátt.
Hver segir að ég vilji ekki skræpótt?

Ég gæti fundið aðra verslun ef mér bara sýndist.
Ég gæti fundið aðra verslunargötu eða jafnvel hverfi.
Ég gæti fundið heilu verslunarmiðstöðvarnar
sem bara selja buxur.

Ég þarf ekkert að ákveða mig strax.
Aldrei.
Mín bíða alltaf endalausir möguleikar
neðar í götunni.

 

Rauðu skórnir

Ég mátaði rauða skó í London.
Stúlkan sagði: Þetta er síðasta parið.

Ég ákvað samt að bíða.
Hver trúir sölufólkinu?
Ég ákvað að ganga einn hring í verslunarmiðstöðinni.

Þetta var góður dagur og margt að sjá.

Þegar ég kom til baka voru skórnir farnir.
Hún þóttist ekkert vita.

Það eru bráðum liðin fjörutíu ár.
Engir skór hafa enst mér eins vel.

 

Fornbókasalan

Skyndilega kallaði fornbókasalinn:
Ég verð enga stund.

Það mátti heyra dyrnar opnast.
Það heyrðist í bíl fyrir utan.
Það heyrðist í fólki.
Svo lokuðust dyrnar og allt varð hljótt.

Ég var í miðri skáldsögu.
Hinkraði við.
Hélt svo áfram að fletta.

Þá fór síminn að hringja
og hringja aftur
innan við diskinn.

Enginn kom til að svara og síminn
hélt áfram að hringja og hringja
uns hann hætti að hringja og allt varð hljótt.

Það var undarlegt að standa þarna einn
í miðri sögu.

Þá heyrði ég þrusk eða andvarp.

Ég hikaði. Kíkti loks fyrir endann
á hillu og horfði í augu sem kíktu
fyrir endann á hillu innar í búðinni.

Síðan birtust önnur augu
ennþá innar í búðinni
inni í sagnfræðiskotinu
og enn önnur birtust hjá ljóðunum
og enn önnur birtust hjá þjóðlegum fróðleik.

Allt í einu var undarlegt að vera ekki einn
í miðju
einhverju.

Þá, einmitt þá
hurfu þau
öll þessi augu
bak við ótal hillur
bak við alls konar fræði
og allt var svo hljótt og svo hljótt
og síminn var löngu hættur að hringja.

 

Hulda mín leysir af sem birgðastjóri
hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar

Að hagræða hlutum er brýnt;
ég hef á þeim skipulag fínt.
Á lagernum tóma
er lífið til sóma
og leitun að því sem er týnt.

 

Prófarkalesari ávarpar tómatana

Illa sofinn prófarkalesari
rápaði inn í ávaxta- og grænmetiskæli
á einhvers konar föstudegi.

Þá heyrðist rödd. Það heyrðist rödd. Já rödd.

Tómatur í kös
í bláum kassa
kallaði og spurði:
Svara þú mér, spekingur:
Hvort er tómaturinn ávöxtur eða grænmeti?

Þetta var í hádeginu á föstudegi.
Þarna var ekki neinn til svara
nema illa sofinn prófarkalesari.

Skyndilega risu gúrkurnar upp.
Þær tóku dansspor og sungu viðlag:
Hvað er ég?
Hver er ég?
Hvert er eðli mitt?

Prófarkalesarinn hristi af sér drungann.
Hann taldi í
og svaraði
með mjaðmasveiflum:

Tómaturinn er kóróna sköpunarverksins
en margir
margir
aðrir
hafa eitthvað sér til ágætis.

Frammí brauðinu stendur karl.
Inní mjólkinni stendur kona.
Okkur hin kalla sumir grænmeti.
Okkur hin kalla aðrir ávexti.

Prófum nú aðra spurningu:
Hvaða rullu spila ég
í þessu ágæta lífi?

Það ræðst af hlutverki okkar í borðhaldinu
hvað við erum
í raun og veru.

Húrra, hrópuðu tómatar í bláum kassa.
Það var lagið, góluðu paprikur og epli.
Meira meira, kyrjuðu spergilkál og vínber.

Gúrkurnar tóku fleiri dansspor
og sungu annað viðlag:
Síld og fiskur.
Bókmenntir og listir. Heimurinn og ég.

Þetta var í ávaxta- og grænmetiskælinum
á einhvers konar föstudegi.

 

Anna Lísa fílósóferar á snyrtivörukynningu í Debenhams

Ef velja skal varalit gilda
varfærnir litir sem milda
og róandi telst
sá rauðasti helst
því rautt merkir stöðvunarskylda.

 

Einleikur án undirleiks

Röðin við kassann er löng og hún lengist.
Hún lengist og lengist. Ég bíð og ég bíð.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.
Það er fólk fyrir aftan. Það bíður og bíður.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.
Ég lít ekki um öxl. Ég veit að það sér mig.
Það er ekki heimild. Það þekkir mig enginn.

Það þekkir mig enginn. Það er komið að mér.
Ég ætla að ferðast. Ég bíð og ég bíð.
Dansa frá mér vitið á karnivali í Ríó.
Gantast við norðurljós allsber í potti.
Syndi með höfrungum. Reyki hass.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.

Það er ekki heimild. Ég lít ekki um öxl.
Mæti í úthverfri peysu. Set iljar í sandinn.
Mér hitnar í kinnum. Mín fróun er núna.
Fæ bréf í pósti frá öðrum en banka.
Það bíður og bíður. Ég bíð og ég bíð.

Ég bíð og ég bíð. Það er komið að mér.
Ég næ sáttum við líf mitt. Það bíður og bíður.
Ég reiðist og öskra. Það er ekki heimild.
Loks segi ég: Nei. Mér hitnar í kinnum.

Mér hitnar í kinnum. Helvítis stelpan.
Finn handleggi hlýja um háls minn að nýju.
Það skrjáfar í poka. Ég lít ekki um öxl.

Ég lít ekki um öxl. Það er fólk fyrir aftan.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.

Það er komið að mér. Ég bíð og ég bíð.

Augnablik án titils

Augnablik án titils

Syngjandi vakna
óskabörnin sem einlægt
sofna syngjandi. 

 

Kötturinn eltir
svartþröstinn kringum runnann.
Ég elti köttinn. 

 

Lesarinn ungi
setur nýja tímareim
í gamla ljóðið.

 

Óvænt kom vorið
í grænmetisdeildina.
Aspas frá Spáni.

 

Jafnvel baðviktin
virðist gera lítið úr 
áhyggjum mínum.

 

Í stað úsynnings
nýt ég frískandi vinda
úr hárblásara.

 

Um miðjan apríl
laug hann að mér vorinu
grallaraspóinn.

 

Huldukonunni
finnst gaman að vera til
í þykjustunni.

 

Kettirnir mættir
og skíta í sandkassann
á leikvellinum.

 

Snjórinn er kominn
að kveða burt lóuna.
Hún pípir á það. 

 

Kvótalaus dreg ég
lúðuna uppúr djúpi
frystikistunnar.

 

Ég snýst um jörðina.
Jörðin snýst um sólina.
Sólin snýst um mig.

 

Suðrið færir mér
vorið kátt með fjaðraþyt
hrossasælugauks.

 

Aldan eltir mig
upp i fjöruna og snýr
aldrei söm aftur.

 

Alltaf í logni
flýgur hann yfir örninn
ósýnilegi.

 

Fyrirvaralaust
reis upp tré í garðinum.
Ég er að eldast.

 

Um mig verður sagt:
Hann tók sín fyrstu saumspor
í Njálfurefil.

 

Í fjarska jökull.
Óstöðvandi sólarlag.
Við stöndum saman.

 

Vorboðinn rita
er sest upp í bjarginu.
Býður í kaffi.

 

Að viljinn sé frjáls
sannar hár sem rís upp eitt
á vinstri augnbrún.

 

Vörubílstjóri
með enga hönd á stýri
reykir og smessar.

 

Viskutré orða
vex upp úr mér sem ungur
gleypti eplastein.

 

Hugsun mín um þig
er asni þungbúið ský.
Hvenær rofar til?

 

Á herbergi sjö
liggur enginn og hlær
í hinu rúminu.

 

Má þetta? spyr ég.
Amor spennir bogann sinn
í friðlandinu.

 

Í eyrun berst krí.
Söngvakeppni evrópskra 
varpstöðva hafin.

 

Gaman að sjá þig
aftur mín kæra tunga!
umlar snípurinn.

 

Í vatnsfötunni
speglast ský en himinninn
róar mig heiðskír. 

 

Eitthvað ótrúlegt
tyllir sér á öxl mína.
Guðsfuglinn syngur.

 

Sumarlitunum
skartaði snjótittlingur.
Sólskríkjan kýs grátt.

 

Hvergi ský að sjá
og ekkert skýrir dropann
sem féll á ennið.

 

Sumarsmellurinn
hljómar nú þegar vínið
rennur í glasið.

 

Alltaf jafn óvænt
fýkur Máríuerla
í blankalogni.

 

Hvað er ást? spyrð þú.
Ást er og. Stundum eða.
Ást er aldrei en.

 

Andvarinn vefst mér
eins og silkimjúk slæða
um herðar og háls.

 

Frelsarann trompar
flórgoðapar sem taktvisst
dansar á vatni.

 

Árfarvegurinn
uppþornaður eins og jól
á miðju sumri. 

 

Leitandi að kyrrð
hrek ég óvart snípuna
af hreiðri sínu.

 

Á heiðinni býðst
eintóm ímynduð fæða
spælegg á steinum.

 

Þrjátíu ungar
í það minnsta, elta tvær
leikskólakollur.

 

 Blessum skrúðgarðinn.
Þar krækjast saman litlir
vináttufingur.

 

Með stutt geislasverð
göngum við feti framar.
Jöklarnir hopa.

 

Grafskrif í lokin:
Það vissu þetta allir.
Enginn sagði neitt.

 

Sandkorn faldi sig
en litlafingursnöglin
leitar í augnkrók.

 

Ég verð alltaf með.
Ég er fimmti bítillinn.
Sjötti stónsarinn.

 

Hvatningarsöngur
berst um kartöflugarðinn:
Lifi jarðeplin.

 

Heppna fiðrildið
flögrar um engið og sest
á rétta stráið.

 

Hálfa söguna
segir bleikt krakkareiðhjól 
í miðjum læknum.

 

Mjúkar varirnar
hringast um vin sem fagnar
standandi hissa.

 

Uppi á toppnum
held ég áfram að spyrja:
Fór ég rétta leið?

 

Fjallið Skaldbreiður
má vera þar sem það er.
Ég fer ekki fet.

 

Um óbyggðirnar
lóðsa ég túristana.
Heima villist ég.

 

Óþörf ferðalög
mannanna ræðir mosinn
við lofthjúp jarðar.

 

Ég klæðist engu
nema fínofnum blænum
og náttleysunni.

 

Sjóðheit borgarstétt
lætur mig aldrei gleyma
svalanum heima.

 

Fátt segir af mér
en áðan sá ég plómu
detta af trénu.

 

Á maga þínum
vekja leitandi fingur
gamalt kitl til lífs.

 

Súla í kasti.
Ég á mínum daglegu
hugmyndaveiðum.

 

Flugvélin hristist
og skelfur á leið sinni
um holótt loftið.

 

Konuna sem sest
hrellir eftirliggjandi 
dropi á setu.

 

Glitrandi perlur
úr festi sem slitnaði
skoppa um gólfið.

 

Þunglyndar buxur
og áhyggjufullir skór
á biðstofunni.

 

Ég handlék pennann
í hugsunarleysi, domm.
Nú leita ég gorms.

 

Á Ítalíu
gladdi það mig að haninn
gól á íslensku.

 

Í útlendri bók
grét himinnn án afláts.
Hér rignir bara.

 

Fljúgi margæsin
upp af voginum þráir
hafmeyjan vængi.

 

Ég hími heima.
Haustið lætur mig banka
ofnana í gang.

 

Ertu með lykla? 
Ertu með allt sem þú þarft?
Ertu með? Ertu?

 

Vindinum býður
örlátt kirsuberjatréð
gullnu laufin sín.

 

Þú hringdir um nótt.
Ætlaðir að hengja þig.
Næst hringdi konan.

 

Jafnvel þótt rigni
mætir haustið í skóginn
og kyndir sitt bál.

 

Ljóshærðum hnokka
strauk eitt sinn hönd sem gramsar
í rusladalli.

 

Úti má rigna
ef ég get verið inni
og innan um þig.

 

Þögull lambhrútur
jarmaði til mín í dag
úr kjötborðinu.

 

Það frysti í nótt!
Nú prýðir lífsvökina
sundfögur álftin.

 

Hreina framrúðan
sem vekur gleði okkar
boðar ferðalok.

 

Enginn ábót býðst.
Þaulsætna hetjan drekkur
loft úr bollanum.

 

Gulnað dagblaðið
sem fannst undir súðinni
boðar heimsendi.

 

Með rótarhöndum
heldur tréð í jörðina
sem annars fyki.

 

Silfurskotturnar
hrella mig eins og mínar
ljósfælnu kenndir.

 

Í máli vindsins
heyrast þungar áherslur.
Ég skil ekki orð.

 

Poppið að klárast
en niðri á botninum
finn ég salt lífsins.

 

Ekki slær hjartað
en mjúka kveðju blæs það
í tregahornið.

 

Nóvembersólin
bankar á svaladyrnar
og tælir mig út.

 

Við sköfum að vild
svo lengi sem framrúðan
samþykkir kortin.

 

Hart eldhúsgólfið
dregur einatt í efa
óbrjótandi glas.

 

Enn krunkar Krummi.
Hann krunkar einn á skjánum.
Hvar er hún Rannveig?

 

Inní þokunni
á minn óljósi grunur
sitt lögheimili.

 

Hvítar froststillur.
Hrollvekjandi veturinn.
berar tennurnar.

 

Yfir húsþökin
dreifir hreinskilinn morgunn
gagnsæu logni.

 

Verkur í hnénu
Marrandi gólf og hurðir.
Lægð á leiðinni.

 

Á næturhimni
býðst mér hann fullþroskaður
osturinn hvíti.

 

Þegar við mætumst
ert þú með háu ljósin.
Ég blikka þig, beib.

 

Á morgunhimni
heilsar mér stjarnan bjarta 
ein og þó margræð.

 

Einn vetrarmorgun
nem ég bara lóusöng
starrans í trénu.

 

Mér líður svo vel.
Loksins þögn á Íslandi.
Áramótaskaup.

 

Himininn stundi
lengi eftir að loka-
flugeldurinn sprakk.

 

Flúraði ramminn
á hvíta stofuveggnum
gerir allan mun.

 

Þegar lengir dag
fyrir norðan vaknar flugþrá
á suðurhveli.

 

Hamingjan sanna!
stjörnur á himni og við
á leið útí pott.

 

Arineldurinn
brennur hægt og hlýjar mér
á sjónvarpsskjánum.

 

Yfir þrúgandi
skýrslur um hlýnun jarðar 
fellur hvít lygin.

 

Grimmur morguninn
gefur mér eina stjörnu
fyrir viðleitni.

 

Ég á þetta land!
Það vottar fasteignaskrá
skólaljóðanna.

 

Síminn hringir út.
Leyninúmer hrella mig.
Þau minna á Guð.

 

Jarðvegsframkvæmdir
í kartöflumúsinni
tefja málsverðinn.

 

Ég opna augun
en villist samt um hugann
og sé ekki út.

 

Styrkur minn skelfir
þegar ég finn hann óvænt
í fangi þínu.

 

Á tungu þinni
léku gælandi orðin
og snertu við mér.

 

Allan kraft og kapp
dregur unaðsmínútan
úr mér og hverfur.

 

Snjór yfir öllu
og ekki létt að eygja
hvítu hrafnana.

 

Skáldsagan líkist
frænda í jólaboði
sem hættir aldrei.

 

Oft spyr fjörufugl:
Sérðu húfuna mína –
hún er silkibleik?

 

Nú er sem vori
þegar janúarsnjórinn
brumar á greinum.

 

Jaxlarnir mínir
þóttu mestu hörkutól.
Samt lifi ég þá.

 

Syngjandi sofna
óskabörnin sem einlægt
vakna syngjandi. 

 

 

Ferðalög um landið og lífið

Ferðalög um landið og lífið

Hekla
 
Óvanur útsýni til heimsfrægra fjalla
renni ég augum til Heklu
hinnar skapmiklu samlöndu minnar.
 
Ég kem á bæ en bóndi er að heiman
þotinn eftir hjálp við brotið drifskaft.
Ég snakka við húsfreyju um votviðri og sprettu
hún sendir yngsta krakkann með skræling í hænsnin.
 
Á hlaðinu núllar áttræður afinn
Mjólkurbílstjórinn lýgur í hann fréttum.
Niður heimkeyrsluna hugsa ég um fjallið
Brysti það þolinmæði hyldust túnin ösku
á löngum morgni.
 
Ég yrði fjarri en þættist heyja vel
í viðburðahlöðu mína. 
 
 
 
Á Skeiðarársandi
 
Kvæði barnaskólans þoldi ég verst;
ónæmur fyrir skáldskap af utanbókarromsum.
Leit hornaugum þetta rómaða ættland
sem ekki varð séð úr kjallaraglugga.
 
En líka ég fer Hringinn nú í ár.
 
Og augun drekka sig full
af níutíuogsex pósent fegurð.
 
Samt efa ég að aki þessa leið
fólk er dreymi jötuninn í núpnum
samræður eigi við blóm eða steina.
 
Bryrnar tengja þjóðleið milli söluskála
og smábílar flæða yfir sandana.
Börnin dotta í aftursætum
uns kemur að straumþungu kóki.    
 
 
Dettifoss
 
Þú dettur ennþá Dettifoss
laminn niður af sálarlausu fljóti
bíður færis að rísa upp á háspennumöstrin
og flýja til byggða.
 
Ógæfulegur ertu
myndavélin drepur tittlinga við að sjá þig.
Mig snertu önnur vatnsföll dýpra
lekur krani
draup mér fyrrum andvökum.
 
Ég skoða víðfræg fjöll og ástsæla fossa
en hugsunin rennur í farvegi upprunans
borgariðunnar
og fuglunum læt ég það eftir
að yrkja lofsöngva utan vegar.
 
 
Ísafjörður
 
Fjöllin verka ýmist á mig líkt og greip
reiðubúin til að hremma eyrina
eða lófi sem skýlir flöktandi kveik.
 
Enn standa lífsreynd hús
frá kaupmennskutíð í Neðsta og Efsta.
Marga sáu þau rata í sálarháska
áður en breiðir menntavegir komu til.
 
Ég heyri sögur um kröftugt alþýðufólk;
erfiði þess hlóð undir skólana
þar sem nöfn höfðingja eru varðveitt
og tímar átaka ætíð liðnir.
 
Afkomendurnir kannast síður við þrengingar
snúa baráttusöngnum
í róman með farsælum endi. 
 
 
Óvænt kvöldvaka
 
Undir miðnætti logar á kerti 
utan við tjald í Hrafnkelsdal.
 
Allir viðstaddir bíða átekta
himinninn
dalurinn
þú
og ég.
 
Aldrei að vita  
nema kyrrðin
hafi eitthvað að segja.
 
 
Áleiðis
 
Framundan melur
og heiðló á þúfu.
Að baki sýndur urriði 
í tærum hyl.
 
Á vinstri hönd fífan. 
Til hægri ekkert
nema víðáttan 
sjálf.
 
Uppi blámi og þytur 
hrossagauks. Undir
flóinn sem dúar
við hvert okkar skref.
 
Við reynum að ná áttum. Eitthvað 
framundan. Eitthvað að baki. 
Til vinstri. Til hægri. Uppi. Undir.
 
Hægt, hægt 
færist miðja alheimsins úr stað. 
 
Hún færist úr stað með okkur 
sem kunnum að stíga hamingjuspor
svo lengi sem við höldum áfram
án viðstöðu, án afláts 
á dýjamosanum 
án 
afláts.
 
 
Lágnætti
 
 
Hér í lundinum
fer allt loft úr krefjandi vindum.
 
Mín vegna 
mætti eilífðin helga sér þennan stað.
 
Enginn amast við náttfiðrildi 
eins og mér.
 
Puntstráin veita mér selskap
en spyrja einskis.
 
 
 
 
Í skriðunni
 
 
Ég renn til í hverju skrefi, renn.
 
Ég sem ætlaði mér bara að stunda göngur
stunda nú hreinar ógöngur.
 
Ég renn til í hverju skrefi, renn.
 
Og allar þessar ógöngur
allar mínar ógöngur
tókst mér að velja án hjálpar annarra. 
 
Ég renn til í hverju skrefi.
 
Renn.
 
Renn til í hverju skrefi, renn.
 
 
 
Aflraunir
 
 
Þeir heita gáfulegum nöfnum;
Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur.
Það er samt ekkert vit í þessu grjóti
þessum hnullungum, þessum steinum.
 
Steinn gerir afar fá mistök.
Steinn skiptir sjaldan um skoðun.
Steinn lendir aldrei í mótsögn við sjálfan sig.
 
Ég er heill og óskiptur, tuldrar steinninn.
Annars segir hann ekki margt að fyrra bragði.
 
Ef þú vilt berja hausnum við stein
og reyna að lyfta honum upp
má vera að heyrist spurt:
Hvað heldurðu að þú getir?
 
Aldrei spyr neinn óvænt: Í hverju liggur þungi?
Aldrei hugsar neinn í alvöru: Í hverju liggur styrkur?
 
Viltu þá reyna að lyfta þessum hnullungum á stall?
Eða ganga burt
með sæmd?
 
Það kemur enginn viti fyrir grjótið.
 
 
 
 
Vorganga í Dölum
 
 
Held jafnvægi á öðrum fæti
 
og stíg 
 
hinum
 
með fullum þunga 
á mis 
vel skorðaða
steinana
 
helgarnar í lífi mínu
sem standa uppúr ánni.
 
 
 
Samræður við fjall
 
 
 
Hvernig á að hefja samræður við fjall
sem maður hefur aldrei áður hitt?
 
Ekki talar maður um þungar áhyggjur 
og þær byrðar sem á manni hvíla 
við fjall sem hefur haft á sér heilan ísaldarjökul um aldir.
 
Góðan daginn. 
 
Hvað svo?
Hvað heitir þetta fjall?
Hvaða fjall er þetta eiginlega?
 
Þeir sem búa í dalnum hérna megin kunna eitt nafn. 
Þeir sem búa handan fjallsins kunna annað.
Þeir sem lásu ritvillu af korti kunna það þriðja.
 
 
 
Á Þingvöllum
 
 
 
Ég veit nákvæmlega hvar Ásgrímur stóð
þegar hann málaði Ármannsfellið.
 
Málaði hann ekki Ármannsfellið?
 
Einhver málaði Ármannsfellið.
 
Einhver stóð nákvæmlega hérna.
Ef ekki Ásgrímur 
og ef ekki Kjarval
þá stóð hérna amerískur kvikmyndaleikari, nei
stóð hérna heimsfrægur gítarleikari, nei 
stóð hérna japanskur ferðamaður
og tók mynd af fjallinu.
 
Ég stend í sporum hans.
 
 
 
 
Ódauðlegt ljóð á tindinum
 
 
Það var útsýni úr ferðabókunum heima
og það var útsýni úr frásögnum vina
sem vissu að ég stefndi á tindinn.
 
Ég taldi ekki skrefin á leiðinni upp.
Það voru mistök.
Uppi var bara þokan.
 
Þar sem ég hímdi í þokunni
datt mér ekki neitt í hug
hafði ég ekki um neitt að tala. 
 
Það var bara þokan.
 
Bara þokan 
og ekki rétta tækifærið
til að láta ferðafélaga heyra 
það sem hefði getað orðið ódauðlegt tilsvar
ljóð sem ég orti fyrirfram
innblásin orð um að víðsýni hefji jafnvel mig 
yfir svekkelsi skuggsælla daga.
 
 
 
Hveravellir
 
 
Oft hugsa ég til Hveravalla.
Þangað kom ég í ágústmánuði.
Það var á björtum degi.
 
Það var á björtum degi og ég með sólgleraugu.
Ég lagði þau frá mér á stein.
Ætlaði mér rétt sem snöggvast að taka mynd.
 
Allt í einu var ég svo staddur í sjoppu á Blönduósi.
Þá mundi ég eftir sólgleraugunum.
 
Ég man alltaf eftir Hveravöllum.
Þar gleymdi ég sólgleraugum.
 
Ég gleymi aldrei Hveravöllum.
 
 
 
 
Refurinn í Hornvík
 
 
Ég lagðist í hvönnina
lauk aftur augum
hlustaði á bjargið.
 
Þá heyrði ég þrusk
leit upp
og beint í augun á rebba.
 
Hvað ert þú að gera hér?
spurði hann.
 
Af hverju fórstu ekki með hinum?
Er lofthræðslan að drepa þig? 
 
Æ þegiðu, svaraði ég
og lagði mig aftur.
 
 
 
Rúnir
 
 
Í þessu landi snýst allt um ritstörf.
Líka í óbyggðum.
Það hef ég séð með eigin augum.
 
Hér og þar 
hafa verið ristar rúnir í klappir.
Með góðum vilja má túlka þær
lesa sögur og speki 
löngu horfinna jökla.
 
Strá sem bærast 
reynast oftar en ekki fjaðurpennar
hripandi ódauðleg ljóð í vindinn.
 
Jafnvel ólæsar ær
skrá stefnu sína 
í moldargöturnar.
 
Þær stefna alltaf í norður.
 
 

Sjö tilbrigði um Jökulsárlón

1. Jökulsárlón

Það er fjarri mér að líkja jökunum við dauðann
þar sem þeir lóna í vatninu
og bíða þess eins að bráðna.

Þeir eru miklu frekar eins og lífið
með öll sín forgengilegheit.

2. Jökulsárlón

Innan úr sterílbláum hveflingum jakanna
sem mara í lóninu
endurómar dropatal.

Þessir jakar eru aldagömul rigning
sem aftur er byrjuð að falla.

Það toppar ekkert aldagamla rigninginu
svo varla er hægt biðja um neitt meira
nema kannski snjóinn
sem féll í fyrra.

3. Jökulsárlón

Það andar köldu frá jökum
sem líða daufdumbir um lónið.
Þeir minna mig á dauðann
segir vinkona mín.

Það finnst mér skrýtið, segi ég.
Mig minna jakarnir á lífið
þeir eru að leysast upp
þeir minna á allt sem hverfur.

Þannig er einmitt dauðinn
segir vinkona mín
dauðinn
hann er einmitt lífið.

Ekkert fleira þarf að segja
við Jökulsárlón í dag.

4. Jökulsárlón

Jakarnir dreifa sér um lónið
líkt og trúðar í hringleikahúsi
sem veltast um
og hrekkja í djóki
áhorfendum til skemmtunar.

Þeir eru áþekkir þessir trúðar á lóninu
þessir jakar í hringleikahúsinu
aldrei er þó neinn
alveg eins og sá næsti.

Þetta er enginn staður fyrir börn.

Það er eins og þeir hlægi á lóninu
eins og þeir gráti á lóninu
lifandi dauðir trúðarnir
en ekkert heyrist í þeim allan daginn
fyrir yfirgnæfandi áhorfendaskaranum.

Þegar kvöldar má heyra illsku og íshjarta slá.

5. Jökulsárlón

Jakarnir silast um lónið.

Tilgangslausir
og merkingarlausir
silast jakarnir um lónið.

Líkir mér og líkir þér
silast jakarnir um lónið.

Tilgangslausir eins of lífið
merkingarlausir eins og dauðinn
silast jakarnir um lónið.

Jakarnir silast um lónið.

6. Jökulsárlón

Mér hryllir við þér nafnlausi jaki
sem nálgast mig í súldinni.

Ekki vildi ég eiga þig sem elskhuga
nema þú værir dauðinn sjálfur
kysstir einn koss og búið.

Þú ert alltof mikið eins og lífið
sendir svala fingurkossa
þar til setur að mér hroll.

7. Jökulsárlón

Ef ég er eitthvað einsog
þá er ég einsog jaki
sem lónar í lóninu.

Það er meira til af mér
en eitt erindi á yfirborðinu.

Undir niðri er ég miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu meiri.
Undir niðri er ég miklu miklu miklu meiri.

 

Lúr í vagninum
 
 
Það jafnast ekkert á við lúr í vagninum.
 
Ég grenja þegar mamma dúðar mig niður
en sofna um leið og hún vaggar af stað.
 
Mamma trillar oft vagninum inn í strætó.
Önnur mamma trillar þeim vagni um borgina.
Enn önnur mamma trillar jörðinni kringum sólina.
Mamma allra mamma trillar sólkerfi út eftir vetrarbraut.
 
Allt þetta gerist meðan ég fæ mér lúr í vagninum.
 
Á meðan ég fæ mér lúr gerist líka allt hér heima.
Fjallajeppi spólar á gangstétt.
Hundamaður setur kúk í poka.
 
Ég veit alveg hvert við erum að fara.
Ég hef komið áður.
 
Bráðum verð ég þriggja mánaða
bráðum verð ég eins árs og tólf ára
bráðum fer að styttast í tvítugt og þrítugt.
 
Allt í einu hrekk ég upp og næsta stopp er áttrætt.
 
Ég þekki þessi augu sem horfa á mig. Mamma.
 
 
 
Átthagar
 
 
Á tjaldstæði í Bæjaralandi 
hvarf labrador hollenskrar fjölskyldu en gelti 
hálfu ári síðar á tröppunum 
heima í Amsterdam.
 
Allt samkvæmt Morgunblaðinu, Reuters og 
minni mínu. Kannski var þó húsið 
í annarri borg, tjaldstæðið 
í öðru landi
og labradorinn 
sjeffer en fyrirsögnina
ættu allir að muna: 
Gekk yfir þvera Evrópu.
 
Annað eins gerist. Jafnvel 
hér um slóðir. Þið munið köttinn 
sem lokaðist inni í flutningabílnum
á Bragagötunni
og komst til Hornafjarðar
en skilaði sér heim.
 
Það er lengi von á einum.
Hér um kvöldið var einhver snuðrandi við húsið.
Ég fór niður.
Hver stendur þá ekki geltandi fyrir utan 
nema úrvinda reiði mín.
 
Aðrar tilfinningar hljóta að skila sér líka.
Af gleðinni frétti ég síðast á krá í miðbænum.
Eflaust var strætó hættur að ganga og engan leigubíl að fá.
 
 
 
Föstudagur á Miklubrautinni
 
 
Hvalur blés framundan
þar sem ég ók austur Miklubraut
eftir vinnu á föstudegi.
 
Hann maraði í yfirborði götunnar
en bílarnir tóku fram úr 
án mikilla vandræða. 
 
Á móts við innstu húsin
stakk hann sér loks í djúpið 
og sporðurinn reis yfir malbikið. 
 
 
Komur
 
Vélin lenti fyrir tíu mínútum.
 
Fólk hraðar sér inn í flugstöðina.
Það kaupir súkkulaði og vín í fríhöfninni.
Bíður við færibandið.
Fer í gegnum græna hliðið.
 
Fyrir utan bíð ég.
 
Karl í svörtum frakka með handfarangur.
Miðaldra kona með þrjár rauðar ferðatöskur.
Hjón með tvíburakerru, með koffort
með reiðhjól, með hálfa búslóðina.
 
Ég bíð þín.
 
Vélin lenti fyrir hálftíma.
Vélin lenti fyrir klukkutíma.
Síðasti farþeginn kominn út.
 
Alltaf skal ég bíða þín.
 
Vélin lenti fyrir sólarhring.
Fyrir tveimur dögum.
Fyrir viku.
Mánuði
 
 
Á fullu tungli í borginni
 
Ég sagði honum hvert ég vildi fara.
Ég þóttist vita hvert för minni væri heitið.
Leiðin getur ekki legið um þessar aðþrengdu hliðargötur.
 
Nú segi ég honum að stoppa.
Hér geri ég bílinn upp.
Héðan mætti án efa ganga.
 
Eitt augnablik birtast augu hans í speglinum.
Engin spurning. Hann fer lengri leið.
Skítt með peningana. Núna gildir annað.
 
Ég breiði úr mér í aftursætinu.
Sýni engin merki hræðslu.
Ég ítreka áfangastaðinn og minnist á breiðstrætin.
 
Hann læst ekki heyra. Hann ekur hratt.
Fer örugglega aðra leið. Á fullu tungli aðra leið og annað.
 
 
 
Heimferð
 
Um leið og komið er í áfanga
vaknar löngun eftir öðrum.
þetta veit ég.
þú hefur sagt mér það áður.
 
Ég veit að framrásin verður ekki stöðvuð.
Ég veit að við eigum bókað í framtíðinni.
 
Raunsæið var aldrei mín sterka hlið.
Ekki bíður ferjan.
Ekki hægjum við á bílnum og snúum til baka.
 
Þetta veit ég allt.
 
En ég gleymdi að læsa bakdyramegin
get ekki munað hvort ég slökkti á ofninum
minnist þess ekki að hafa skrúfað fyrir kranann
og við hefðum átt, við hefðum átt að negla fyrir glugga.
Eyrun á Blesa og fleiri glettin ljóð

Eyrun á Blesa og fleiri glettin ljóð

Eyrun á Blesa
 
 
Mikið hafa eyrun á Blesa það gott.
 
Þau hafa útsýni yfir hagann 
og niður að ánni, hlusta á spóa 
lóu og gæs.
 
Þau eru samtaka, eyrun á Blesa
dilla sér og dansa
en einstaklingseðlið virðist þó skýrt:
Komi fluga að því vinstra 
kvartar það eitt og sér. 
 
Mikið hafa eyrum á Blesa það gott.
Þau hafa félagsskap hvort af öðru
horfast í augu og hlæja.
 
Annað er með eyrun á mér.
Á milli þeirra er ekkert 
nema eintómur heili og vit.
 
Mikið hafa eyrun á Blesa það gott.
 
 
 
Leiðinlegt fólk 
 
Leiðinlegt fólk finnst mér skemmtilegt. 
Ég tala nú ekki um ef það þegir mikið.
Ef það þegir mikið og lengi. 
 
Ég hef gaman af leiðinlegu fólki. 
 
Skemmtilegt fólk finnst mér leiðinlegt. 
Einkum ef það dregur athygli frá mér 
þegar ég ætla að vera fyndinn. 
 
Núna áðan var ég næstum því kominn 
með sniðugt tilsvar fram á varirnar.
 
Tókuð þið eftir því?
 
Þá birtist skemmtilegur maður  
og reif frá mér athyglina. 
 
Skemmtilegt fólk hefur einstakt lag á því að dúkka upp
þegar aðrir ætla að vera fyndnir. 
Þessu hef ég oft tekið eftir. 
 
Skemmtilegt fólk þolir ekki aðra.
Leiðinlegt fólk finnst mér miklu skemmtilegra. 
 
 
 
Verslunarmannahelgin í borginni
 
 
Fjörið byrjar í Árbæjarsafninu eftir lokun 
þegar fólkið stefnir vestur á land 
eða austur yfir heiði.
 
Húsin dusta af sér siðprýði og ryk.
Þau taka upp hljóðfæri og brosa.
 
Þau taka upp hald og dansa.
 
Meðan grunlaust fólk liggur í hjólhýsum á Flúðum
eða tjöldum í Stykkishólmi
slæðast í dansinn yfirgefin hús 
úr nálægum hverfum.
Svo er dansað og valsað út yfir túnin.
 
Jafnvel raðhúsalengja í Fossvogi 
slítur sig af grunninum
og arkar af stað
til að bjóða Dillonshúsi upp.
 
Meðan nóttin er ung koma verkfæraskúrarnir 
neðan af Höfða
tjúttandi yfir brúna.
Þeir vilja líka dansa. Þeir vilja tjútta og samba.
 
Og nóttin er ung og nóttin er alltaf að yngjast.
Húsin þau dansa og samba. 
Húsin þau dansa og valsa og samba.
 
Loks fer að birta og vonandi kemur dagur.
Það ærir yfirgefinn pilt að horfa á húsin dansa.
 
 
 
Ég um Mig frá Mér til Mín
 
Einu sinni þvældist Ég alltaf fyrir Mér
og Mér fannst Ég alveg óþolandi.
 
Ekki þoldi Ég heldur Mig
og hvar sem Ég var
og hvert sem Ég fór
þá fór
Ég
líka í Mig.
 
Það var aldrei friður.
Ég var alltaf öðruvísi.
 
Ég jafnaðist aldrei á við Mig.
Ég líktist aldrei Mér.
Ég gat aldrei verið eins og Mín.
 
Oft grét Ég fram á nótt.
Svo kom alltaf einhver dagur.
 
Tilveran hefur aldrei verið einföld.
Tilveran hefur aldrei verið eins.
Tilveran er alltaf sitt á hvað.
Það er vetur.
Það er sumar.
Það er vor og það er haust.
 
Núorðið hef Ég tekið Mig í sátt.
Núorðið hef Ég vanist Mér.
Núorðið er jafnvel spurning hvort Ég geti lifað án Mín.
 
 

SYRPA: LJÓÐAHLJÓÐARALL Á DEGI  LJÓÐSINS

Samræða á degi ljóðsins

Mér finnst eins og ég hafi verið fugl
í fyrra lífi. Fugl.

Þú ert sami sveimhuginn og hefur ekkert breyst.
Fugl. Himinn. Frelsi.
Bla, bla, bla!

Kannski var ég ekta landnámshæna, ha?

Kannski varstu akurhæna. Plaff, plaff, plaff!

Mér finnst eins og ég sé ennþá ég
í fyrra lífi. Fugl. Ég er kíví-
fugl. Ég er mörgæs.
Ég er eimönd.
Ég er kakapúi.
Ég er kasúi, emúi, strútur.
Ég er nandúi. Fugl.
Ég er fugl. Ég er fugl. Ég er fugl.

 

Ávarp á degi ljóðsins

Hvað er ljóð? spurði sokkur
sem fann að teygjan var farin

svo hann
bara
rann

niður fótlegg mannsins
sem stóð á fætur og
gekk með reisn
inn eftir fagnandi sal til að halda ávarp.

 

Tiltal á degi ljóðsins

Næði trufla hrynþung hljóð.
Hljóð vill skáld og næði.
Kvæði telst oft lipurt ljóð.
Ljóð er sjaldan kvæði.

 

Söngur tuskudýranna á degi ljóðsins

bí bí krunk krunk bra bra voff
mu mu mu-u
me me me-e
gagg-alla nöff nöff í-hí hí

bra bra mjá mjá voff voff nöff
mu mu mö
mö mö mu
mu mö mu me bí bí-bí

err-err arr
arr-arr err
err arr urr arr irr arr orr

krunk krunk kvakk kvakk
mjá mjá mjá
me voff
mu voff
krí-krí krí

me me mu mu í-hí hí
mjá mjá bra bra bíbí-bí

 

Eintal á degi ljóðsins

Þú situr við borð ásamt ljóði.
Þú situr þar dag eftir dag
situr og glápir út í loftið.

Þú sem ert ég sem er skáldið
ég ávarpa þig
til þess að fjarlægjast mig
til þess að geta ráðið þér heilt.

Hlustaðu á mig!

Reyndu að horfast í augu við ljóðið
uns kemur í ljós
hvort ykkar verður fyrst til að líta undan.

Stattu svo upp þegar það verður ljóst.
Gakktu þá út til að anda
án þess að túlka eitt eða neitt.

 

Upplestur á degi ljóðsins

Lesarinn ungi
setur nýja tímareim
í gamla ljóðið.

 

Ákvæði á degi ljóðsins

Ég sem les og yrki
ég sem les þig ljóð mitt
legg svo á og mæli um að þú
verðir að flúgandi móðu báli fjalli
verðir að fuglinum stóra stóra
sem enginn kemst yfir
nema ég nema ég
nema ég sem
les þig ljóð
og yrki.

 

Erindi á degi ljóðsins

Fleiri vegir. Fleiri bílar.
Fleiri erindisleysur.
Þannig ortu skáldin í gamla daga.

Um erindi þeirra og erindisleysur
snýst erindi mitt í dag.

Þetta voru fyrsta og annað erindi ljóðsins.
Þau báru með sér djarfar fullyrðingar.
Hér í þriðja erindinu vaknar spurning
þar sem vottar fyrir efa mínum:
Hvaða erindi á ég við ykkur núna í dag?

Fjórða erindið er eins konar millispil
upptaktur að dramatísku loka-erindi:

Ég hef ekkert erindi.
Ég á ekkert erindi.
Ég er erindið. Ég er erindisleysan.

  

Tilboð á degi ljóðsins

Þetta líf allt er ruglað partí. Halló
viltu kaupa ljóð? spyr þessi gaur. Vá!
segi ég: Aldrei að vita. Á hvað?

Tuttugu þúsund! Og ég bara: Ha?
Maður skítur ekki peningum. Tíu?
segir þá gaurinn. Lítið fyrir afbragðs

efni sem örvar. Nei, ég hef engan
áhuga. Skilið? Má kannski bjóða
þér eina línu? Held það sé dagur

ljóðsins og kvöld eða nótt.
Má kannski bjóða þér eina línu?

 

Köll á degi ljóðsins

Taktu hundinn með þér, kallaði kallinn.
Kallaðu á hundinn, kallaði kallinn.

Komdu hingað kallinn
kallaði ég á hundinn.
Þá kallaði hann kallinn.
Afhverju ertu að kalla á hundinn?
Afhverju ertu að taka með þér hundinn?

Þannig kallaði kallinn.
Hann kallaði kallinn.
Hann kallaði kallaði kallinn.

 

Bannorð á degi ljóðsins

maurildi

og

knattspyrna

eða

gyllinæð

sem

vorfögur

langtímafjárfesting

elskast

er

enginn

valkostur

 

DADA-rímur á degi ljóðsins

Fyrsta ríma; ferskeytt

Dada dada dada da
dada dada dada.
Dada dada dada da
dada dada dada.

Erindið skal endurtaka þar til rímunni lýkur.

Önnur ríma; dverghent

Dada dada dada da
dada dada
Dada dada dada da
dada dada

Erindið skal endurtaka uns næsta ríma birtist.

Þriðja ríma; stefjahrun

Dada dada dada da
dada dada da.
Dada dada dada da
dada dada da.

Erindið skal endurtaka fram að pásu

Fjórða ríma, gagaraljóð

Dada dada dada da
dada dada dada da
Dada dada dada da
dada dada dada da

Erindið skal endurtaka svo lengi sem þurfa þykir.

Fimmta ríma, draghent

Dada dada dada dada
dada dada dada
Dada dada dada dada
dada dada dada

Erindið skal endurtaka þar til rímunni lýkur.

 

Hvatning á degi ljóðsins

Ekki skrifa niður.
Ekki skrifa hugsanir þínar niður.

Skrifaðu til að hugsa.
Skrifaðu til að hugsa upp.
Skrifaðu þínar hugsanir upp.

 

Fyrirmæli á degi ljóðsins

Finndu kjötið í grænmetinu.
Finndu safann í mjölinu.
Finndu allt þitt eftirlæti umbúðalaust.

Settu óvænt ljóð á pokasvæði.
Settu óvænt ljóð á pokasvæði.

Hinkraðu eftir merkingu.

Fáðu kvittun fyrir tilveru.
Fáðu kvittun fyrir tilveru þinni.

 

Koddahjal á degi ljóðsins

Komdu draumur drauma minna
draumatök þín vil ég finna
þér af heilum huga sinna
hangs og yndi saman tvinna.

Komdu næturverk að vinna
værð og ró má hingað ginna
harðstjórn vits þá loks mun linna
lona hneit og gjoðið klinna.

Kondi móm og donni dvinna
dænið mumm að hníða jinna
henað gven og blonúð blinna
blútið glinna flinna hjinna.

Kondi kondi ninna ninna
ninna kninna onn og hninna.

 

Tíðindi héðan og þaðan

Tíðindi héðan og þaðan

 
 
Við heyrum þessar fréttir
 
 
Við heyrum þessar fréttir
um hvað heimurinn sé grimmur
þær skelfa okkur fyrst
en verða síðan lágróma
hversdagslegt hjal.
Við göngum út í norðanrokið
á leið okkar til vinnu
og spyrjum okkur sjálf:
Hvað get ég svosem gert?
leitum ekki svars
en látum vindinn þjóta
sem stríðsfrétt um eyru vor.   
 
 
 

Blóð Kólumbíu

 

Blóðtaumurinn rennur, aftur rennur blóðtaumur
undir hurð, fram á gang, drýpur niður tröppur
lekur út á götu, streymir yfir torg
yfir land, yfir lönd
til sjávar
berst taumurinn, fregnin, blóðfregnin
berst með hafstraumum kringum hnöttinn.

Aftur rennur blóðtaumur og vitjar móður
vitjar föður, vitjar systkina og barna
vitjar ættar og tengsla
vitjar samkenndar meðal fólks um allan heim.

Við hljótum í spurn að rekja fregnina til baka
yfir lönd, yfir höf, uns við komum að húsi
komum að einu húsi
eftir öðru
þar sem flaggað er rauðu: hér búa soltin börn!

Stopp. Það verður ekki meira tekið
af þeim sem ekkert eiga nema mótlætið.

Leikum á fiðlur, blásum í flautur
blásum til mótmæla
sláum trumbur
samtaka systur, bræður.
Blásum lífi í samtaka hugsjón og dag.

 

Maður kominn á aldur flettir blaðinu

 
 
Pottur gleymdist á hellu í Fossvoginum.
Á Mýrunum var sígarettu kastað úr bíl.
Í Namacura drap jarðsprengja stúlku.
 
Hvað skyldi þessi stúlka hafa heitið?
hugsar hann sem les fréttirnar.
Hvað heitir fólk í Mósambík?
 
Hún var tíu ára segir blaðið, sem sagt miklu yngri 
en ávöxtur borgarastríðsins, virk sprengja
sem enginn veit hver framleiddi.
 
Klausa á viðskiptasíðunni fjallar um sjóðinn
sem lengi ávaxtaði sparnað mannsins 
og tryggir honum núna öryggi.
 
Á morgun verður haldinn fundur
um ábyrgar fjárfestingar
hér heima og erlendis.
 
Hvað heitir fólk í Mósambík?
 

Ólífutré ber við himin

Ef þú lítur upp eitt augnablik sérðu tré
eitt ólífutré sem ber við himin, já
krónuna ber við himin
en sýnin truflar þig
því rætur ber líka við himin.
Þú sérð ólífutré sem virðist svífa í loftinu.

Þessari sýn skaltu aldrei gleyma.

Með vægðarlausum stálörmum
vill ótuktin
rífa ólífutré burt af stað sínum á jörðinni.

Þegar ólífutréð sveiflast til í loftinu
festir það rætur á ný
rætur seiglunnar
rætur tímans
og þær vaxa í huga þínum
huga mínum, huga okkar allra
sem verðum hvert og eitt að nýju tré.

  

  
 
 
Í höll Þyrnirósar
 
 
Nú heimta ég orðið
ég sem ánauðug þjónaði höfðingjaslekti
og fékk ævintýrið gegn mér
að launum.
 
Fárra kosta átti ég völ
mátti stýfa úr hnefa
meðan drottningin taldi gulldiska sína.
 
Ég stóð að jafnaði við spunann
en starfi minn var hvergi lofaður
ætíð skyldi vegsamað
iðjuleysi kóngsdótturinnar.
 
En svo mættumst við yfir snældunni
fulltrúi vinnandi lýðs
og óskabarn hrörnandi ríkis …    
 
Hlustið á mig
látið kóngsdótturina sofa
látið hana um eilífð sofa
og vorkennið henni ekki.
 
Freisti þess prinsinn að vekja hana
taki þá smiðirnir hann í læri.
Sveinsstykkið verði rammgerð kista.
 
Látið kóngsdótturina sofa
en komið sjálf úr afkimunum og vakið.
 
 
Skip á höfninni
 
Ávítun fóstru minnar hef ég ekki gleymt:
Aldrei að benda á skip.
 
Við sáum síldarbátana stíma inn fjörðinn.
 
Hér sigla önnur fley inná höfn og lygna undrun.
Vináttuheimsókn, ítreka blöðin.
Ég lóna á kajanum og bendi, bendi.
 
Andóf mitt gegn herveldum…
 
Blaður kvenna, barnaskapur, hjátrú.
þusar hann sem allt veit betur.
 
Og strákarnir í heiðursverðinum brosa.
 
Engan styggja bendingar mínar í dag.
Á morgun: kylfurnar.
 
 
 
Bak við fjöllin sjö
 
Í okkar húsi skorti ekki traust;
nú uppskerum við efann.
Hún sem naut stuðnings
er sest að veislu og völdum.
 
Fyrrum heyrðist deilt
á miskunnarleysið í höllinni.    
Er við komum þreyttir heim úr námunum
fengum við jafnan nýjustu tíðindi
af klækjum drottningar mót falsleysinu.
 
Við héldumst í stöðugri spennu
grétum
þegar uppáhaldinu var meinað að tala. 
 
En fegurð okkar komst aldrei á dagskrá
hins vegar var dylgjað með gáfnafarið
og sannarlega höfðum við einfaldan kost.
 
Við gröfum áfram málma úr jörð
þótt ævintýrið þegi um hver hagnist.
Og miskunnarleysið ríkir í höllinni. 
 
Hún sem naut áður stuðnings
er sest að veislu og völdum
og þú veiðimaður
verður aftur sendur út í skóg.
 
En varastu töfrana
sú næsta verður líka alþýðleg.
Búðu hennar síðustu för
og snúðu til hallar með rýtinginn hvesstan.
 
Látum endinn vera óbreyttu fólki í vil
látum upphafsorðin rætast:
Einu sinni var …
 
 
Menning
 
Meðan Gunnar á Hlíðarenda
stökk hæð sína
í hugum okkar
sem lékum með trésverð
í snjónum
voru önnur börn
minnt á tækni nútímans
með dauða sínum.
 
 

Lina Dardonah

Hún fetar sig um laskað hús
með bangsa í fanginu, lítil stúlka.

Í fjarlægum stjórnklefa
situr ungur karl
með krullur niður vangana
maulandi súkkulaði og snakk.

Deyi fólk þá getur það sjálfu sér um kennt.
Íbúum er alltaf ráðlagt að yfirgefa húsin.

Þeir segja mér ekkert fyrir verkum
möglaði faðir úti á stétt
en þegar árásirnar hófust
var þó enginn eftir innandyra
nema kannski bangsi með ofsalega rauð eyru.

Herveldið tortryggir ásýnd vanmáttarins
fjölbýlishús gæti verið bækistöð skæruliða
leikskólabarn gæti verið dulbúinn vígamaður.

Eftir aðgerðir dagsins hófst leit í rústum
og tólf ára stúlka, Lina Dardonah
náðist á mynd
þar sem hún stígur varfærin
yfir mulning úr hrundum veggjum:
Hún heldur á bangsa með ofsalega rauð eyru.

Herveldin ætla sér víst aldrei að drepa börn.
Hvar ert þú núna, Lina?
Þú sem fannst huggara í rústunum. Lifir þú?

Lina Dardonah
lítil stúlka
með bangsa í fanginu
með ógnvekjandi bangsa í fanginu.

 

Hrafnaþula
 
 
Nú heyri ég krunkað og krunkað að nýju.
Hvað viltu segja mér krummalegi hugur?
Hvað viltu sýna mér hrafnsvarta minni?
Kringum hús, kringum borg, kringum land
kringum lönd hefur múrveggur risið
múr til að loka fólk inni, loka fólk úti.
Það fer múr gegnum lönd, gegnum hjörtu,
múrveggur skilur að bræður, skilur að systur, 
skilur að bræður og systur, skilur að foreldra, börn.
Hvers vegna? Hvers vegna? spyr æðaber vonin.
Hvenær kemur minn tími? spyr þráláta óskin.
Hvað gerðist? Hvað gerist? spyr nóttin, spyr dagur.
Hvað gerðist í gær, hvað gerist á morgun?
Nú heyri ég krunkað og krunkað á ný.
 
 
Nú heyri ég krunkað og krunkað að nýju.
Hvar sérðu múrana krummalegi hugur?  
Hvar sástu múrana hrafnsvarta minni?
Það standa múrar í vesældar suðri, í velsældar norðri
múrar  í fortíðar vestri, í framtíðar austri
standa traustgerðir múrar, standa ókleifir múrar.
Þar er veröld fyrir innan, veröld fyrir utan  
fyrir innan er hrokinn, fyrir utan er vonin
fyrir innan er heimskan, fyrir utan er viskan.
Hvers vegna? Hvers vegna? spyr svefndrukkin ástin.
Hvenær kemur minn tími? spyr hikandi framtíð.
Hvað gerðist? Hvað gerist? spyr nóttin, spyr dagur.
Hvað gerðist í gær, hvað gerist á morgun?
Nú heyri ég krunkað og krunkað á ný.
 
 
 
Nú heyri ég krunkað og krunkað að nýju.
Hvernig eru þeir múrarnir krummalegi hugur?
Hvernig virka þeir múrarnir hrafnsvarta minni?
Það er samsærismúr, það er fátæktarmúr
það er fordómamúr og múr hinna úreltu siða,
múr til að verjast hugmyndum nýjum.
Það er fortíðarmúr, það er framtíðarmúr
múr til að verjast innrás og múr til að verjast útrás, múr.
Það er múr, þar er múr, það er múr.
Hvers vegna? Hvers vegna? spyr viðutan traustið.
Hvenær kemur minn tími? spyr sundurlynd veröld.
Hvað gerðist? Hvað gerist? spyr nóttin, spyr dagur.
Hvað gerðist í gær, hvað gerist á morgun?
Nú heyri ég krunkað og krunkað á ný.
 
 
 
Þverstæða á vígvellinum
 
 
Bara þverstæður blómstra á vígvellinum.
 
Þegar vondi foringinn heimtar framsókn 
fjölgar sífellt liðhlaupum 
uns herinn þurrkast út.
 
Þegar góði foringinn heimtar framsókn 
vilja fleiri ganga í herinn 
og stríðið heldur áfram.
 
Er vondi foringinn þá góður?
Er góði foringinn þá vondur?
 
 
Noomi til staðar 
 
Mér finnst þú ekkert flott með byssu.

Ég skil ekki þessa spennu.

Ég vil ekki þessa spennu.

Fullur salur. Áleitinn þefur tekur mig hálstaki. 
Svo stendur einhver upp og byrjar að skjóta. 
 
Það er gaman að horfa á þig, Noomi 
en eftir því sem lengra líður á myndina 
finn ég bara magnast
lyktina frá gaurnum

í sætinu hérna við hliðina á mér. 
 
Lyktin þreifar sig áfram um salinn og upp á tjaldið. 
Ég sé að þér fipast í hlutverkinu.

Þú hnusar út í loftið og tekur inn stöðuna. 
 
Án minnsta fyrirvara gerist svo þetta: 
 
Noomi stekkur út í salinn.

Noomi hleypur yfir bekkina.

Noomi þrífur í gaurinn við hliðina á mér: 
Drífðu þig út!

Drífðu þig í sturtu!

En skiptu samt fyrst um sokka og settu í vél. 
 
Svona geta allar myndir endað vel. 
 
Mér fannst gott að þú skaust hann ekki, Noomi. 
Sturta virkar betur en skotárás.

Þvottavél gerir meira gagn en byssa. 

Pin It on Pinterest