Nokkrar ljóðaþýðingar AHJ

 

W.B Yeats

Endurkoman

Vendandi æ vendandi í gleikkandi hvirfli
heyrir fálkinn ekki til fálkarans;
allt liðast í sundur; miðjan heldur engu;
hreinu anarkíi streymt um heiminn,
blóðmyrkvuðu flóðinu streymt,
og siðvenju sakleysis hvarvetna drekkt;
alla sannfæringu skortir þá bestu, en þeir verstu
bólgna út af ástríðufullum krafti.

Vissulega virðist opinberun í nánd;
vissulega virðist Endurkoman í nánd.   
Endurkoman! Varla hef ég látið frá mér orðið
fyrr en Andi heimsins tekur á sig mynd
ruglar sjón mína: úti á söndum eyðimerkurinnar
hreyfir svifasein lærin skapnaður með búk
af ljóni og höfuð manns, tillitið sljótt og laust
við meðaumkun eins og sólin, en allt um kring
snúast skuggar hinna örgu eyðimerkurfugla.   
Myrkrið kemur aftur; en núna veit ég
að tuttugu aldir af algjörum svefni
byltust í martröð ruggandi vöggu,
og hvaða ógnarskepna sem loks á vitjunatíma
hokrast í átt að Betlehem til að fæðast?

Bronislawa Wajs (Papusza)

Blóðtár

– Það sem við máttum þola vegna þýsku hermannanna í Voly veturinn ’43 til ’44 –

Í skóginum. Ekkert vatn, enginn eldur – mikið hungur.
Hvar áttu börnin að sofa? Ekkert tjald.
Um nætur gátum við ekki kveikt eld.
Á daginn hefði reykurinn vakið athygi Þjóðverjanna.
Hvernig er hægt að komast af með börn á köldum vetri?
Allir berfættir…
Þegar þeir höfðu ákveðið að myrða okkur
settu þeir okkur fyrst í nauðungarvinnu.
Þjóðverji kom til okkar.
– Ég hef slæmar fréttir að færa.
Þeir ætla að drepa ykkur í nótt.
Ekki segja neinum.
Ég er líka dökkur Rómamaður
af ykkar ætt — hreinn og sannur.
Guð veri með ykkur
í svörtum skóginum…
Eftir að hafa sagt þetta
faðmaði hann okkur að sér

Í tvo þrjá daga enginn matur.
Allir fara svangir að sofa.
Geta ekki sofið
stara á stjörnurnar…
Guð, það er svo fallegt að lifa!
Þjóðverjarnir vilja ekki leyfa okkur…

Ó þú litla stjarna!
Í dögun ert þú stór!
Blindaðu Þjóðverjana!
Ruglaðu þá
leiddu þá afvega
svo að Gyðinga- og Rómabörnin fái lifað!

Hvað tekur Rómakona með lítil barn til bragðs
þegar kemur harður vetur?
Hvar finnur hún klæði?
Allt verður einskisnýtt.
Hún vill deyja.
Enginn veit, nema himininn
bara fljótið heyrir harmatölur okkar.
Augu hverra sáu okkur sem óvini?
Munnar hverra formæltu okkur?
Ekki hlusta á þá, Guð.
Hlustaðu á okkur.
Það kom köld nótt
gamla rómakonan söng
ævintýri rómafólks:
Það kemur gullinn vetur,
snjór, sem litlar stjörnur,
mun hylja jörðina, hendurnar.
Svörtu augun frjósa
hjörtun deyja.

Það féll svo mikill snjór
að hann huldi vegina.
Bara hægt að sjá Vetrarbrautina á himnum.

Á einni slíkri frostnótt
deyr ung dóttir
og á fjórum dögum
grafa mæður í snjóinn
fjóra unga syni.
Sjáðu sól, hvernig unga Rómafólkið
deyr úr kulda í skóginum
þegar þú ert fjarri.

Þegar ég var komin heim óð tunglið í glugganum
leyfði mér ekki að sofna. Einhver leit inn.
Ég spurði – hver er þar?
– Opnaðu dyrnar, dökka Rómakona.
Ég sá fallega unga Gyðingastúlku
skálfandi úr kulda
biðjandi um mat.
Litla vina, greyið mitt.
Ég gaf henni brauð, allt sem ég átti, skyrtu.
Við gleymdum því báðar að ekki fjarri
var lögreglan.
En þeir komu ekki þá nótt.

Allir fuglarnir
biðja fyrir börnum okkar
svo að vonda fólkið, illmennin, drepi þau ekki.
Ó örlög
Ólukkans lukka mín.

Þéttur eins og laufin féll snjórinn
hefti för okkar
svo mikill snjór, vagnhjólin grófust í hann.
Það varð að troða stíg
ýta á vagnana aftan í hestunum

Ótal stundir eymdar og hungurs.
Ótal sorgarefni og vegir.
Ótal beittir steinar sem skáru fætur okkar.
Ótal byssukúlur sem smugu við eyru okkar.

(Snarað eftir enskri þýðingu sem Yala Korwin gerði úr pólsku)

 

Jan Erik Vold

Heildarútgáfan af ástarlífi Borislav Herak

 

Ég hafði aldrei verið með neinni. Við komum
í bæinn Bioca. Ég fékk skipun

um að nauðga stelpu. Ég fór með hana
í hús þar rétt hjá. Hún hét Naila. Hún streittist

ekkert á móti. Verðirnir litu til mín. Gerði ég
það ekki, myndu þeir drepa mig. Önnur

hét Amela. Hún sagði ekki neitt. Grét bara.
Við sögðum henni að fara úr öllu.

Meðan einn nauðgaði, hélt annar henni
niðri. Eða drakk koníak. Við ókum

henni að aflíðandi brekku. Hún var ósköp
róleg. Gekk af stað. Þá tók Sretko upp byssuna

og skaut hana í hausinn. Það var ein sem hét Ina
og ansi sæt. Hún var sautján. Mér leist á hana

en ekki að nauðga henni. Við komum í múslímska
kvennafangelsið þriðja hvern dag. Eftir á

var það yfirleitt ég sem þurfti að skjóta þær, því ég
var sá lægst setti. Ég á þetta skilið.

Mig langar bara að sjá pabba einu sinni enn.
Og svo langar mig í smók.

Paul Celan

Fúga dauðans

Svarta árdegismjólk við teygum á kvöldin
við teygum hana seint og snemma og við teygum hana um nætur
við teygum og teygum
við tökum gröf á himnum svo þrengi ekki að neinum
í húsinu býr maður hann leikur við nöðrur hann ritar
hann ritar þegar dimmir um Þýskaland glóandi hár þitt Margrét
hann ritar og gengur úr húsi og stjörnurnar leiftra hann flautar hundana til sín
hann flautar fram júðana sína lætur þá taka sér gröf í jörðu
hann skipar okkur spiliði fyrir dansi

Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig seint og snemma og við teygum þig á kvöldin
við teygum og teygum
í húsinu býr maður hann leikur við nöðrur hann ritar
hann ritar þegar dimmir um Þýskaland glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít við tökum gröf á himnum svo þrengi ekki að neinum

Hann hrópar grafiði dýpra þið þarna spilið og syngið
hann grípur til járnsins í beltinu hamast með augun sín bláu
stingið skóflunum dýpra þið þarna spiliði fyrir dansi

Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig seint og snemma og við teygum þig á kvöldin
við teygum og teygum
í húsinu býr maður glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít hann leikur við nöðrur

Hann hrópar spiliði dauðann af blíðu dauðinn er meistari þýskur
hann hrópar snertið dekkri strengi þá stígiði sem reykur til himins
þá öðlist þið gröf í skýjum svo þrengi ekki að neinum

Svarta árdegismjólk við teygum þig um nætur
við teygum þig á kvöldin dauðinn er meistari þýskur
við teygum þig seint og snemma og við teygum og teygum
dauðinn er meistari þýskur með augað sitt bláa
hann hæfir þig með blýkúlu sinni hann hæfir þig beint
í húsinu býr maður glóandi hár þitt Margrét
hann sigar á okkur hundum býr okkur gröf á himnum
hann leikur við nöðrur og dreymir dauðinn er meistari þýskur

glóandi hár þitt Margrét
öskugrátt hár þitt Súlamít

 

Wislawa Szymborska

16. maí 1973

 

Ein hinna mörgu dagsetninga
sem kveikir ekki lengur á neinu.

Hvert ég fór þann daginn
hvað ég gerði — ég veit það ekki.

Hverja ég hitti, um hvað var talað,
ég man það ekki.

Ef glæpur var framinn í nágrenninu,
hefði ég enga fjarvistarsönnun.

Sólin lýsti og hvarf
án þess að ég tæki eftir því.
Jörðin snerist sinn hring
án þess að ég gæti þess í minnisbókinni.

Mér er bærilegri sú tilhugsun
að ég hafi verið látin um stund
en að minnast einskis
þótt ég hafi verið á lífi allan tímann.

Ég var engin vofa
ég andaði, ég át
ég gekk um.
Fótatakið heyrðist
og fingraförin
hljóta að hafa komið á hurðarhúninn.

Mynd mín var í speglinum.
Ég klæddist einhverju í ákveðnum lit.
Einhver hlýtur að hafa séð mig.

Ef til vill fann ég á þessum degi
hlut sem ég hafði týnt
Ef til vill týndi ég einhverju sem ég fann síðar.

Ég var þrungin tilfinningum, og skynjaði.
Nú er allt
eins og punktalína innan sviga.

Hvar hélt ég til
hvar var ég eiginlega?
Það má heita merkilegt
að hverfa úr eigin augsýn

Ég hristi minnið.
Ef til vill er í greinum þess eitthvað
sem um áraraðir hefur sofið
og flögrar nú að stað.
Nei.
Greinilega krefst ég of mikils.
svo mikils sem einnar sekúndu.

 

Wislawa Szymborska

Ást við fyrstu sýn

 

Þau eru bæði sannfærð um það
að óvænt ástríða hafi sameinað þau.
Slík vissa er falleg
en óvissa er samt fallegri.

Fyrst þau hafa aldei hist áður, eru þau viss
um að ekkert hafi verið á milli þeirra.
En hvað segja göturnar, tröppurnar, gangarnir
ef til vill hafa þau mæst ótal sinnum.

Mig langar til að spyrja þau
hvort þau muni ekki
andartak augliti til auglitis
einhvers staðar í hringdyrum?
ef til vill „afsakið“ muldrað í mannþröng?
snubbótt „vitlaust númer“ í tólinu?
en ég veit svarið.
Nei, þau muna ekki.

Þau yrðu hissa að heyra
að tilviljunin hefur leikið sér að þeim
í mörg ár

Ekki enn tilbúin
að verða Örlög þeirra
hún ýtti þeim nær, dró þau sundur
setti hindrun í veg þeirra
með bældum hlátri
og læddist síðan í hvarf.

Það voru merki og tákn
jafnvel þótt þau gætu ekki ráðið þau.
Ef til vill fyrir þremur árum
eða bara á þriðjudaginn var
eitt lítið lauf sem flökti
af einni öxl á aðra?
Eitthvað rann úr hendi og var gripið upp.
Hver veit, ef til vill boltinn sem hvarf
inn í runna æskunnar.

Það voru hurðarhúnar og dyrabjöllur
þar sem ein snerting kom
á eftir annarri.
Töskur sem voru bókaðar inn og stóðu hlið við hlið.
Nótt eina, ef til vill, sami draumurinn,
orðinn þokukenndur að morgni.

Allar byrjanir eru sjálfstætt framhald
þegar allt kemur til alls
og bók atburðanna
er alltaf opin í miðju.

 

Wislawa Szymborska

Köttur í tómri íbúð

 

Deyja — slíkt er ekki hægt að gera ketti.
Eða hvað ætti köttur að gera
í tómri íbúðinni.
Klifra upp veggina?
Nudda sér upp að húsgögnunum?
Ekkert virðist breytt
en ekkert er þó eins og það var.
Ekkert hefur hreyfst úr stað
en samt er meira pláss.
Og á kvöldin er ekki kveikt á neinum lampa.

Það heyrist fótatak í stiganum,
en ekki það rétta.
Höndin sem leggur fisk í skálina
er líka önnur.

Eitthvað byrjar ekki
á venjulegum tíma.
Eitthvað gerist ekki
eins og það ætti.
Einhver var alltaf, alltaf hérna
síðan skyndilega horfinn
og þrjóskast við að vera horfinn.

Hver skápur hefur verið rannsakaður.
Hver einasta hilla könnuð.
Til einskis að grafa sig undir teppið.
Búið að gera það sem er bannað,
pappírum rótað út um allt.
Hvað er hægt að gera fleira?
Sofa og bíða.

Bíða bara uns hann kemur
bara láta hann sýna sig.
Þá skal hann vita að svona
kemur maður ekki fram við kött
Mjakast í áttina til hans
með sýnilegum óvilja
og ákaflega hægt
á móðguðum loppum
og ekki stökkva eða væla til að byrja með.

 

Wislawa Szymborska

Terroristinn, hann fylgist með

 

Sprengjan á kránni er stillt á tuttugu mínútur yfir eitt.
Núna er hún sextán mínútur gengin.
Nokkrir geta ennþá farið inn.
Aðrir gengið út.

Terroristinn stendur nú hinumegin götunnar.
Þessi fjarlægð verndar hann frá illu.
Og hvílíkt útsýni, eins og í bíó:

Kona í gulum jakka, hún fer inn.
Maður með dökk sólgleraugu, hann kemur út.
Strákar í gallabuxum, þeir spjalla.
Sautján mínútur og fjórar sekúndur.
Sá stutti, hann er heppinn, sest á vespuna
en sá langi, hann gengur inn.

Sautján mínútur og fjörtíu sekúndur yfir eitt.
Þessi stúlka, hún nálgast með grænan borða í hárinu.
En þá skyggir stætisvagn óvænt á hana.
Átján mínutur gengin.
Stúlkan horfin.
Var hún þetta fífl, fór hún inn, eða ekki?
Kemur í ljós þegar þau verða borin út.

Nítján mínútur gengin.
Engir fleiri virðast ætla inn.
En einhver gaur, feitur, sköllóttur, er á förum.
Bíðum við, helst virðist sem hann leiti einhvers í vösunum og
tíu sekúndum fyrir eitt tuttugu
gengur hann inn til að sækja skitna hanska.

Nákvæmlega trettán tuttugu.
Þessi bið, heil eilífð.
Nú gerist það.
Nei, ekki enn.
Jú, núna.
Með hvelli, sprengjan.

 

Fernando Pessoa

Álvaro de Campos: Tóbaksbúðin

 

Ekki er ég neitt.
Aldrei verð ég neitt
Ekki fæst ég til að vera neitt.
Burtséð frá þessu bý ég yfir öllum draumum heimsins.

Gluggarnir á herbergi mínu
sem er herbergi eins sem enginn þekkir af milljónunum í heiminum
(Og ef þeir þekktu, hvað myndu þeir vita?)
Þið horfið út á dulúð strætis sem stöðugt er gengið af fólki
á stræti sem er óaðgengilegt öllum hugsunum
áþreifanlegt, hræðilega áþreifanlegt, öruggt, undarlega öruggt
með dulúð hluta undir steinum og skepnum
með dauða sem veldur raka í veggjum og hvítu hári manna
með þau örlög að aka bifreið alls niður vegarspotta einskis.

Í dag er ég uppgefinn líktog ég viti sannleikann.
Í dag er ég skýr líktog ég sé að dauða kominn
og nái ekki lengur sambandi við umhverfið
nema til að kveðja, þetta hús og þessa hlið strætisins sem breytist
í röð lestarvagna og flauta blæs til brottfarar
innan úr höfði mínu
og hristingur tauga minna og skruðningar beina við hreyfinguna.
Í dag er ég ráðþrota einsog maður sem hefur hugsað og fundið og gleymt.
Í dag er ég skiptur milli trúnaðar við
tóbaksbúðina hinu megin götunnar sem er eitthvað áþreifanlegt fyrir utan
og skynjunar sem segir að allt sé draumur, sem áþreifanlegt fyrir innan.

Mistekist hefur mér í öllu
þar sem mér hefur ekki tekist að koma neinni áætlun í verk, kannski var allt einskis virði.
Iðnnámið sem mér var komið í-
Ég stökk frá því útum glugga á bakhlið hússins.
Ég fór út á land með stórar áætlanir.
en þar mættu mér aðeins gras og tré
og þegar um fólk var að ræða var það alveg einsog allir aðrir.
Ég fer frá glugganum, sest á stól. Um hvað á ég að hugsa?

Hvað veit ég um það sem ég ætla að verða, ég veit ekki hvað ég er?
Vera allt sem mér dettur í hug? En mér dettur svo margt í hug.
Og það eru svo margir að hugsa um að verða það sama í því sem ekki er þörf fyrir svo marga.

Snillingur? Á þessu augnabliki
eru hundrað þúsund heilar uppteknir við drauma um þá sjálfa sem snillinga einsog ég
og sagan mun ekki muna eftir – hver veit? – neinum þeirra
og ekkert nema áburður verður eftir svo mikla framtíðar keppni.
Nei, ekki hef ég trú á mér…
Öll geðveikrahælin eru full af sjúklingum með mikla mikla vissu.
Og ég sem hef alls enga vissu, er ég öruggari eða minna örugggur?
Nei, ekki einu sinni á mér..
Á hversu mörgum hanabjálkum og ekki hanabjálkum heimsins
eru ekki á þessari stundu dreymandi snillingar-að-eigin-áliti?
Hversu margar háar og göfugar og skýrar vonir-
Já, raunverulega háar og göfugar og skýrar-
Og hver veit hvort þær eru framkvæmanlegar?
munu nokkurn tímann sjá ljós sólarinnar eða ná eyrum fólksins?
Þessi heimur er fyrir manninnn sem er fæddur til að sigra hann
ekki þann sem lætur sig dreyma um að sigra hann jafnvel þótt hann hafi rétt fyrir sér.
Ég hef látið mig dreyma meir en Napóleon kom í verk.
Ég hef kreist inn í ímynduð hjörtu meiri ástargæsku en Kristur
Ég hef í leynum upphugsað heimspekikerfi sem enginn Kant skrifaði.
En ég er og verð kannski alltaf maður á hanabjálkanum
jafnvel þó ég búi þar ekki;
ég mun alltaf verða sá sem ekki var fæddur til þess;
ég mun alltaf verða sá sem hafði hæfileikana;
ég mun alltaf verða sá sem beið eftir því að þeir opnuðu fyrir honum dyrnar á hurðalausum vegg
og söng ballöðuna um Óendanleikann í hænsnakofanum
og heyrði rödd Guð í byrgðum brunni.
Hvort ég trúi á sjálfan mig? Nei, og ekki á neitt.
Lát Náttúruna hella yfir brennandi höfuð mitt
sólskini sínu, regni, vindinum sem hreyfir við hári mínu
og afgangurinn má koma ef vill eða þarf eða þarf ekki
hjörtu okkar þrælkuð af stjörnunum
við sigrum allan heimin áður en við stígum frammúr
en við vöknum upp og hann er myrkur
við förum á fætur og hann er framandi
við förum úr húsi og það er öll jörðin
að viðbættu sólkerfinu og vetrarbrautinni og óendanleikanum.

(Fáðu soldið súkkulaði, litla stúlka;
fáðu súkkulaði!
Sjáðu nú til, það er engin frumspeki í heiminum nema súkkulaði.
Sjáðu nú til, trúarbrögðin kenna ekki meira en sælgætisgerðin.
Éttu, litla skítuga stelpa, éttu!
Ef ég gæti étið súkkulaði með sömu sannfæringu og þú!
En ég hugsa og, reitandi silfurpappírinn með tinlaufi skil ég við það á gólfinu,
einsog ég hef skilið við lífið.)

En að minnsta kosti verður eftir, útúr biturð þess sem aldrei verður
hröð skrift þessara erinda-
Upphaf súlnagangna til hins ómögulega.
En að minnsta kosti helga ég sjálfum mér fyrirlitningu án tára
loksins göfugur í þessari handarhreyfingu sem ég geri þegar ég hendi
þeim skítuga þvotti sem ég er – enginn listi – inn í röð atburða
og verð heima án skyrtu.

(Þú sem huggar, sem ert ekki til og þaraf leiðandi huggar
hvorki grísk gyðja, meðtekin sem stytta sem gæti verið lifandi
né rómverskur faðir hræðilega göfugur og illur
né prinsessa trúbadúrsins, ljúfust og skærust sýna
né átjándu aldar markgreifafrú fjarlæg og í síðum klæðum
né margfræg mella frá æskuárum feðra okkar
né eitthvað nútímalegt – ég hef enga skýra hugmynd um hvað-
vertu hvað sem er af þessu, og, ef það gefur innblástur, láttu það gefa innblátur.
Hjarta mitt er tæmd karfa.
Einsog fólkið sem ákallar anda, ákallar anda, ákalla ég
sjálfan mig og mæti engu.
Ég fer að glugganum og sé strætið algjörlega skýrt:
Ég sé búðirnar, ég sé gangstéttarnar, ég sé umferðina líða hjá
Ég sé lifandi verurnar í fötum ganga hverja framhjá annari
ég sé hunda sem líka eru til
og allt þetta liggur á mér einsog útskúfunardómur
og allt þetta er mér framandi, sem allt annað.)

Ég hef lifað, lært, hef elskað og jafnvel trúað
og í dag er ekki til sá betlari sem ég öfunda vegna þess að hann er ekki ég
Ég lít á tötra hvers og eins, sár og lygar
og hugsa: kannski lifðirðu aldrei né lærðir né elskaðir né trúðir
(vegna þess að hægt er að framkvæma raunveruleika alls þess án þess að gera neitt af því)
kannski hefurðu varla verið til, frekar en hali eðlu sem er skorinn af
en eðlan heldur áfram að hreyfa sig.

Ég hef gert úr mér það sem ég hafði ekki hæfileika til.
Og það sem ég gat gert úr mér gerði ég ekki.
Fínu fötin sem ég fór í voru ekki þau réttu.
Þau þekktu mig strax sem þann sem ég var ekki og ég mótmælti ekki
lyginni og tapaði sjálfum mér.
Þegar ég reyndi að taka niður grímuna
var hún föst við andlit mitt.
Þegar ég náði henni af leit sjálfan mig í spegli
hafði ég þegar elst.
Ég var drukkin, reyndi árangurslaust að komast í
fötin sem ég hafði ekki afklæðst.
ég henti frá mér grímunni og svaf í klæðaskápnum
einsog hundur sem stjórnendurnir þola
vegna þess að hann er hættulaus.
Og ég ætla mér að skrifa þess sögu til að sýna frammá að ég er göfugur.
Hljómur minnar gagnslausu ljóðlistar
ég vildi að ég gæti fundið í þér hönd mína vinna
og að ég myndi ekki alltaf vera fyrir framan tóbaksbúðina hinu megin götunnar

trampandi undir mér, samvisku minni yfir því að vera lifandi
einsog teppi sem fyllibytta fellur um
eða verðlaus motta sem sígaunar stela.

En tóbakssalinn er kominn að dyrunum og stendur í gættinni.
Ég lýt á hann og finn til óþæginda í hnakkanum
og finn til óþæginda þeirrar sálar sem ekki sér skýrt.
Hann mun deyja og ég mun deyja.
Hann mun skilja við sitt skilti og mun skilja eftir mig ljóð mín.
Dag einn mun skiltið líka deyja og sömuleiðis ljóðið.
Eftir nokkurn tíma mun strætið þar sem skiltið var líka deyja
og tungumálið sem ljóðin voru ort á mun deyja líka.
Síðan mun plánetan þar sem þetta allt gerðist líka deyja
Á öðrum hnöttum í öðrum kerfum mun eitthvað einsog fólk halda áfram
að skrifa eitthvað einsog ljóðlist og búa undir einhverju einsog skiltum

allltaf eitthvað á undan öðru
alltaf einn hlutur jafn gagnslaus og annar
alltaf hið ómögulega jafn vitlaust og veruleikinn
alltaf dulúð dýpisins jafn viss og svefn dulúðar á yfirborðinu
alltaf þetta eða alltaf eitthvað annað eða hvorki eitt né neitt.

En maður nokkur hefur farið inn í tóbaksbúðina (til að kaupa tóbak?)
og hinn mögulegi veruleiki hrynur yfir mig
ég rís upp við dogg, krafmikill, ákveðinn, mannlegur
og ég ákveð að skrifa þessi erindi þar sem ég segi hið gagnstæða.

Ég kveiki í sígarettu meðan ég hugsa um að yrkja erindin
og í sígaretunni finn ég frelsi frá öllum hugsunum.
Ég elti reykinn einsog rétta stefnu
og ég nýt í einu viðkvæmu og réttu augnabliki
frelsis frá öllum spekúlasjónum
og viskunni um að frumspeki sé afleiðisng þess að vera í slæmu skapi
síðan halla ég mér afturí stólinn
og held áfram að reykja.
Meðan örlögin leyfa mun ég halda áfram að reykja.
(ef ég giftist dóttur þvottakonunnar
myndi ég kannski verða hamingjusamur)
Því fer ég upp úr stólnum. Ég geng að glugganum.
Maðurinn er kominn út úr tóbaksbúðinni (setur skiptimyntina í buxnavasann)
Ó, ég þekki hann: það er Stebbi án frumspeki.
(Tóbakssalinn er kominn út í dyr.)
Sem leiddur af æðra innsæi snýr Stebbi sér við og sér mig.
Hann veifar til mín, ég kalla til hans Halló Stebbi ! og alheimurinn
byggir sig aftur upp án hugsjónar eða vonar og tóbakssalinn brosir.

 

Jorge de Sena

Á Krít, með Mínotárusi

I

Fæddur í Portúgal, foreldrarnir portúgalir
og faðir brasilíumanna í Brasilíu
verð svo ef til vill kani þegar ég hafna í Ameríku.
Ég viða áfram að mér þjóðernum einsog skyrtum sem slitna,
sem ég klæðist og hendi síðan með hæfilegri virðingu
fyrir þeim fatnaði sem gengur úr sér við mikla notkun.
Ég er mitt eigið föðurland. Föðurlandið
sem ég yrki er tungan, málið sem ég fæddist í af hreinni
tilviljun. Og það sem heldur mér við efnið, heldur mér lifandi
er heift mín vegna ónógrar mannúðar í þessum heimi,
þar sem ég trúi ekki á neinn annan, og myndi í öðrum
bara vilja þennan. En ef ég einhvern daginn gleymi öllu,
þá eldist ég vonandi
við kaffidrykkju á Krít
með Mínotárusi
undir augnaráði ósvífinna guða.

II

Mínotárus mun skilja mig.
Hann hefur horn, einsog vitringar allir og óvinir lífsins.
Hann er hálfur naut og hálfur maður, einsog allar mannskepnur.
Nauðgaði og slafraði í sig ungmennum, einsog allar óvættir.
Sonur Pasífæju og bróðir erindis eftir Racine
sem Valéry, fávitinn, taldi með þeim fegurstu í hinni mætu „langue“.
Einnig bróðir Aríöðnu og hann flæktist í hnykli sem varð honum að falli.
Þeseifur, hetjan, sem líktog allar grískar hetjur var sonur skækju
hló upp í ginið mikils virta.
Mínotárus mun skilja mig, hann mun drekka með mér kaffi, meðan
sólin sest í kyrrð og ró við hafsbrún, og skuggarnir
mettaðir dísum og atvinnulausum sveinum
hverfa undursætir í bollana
líkt sykrinum sem við hrærum upp með skítugum putta
snjáðum af gramsi eftir uppruna lífsins.

III

Og einmitt þar vil ég endurheimta sjálfan mig, eftir
skilnað við líf á dreif um heiminn, einsog sagði gjarnan
blessuð ræfilstuskan sem Mínotárus aldrei les, því hann
kann ekki portúgölsku fremur en aðrir.
Ekki kann ég heldur grísku, samkvæmt áreiðanlegum heimildum.
Við ræðumst þá við á volapük, þar
sem hvorugur okkar kann það. Mínotárus
talaði ekki grísku, var ekki grikki, uppi fyrir tíma Grikklands
og hinnar lærðu drullu, sem hefur útatað okkur um aldir,
sem þrælar okkar skitu, ellegar þá við
sem þrælar annarra. Yfir kaffinu
rekjum við meinin hvor fyrir öðrum.

IV

Með löndum feðra erum við keypt, erum við seld, vegna
skorts á nægilega verðmætum löndum, sem skammarlegt væri
að tilheyra ekki. Hvorki ég né Mínotárus
mun eiga neitt föðurland. Einungis kaffi,
ilmandi og afar sterkt, ekki frá Arabíu eða Brasilíu
Fedecam eða Angólu eða neinum öðrum heimshluta. En kaffi
samt sem áður, og með sonaraugum
mun ég sjá það drjúpa frá skolti nautsins
niður á hné mannsins, hans, sem ekki veit
frá hvoru, föðurnum eða móðurinni
hann hefur erft snúin hornin sem prýða
göfugt ennið, enni eldra Aþenu, og hver veit, eldra
Palestínu og öðrum ferðamannastöðum
tengdum ákafri föðurlandsást.

V

Á Krít, með Mínotárusi
án lífs og án ljóða
án föðurlands og án andlegheita
án alls og allra
nema skítuga puttans
ber mér að drekka í næði mitt kaffi.

 

Jorge de Sena

Fimmtugur

Fimmtugur er ég ruglaður maður
ekki á sama hátt og ég var við tvítugt, þrítugt eða fertugt
heldur út í gegn ruglaður. Ég veit ekki
hvort ég elska lífið eða fyrirlít það. Hvort ég vil
halda áfram að lifa eða ekki.
Hvort ég elska eða elska ekki þá sem ég elska
hvort ég hata eða hata ekki þá sem ég hata.
Hvort ég vil vera patríarki, fjölskyldufaðir, sem ég hef þó orðið að lokum
eða hvort ég vil vera frjáls á götum næturinnar
sem ég endurfann sífellt
þau ár sem ég gekk um þær fram og til baka, í leit
varla að ást fremur að líkömum, líkömum, líkömum.
Er ég frá Evrópu eða Ameríku? Frá Portúgal
eða Brasilíu? Er það ósk mín að allt mannkynið
verði hamingjusamt á sinn hátt eða að það deyji
í hinu marglofaða og mögulega atómstíði?
Ég veit það ekki. Ég veit hreint ekki.
Heldur þú að ég liggi á rósarbeði?
– spurði Cuauhtemoc kvalara sinn undir pyntingunum.
En jafnvel þegar hann var fallin frá völdum, fanginn og pyntaður
var hann Valdhafinn, ættingi guðanna.
Ég kem ekki frá guðunum. Skrokkinn verkjar
undan ellinni. Lund minni verkjar af líkamlegri þreytu.
Útlínur sálarinnar, hverjar svosem þær eru, vekja ekki áhuga minn lengur.
Eftir stendur ljóðlistin, sem fer í taugarnar á mér hjá öðrum
ef þeir tilheyra ekki þeim liðnu, sem nú eru hreinir frá dauninum
af hafa lifað. Ég lifði svo mikið
að mér finnst það svo lítið. Og ég mun deyja
í vafa um hvort ég hafi lifað. Fimmtugum
hjálpar mér ekki lengur reiði annara
við að halda listinni og þolinmæðinni að lifa.
Aðrir mega gera sínar tilraunir, uppgötvanir,
hvað þeir segja eða ekki segja skiptir mig engu.

Dropi úr síðustu skúr

Dropi úr síðustu skúr kom út haustið 1979, trúlega 24. október. Ljóðin í bókinni eru af ýmsum toga og einkennast af þeim leikhús og revíuanda sem skáldið hefur stundum reynt að fanga.  Aftan við bókatextann hér á síðunni  er ljóðasyrpa sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1978 og  átti kannski að vera með í bókinni og gaf henni hugsanlega nafn en rataði einhverra hluta vegna ekki  inn í endanlegt handrit.

 

______

 

Hugstæð er mér kýrin
sem ágæt þótti
af öðru meir en bauli.

Það yrði hamingjan mesta
ef þess gætti í óðnum mínum
að hugsun frjó er afurð nýtra handa.

Gefið hljóð
nú opna ég fjósið
læt þanka mína út
í glórulaust vorið.

Huppa frá Kluftum blessuð nytjaskepnan
á básinn þinn kemst aldrei vængjað hross.
Ó skáldkýrin snjalla
já þú skalt vera skáldkýrin mín snjalla.

 

 

HEIMSLYSTARSÁLMAR

I

Hver átti hlýrra föðurland…
Það spottaði þorragjóstinn
og kærleiksríka leit hans
eftir nöktum kálfum mínum.

Ó dagar
þegar ég var í landinu
og landið var í mér.
Veður skertu ekki lífsþróttinn
en allt mátti hafa að leik.

Ég villtist síðar í tískuhríðum
í manndrápstískuhríðum
þeirra sem auðinn elska.
Skartaði erlendum tildurklæðum
sem vissulega skópu mig:
Kuldabolans þræl.
Allra átta vindar
ruddu áhrifaleiðir
uppundir buxnaskálmar mínar.

Enginn blessar íslending
sem afskrifar föðurlandið.
Ekkert hef ég ferðast
samt verið útlendingur.

En nóg hafa tennurnar glamrað
án þess að geta bitið.
Til heimferðar vil ég búast.

Föðurlandið kalda harða
og föðurlandið hlýja mjúka
huga minn seiða löngum.

Huga minn seiða löngum.

II

Viðsjárverðir eru þessir tímar
og hver nótt hin seinasta
aðeins sá lati
áræðir að nefna morgundag.

Aðhafist ekki
letin er dyggð.
Háspennuvírarnir slakna í þíðviðri
stáltaugar mannanna
við ástundun dyggðarinnar.

Lítt er raupað um framtak eða dugnað
meðal ræðaranna á galeiðum auðvaldsins.

Hreinir eru draumar sem klukkur raska
spakar samræður sem verkstjórar slíta
göfugar hugrenningar sem stritið kæfir.

Laun dyggðarinnar:
Tími þinn allur
nútíðin óskipt.
Hóglega bera sig latir eftir björginni
hæglega verða óhófssamir bjargarþurfi.

Sannlega segi ég yður
auðveldara er ríkum manni
að þræða guðhræddan fjöldann í nálar sínar
en lötum að dásama hannyrðirnar sem iðjusemi

Og sannlega sannlega segi ég yður
meðan ekki er siglt vegna hugsmuna ræðaranna
er letin
er letin letin dyggð.

III

Ég vil yrkja nafn þitt
og mitt og plús á milli
á biðskýli öll
og símaklefa í bænum.

Ó þú veist hvað ég meina.
Ó þú
veist hvað ég meina
slærð á þráð til mín
og í mér er svarað.
Númerið þekkir þú ein.

Vagninn okkar er aldrei nýfarinn
aldrei ókominn.
Tvö á sama miða ferðumst við
með hjörtun að leiðabókum.

Ég vil yrkja nafn þitt…
Og gagnrýnendur munu kanna fortíð mína
fræðimenn gegnumlýsa biðskýlin
skólabörn þylja nöfn okkar utanað.

Engum hlotnast þó leyndardómurinn.

Ég vil yrkja nafn þitt
og mitt og plús á milli
það verður besta ljóðið
skilið til fulls og skynjað
af einni þér.

Aðra mun tæplega gruna
til hvers er vísað.

 

FARSÆLDA FRÓN

1. Hekla

Óvanur útsýni til heimsfrægra fjalla
renni ég augum til Heklu
hinnar skapmiklu samlöndu minnar.

Ég kem á bæ en bóndi er að heiman
þotinn eftir hjálp við brotið drifskaft.
Ég snakka við húsfreyju um votviðri og sprettu
hún sendir yngsta krakkann með skræling í hænsnin.

Á hlaðinu núllar áttræður afinn
Mjólkurbílstjórinn lýgur í hann fréttum.
Niður heimkeyrsluna hugsa ég um fjallið
Brysti það þolinmæði hyldust túnin ösku
á löngum morgni.

Ég yrði fjarri en þættist heyja vel
í viðburðahlöðu mína.

2. Á Skeiðarársandi

Kvæði barnaskólans þoldi ég verst;
ónæmur fyrir skáldskap af utanbókarromsum.
Leit hornaugum þetta rómaða ættland
sem ekki varð séð úr kjallaraglugga.

En líka ég fer Hringinn nú í ár.

Og augun drekka sig full
af níutíuogsex pósent fegurð.

Samt efa ég að aki þessa leið
fólk er dreymi jötuninn í núpnum
samræður eigi við blóm eða steina.

Bryrnar tengja þjóðleið milli söluskála
og smábílar flæða yfir sandana.
Börnin dotta í aftursætum
uns kemur að straumþungu kóki.

3. Djúpivogur

Bakvið gluggatjöldin leynast augu
þetta pláss er sem önnur með forvitin tillit.
Allt virðist leika á meginásum lífsins
kaupfélagi, fiski.

Á hótelinu eru einhleypir karlar í fæði.
Aðrir kvænast innan við tvítugt
framleiða síðan á eigin kostnað
verðandi sjómenn og dætur.

Ef þokunni léttir sést píramídi
Búlandstindur
minnisvarði norræna konungakynsins.

Hér um slóðir má lesa úr hörundslitnum
að menn af ýmsu þjóðerni
vörðu stofninn gegn úrkynjun.

4. Hádegi á Þórshöfn

Fiskifluga suðar við eldhúsgluggann
en í útvarpinu sveltur Indland.
Togarinn Júní seldi í Cuxhaven.
Tóbak og brennivín hækkar.

Brátt má hún í stígvélin og hlaupa
slekkur undir hömsunum og lagar kappann.
Strákarnir ekki komnir í mat.

Annað kvöld spilar Amon Ra á balli.
Síðast var hljómsveit að vestan
og eilítið masgefinn vopnfirðingur laminn.

Drengirnir halda sig í fjörunni
leita að smásteinum og fleyta kerlingar.

Á lygnu daglegra anna skoppar hver og einn
til fjarlægari stranda spyrjast engar gárur.

5. Dettifoss

Þú dettur ennþá Dettifoss
laminn niður af sálarlausu fljóti
bíður færis að rísa upp á háspennumöstrin
og flýja til byggða.

Ógæfulegur ertu
myndavélin drepur tittlinga við að sjá þig.
Mig snertu önnur vatnsföll dýpra
lekur krani
draup mér fyrrum andvökum.

Ég skoða víðfræg fjöll og ástsæla fossa
en hugsunin rennur í farvegi upprunans
borgariðunnar
og fuglunum læt ég það eftir
að yrkja lofsöngva utan vegar.

6. Á Siglufirði

Hér var aldrei skógur milli fjalls og fjöru
en í landlegum síldaráranna
þöktu siglutré fjörðinn.

Þá var eyðingin hvergi nálæg
gróskan ekki hlaupin í endurminningarnar.

Þegar reika um plönin
vinirnir Söknuður og Fúi
er vitanað í stóru köstin
munað
hvernig óðu torfur af röskum mannskap.

Smábær í herpinót skyndigróðans
úr brúnni stjórnuðu hverfulir peningamenn.
Síðan hefur lóðað á einni spurningu:
Var það örugglega síldin sem brást?

7. Ísafjörður

Fjöllin verka ýmist á mig líkt og greip
reiðubúin til að hremma eyrina
eða lófi sem skýlir flöktandi kveik.

Enn standa lífsreynd hús
frá kaupmennskutíð í Neðsta og Efsta.
Marga sáu þau rata í sálarháska
áður en breiðir menntavegir komu til.

Ég heyri sögur um kröftugt alþýðufólk;
erfiði þess hlóð undir skólana
þar sem nöfn höfðingja eru varðveitt
og tímar átaka ætíð liðnir.

Afkomendurnir kannast síður við þrengingar
snúa baráttusöngnum
í róman með farsælum endi.

8. Við Patreksfjörð

Í dag hef ég hugleitt
gildi minnar vinnu og fólksins.
Tæplega rekast á ljóð mín
aðrir en kjölfróðir vinir.

Hingað kem ég gestur
þekki engin handtök við fiskinn
hef spurnir af fólki sem skapar auð
og hóglífi öðrum en sér.

Hver fiskar þreyttur eftir skáldskap
meðan léttilega verða dregnar ýsur
á grynningum sjónvarps og blaða?

Hér ýtti Jón úr vör og réri á ókunn mið.
Seinna rak á fjörur bók um þorpið
eftir það var skáldið talið af.

9. Ólafsvíkurrútan

Kraftur jökulsins orkar ekki á bílinn.
Ég stoppa og tek bensín
þá verður fyrir mér Ólafsvíkurrútan.

Hæ, þarna er Stína spaugsömust allra
horfin frá námi en síst frá menntun.
Hennar bíður að draga orm úr þorski.

Flunkunýr kærastinn glottir hægt
í farangri hans eru sjópoki og stígvél
en camelpakki hjúfrar sig í þykkri hendi.

Sjómannsekkjan móðir hennar er líka með
nýkomin af Landspítalanum æðahnútalaus.

Og traustlegi bílstjórinn ekur þeim vestur
en hvorki er hans né þeirra að svara
hvar að lokum endastöðin veðrur.

10. Ljóðið um Akranes

Yfir bæinn gnæfir hinn mikli skorsteinn
og glöggir lesa úr reykmerkjunum véfrétt:
Sement er gullfótur íslendinga.

Nýjar byggingar spretta upp á grundunum
standa ólíkt betur en kartöflugrösin
en mennirnir bregðast sem fyrr til beggja vona.

Hjá Haraldi er unnið fram á kvöld
fangamarkið á útveggjunum afdráttarlaust;
miskunnsami samverjinn skapar fólkinu velsæld.

Minning útgerðarmannsins lifir
brjóstmyndin verður eflaust séð úr flugvél
og Bíóhöllin kynnir laxerandi filmur.

Í logninu stefnir svartbakur á Akrafjall.
Við tvílyft hús hanga bleiur á snúru.

11. Hvalfjörður

Með ugg í brjósti einatt lít ég Hvalfjörð.
Þar vafra draugar um hálsa
í tjörnum leynast skrímsl.
Tíðum eru skipakomur bendlaðar við dauðann
og hvergi var dyggilegar ort um eymd og písl.

Geigvænlegur er vegurinn
eilifðarlangur og holum settur.
Á því verður margur yndissnauður
að krækja fyrir botninn.

Í þyrpingu húka braggarnir
á litlum sandi
fyrirsögn nýrrar Íslandssögu.

Siðferðisástandi þeirra sem reistu
ber stíllinn ennþá vitni.

12. 17di júní í Reykjavík

Á Stjórnarráðinu blaktir þrílit pjatla við hún
lævís auglýsing á ullarvörum
ætluð bjórvana túristum
snýtuklútur vinda
sem elska erlenda reykháfa.

Nýkomið úr verkfalli
ráfar spariklætt fólk um bæinn
telur sig sömu þjóðar og viðsemjendur.

En milli herðibreiðra steinhúsa gægist Esjan
öðrum fjöllum pólitískari.

17di júní og Lækjargata
hjá ykkur hjónum er sopinn alltaf góður
og andstæðingar gleyma dægurþrasi
fyrir áhrif þjóðhátíðavakningar.

13. Í Straumsvík

Verksmiðjan liggur sem tröll útí hrauni;
ásjónan grá af styrkleik og elju
svipurinn hafnar hjali um fegurð
voli máttlausra skrúðgarðsjurta.

Þetta er frumburður veiklykdrar gálu
efldist til dáða af kjarngóðu rafmagni
gefur með föður sem þvælist um heiminn.

Eftir þurrum æðum verksmiðjuskrokksins
dæla stimpilklukkur fersku blóði
það er lífsvökvinn
upprunninn úr Firðinum og Breiðholtinu.

Svo er nótt og svo er dagur.
Handan blárrar móðu leynist íslensk sól
en tröllið í hrauninu virðist ekki breytast.

14. Í Keflavík

Frá Keflavík er að vísu lítil fjallasýn
en bærinn hefur ómetanlega kosti
ég leyfi mér að nefna fótboltavöllinn.

Eitt sinn sá ég hér ráðast úrslit í deildinni;
áhorfendur þóttu mér besta liðið.
Ég fylgdist ungur lítið með knattspyrnu.
Ekkert með framlengdum leik á annars konar velli.

Ég var krakki og mig hefði síst grunað
að fullorðnir sníktu flöskur
undir landsleik
þar sem framtíð íslendinga ræðst.

Fótboltavöllurinn er hérna enn.
Í dag er ekki leikur
en spengileg er styttan af Ólafi Thors.

 

 

MÁNUDAGAR

I

Innundir draumhitaða sæng
læðir morgunninn frostbólgnum höndum
hremmir sveittan kropp.

Óþreyjufullur
bíður vinnugalli innyfla
jafnvægisstangar og þyngdarpunkts.

Upp dagmálabrautina
ráfa sygjaðar mínútur
móti óvígum her mánudaga.

II

Yfir ábyrgðarlaust gjaldkeraborð
siglir naumlega hlaðið launaumslag
landar í gisið veski.

Umkomulaus
híma trygglynd verkfærin
í svölu áhaldahúsi.

Handan við stimpilklukkuna
gína stórverslanir yfir æti
meltingarvegurinn greiðfær.

 

 

ÚR FJÖLLEIKAHÚSINU

1. Armstrong á ellefta glasi 

Þið vitið ekkert um tunglið
en á það steig ég
Kristófer Kólumbus Armstrong
fyrstur siðaðra manna.

Ekkert bar til tíðinda á leiðinni
en í lendingunni gerðist eitthvað.

Þarna
í endalausum tunglgrámanum
grillti í mannverur;
svarta stelpu úr Harlem
bónda frá Víetnam.

Svæðið varð að ryðja
áður en sjónvarpsvélarnar yrðu gangsettar
og fáninn stolti reistur.

Nei þið vitið ekkert
en ég hef jafnvel stigið á tunglið.
Fyrir mér urðu mannverur
blessuð sé minning þeirra.

2. Illa feðraður drengur

Ég var viðstaddur
þegar söngur ómaði í gripahúsinu
þegar hirðarnir reiddu fram lamb
og vitringar krupu við blessaða jötuna.

Þeir krupu ekki nýfæddu barni
heldur gamalli tálvon
um frelsara heims

en trúið mér
ég var viðstaddur líka
drengurinn lifandi fæddur.

Enginn hefur fæðst til að bera synd
Það er draumsjón ykkar
misvitra fólk.

Aldrei aldrei
skal ég veita neinum fyrirgefningu
hana á hver við sig.

En eigi ég að boða fögnuð
er hann þessi:
Það kemur ekkert guðsríki
það kemur ekkert guðsríki.

Von er um bjartari daga
verði þörfin fyrir guði sigruð
og börnin sem fæðast og gráta
frelsarar heimsins.

Seinni fjallræða spámannsins: Um kaffi

Ein streymir elfa
í blómskrýdda postulínsbolla
sem óbreyttar krúsir
ætíð með þýðum niði.

Móeygðar spákonur
líkfölir spekingar
óvæntir gestir og erfiðismenn …
vitna um sannleikann:

Reimleikum að morgni
veldur áfengið
og gosdrykkir fleipra
búkhljóðum leiðum.

En kaffi fær lof
í botni sem við brún.

Kaffi kveikir morgun.
Kaffi litar kvöldvöku.
Kaffi
lífgar vinnudag og umræður um kjaramál.

Kaffi.
Aðeins ólundin hefur slæmt af kaffi.

Textar úr veruleiknum
West Side Story

I

Illt er að vera berfættur
meðan þeir lifa hæst
sem á flestum geta troðið.

Ó, þjóðlegi borgari
blár og marinn þráðir þú eitt:
Að komast réttumegin við sólann.

Fátt virðist einhlítt.

Þú losnaðir undan klossunum dönsku
en síðan ertu leppur
í amerískum herraskóm.

II

Jörðin öll er afréttur
sem stórbændur skipta milli sín
senda heri í göngur
láta smala heilar álfur.

Sláturtíðin er samfelld
þjóðir jarma í dilkum
og einhver verður skotin.

Bóndanum í Vestra
þjóna íslensku fjárhundarnir
þeir éta blóðmörinn sæla
þeir éta lýðræðisblóðmörinn sæla.

III

Allir út að ýta
allir út að ýta, stétt með stétt
Allir út að ýta
nema Geiri, hann stýrir.
Allir út að ýta
nema Ragga, hún er pilsklædd.
Allir út að ýta
nema Berti, hann á pening.
Allir út að ýta
nema verkalýðsforinginn
hann ýtti síðast.

Verkamanninn út að ýta
verkamanninn út að ýta
stétt með stétt.

IV

Í gullnu hliðunum á Miðnesheiði
talar Sankti Pétur ensku:
Ó Key, Ó Key.
Sálartuðruna inn.

Keflavík airport
snertiflötur við útlönd möguleikanna.
Bakkabræður fljúga með húfur sínar
í sólina á Spánarströndum.

Öllu er óhætt á meðan
í frelsisskessunni af New York
slær hjarta Íslands dollara.

Flugbrautin stækkar og hringvegurinn þráir steypu.
Ó Keflavík airport
þú reynist heimalnings auðvaldi
nesti og sjömílnaskór.

Já, í gullnu hliðunum á Miðnesheiði
talar Sankti Pétur ensku.
Englarnir jórtra tyggjó
Gagnteknir af yfirþyrmandi friði.

Bygginganefndin á fundi  

Enn komum við saman
til að sýna yfirburði mannsins
yfir umhverfinu.

Og sjá:
Í samanburði við okkur
verður steypan hlýleg
verður steypan mjúk.

 

 

ÓSKABÖRN

1. Í höll þyrnirósar

Nú heimta ég orðið
ég sem ánauðug þjónaði höfðingjaslekti
og fékk ævintýrið gegn mér
að launum.

Fárra kosta átti ég völ
mátti stýfa úr hnefa
meðan drottningin taldi gulldiska sína.

Ég stóð að jafnaði við spunann
en starfi minn var hvergi lofaður
ætíð skyldi vegsamað
iðjuleysi kóngsdótturinnar.

En svo mættumst við yfir snældunni
fulltrúi vinnandi lýðs
og óskabarn hrörnandi ríkis …

Hlustið á mig
látið kóngsdótturina sofa
látið hana um eilífð sofa
og vorkennið henni ekki.

Freisti þess prinsinn að vekja hana
taki þá smiðirnir hann í læri.
Sveinsstykkið verði rammgerð kista.

Látið kóngsdótturina sofa
en komið sjálf úr afkimunum og vakið.

2. Bak við fjöllin sjö

Í okkar húsi skorti ekki traust;
nú uppskerum við efann.
Hún sem naut stuðnings
er sest að veislu og völdum.

Fyrrum heyrðist deilt
á miskunnarleysið í höllinni.
Er við komum þreyttir heim úr námunum
fengum við jafnan nýjustu tíðindi
af klækjum drottningar mót falsleysinu.

Við héldumst í stöðugri spennu
grétum
þegar uppáhaldinu var meinað að tala.

En fegurð okkar komst aldrei á dagskrá
hins vegar var dylgjað með gáfnafarið
og sannarlega höfðum við einfaldan kost.

Við gröfum áfram málma úr jörð
þótt ævintýrið þegi um hver hagnist.
Og miskunnarleysið ríkir í höllinni.

Hún sem naut áður stuðnings
er sest að veislu og völdum
og þú veiðimaður
verður aftur sendur út í skóg.

En varastu töfrana
sú næsta verður líka alþýðleg.
Búðu hennar síðustu för
og snúðu til hallar með rýtinginn hvesstan.

Látum endinn vera óbreyttu fólki í vil
látum upphafsorðin rætast:
Einu sinni var…

 

ÞJÓÐVÍSUR

Nýstefnuskáldið og kisa

Kisa er alltaf að gjóta
en nýstefnuskáldið yrkir og yrkir.

Kisu fylgir engin ættartala
sem réttlætt geti tilveru hennar.
Þar eru þau lík
bæði af hurðarbakskyni.

En hún hefur djúpar rætur
bundin hrynjandi náttúrunnar
nærist á eðlislægri ástríðu
blíð sem rósir
trú sem árstíð landi.

Nýstefnuskáldið er rótlaus karl.
Eins og leiðsögumaður
sem þeysir um frægar borgir
og skýrir frá merkum atburðum
en er aldrei þátttakandi sjálfur.

Kisa er alltaf að gjóta
en þarf ekki heimspeki
bréfaskóla né umferðareglur
til að segja sér
hvernig lífssafinn skuli streyma um æðar.

Nýstefnuskáldið er rótlaus karl
utangarðs við lífsundrin
leitar uppbótar í skáldskap.
fær hríðir af öfund
þegar kisa er alltaf að gjóta.

Aðrir skola innblástrunum í vaskinn
dusta þá úr teppum
eða skeina þá af krökkum.

Jafet í föðurleit

I

Huldukona var nágranni mömmu
vitjaði hennar í draumum
og leit eftir systur minni
gegn því að álfhóllinn væri friðaður.

Ég hneygist til að ætla álfabyggðum stað
einungis í landi hugans
þó heimsótti mömmu huldumaður
nógu raunverulegur til að geta mig.

Einhversstaðar
lifði hann lífi sem ég sá ekki
vitjaði mín í dagdraumum
og stundum brá honum fyrir
með áþreifanlegar gjafir.

Ég leitaði hans
ég leitaði hans í hverjum jóni.

II

Í vídd sem er fullorðnum týnd
deildi ég ríki við leikbræður mína.
Við flengriðum prikum um hverfið
fjóreini
speglar hvers annars.

Allt var með góðum ráðum
barist í taumlausum galsa
og spjótin flugu á milli
án þess að særa.

En grunurinn
um að þeir ættu pabba sína í bakhöndinni
var mistilteinninn sem hæfði mig.

III

Kvikt sem dautt
virtist snúast gegn mér og unglingabólunum.

Vopnaður önuglyndi
varðist ég merkingu orðanna pabbi og mamma.

Hið fyrra
var aldrei þjált í munni
en ég hugði systkinin norðanlands
hafa eðlilegan framburð á báðum.

Þá fann ég til hroka
líkt og gagnvart dónalegu málfari
sömuleiðis til efa
vanmáttar tæpitungunnar
andspænis þrótti hversdagsmálsins.

IV

Nokkrir kunningjanna þóttu óheppnir
af karlmennskutrjám þeirra spruttu ávextir.
Einhver borgaði jafnvel með tveim.

Hugsanir mínar
jöðruðu við heitstrengingar;
ekki skyldi sama henda mig
engu barni sköpuð óvissa
bætt fyrir mína.

En óljóst var orðið hvers ég leitaði.
Ég saknaði söngs og fugl var í skógi
meðan annar
sat þögull í hendi.

V

Enn hefur öxi mín
litla reynslu af kinnskógi.
Ég er sem landið
trúr yfir fáum hríslum.

Sæði mitt festir þó rætur
í nótt er ég titlaður faðir.

Móðirin leggur kapal.
Ég stokka spilin við annað borð
og ekki verður spáð
fyrir örlögum barnsins.

En leitin er á enda ég hef hlaupið apríl
fundið huldumanninn
í mér sjálfum.

Þrítugasti maí

Nú er sumarið komið á vakt;
og ljósastaurarnir hanga aðgerðalausir.
Skemmtiferðaskip
flatmagar á ytri höfninni
en farfuglar tjalda í Laugardal.

Inn eftir Hverfisgötunni
kjagar malbikunarvél með ungahóp
og stoppar umferð bifreiðanna.

Sjálfur ek ég mína leið í þýðum draumi.
Skipti um alla hjólbarða í vor
vil síður fara á grófa munstrið aftur.

Engan veginn reynist mögulegt að vita
hvers konar gata tekur við.
Í staðinn þrái ég trygga birtu.

Sumarnóttin hefur takmarkað dvalarleyfi
fer utan í ágúst
og þá kvikna augu ljósastauranna.

Með öðrum hætti lifa augu þín.
Þau ljóma í kapp við árstíðina
og ekki trúi ég
að birta þeirra minnki í haust.

Að sjálfsögðu
veltur það nokkuð á mér.

 

______

Viðbótarljóð:

 

Smáspekiljóð

I

Miklu ráða tilviljanir
skýin mettast hvað eftir annað
og sáðfrumur falla til jarðar

en nákvæmlega einn
af öllum regndropum vætusumars
hitti oní hálsmálið

það varst þú.

II

Fátt veistu
um líf og dauða fólksins.

Milljónir milljónir fæðast
og milljónir deyja
margföldun og frádráttur
reiknað með háum tölum.

Óskiljanleg er þér úrkoman
og það
hvað dæmið mannkynið mínus þú
breytir henni lítið.

III

Þú ert til
eða svo segir þjóðskráin
en staðfestingar
leitar þú í viðbrögðum annarra

þó ertu saumnálin í heysátunni
og fæstir koma auga á hana.

IV

Eftir forskrift
lærðir þú að rita bókstafina
sjálfur ertu í öðru stafrófi
og þér var skotiö inn í ókláraða setningu.

Þar máttu finna samhengi lífsins
öðlast merkingu
með þeim sem standa umhverfis.

og yfir þér er enginn kennari
til að veita stjörnu.

V

Einhvern daginn
rennirðu þér síðustu ferðina á magasleðanum
og förin eftir meiðana sjást
meðan snjórinn helst í brekkunni

þá skilurðu
að gamanið fólst í andartakinu
á leiðinni niöur

alveg eins og í lífinu.

 

 

Ljóðaþýðingar úr belgísku

LJÓÐAÞÝÐINGAR ÚR BELGÍSKU

Ljóðaþýðingar úr belgísku var bókartitill sem ruglaði ýmsa á sínum tíma og ekki bætti undirtitillinn úr skák: Anton Helgi Jónsson valdi og bjó til prentunar. Fæstir virtust átta sig á því að ekki er til neitt tungumál sem heitir belgíska og enn færri höfðu heyrt gamlan brandara um að belgíska væri töluð á Íslandi, einkum af skrílnum. Hér er því ekki um venjulegar þýðingar að ræða heldur þýðingar úr máli sem ekki er til, titillinn er „listræn“ þverstæða sem ýjar að því að verkið sé safnrit og skáldið ekki höfundur í venjulegum skilningi.  Verkið skiptist í kafla sem eru ólíkir innbyrðis hvað varða efni og aðferðir og gefa ýmist í skyn fleiri höfunda eða einn sem ekki er sjálfum sér samkvæmur. Allir heita kaflarnir fyrsti kafli þannig að aftur og aftur er byrjað upp á nýtt.

—–

FYRSTI ÞÁTTUR

LÖGREGLUMAÐUR KANNAR ÖKUSKÍRTEINI

 

 

Einræður sveitamanns

Á morgun. Ekkert veit ég fallegra en þetta loforð
þessa janúarsól, þennan geisla vonar: Á morgun!

En hef ég ekki ætlað að yrkja undir mig allan heiminn?

Væri mér kannski nær að harma tímaskort
muna allt sem ég á ógert

muna allt sem ég ætti að gera?

Einu sinni reyndi ég að líkja dögunum
við styggar skjátur
og sjálfum mér við móðan smala
með lífið bara í nösunum.

(Svona er ég nú rómantískur, aftarlega
á bókmenntamerinni eða guðmávitahvað.)

Ég á uppkastið ennþá og þetta verður ekki
eitt af mínum hálfkláruðu verkum.

Á morgun vendi ég mér í snilldarverkin, á
morgun kenni ég gömlu orði að sitja, á morgun
get ég loksins byrjað: Upp, upp!

En í dag, æ sál mín, get ég aldrei hugsað.

Í dag er alltaf kaldi og vetrarmaður gegnir skyldu sinni.
Í dag er alltaf kaldi og vetrarmaður gegnir gæfum draumum.

Ég held langar ræður
yfir mér um eigið ágæti.

Hvílík mælska.
Hvílík snilld, hvílík áhersla.

Ég álykta:
Mikið lán að heimurinn verður án þessarar mælsku.
Mikið lán að ég lenti ekki í stjórnmálum.

Hvílík snilld, hvílík mælska.
Og þó tekst mér aldrei að sannfæra sjálfan mig
nema um eitt: Á morgun. Á morgun. 

 

 

Kostgangari

Góðan daginn, Jesús, góðan daginn.
Öld hægðateppunnar er liðin, núorðið
teygir kvöldið úr sér einsog prestvígð kona
á líkamsræktarbekk, en samt er alltaf
morgunn fyrir tímann og hríðasíminn
truflar jóðlíf mitt undir sænginni. Skyldan
tekur á móti með frægum ljósmóðurhöndum
og sendir mig á lagerinn. En það er ekki versta
tilverustigið, þar verður enginn úti
í ábyrgð, þar verður bráðum pása
og þar verður bráðum kaffi. En í hádeginu
get ég fleygt mér eftir súpukjötið.
Svo er bráðum kaffi.

Súpukjöt í dag, súpukjöt á morgun — en stundum
opnar líka kostgangari munninn
til þess að vitna. Sumir kunna uppskrift að kæfu
en aðrir trúa fremur á eilífan anda
okkar sem leysum vind eftir borðhaldið.

Þeim sem lifir við alræði fulltrúanna
þykir huggun að heyra um firma
þar sem er þó hægt að ná í soninn.
Og ég leyfi mér þá að biðja
um greiða:
Frelsaðu mig ekki frá mötuneytinu.

Ég bíð og ég bíð allan daginn eftir kvöldinu.
Hvað gagnar mér að bíða lengur, bíða
heilt líf eftir því að deyja ekki og aldrei sofna?

Það verður bráðum pása
og það verður bráðum kaffi. En í hádeginu
get ég fleygt mér eftir súpukjötið.
Svo er bráðum kaffi.

 

 

Höfðingjadjarfur

Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Eitthvert kvöldið
mun ég leggjast útaf í hreinum nærbuxum
og gleyma því að trekkja upp vekjaraklukkuna.

Þegar líður á mánuðinn kemur lúmskur húseigandinn
með aukalykil og potar í skrokkinn: Hér
geturðu ekki legið rotnandi og skuldað leigu. En ég
verð þá farinn út á lífið dauða
afturgenginn til ábyrgðarleysis
og forréttinda hinnar eilífu sálar.

Hvergi verður mér meinaður aðgangur. Ósýnilegur
hvísla ég formælingum í eyru dyravarðanna, tylli mér
við frátekna borðið, fer án þess að hugsa um reikninginn.

Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Vélasalurinn
verður ekki minn höfuðverkur og verkstjórinn
má rausa að vild um ómennsku og léleg afköst.
Afturgenginn fer ég ótilkvaddur uppá teppi
og þegi. Afturgenginn mun ég líta helgidómana
í vöruhúsinu girndaraugum án þess að hræðast
afgreiðsluprestinn eða kaupskyldu mína. Og starfsemi
kirtlanna mun ekki angra mig. En fari mér að leiðast
get ég alltaf svifið inn í kvennaklefann og þefað.

Enginn skal heyra mig bera fram afsakanir
enginn skal heyra mig biðja …

Dauðinn verður mér ágætis tilbreyting. Dagarnir
langir og nóg að gera við kuldahláturinn. Óvíst
hvort ég nenni að svara ítrekunum gjaldheimtunnar
óvíst hvort ég fylli í skattskýrsluna.

Og þegar rýtingarnir gefa orðið laust á hverfafundi
munu ekki smáatriðin vefjast fyrir mér og enginn
fær að benda á mótsagnir í ræðu minni.
En á sjálfan kosningadaginn
mun ég jafnvel skila auðu.

 

 

Digito monstrari, et dicier: Hic est

Ég öfunda. Ég öfunda ekki Ég
er hvorki stóra táin né litla táin.
Hvorki litla táin né stóra táin.

Að kvöldi göngudags þakkar yfirmaður
undirmanni dygga þjónustu.
Og nefnir Stóru Tá.
Og nefnir Litlu Tá.
En mig — 
mig ávarpar hann í fleirtölu.

Ég sýti þó ekki náðarmeðul uppanna. Titla
annarra læt ég ekki spilla ást minni
á daðri og fjölmiðlum.
Í fullri einlægni
óska ég framatánum hæfilegrar velgengni.

Og enginn skyldi væna mig um sósíalisma
þótt ég hvísli véfrétt að nafnkenndri tá.

Húfreyja veit ei hvað ég heiti.
Hæ, hæ og hó.

Ég er hvorki Litla Táin né Stóra Táin.
Ég er hvorki Fatlaða Táin né Feita Táin.

Nei, verðleikar mínir yfirstíga lýsingarorðin.
Mér hæfir annar stíll en hrokafullt lítillætið: Ég
lagði í Indlandsför á undan Alexander mikla. Ég
háði mitt sjö ára stríð einsog keisarinn Friðrik. Ég
átti minn ósigrandi flota. Og ég
fékk andann yfir mig þegar skáldið
gekk út til að blessa reykinn frá  húsinu við vatnið.

Ó, tvíbenta líf: Útlit mitt auglýsir tímaritið
aldrei á forsíðunni. Blaðamaðurinn getur mín
hvergi í skýringartexta. Ljósmyndarinn sér mig
varla meðan ég verð nafnlaus.

Og ég sem myndast þó betur en beiskjan.

 

 

Ólestur

Café Rosa Luxemburg hét þó fundarstaðurinn heima.
Sagan sjálf kom þangað daglega með brjóstið
fullt af dætrum og lenti á kjaftatörn
við lík sem bað um nýjungar. Hér
getur maður ekki einu sinni beðið um ábót.
Og ég sem er hálf svona hálf, ég sem veit ekki enn
hvort á að beygja kökur
til kaka
eða kakna.

Ég verð mér alltaf til skammar. Hér verð ég
aldrei andans maður. Mér stendur
á sama. Ég er alltaf þar sem ég hugsa
ekki. Og ávallt þegar ég mæti á kaffistofuna
hefur hún skilgreint ástina sóló, en í mínum
fornsöluhaus lenda orð hennar
á suðuprógrammi og lita útfrá sér.

Ó, varir hennar:
þessi náttúrulýrík, þessi fífilbrekka
þessi nítjánda öld
þessi dulúð
þessi kálfi sem læðist undan faldi.

Hún áminnir mig um bækurnar sem ég hef ekki lesið
bækurnar sem ég ætti að lesa, bækurnar
sem ég hef gefist upp á að lesa og bækurnar
sem ég las án þess að geta sáð í þær merkingu.

Skoðanir þínar þykja mér ekki kyssilegar.
Vina mín, ég reyni og reyni
en í umræðunum finn ég engan G-blett.

Hér verð ég aldrei andans maður. Ég man
einkum skáldið sem orti um prentverk og óskaði
þess að klisjurnar yrðu aftur málmur í fjalli. Mættu
þá bækurnar verða laufgað tré og mætti
ég sitja undir trénu með henni
spakri: Mig fýsir í annað
og meira en stundar
fróun er slungin
hönd mín læst hennar
á náðhúsi milli fyrirlestra.
Café Rosa Luxemburg hét þó fundarstaðurinn heima.

 

 

Fjárglæfradreyminn játar

Mig dreymir skít. Það er ekkert
leyndarmál. Mig dreymir skít.

Væntanlegum happdrættisvinningum
get ég óhræddur spandérað á daginn.
Flestar nætur dreymir mig tonn og aftur tonn af skít.

Hversu mikinn skít mig dreymir kemur þó engum við.
Forvitnir spyrja hvort ég sé aflögufær.
Leyfið mér að orða svarið snyrtilega:
Ég hef vonandi nægan skít fyrir mig og mína.

Tekur því þá að beygja sig eftir krónu á götunni?
Hagfræðingar mega svara fyrir sig, en ég
leyfi mér að minna á smáatriði lífsins.
Hver hefur ekki vaknað sæll
af draumi um kamar æsku sinnar?

Mig dreymir skít. Og sumar nætur verður mér
nóg um dýrðina. Ég svamla í skít. Ég drukkna í skít.

Og hver vill þá gera mig að glæpamanni?

Fjárfestingar mínar eru hreinasta skiterí.
Bankareikningarnir erlendis della.
Í rauninni á ég ekkert nema börnin.

Eldhúsið spyr: Hvernig fer með næstu afborgun?
Hvernig fer með rafmagnsreikninginn? Hvernig
fer með helgarinnkaupin og dagmömmuna?

Ég læt ekki svo auðveldlega sturta mér niður.
Í nótt gæti mig dreymt haughús.
Í nótt gæti mig dreymt sundin blá og skolpræsi borgarinnar.

Mig dreymir skít. það er ekkert
leyndarmál. Mig dreymir skít.

 

 

Uppvakningur

Hver engla hlustar? Hver heyrir mig hósta? Hver
andvarpar þegar mér skolar að ströndum
einnar óbyggðrar nætur enn? Hver
stendur yfir mér blautum af svita
og man ekki eigin hryglu
meðan biturðin blæs
í mig lífi og hatrið
hnoðar
hjartað? Hver nema Heilagur Heiftugur sjálfur?

Án þess að þjást af estetískum höfuðverk, án þess
að kvarta yfir nykraðri tilveru minni, án þess
að biðja um ábyrgðarmenn mun hann gyrða mig
kjarki, mun hann veita mér styrk til að lyfta
myndrænu sverði gegn öldurótinu, gegn
lögregluþjónum sem krefja mig um ökuskírteini
í vitund þar sem sól kemur upp, gegn nafnleysinu
þegar ég vöðla eyðublaðinu saman og byrja upp á nýtt.

Mann þyrstir í svalandi vanda
á villuráfi um auðnir
áhyggjuleysis og værðar.

En ég er ekki verður þessarar náðar, þessarar
andvöku. Auðvitað vil ég ekki síður en aðrir frelsa
eðalborið svar úr klóm sannleikans eldspúandi. Ég
mun þó ekki höggva hausinn af neinum. það vaxa
bara nýir í staðinn. Og ég var aldrei einn af þeim
sem fórnar sér svo Réttlætið eitt megi lifa þegar
fólkið verður dáið. Kannski er ég hann sem var
uppi vegna smánar í banka, kannski er ég hann
sem að óreyndu fékk ekki ljóðin sín birt.
Bráðum kemur hún af vaktinni. það birtir
en hugsun mín fellir engan skugga og sami
botninn rímar við alla mína fyrriparta: þegar
mest ég þurfti við
þá var ég sjálfur hvergi.

——

FYRSTI ÞÁTTUR

TILBRIGÐI DYRAVARÐAR

I

 

Sumarið heima


Af kistubotni lyftir hún skírnarkjólnum.
Úr öskju fær hún grafið norrænan lokk.
En gómar æsku sína hér:
Í augntóftum brúðu.
Í holum augntóftum brúðu.
 

 

Eftirstríðsár


Billegir skór af Vellinum.
Grunur um sprútt í skúrnum.

Ilmurinn, rómuð
eplin, jól.

 

Ómegð


Gamla elliheimilið kallaðist húsið
sem í öðrum plássum
hét kannski Hreppskassi
eða Bæjarblokk.

Afhverju elliheimili? spyr innipúki
uppúr skyrdisknum
og stendur á haus í skeiðinni.

Sú eldri ansar engu.
Hún leggur það yngsta á brjóstið.

 

Vegagerð

Síðasti bærinn í dalnum hét fyrsta
íslenska myndin. Verkstjórinn bendir mér
innfæddum
útlendingnum
á rúst: þarna reistu þeir kotið.

Kondu seinna.
Kondu
með glókoll
og frú til að gaspra um arf.
Uppruna sínum getur enginn neitað.

 

Lýriskir dagar

Svarthvítir dönsuðu Quinn og Bates
á dúknum í Nýja
Bíói

en hér í seiðandi flæðarmáli
velkjast upplitaðir
brúsar undan sápulegi.
 

 

Vaktaskipti við höllina

Sólskin og kalkaðir veggir. Loðinn
brjóstsykursmoli í sparibuxnavasa.
Krónan
sem töframaðurinn fann bakvið eyra mitt.

Myglan í veggfóðrinu. Hurðaskellir.
Stífur pensill
í málningardós.

Allt þetta læt ég eftir mig.
En fæðingarblettina
lét ég fjarlægja
og sippubandið var ekki mitt.

 

Nafnlaust


og með ættrækinn skilning á vörum
nálgast gigtveikt sumarið
nálgast viðtengingarháttur ótíðar.

En í septemberhuga krypplingsins
eiga stelpurnar ennþá frímínútur
og hlaupa í sjoppuna
og hlaupa framhjá í þunnri peysu
eða jakka
sem þær halda saman við naflann með nettri hendi.

Þær koma í ljós og þær hverfa og hárið gusast
um axlir og andlitin gjósa.
Og engin lítur til hægri og engin til vinstri.

Ein skal þó ávallt missa hingað augun. Ein
skal óvart missa hingað óstýrilát augun.
Og skelfast.
Og finna viðbjóðinn káfa —
finna óræðan viðbjóðinn káfa um barm.

Í portinu bergmálar síðasti hlátur vorsins

 

Liðhlaupinn

Einatt þurfa augun að venjast óreiðunni.
Vináttan, tjakkurinn, skrallið.
Ekkert af þessu var týnt.

Í verkfæraskápnum rekst ég á aðra gosflösku
sem þú hefur ekki tæmt.
Engan þyrstir í volgan sopa.

Kannski það séu bremsurnar sem sameini okkur.

Ég spegla mig snöggvast í stuðaranum.
Haustið drýpur af ryðguðu bretti.


——–
II


Úthald

Hæll af ærnum kvenskó
negldur
mitt
í landganginn.

Og sleggjan
sem haltrar upp bryggjuna heim.

 

Annar morgunn á brúnni

Einkum hrímgað
handrið
og
fingurnir sem
líkja
eftir
göngulagi
línu-
dansarans.

 

III


Og ég kom þar


Og ég kom þar sem póetin höfðu marmara
ljóð sín í frammi, fólkið

hreifst (gvuð krakkar erum við
ekki svaka heppin
að eiga svona fallegt mál
íslenzkuna) en ég

á mína vísu.

Mundi hvað ég var lítill
kall, mundi að alltaf á öllum
tímum er búið að yrkja bestu ljóðin.

En ég (ó líka ég) reyndist þá hafa hjarta
sem neitar að taka sönsum, hjarta
sem heimtar söng og ég skildi að mismæli
mitt, að vandræðaorðið
var eitthvað svo smátt
eitthvað svo líbblegt og smátt.

Hið eina hverfula
í öllum salnum
og sannlega sannlega eilíft.
 

 

Fimmtudagskvöld á þýsku

Blæs og blæs, hann blæs og
blæs. En hver? Hver blæs? Hver
athafnar sig á þakinu? Skáld

skapur, persónugervingur; við
höfum ekkert að gera frammúr.
Látum blossana stafa frá spæjara
sem farið hefur gluggavillt
með ljósmyndavél í leit að hjúskaparbroti.

Þá drynur skruggan. Og hvernig
ber að túlka hana hér

í þessum texta/veruleika? Kannski
goðsagnir séu lausnin? Ég
hef ekkert á móti því praktíska
en við lifum í heimi myndhverfinga
elskan mín og óþarfi að æða
upp á þak útaf lausri bárujárnsplötu:
það er annar úti með hamar.

Reyndu þá að yrkja blankalogn
og sól, reyndu þá að yrkja
kvenmannsbelg næst þegar á að juðast.
 

 

aðalbláber

 

gæti verið ágætis titill á ljóði!
Og þetta er þá afrek mitt í dag:
Ég hef plokkað orðið aðalbláber upp úr bók.
Ég veit það má finna bláber
í öðrum verkum. Og kannski
grunar mig líka mun handan orða
þótt ég komi hvorki fyrir mig bragði né lit.
Ekki verður aðalbláberið
aðalbláber eitt og sér.

aðalbláber. Alltaf skal mínu óviti
heppnast að slíta orðin úr samhengi.
En hver eru vensl mín við þetta?
Gegnum hana mömmu?
Já, gegnum hana mömmu.

Stundum á haustin tíndi hún berin fyrir vestan.
það er freistandi að skrifa: hún las, en
hún tíndi berin á æskustöðvunum fyrir vestan.

Aðalbláber náttúrunnar spruttu
eflaust í öðrum landshlutum
og þau vekja ekki áhuga minn.
Enda hef ég fátt að gera við heiminn
þarna úti. Og minna við samheiti.
En dugar aðalbláber sem líking
í sambandi okkar mæðgina?
Var ég aðalbláberið hennar?

Nei, ég mun aldrei framar yrkja ljóð.
Mér líður ekki einsog.
Nú reyni ég að einbeita
mér að lestrinum, nei, ég les ekki meir.
 

 

Bólstraský
                                               
 they weren’t good poets
                                                 they weren’t bad poets
                                                 but, oh my god, they were poets
                                                                           gilbert & george

 

Í gær tók ég með mér veðurfræði
Markúsar Á. Einarssonar (já
af öllum bókum hefur einmitt þessi
fylgt mér) og fletti upp á skýjamyndunum.
Veistu hvað? María situr bólstraský. En ég
er engu nær um fegurðina.

Og hafi ég ætlað mér að skilja
guðdóminn koma vísindin að litlu
haldi segja strákarnir.
þeir hafa lesið um gamla spekinga
sem endalaust þráttuðu um kynferði
engla. En varla þeirra sem eru í myndinni
því hún var máluð síðar.

Hvað á ég að gera við líf mitt?

Encyclopédie morale.
Aftur dreymdi mig fornbókasalann.
Aftur tók hann fram doðrantinn.
Starfsævi okkar skýjaglópa er stutt
en kannski er ekki of seint að læra frönsku.
Ég verð bara verð ég verð að komast til Parísar.

Hvað ef hann er í Quebec?

Morgunkonan grándar mig og hlær.

 

Poste restante

Vinur. Bréfum
þínum seinkar og ég
hugleiði stundum að senda þér ljóðið
um stúlkuna sem tregar
elskhuga sinn og bróður. En þú
myndir kannski öfundast útí
frumlegheitin og leggjast í þunglyndi.
Ég læt vera að yrkja. Enda
þarf ég hvorki að bregða mér í kjól
né aðskornar líkingar til að viðurkenna
opinskátt og edrú að ég sakna þín. Verst
hvað ég er mikið skáld. Verst hvað ég
skammast mín fyrir orðin. Verst hvað
ég óttast lágkúruna sem gæti vakið
grunsemdir um að mér sé alvara.

—-

FYRSTI ÞÁTTUR

BISKUP VÍSITERAR FÁVITAHÆLIÐ

 

heimakominn

ekki spyr ég að gleðskapnum, enn
blaktir á kerti mínu hér í stofu

talandi um eirðarleysi, yfir
vokir stimamjúkur skuggi

vill ganga frá, en mætti
mætti treinir sér, treinir

 

 

á erfiðum tímum í evrópu

á erfiðum tímum í evrópu
hrepptu fangar kartöfluskræling
en í asíu
fengu hænsni hýði af hrísgrjónum

semsagt
allt við það sama hjá siðmenningunni
óvart fjörgar hún lítils virta
meðan úrvalsliðið veslast upp

 

lífstíð

tungumálið hlaut
ég að ósekju
og afplána enn

 

biskup vísiterar fávitahælið

öll erum við börn
í vissum skilningi

það má nú segja

og þessir minnstu bræður
holdfrekir
kaffisjúkir
mislyndir
ja —
samasem ég einsog skrifað stendur

en hvað sem annars mætti um þá segja
skyldu þeir gera sér hugmyndir líka

og hingað er ég kominn
opinberunina
hefur maður jú umfram dýr

skyldu þeir gera sér hugmyndir líka

 

 

steinn þvær hendur sínar í moskvu

rautt er
rautt og rautt
er örugglega rautt

úr þessum krana rennur þó ekki heita vatnið

og ég sem hef reynt
að koma litum í orð

 

 

stúdentsveisla

héðan af
verða minningarnar á breiðtjaldi
örfoka unglingsárin
reynast glaðvær borg

dillandi hlátrar
berast úr hverju húsi
og auðga tilveruna

einungis framtíðar er saknað

 

 

komische oper

sætavísan beinir spotti sínu
á mig og heimtar miða

fagnandi gægist skattgreiðandinn
yfir öxl
yfir einkennisbúning

 

 

hurð í húsi heimspekideildar

fyrrum enduðu allir hugsjónamenn ævina
í óþekktri blindgötu
nú heitir svo að við búum í rólegum botnlanga

og enn stendur
það sem til stóð

 

 

herod the baptist

þú ein
ég lofa aldrei þú ein

sjálfur er ég að minnsta kosti tveir
sjálfur hef ég að minnsta kosti tvö höfuð

svona svona

höfuð færðu á silfurfati
ef þú dansar
stúlkurinn mín dansar

 

 

dale carnegie milli funda

það sem einum getur dottið í hug
á veggnum hangir tíkallasími á
borðinu liggur minnisbók ugla
sat á kvisti æ það sem einum getur
dottið í hug nei hikstandi sjálfsalinn
er varla rétti stíllinn röddin sem
hrópar upp kjúkling slæmur
bakgrunnur ekkert mál það má
eiga leið framhjá hringja bjöllu
dingla hvað ef hnappur við útidyr
leiðir hugann að takkanum sem startar
atómstríði þá er að velja gömlu aðferðina
banka knýja dyra bánk bánk nei kemur
þá ekki bara frelsari í gættina
hæ það sem einum getur dottið í hug
æ það sem einum getur dottið í hug

 

 

síðbúin doris day

                                  I certainly wouldn’t want to join
                                 any organization that would be willing
                                 to have me as a member.
                                                                                 Marx

spegill spegill er ekkert inní músík
samt fullur efasemda vegna tónleikanna
della: hún snýr út úr
skellir eftir sér hurðinni.
og tiplar hvellum hlátri
niður stíginn að hlutlausum taxa

nei kannski bjóðast engin tækifæri úr þessu
þá verður í öllu falli huggun
að hvarvetna leiðir miðlungsfólkið sönginn

síst gerir betra ein frábitin heima
ævinlega skal ákveðin elska í bakröddunum
hafa merkilegri tón en stjarnan

spegill spegill er ekkert inní músík

 

 

sveitafólk

ein
hleypur
með áttavita í hendi

gæti fundið rétta sporið
gæti líka ýmislegt
fyrir
hitt
í þreifandi diskótekinu

einhleypur
í villu
grunlaus um sæluhús
bunulækirnir renna uppímóti

 

 

reykjavík by night

ástin mín í hitasvækjunni
ó veittu mér straum
þú sem hefur innstunguna

veittu mér straum
og þér mun standa opið
frystihólf í brjósti mínu

hér í mo—mo—mollunni
úldna spakmæli á vörum
leggur rotnunardaun af samræðum

veittu mér straum
trúðu mér fyrir orðum þínum
safaríkum ástarorðum

ég varðveiti þau í hjartanu
ég varðveiti þau í frystihólfinu

 

 

úrmangari

kondu úr
kondu elsku úrið mitt
hreyfðu sundur vísana

kondu úr
leyfðu mér að trekkja þig
það trekkir svo að trekkja

kondu úr
kondu elsku úrið mitt
vertu tíu í tvö
vertu kortér í þrjú

 

 

rauðanótt másarans

ekki skella á, ekki
halda að nú ætli ég að stynja upp einhverjum ljóðhrokanum
ekki halda að nú vilji enn einn narkissos mæta á staðinn
til að spegla sig í augum þínum
fjallavötnunum — nei
olíubrákin á þessum pollum þínum er staðreynd og
ekkert við því að segja
aðrir mega hneykslast
aðrir mega rífa úr sér glyrnurnar
gera þindarlausan móral nostalgíunnar að blindrahundi
en mig heillar litrófið
og mér geðjast að sífelldum hamförum þínum

trúðu mér
barbamama
ég vil finna þig undir spottinu á broadway
ég vil finna þig undir borðum í velferðarríkinu
vil finna þig undir fjögur
undir fjögur hvarflandi augu
finna þig
ofurseldur eigin yfirburðum, já
hlustaðu á þennan sæla farísea
þráhyggja píslarvottanna höfðar ekki til mín
ég nam aldrei latínu mýrisnípunnar
sýni þó umburðarlyndi
lesi ég kveðskap grasafræðinganna í tímaritinu
en ég er óviti
varla farinn að spá
í arfinn
bogart í casablanca
er minn skarphéðinn í brennunni
og mínir jónasar fóru á grasafjall í mexico

trúðu mér
barbamama
engan veginn geng ég sem fyrirmynd í barnabók
kennsluhæf fyrirmynd með séríslenska spurn á vör
og raunsæja vanmáttarkennd pedagóga á bakinu
ég er fjölþjóðlegur óviti
veikur fyrir brellum
held að með réttum stíl
geti jafnvel stelpan sem kynnir sjónvarpsdagskrána
öðlast líf fyrir neðan mitti, veit
að siðferðið er annað
veit að lífeyrissjóður vanans er gjaldþrota
og hlustaðu nú
hlustaðu nú á þinn fjölþjóðlega óvita
leggðu frá þér hjemmet
leggðu frá þér familie journalen
og kondu
barbamama kondu

ekki, nei ekki
segja að ég þræti fyrir hlutdeild
ekki segja að ég þræti fyrir ábyrgð
á friðsamlegri sambúð
og vandanum samfara
þú veist að ég hef enga afsökun
þú veist að ég hef enga fjarvistarsönnun
veist að ég er ekki svo heppinn að vera kona
og hafa aldrei viljað stríð
svona er lífið
barbamama, svona
er ég og talandi um hlutdeild
auðvitað nenni ég ekki að hlaupa til
þótt heimalningurinn freisti útgöngu
komplexinn helgi njálsson
dulbúinn sem ungfrú svíþjóð
ég þegi
fylgist með ævintýrunum
þau gera alltaf lukku

enn vilja prinsarnir reyna fyrir sér sem svínahirðar
þeir vappa um þinghúsið
í einlægri leit að kjölsvíni þjóðarskútunnar

trúðu mér
barbamama
ég er fjölþjóðlegur óviti
og MÉR
langar í eitthvað annað

ekki hika, ekki
alltaf spyrja hvaða augum ég líti silfrið
hégómlegt vandamálasilfrið
barbapapa í byltingunni er augasteinninn minn
barbapapa í blaðamennskunni er augasteinninn minn
barbapapa í borgarstjórninni er augasteinninn minn
og hættu svo að spyrja
og hættu svo að draga mig í efa
ég er fullur af lifandi mótsögnum

trúðu mér, barbamama
ljóðið mitt er síst að öllu ljóð
það er tærasti sultardropinn í ár
það leggur sitt af mörkum við að hola steininn

ekki, nei ekki leika
ekki leika strandarkirkju þegar svona stendur á
ekki pressa útúr mér loforð
kraftaverk eða ekki
barbamama ég bíð
ég bíð þess sem koma skal, ég
bíð og bráðum klárast sígaretturnar

trúðu mér
barbamama
bráðum klárast hún líka
þolinmæðin …

 

 

bæn í umsetnu húsi

óvart hefur einhver læst að utanverðu
engan grunar í hvaða ástandi þú ert staddur
hvað áttu að gera hér?
syngja
eða snúa þér upp í horn og breiða óttann yfir höfuð?

þögnin lýsir upp herbergið: ekkert

úr bókinni manstu plottið
veist að ástleitin illskan sleppur innfyrir

til orða skalt þú aftur hverfa
vinur
einverunnar

sama
hvaða veruleiki verður kistulagður í þér
með tíð og tíma iðar allt af lífi

komi
komi komi
komi nótt
komi morðingi
komi góður morðingi og nótt
komi komi, kom

 

 

milliþinganefndin skilar áliti

ég vaki mig dreymir
þig dómkirkja
ég er drukkinn og læst vera drukkinn
ég er ungur og ær af elli
er á sunnan
og meðan þú spyrð mig einskis veit ég allt

ég heyri þig hvísla
þessi angist var ekki þín
þessi angist var engin angist

nei, þetta var ljóð mitt
og þetta er mín játning

ef ekki væri ísland ættirðu ást mína ein

hér færðu tíu hnébeygjur
hér færðu allar mínar ónotuðu bolvindur

hlauptu dómkirkja hlauptu

módernísk nóttin hinkrar í rigningunni
götur borgarinnar bíða þín hálar

 

 

tíðasöngur

segðu mér ekki frá ljóta
andarunganum í kvöld
engin dæmi um þann sem finnur
sig-sér-sín
ekkert snakk um eðli, takk
ekki í kvöld

heilög marilyn
ég hef leitað, hef
leitað og ekki fundið sjálfan mig

og líka ég er þreyttur á að vorkenna sjálfum mér
og ekki heldur ég nenni að spyrja hver ég sé
né hvað ég eigi að vera

annan rúnt, annan
áfram, annan
það gæti verið séns

en það er alltaf of seint
og það er alltaf of snemma
og allt er allt er fjarverandi

heilög marilyn
gef mér að drekka
ég er ekki þyrstur

nú er komið að mér
ég er sannarlega ekki ábyrgur orða minna

en ég trúi á orðið, marilyn
allra kvikinda líki
trúi

heilög marilyn
hvað er einnmeyjarsonur hjá mér
barni þínu
barni óbyrjunnar

mun ég
eða mun ég ekki frelsa heiminn

heilög marilyn
ég er áhorfandi
ég breyti heiminum og breyti

breyti selskapsdömunni í norn, ó marilyn

inni er úti
kroppurinn er sálin
og ég á ekkert nema minn græna vilja

ég hef leitað, hef
leitað og ekki fundið sjálfan mig
nú er að skapa úr engu

marilyn
fáðu mér maskarann, marilyn

 

 

arbeit macht frei (3)

 

i. góðkunningi

enn á ný ertu staðinn að lífi, kjáninn
með sönnunargagnið innan klæða
innan holds
ekkert þurfa menn samt að óttast:
enn á ný er krafist útúrsnúninga

ii. vínarkvöld

spennandi dansleikur. segðu
á tólfslagi
taka þau svipina niður

iii. torgseti

og sjá: það hleypur
úr einum banka í annan
það hleypur
það hleypur
úr einu ráðuneyti í annað
það hleypur
hleypur
úr einni skoðun í aðra
hleypur
og sjá: það hleypur

iv. einmuna tíð

ekki rignir, ekki
rignir peningum í dag
ekki rignir peningum
og rignir ekki í dag
rignir ekki, rignir
ekki peningum í dag

v. sálmur í vesturbænum

englarnir vaka ennþá frameftir
úrþví óvissan bara magnast vaka þeir
það máttu bóka
með geislabauga undir augum vaka englarnir
pabbi á fjarstýringunni, pabbi
alltaf á fjarstýringunni

vi. uppgötvun á þjóðskjalasafninu

sem ég
er lifandi:
það réði
til sín fyrstu
persónu
fleirtölu
það réði til sín böðulinn Við

vii. gamalt viðlag

gekk yfir sjó og land
gekk yfir gamlan mann
ég á heima á rugglandi
rugglandi
ruglandi
ég á heima á rugglandi
ruglandinu góða

viii. erfisdrykkja

gengur hún þá ekki tinandi milli
borða og heilsar slektinu:
mamma gamla Ísland sem börnin hugðust syrgja

ix. kóngamóðir

hittu mig, elska
í heimskunni
gefist þér gefist þér tóm

x. tvær kviður fornar

sorrí leiðangursmenn
ef, hefði, mundi og ég?
amundsen náði suðurskautinu
amundsen náði meyjarskautinu
og víst er ég víst er ég skott
rófa, stertur, dindill, hali, stýri…

xi. pústað út á eigninni sjálfri

skál fyrir húseiganda
á eigninni sjálfri, skál
skál fyrir vorinu, bílskúrnum
og púströrinu, skál
skál fyrir framkvæmdamanni
fyrir húseiganda, skál

xii. orð dagsins

og ef drottinn gleymir teningunum heima
tekur ekkert okkar ákvörðun í staðinn

xiii. húskveðja

engin rauðvínshöll
þessi skrokkur
þetta hæli
þó vöktu hér sumir frameftir
hér fékk maður inni
fyrir órana
hér stóð fávitahæli
hér stóð hús handa sjúkum

—-

FYRSTI ÞÁTTUR

TOLLARI LEITAR MERKINGAR

 

Íslands minni

eftir dúk og disk [svo] kemur heiðursgesturinn
– kemur vorið
með alla sína heimtufrekju 

 

 

Drög að aldamótaljóði

sigur handboltalandsliðsins á útivelli
bókmenntaverðlaun nóbels
og heilög rigningin á þingvöllum

bandaríkjaforseti í göngutúr án öryggisvarða
íslenska lagið á breska vinsældalistanum
og heilög rigningin á þingvöllum

útlendingurinn sem lét myrða sig í þjóðgarðinum
lömbin á vorin, ó lömbin
og heilög rigningin á þingvöllum

 

 

ávarp til eftirlifandi

á eftir þessari setningu kemur.

engar athugasemdir um það hvort
.inn tilheyri setningunni eða ekki

og sakið mig ekki um
ósamkvæmni, myndugleikinn
skapar einkum mótsagnir komma
óttinn við óttann spámenn
sem aldrei koma því einstaka í orð

og ég en ekki ég heldur ég
mun enn einu sinni sýna í verki
að það má taka mark á orðum mínum
það kemur fram sem ég segi og skrifa

á eftir þessari setningu kemur annar. 

 

 

fjórða grafhýsi leníns: vígsluljóð

og hví skyldi maður yrkja um aðrar?

ég fer að dæmi hinna strákanna, líki
brjóstum þínum við líparítfjöll
eða rauðhóla en aldrei loðnar þúfur

og skapahárin skulu vera
birkikjarr, nei
skjólbelti (það stuðlar) kringum akur

síðan sái ég osfrv.

en í miðju sáðlátinu
ákalla ég föðurland
mitt ó mamma

 

 

aldarhvöt

 

brennið
þið

we’ll be back to you with more after this
message: Ljóð þetta má eigi flytja með
neinum hætti, svo sem utanbókar
lærdóm í barnaskóla, ástarjátningu
á bjórkrá, eggjun við jarðarför, eða
á annan sambærilegan hátt, að
hluta til eða í heild, án skriflegs
leyfis höfundar (Anton Helgi Jónsson)
og útgefanda. Óheimilt er einnig að
túlka ljóðið á nokkurt þann hátt
sem brýtur í bága við ætlun
höfundar (Anton Helgi Jónsson)
og komi viðurlög fyrir.
Lesandi sem í ógáti hefur rennt
augum yfir ljóðið án þess að hafa
greitt fyrir eintak sendi kr. 50
til Rithöfundasjóðs Íslands
Hvefisgötu 5, 101 Reykjvík, ICELAND
— munkar

 

 
 
 

fossaniður

 

 því reynslusagan í barnablaðinu heitir trúlega hundur bjargar manni sem er auðvitað ágætis heilræði og eflaust birta þau dönsku ennþá storkinn sem kemur með krakka í bleyju nema það sé efnabomba núna svo þá er skárri þessi foss sem minnir á þann ég sá í gærkvöldi þegar dagskránni lauk og ég hugsaði náttúran væri ágætis hugmynd en verður fossinn áfram foss í klakaböndum þótt auðvitað megi spyrja hvað sé fyndið við vatnsfall sem fyllir út í sjónvarpsskerm og streymir þaðan út á stofugólf ungra hjóna í innlendu blaði sem liggur frammi hér á lækna-miðstöðinni nei ég heiti ekki halldór ég heiti anton ég

 

 alþing í nýjum ljóðahætti

 bandvanur draumur og

tannburstarnir gjóta
dansandi kenningum

sem þokurnar ræða

en broddgöltur gleymir

sér við afstæð andvörp

meyrar sekúndur
sárfætt ský

andstuttur sigur

brunnin þögn
einn rennandi draumur og

 þing

hús
flugunnar

 

 Tvö tækifærisljóð

 

1. Afmælisdiktur til HKL

 bækur jón að réttum telja

uppteknir
reykdalín

 íslenskar

skýra uppúr
menn
aðra rifja
hér útirauðsmýri snemma
upphátt mikill

 

2. Bréf til Láru

blóðmörskeppur ritlist ég forklárast
titrandi innblæstri lyftingu
ljómar átölur raust umturnunar

blásteinslegi réttlætisins ég frammi
til illa lambsins
loks ánægt ræður umbótamannsins

blessun ríð ég fyrir
tvíhendi innanmeini leiðinlegur
leiðslu á rómantískri undir

 

Ættargripur

þú
hvernig
hvernig þú
æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ hvernig þú getur
æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ hvernig þú getur látið
æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ æ hvernig þú getur
hvernig þú
hvernig
þú

 

Njósnari í þykjustunni

( Á þessari blaðsíðu gæti frómum lesara vitrast ljóðið Njósnari í þykjustunni. Ef að líkum lætur er það skráð með ósýnilegri skrift og verður lífsreynsla hverjum þeim sem í góðri trú rennir volgu straujárni yfir síðuna. En þeir sem afneita skáldskapnum og æskja fremur hinnar meintu orðsendingar skyldu varast að láta heit augu hvíla of lengi við pappír og snúinn bókstaf. ahj. apríl ’86 )

 

Þrjú frumort ljóð úr ófullgerðu skáldverki

 1. fráhvarfseinkenni í forstofuherbergi

þú elskar mig í annarri persónu
ég reifst
ég fór
frá

þér og hafði ekkert með mér suður
nema orðið drusla
en í sjöundu línu hef ég fyrirgefið allt

og ana beint út á stóra játningabrettið, segðu allt
                                                        nema nema amen amen
                                                  hví
                                            hika
                                         ég
                                       æ
                                   ég
                          verð
                 smár
          svo
smár

annað hvort hringi

ég eða

 2. rauðu ástarsögurnar

 ég

virði hlátur þinn en leyfðu
mér samt að útskýra
málið frá sjónarhorni mínu

þú

 

hús í borginni

látum standa opið út á svalir
enn um stund
gardínan bærist sjáðu myndarinnar vegna

það var betra, kondu
hingað yfir í sófann

handköld, frá og undir-
förul þei: flugvöllurinn

lítil rella æfir aðflug í logninu
núna skefur skefur skefur

ég geng frá ljóðinu til prentunar

ég veit hvorki út né inn í þennan heim

ég man eitthvert hrafl úr epískum kossum hennar

búið

 

Hugsandi munnur

 Hér stendur

orð.
Dregur nokkur spekina í efa?

Er ég
í
orðinu? Er
ég
orðið?

Vei, ó vei.

Hlustið, helgar
kýr og rollur
takið nótis af eftirfarandi:

Reynið hvorki að finna skáldið
bakvið orðið né manninn
bakvið skáldið í þessum línum.

Rödd úr salnum: En konuna þá?

 

elskhuginn

taktu þér ferð á hendur
kondu, sjáðu með
eigin augum
hversu búsældarlegt er um að litast
í hjarta mínu [les: ríki þínu]

kondu, katrín

mín önnur
sjáðu með eigin augum

 

úr Bréfi til ungra skálda

svarið aldrei með Halló
Já eða þess
háttar, svarið
ætíð
þannig að sá er hringir viti
samstundis hvort
hann hafi fengið rétt
sam

(Etv. mætti gera meira
úr hugmyndinni:
þetta er sjálfvirkur ljóðsvari.
Skáldið er ekki við í textanum.)

         bandsrof látið
ætíð þann er hringt hefur hringja
upp
aftur

 

Sjálfsmynd I

hæpur. loðsilungur. gol-
mögóttur. óhæfi. raftur.
flétta. hjá. sókn. fingur-
bjargarblóm.

 

Sjálfsmynd II

Ég hugðist yrkja ljóð; lokaði
augunum og blaðaði um stund í orðabók
Menningarsjóðs. þegar minnst varði
sló ég vísifingri hægri handar niður
á eina síðuna, opnaði augun og
aðgætti hvort nokkur læsi yfir öxl mér.
Engan sá ég og ákvað því að orðið
sem fingurinn benti á væri skáldinu ætlað.
Ég punktaði það hjá mér. Hélt svo áfram
þar sem frá var horfið. Níu sinnum
lét ég andann koma yfir mig. Níu orð
punktaði ég niður. Síðan las ég í gegnum
handritið og gaf verkinu nafn.

 

stand in

(skáldið flutti
ljóðið

yfir á næstu síðu
og skrapp á klóið

merkingin ein
bíður)

 

frinn frinn

frinn frinn um eilífð frinn
hvernig get ég skilið
frinn frinn um eilífð frinn

herbergið er óbreytt í myrkrinu
inní mér virtist ekkert týnt
hljóðin úr mér hin sömu og í morgun

svo kveiki ég ljósið og gríp í tómt: frinn frinn

illir vinirnir eru mér góðir
illir vinirnir vilju mér hjúlpo
enginn kemur þó í þinn stöð

illt er breytt
forgefins inni ég eftir merkingu

skynsemin segir: reyndu nýtt stufróf
lúttu þér lyndo nýtt stufróf
kondu reglu ú nýtt stufróf

frinn frinn um eilífð frinn
hvernig get ég skilið
frinn frinn um eilífð frinn

 

óbirt ljóð eftir ezra pound

óbirt ljóð eftir ezra pound
það yrði viðburður: ungur
íslendingur í miðilssambandi
við erkibiskup atómskálda

ég lofa engu
leyni engu
renndu samt yfir mig augum

í dagblaðinu væri ég frétt
á ljósastaurnum auglýsing
ég er textinn hér á síðunni: lesandi
nær sambandi við ungan íslending

skáld!

ungan íslending, skáld
dulspeki yðar er einkar athyglisverð
hvað álítið þér um hugsun
fyrir og eftir orðin? nú, spörningin er einföld
þú skrefar þeg í heiminn
og högsar: svo þetta er þá þessi ég sem allir eru að tala um
síðan mætti nefna guðdóm og túsund ára ríki orða
bara nokkur varnaðarorð: ykkur
ber að geta ábyrgðarmanns
einhverjum gæti dottið í hug að höfða mál

ég er textinn hér á síðunni
farðu gleymdu kondu
aldrei aftur
flettu

 

skreiðarlest

(eftir Hugo Ball; lauslega þýtt og staðfært)

jolifanto bambla ó falli bambla
grossgiga mpfa habla horem
egiga goramen
higo blojko russula huju
hollaka hollala
anlogo bung
blago bung blago bung
bosso fataka
uí uíuí uí
sjampa vulla vussa olobo
hei tatta gorem
esjíke súnbada
vulubu ssubudu uluvu ssubudu
tunba ba-umf
kusa gáma
ba-umf

FYRSTI ÞÁTTUR

SÉRLEYFISHAFI TREGAR

 

Helgidagar

Í gluggakistunni liggur upplitaður eldspýtustokkur.
Ég væti tvíböku í heitu kaffi.
Vonandi rignir hann ekki allan mánuðinn.

Gömlu vikublöðin verða betri með hverju sumri.
Óperusöngkonan er rík
en ánægð og Danir
hafa loksins
fundið handritið að þýðingu
H.C. Andersen á La Nouvelle Justine.

Afhverju fæddist ég ekki í Kaliforníu?
þakið væri löngu málað og klárt.

Og kannski hefði ég þá orðið forseti Bandaríkjanna.
Á Íslandi eru fyrirheitin önnur:
Bróðir þinn gæti þekkt mann sem þekkir ráðherra.

Velgengnin er hvergi glæpur nema hér.
Heildsalann kann ég bráðum utanað.

Ég ætti að skaffa nýrri blöð í bústaðinn.
Lesa um fjársvikin.
þegar rignir jafnast ekkert á við fjársvik.

 

Samband óskast

Liðlega þrítugt skáld
óskar eftir sambandi við
lesanda sem skilur
einkalega reynslu.
Börnin engin hindrun.

Þeir sem hafa áhuga rétti upp hönd.

 

Svissneska úrið

Hann álpaðist einn inná óupplýsta
tungu sem hvorki
svaraði orðalista
fararstjórans né ensku.

En sjálfur skildi hann að pilturinn
bauð honum svissneskt úr
ósvikið og ekta svissneskt úr á slikk.

Það hefði ekki enst mér upp á hótel.

þegar hann fór út fyrir efnið
árið sem ég sat eftir
var niðurstaðan hin sama og eflaust
heyrðu seinni árgangar söguna óbreytta.

Síðar gerðist ég hagvanur á kennarastofunni.
Og viti menn: Svissneska úrið er vorboði ljúfi.

Péturskirkjan, Colosseum, Via del Corso?
Engu okkar gagnar að spyrja
ferðalanginn til vegar:
Álengdar stendur yngismaður
með opið niður á bringu og býður svissneskt úrið.

 

sunnudagsfeðgar

dugar öskjuhlíðin sem ísland
og náttúra? ég spyr. sjáðu
fuglinn, segi ég upphátt við drenginn

sem lítur á mig með hvað? á vör.

gláptu ekki hingað, þú ert
barn og enginn hvolpur
átt hvorki að vakta puttann
né kvíslgreina stöðugt
vísifingursorðin.

það er lóa, manstu
í vísnabókinni, lóa!

og lóan hún söng dirrindí
hjá skáldinu, en sumir
hallast að öfugum tvílið.

margur daninn gisti hér lengi
án þess að læra íslensku
og um kjörlendi kana þarf ég ekki að fjölyrða.

spurðu því ekki hvaðan
þessi sumargestur komi eða hverjir
fyllist heimþrá
þegar hann syngur.

við getum hampað bæði vísnabók og tungu
eignað okkur hlíð og söng og fugl.

 

Bastarður

Fisksalinn vefur dagblaði utanum ýsuna. Friðrik Nietzsche hét þýskur heimspekingur. Í kaffitímanum skiptast piltarnir á bitaboxum. Tré-klossunum var ætlað að minna þráin og Sæunni á sumaleyfi þeirra í Hollandi. Óviðkomandi bannaður aðgangur. Ef skólastjórinn hefði mælt með mér væri ég orðinn yfirkennari. Sestu ekki í sinnepstólinn. Hefndin hvolfdist yfir kerskna ættingjana. Játaðu glæpinn svo engan fari að gruna þig. Ég er boðflennkan á skáldabekknum, sagði eyfirski hagyrðingurinn. Í hvaða setningu er ég staddur? Enn vill illgresið heita hveiti. þjónustustúlkan brigslar ungum Norðmanni um óheiðarleika.

 

Ráðstefnumaður

Hvar liggur silfur
Egils grafið?
Í sögu?
Í ljóði? Í logandi mel?

Engin flugleið
er nógu löng fyrir stóru málin.

Þökk sé fyrir koníak
og kjaftforan
sessunaut sem kímir:

Hreinskilinn geng ég að hliði
með orð
mín og eðaldrauma.

 

Einn á hvítum

Sumar í garði og sumar
í kjól, til dæmis
ein ljóshærð
sem kælir
tærnar við gosbrunn.

Sú skal vera prinsessan mín í álögum.

Hún skellir uppúr.
Hvers vegna?
Hvers vegna ekki?

Í mínum skáldskap er leyfilegt að hlæja.
Við hlæjum bæði:
Við tvímennum heim á íspinna mínum.

 

Í Kaupmannahöfn

Þegar ég kem til Kaupmannahafnar
horfi ég á þökin.
þau eru fyrir löngu orðin græn.

Heima voru þökin líka græn.
En þá voru þessi ný.

Koparþök eða þekjur. Hver hefur sína
sérvisku. Nema allt sé háð duttlungum
og tísku í kortagerð.

Hjá sendiherra tala menn fjálglega um Evrópu.
Sumir minna þó á þýska varnarliðið
og traffíkina við landamæri Póllands
í september ’39.
Guði sé lof fyrir hernám Breta
Kanann og Flugstöðina.

En eitthvað hefur gerst: Mér er sagt að ég
lifi sögulega tíma
ekki síður en skáldið
sem orti um tannlaus orðin
og matjurtarækt Bandaríkjamanna í Japan.

Hvað segja skáld? Hafa líkingarnar
eitthvað að gera í pólitík?

Ef þetta væri ljóðið mitt um ástandið í heiminum
gæti ég látið Palestínumann
róa með sinn hvítbláa út á höfnina. Hnattstaða
einstaklingsins er alltaf jafn hernaðarlega mikilvæg.
En með ástandið í Evrópu og sérhagsmuni
Íslendinga í huga rekst ég
á Hólmfast Guðmundsson
af Vatnsleysustönd í Höfn.

Ég ætla mér ekki í framboð fyrr en á morgun
og þetta er mitt prívat og persónulega ljóð:
Auðvitað spyr Hólmfastur um leiðina til Brussel.

Ég bendi honum á þökin.

 

Langförull

Á hvaða máli galar haninn?
Í svefnrofunum lét hann kunnuglega.
Verst að fá ekki erindið á prenti.

Stúrinn felli ég tjaldið og pakka saman.
Hef á honum gætur.
Áræði loks að nikka til hans á íslensku.

Ekkert svar.

Það var þá sem mig grunaði: Landi
hér í miðri Evrópu.

 

Ný ljóð

1. Skáldmenni í Höfn

Bakpokann og ferðaritvél
geymdi ég í læstu hólfi á brautarstöðinni

hljóp síðan frá mér út í borgina:
Hvar?
Ó hvar svifi þreytt önd skáldsins?

Ha?

Í kjöllurunum
                   fann ég
                              svosem
                                          á mér.

Og þegar ég sneri til baka
hafði annar sett örk í ritvélina.

 

2. Heimarík jól í útlöndum

Maður frá Eritreu
fylgdi vinum af stúdentagarðinum
til okkar Íslendinganna
á aðfangadag jóla.

Í og með urðum við nýstárlega feimin
vinguðumst sisona spyrjandi
og sannreyndum að svartir
geta verið þrúgandi
ekki síður en fatlaðir eða hvítir.

Af blátt áfram hugsunarleysi
var það þó ekki fyrr en við hugðumst
bera grísinn fram að hann reyndist
til allrar hamingju kristinn.

 

3. Moderna museet

Þessar brosandi drottningar eru aðfluttar
enda var ég aldrei varaður við þeim.
Enginn drungi
nei, enginn drungi.

Annað stendur heima
og það getur varla talist til útlanda
þetta helvíti:
sterki bjórinn utan seilingar.

En ungfrú Martinsson er ósvikin
bíður mér á prómenad
kvíðin morgundeginum
vinnunni á sjúkrahúsinu
þar sem hún róar dauðvona gamalmenni
frá níu til fimm.

 

4. Bændaför til Noregs
 

Við brottförina frá Osló
er ég á fleiri áttum.

Andríkur landi
vindur sér að páfanum víðförla
og spyr
um veðrið
heima.
Ó guð vors land. Fyrirgef oss
vorar hugrenningarsyndir.

Vér
munum
knéfalla
í Keflavík.
Og minnast við asfaltið.
Og minnast við asfaltið.

 

5. Fyrsti maí

Nú er búið að segja vetrinum upp
og kröfuspjöldin mættu fá standpínu:
Stelpurnar
liggi berbrjósta
á bekkjunum inni í Laugardal.

Niðri í Lækjargötu
fer gangan alltaf í lakið
og þarmeð stoppa langanirnar.

Sjálfur er ég í ofsa stuði
skipti um sokka í vor
svo ekki ættu gellurnar að setja það fyrir sig.

 

Uppfærsla í plássi

Bekkirnir auðir
í sýningarlok
á leikþætti
mínum: Sá einhverfi
brýtur
saman kort.

Stjarnan ein
blínir eftir kvöldrútunni
út aðalgötu.

Andlit flissandi
telpna límd á rúðu.

 

Saltstólpi í dýragarðinum

Skepnan treður hausnum út
milli rifjanna
og
sleikir hönd mína.

Viðlag:
Ég er vísast kominn til fyrirheitna landsins:
Hér aumka mig jafnvel framandi naut.

 

Heimferð

Um leið og komið er í áfanga
vaknar löngun eftir öðrum.
þetta veit ég.
þú hefur sagt mér það áður.

Ég veit að framrásin verður ekki stöðvuð.
Ég veit að við eigum bókað í framtíðinni.

Raunsæið var aldrei mín sterka hlið.
Ekki bíður ferjan.
Ekki hægjum við á bílnum og snúum til baka.

þetta veit ég allt.

En ég gleymdi að læsa bakdyramegin
get ekki munað hvort ég slökkti á ofninum
minnist þess ekki að hafa skrúfað fyrir kranann
og við hefðum átt, við hefðum átt að negla fyrir glugga.

 

FYRSTI ÞÁTTUR
EFTIRHERMA ÆFIR NÝJA RÖDD

 

Umrenningur

Hægan, hjarta mitt, hægan.
Engan æsing þótt manneskjan bjóði mér gistingu.

Hjarta mitt, hægan.
þú skalt ekki lenda hjá vandalausum.

Sjálfur man ég alla okkar viðskilnaði.
Og færi aldrei án þín, hjarta
mitt, aldrei án þín.

 

1984 VII 4

pukrast a gulnandi matsolustad umber
aleitna feiti eiturhressan kokk stop

elska pig enn og sit hryggbrotinn yfir
kassu flatur lofinn a botn stutfullrar
tomatsosuflosku stop

skamma pig i huganum hlustandi a
upporvandi kokkinn utlista frettirnar
ma pola samanburd vid mannkynid og heyra
ad pvi lanist engu betur stop stop

 

endurfundir

það rignir, manstu
nú rignir þannig


rignir enn

og
árviss boðflennan ágúst-
nóttin mætt
æ
ekki nennum við út

aftur í glasið kannski


hann rignir enn

 

Hetja og vængir

Þú spyrð
um væntingar mínar og óskir
og um það sem er.

Dúfan mín
allt grípur þetta
hvað inn í annað.

En þessa hlekki
leggur maður á sig.

 

sérlega mildur og kraftmikill

ein og önnur græn
baun
í uppþvottavatninu

það er nú það

fer erótíkin í vaskinn með árunum?

heyri ég laxinn stökkva í rödd þinni
eða yrki ég eftir tólf ára hjónaband
á máli félagsvísindadeildar
háskólans?

þú birtist mér í eldhúsinu
klædd gulum hlátri
hvort á ég að líkja þér við dís eða norn?

ég á bara pottana eftir

bíddu mín við fyrsta kossinn
snuðaðu mig ekki um óskirnar
veittu mér ástríður
láttu mig elska hata
og anda að mér holdi þínu, anda

Tvö póstkort

I.

sundhöllin eftir lokun

þráhyggja mín: allt
þetta kyrra vatn, öll
þessi eilífð
og hún

sem kemur úr djúpi
teygir upp hálsinn
eitt augnablik

nefertítí

sundhöllin eftir lokun
hugur minn
allt þetta kyrra vatn

II.

sérleyfishafi tregar

borgirnar aftur á landakortinu

þú í bréfunum

ég að hugsun minni

faðmlag okkar meðal óskilamuna
á umferðarmiðstöð í kannski

 

brúðkaupsafmælið

                  jazz is not dead
                  it just smells funny

                          frank zappa

dansi hvar er blái
kjóllinn, ó hvar?

dansi er í aldrinum
dansi er í ha ha

kondu þá í útsölunni, dansi
ég mun ávallt skilja þig
frá öðrum dansi dansi

ástin er og, ó

stundum eða, dansi
aldrei en, ó dansi

við eigum saman eigum við
dansi, dansi dansi…

 

kvöldljóð

varir varir, komið
varir, verið

varir babba
varir mömmu

komið varir verið
blóm blóm blóm

varir varir, komið
varið

 

FYRSTI ÞÁTTUR

ÞJÓNN FER AÐ DÆMI LJÓÐS OG VEITIR ÁBÓT

Anton Helgi Jónsson:

NÍU LJÓÐ

Dæmisaga að sunnan

Í gær fann ég rétt
eða rangt á stíg við tjörnina.

Ég leit í dagblað en enginn
lýsti eftir réttu
eða röngu og hvergi
var neinum fundarlaunum heitið.

Þar með var draumurinn búinn.
Ég fleygði góssinu óskilgreindu í ruslið.

Það er lítið vit í hálfu pari.
Þar um vitna ég sjálfur
í einstæðingsskapnum og ósætti mínu öllu.

Í dag fann ég annað rétt
eða rangt á stígnum við tjörnina.

 

Eftir ballið

Hér lafi ég þá —
ein og sér í fatageymslu.
Lafi.

Hún sem afgreiðir, blessunin
er þó áfram til staðar og spyr: Hvaða
ástríða, hvaða
hugsjón kom í þessari yfirhöfn?

Engin gefur sig fram.
Engin nálgast og fyllir mig lífi.
Engin ber mig úti í napurri borginni.

 

Morgunljóð óbyrju

Dauðinn ektar okkur allar.
Hvílíkt grín! Við breiðum

úr okkur á púðum og hægindum
í sælu kvennabúri. Við geispum

okkur inní smáerjur eða snakk
og ástríðulaust daður, en kvörtum

þess á milli undan Tíma, geldingnum
sem þó leiðir okkur héðan

út og fram til soldáns.

 

Andaskrift

(Fernando Pessoa)

Skáldið er þessi sem þykist.
Hann þykist svo gjörsamlega
að hann jafnvel þykist þjást
af þjáningu sinni og trega.

Og þeir sem ljóðin hans lesa
við lesturinn kenna það böl
sem hvorki er þjáningaþófið
né þeirra eigin kvöl.

Og áfram skjögrar og skröltir
til skemmtunar höfðinu smarta
upptrekkta leikfangalestin
sem löngum kallast hjarta.

 

Sambrýnda konan

Segjum brúnirnar hennar dökku:
Örninn í uppstreymi ennis.

En hvaða mófugl hefur þá orpið þessum augum?

 

Erfisdrykkja

Gengur hún þá ekki tinandi milli
borða og heilsar slektinu:
Mamma gamla Ísland sem börnin hugðust syrgja.

 

Hulda

 Það er svefnborgarnótt

hvergi ljós í glugga
óratími
síðan þjónninn á tuttugu kom heim.

Mín fer að dæmi allra hinna
hefur slökkt
hefur auga úti.

 

Skip á höfninni

Ávítun fóstru minnar hef ég ekki gleymt:
Aldrei að benda á skip.

Við sáum síldarbátana stíma inn fjörðinn.

Hér sigla önnur fley inná höfn og lygna undrun.
Vináttuheimsókn, ítreka blöðin.
Ég lóna á kajanum og bendi, bendi.

Andóf mitt gegn herveldum…

Blaður kvenna, barnaskapur, hjátrú.
þusar hann sem allt veit betur.

Og strákarnir í heiðursverðinum brosa.

Engan styggja bendingar mínar í dag.
Á morgun: kylfurnar.

 

Samhengið í jólakortum

Öldungurinn reynir að muna samherjana.
Hann fer aftur í gegnum kortin frá síðustu jólum.

Þeir senda sem lifa. Og þeim
skal sent. Hann fær ekki betur
séð en allir hafi skilað sér

allir — og þó gengur aldrei upp
einn bannsettur engill
bréfspjald eitt án undirskriftar.

Öldungurinn reynir að muna samherjana.
Hann fer aftur í gegnum kortin frá síðustu jólum.

––––
Anton Helgi Jónsson fæddist í Hafnarfirði árið 1955. Árið 1979 kvaddi hann sér hljóðs með bókinni Dropi úr síðustu skúr, sem Mál og menning gaf út, en á undanförnum árum hefur Anton birt ljóð sín og ljóðaþýðingar í ýmsum tímaritum.

 

 

FYRSTI ÞÁTTUR

PÓSTURINN RIFJAR UPP NAFN SITT
OG HEIMILISFANG

 

Þorpari

Aftur eru minningarnar breima: Við
lútum báðir yfir telpuna, en einn
heyri ég orðin: þú mátt
ekki mátt
ekki…

og hrópa til unglingsins:
Hættu!
Hrópa héðan frá eldhúsborðinu.

Hann lítur upp, ég lít
upp, úti hvasst og snúra
slæst í hvíta
flaggstöng.

Friðleysið hrekur mig úr húsi.

Ég næ ekki til mín gegnum hvininn og árin.
Heyri ekki til mín gegnum hvininn og árin.

Grannkona hinkrar með rusl hjá tunnu.
Við heilsumst.
En af augnaráðinu sé ég að hún greinir ekki á milli.

Á eyrinni sami gustur af austri.

 

Bláu hanskarnir

Tíminn situr á sér í borðkróknum.
Aftur hefur ráðskonuna dreymt.

Þú kemur inn í gegnum vaskahúsið.
Ekkert viltu þiggja. þú geispar
og hallar þér útaf á bekknum.

Mér finnst sem þú sért með bláa hanska.

Ég sem aldrei nota hanska.
Og bláa. Voru þeir bláir?

Hraðsuðuketillinn rýfur strauminn.
þú erfir ekki bláa hanska.

Tíminn situr á sér í borðkróknum.
Dreymdi þig nokkuð á bekknum?

 

Telefunken

Mamma greinir að nýju frá brunanum.

Hún rankaði við sér í alelda herbergi
og hugsaði: út. Og hljóp. Út. Hljóp.
það eina sem hún fékk með sér, gat
fengið með sér var útvarpstæki, Telefunken.

En hvar var ég, spyr drengurinn hennar.

Þá tekst henni að fela endurminninguna í brosi.
Þú varst ekki fæddur.
Þetta var fyrir þína tíð.

Hún kemur eftir mér inn í logana.
Hún kemur eftir mér inn í logana.

Ég vakna, vakna. Einn. Spyrjandi, einn.

 

Riddarakross

Rómverskur riddari rændi og ruplaði.
Lát manndóm þinn hljóma.
Rómverskur riddari rændi og ruplaði.

Og hetjunni skal búin veisla.
Við sæmum hana landi.
Við sæmum hana þjóð og tungu.

Ég bala vil ekki. þú getur ekki.
Ég bala get ekki. þú vilt ekki.

Með æfingunni öðlast þú kjólfötin.
Enginn mun benda: Útlendingur.
Óðal mitt, óðal þitt.
Segðu: Rómverskur riddari…

Ó, allt sem ég fæ ekki sagt.

 

Nafnagrímur

 
Pósturinn rifjar upp nafn sitt


og heimilisfang.

Skyldi ég vera heima?
Hann lætur jeppann ganga í hlutlausum.
Hann veit að hér var honum aldrei boðið inn.

Lopapeysa, svipur, rómur og nafn.
Allt tilheyrir einkennisbúningnum.

Hann er þó aldrei viss.
mann sem reynist annar
og hermir eftir bændum
sem enginn hefur áður heyrt né séð.

En mest er hlegið þegar ég hermi eftir mér sjálfum.

Aftur kannast pósturinn við nafn sitt á dyrum.

Og eftirherman æfir nýja rödd.

 

Lampaglös og börn

Það gildir að skapa sér fortíð.

Hann sem var ég lærði heiminn utanað:
apríldaginn, garðshliðið, eftirvæntinguna.

Hverju á ég að trúa? Ég ímynda mér
endurminningar, læt orðin muna
sögu og sakna
þeirrar æsku sem þau rekja. Enn
vænti ég þjóðsagnapersónunnar sem aldrei kom.

Hann fixar allt nema lampaglös og börn.

Er þetta gerðin sem ég sagði öðrum áður?
Ég rumska í hálfnaðri setningu.

Ég man að ég minntist
en man ekki hvers.

 

Heimsóknartíminn

Gömlu stefin láta mann aldrei ósnortinn:
Afhverju getur þú
ekki verið eins og hann?

Ég hnupla mér nýjum degi
og í leit minni að glæp
sem hæfi sektinni
vitja ég þín aftur í hinsta sinn.

Ég segi: Svo þú ert þá bara með sjónvarp.
Ég segi: Djöfulli var ég timbraður í gær.
Ég segi: Og hvenær kemurðu heim?

En kannski var það ekkert af þessu
sem olli vonleysi þínu
og óvæntri gremju.
Kannski vissir þú meira en ég.
Kannski leituðu spurningarnar á þig.

Lifi ég í huga hans? Í huga hins?

Sjálfur veit ég ekki
í huga hvers
eða hverra
né hvernig ég lifi.
Gömlu stefin láta mann aldrei ósnortinn.

Einasta huggun mín er minningin um daginn
þegar ég mun koma
inn í stofuna og sjá þig heilan á fótum.

 

Eðli listarinnar

Frásögn konunnar tvístraði ættinni.
Skyndilega hafði birt fyrir augum
hennar og skórnir svifið í loftinu
hægrifótar drengjaskór
vinstrifótar telpnaskór.

Þú málar þetta fyrir mig, góði.

Núna stunda ég önnur jólaboð og gestirnir
spyrja hvað ég ætlist fyrir með list minni.

Áður vildi ég sýna frammá klofstígvél föður míns.
Ég veit ekki lengur hverju skal trúa.

Á kaffistofunni eru mér trakteruð deilumál.
Hvað angraði listamanninn
sem málaði verk af skófatnaði sveitavargsins?

Þar fengum við þó klossa til umhugsunar.

Var kannski annar af honum sjálfum
og hinn af fjarskyldum ættingja
sem óvænt kom í heimsókn?

Til einskis hugleiði ég áferð og eðli listarinnar.
Aldrei tekst mér að eiga síðasta orðið.
En suma daga svífa tvíræðir fætur mínir, svífa.

 

Regnhlífar

Hringdu fyrir mig, bað hún. þér
gerir það ekkert að hringja.

Ég hlífði mér um stund með lærdómi.
Svo mundi ég víti hennar: Ef
barn spennir upp regnhlíf
innandyra
þá missir það móður sína.

Og hvað sem leið öðrum vilja mínum
hringdi ég til konunnar
sem var í sambandi við huldulækninn.

Seinna fréttist af bænheitum rukkara
fyrir norðan og fötluðum
dreng sem þótti góður til áheita.

Allir spenna upp regnhlíf innandyra.
Ekkert dugði á veikindi móður minnar.

Allir spenna upp regnhlíf innandyra.
Sumir hlífa sér með efanum.
Sumir hlífa sér með trúnni.

 

Innihald ljóðsins

Þetta er innihald ljóðsins:
Varir í rauðu.
Prufuþrykk á munnþurrku.

Enn eitt listaverk apans
eða djúpstæð tjáning sálar?

Don’t make me laugh.

Þú sagðist ætla út með stelpunum.
Það var í morgun.
Ég kem efins heim og leita
skilaboða, leita tákna og merkingar.

Hvað veit ég um þessa konu?
Hvað á ég að halda?
Hvaða verk er vert að ramma inn?

 

Niðursetningur

Húðin vill annað en háleitan dauða.
Húðin vill bjartar strokur.
Í dag þigg ég kaffi hjá henni
sem saumar út engil
og viðutan gemling á gamalli brú.

Hún sér í bolla mannlaus orð.
En orðlausan mann og hvekktan sér hún hvergi.

Minnsta blekking verður afglapanum örvun.

Náttlangt hefur ugla rökstutt hugsanlegt hrun.
Ég skil ekki fræðin, ég fresta vitinu, fresta.

Og í dag mun ég ekki stúdera göfuga bölsýni.
Ég vil ekki þroskast.
Í dag er ég þreyttur á raunsæju fólki með reynslu.

Ég sauma mig út í ódýran stramma og einföld orð.
Morgunstund. Hnotskógur. Áfangi. Von.

Minnsta blekking verður afglapanum engill.

 

—-

FYRSTI ÞÁTTUR

DRAUMFARIR ÚTFARARSTJÓRANS

 

Aðfaranótt

Og aftur er sírena hljóðnuð. Og aftur
borg. Og nótt. Púlsinn
blár og hraður slær á andlitum vitna.

Það var gengið um forstofudyrnar. En það
var ekki gengið um forstofudyrnar.

Hann hlustar, hlustar. Hann bíður

í kólnandi vatni. Ég
einn hef lykil núna. Var
hlaupið upp? Var hlaupið niður
stigann?

En einn ertu
aldrei einn
ert marg-
einn, aldrei
samur, aldrei.
Nú vitjar þín annar.
Með fregnir að utan?
Með fregnir að innan?
þú
vitjar þín annar.

Og þú vitjaðir þeirrar sem ennþá lifði. Já manstu?
Hún bauð þér til stofu
og fann hvergi handa þér sæti.
það er gestkvæmt hjá ykkur, þeim skyggnu.
þú brostir.
En vissir þó ekki í hvorn
heiminn þú áttir að stíga.

Ó allt þetta fólk og allir þessir heimar.
Ó allt þetta fólk.

Og allt þetta fólk sem þekkti áður óðamála
læki og hláturmild tungl. það
man síst þrálát regnský og
sérvitran gust. þú hlust-
ar en minnist sjálfur elliáranna
lítur fram til bernskunnar, lætur
ósinn
finna sér nýja uppsprettu.
Meðan kolgrænn logi stígur burt frá reyknum.

Burt.
þú vilt burt. En hvaðan?
Og hvurt? Er spurt.

Staðir vegprestarnir benda eitthvert framávið. Nú
er að bíta á jaxl og velktar tuggur:
Það liggur engin leið til baka.
Það liggur engin leið til baka.
Þá veistu allt; þarft ekkert að misskilja lengur.

Þú bíður, þú hlustar. Og vatnið er kólnað, kólnað.
Það var gengið um forstofudyrnar. Þú fylgir
þér sjálfum. Þú vitjar þín enn með fregnir.

Og aftur er sírena hljóðnuð. Og aftur
borg. Og nótt. Púlsinn
blár og hraður slær á andlitum vitna. En þig
og heima þína dagar uppi í ljóði.

 

Ljóð af ættarmóti

Núna í haust kom út hjá Máli og menningu bókin Ljóð af ættarmóti með 82 áður óbirtum ljóðum eftir Anton Helga Jónsson. Þetta er óvenjuleg bók– skemmtileg, harkaleg, stundum jafnvel nöturleg. Þar heyrast raddir fólks sem fagnar og gleðst, sem harmar og skammast, sem áfellist aðra eða engist af
samviskubiti. Bók sem vert er að lesa.

Flokkurinn „Ljóð af ættarmóti“ kom úr í bók árið 2010 og sver sig í ætt við leikverk þar sem heyrast ólíkar raddir, ungar og aldnar. Það er engu líkara en fluga, kannski geitungur, flögri um á íslensku ættarmóti og hlusti eftir því hvað fólk hafi að segja.

________

Þú spyrð hvað hafi orðið úr mér.
Hvað ég hafi afrekað.

Ég hef gert ágætis mistök
í lífinu
ágætis mistök.

 •

Ég vakna og ligg lengur.
Ég vakna og rýk fram úr.
Ég vakna ein.
Ég vakna kátur.
Ég vakna hjá henni.
Ég heyri blaðberann rjála við lúguna.
Ég heyri að sonurinn hleypur berum fótum.
Ég má kúra lengur.
Ég verð að stökkva fram úr.

Ég heyri hrygla í kaffivélinni.
Ég heyri að einhver kveður og fer út og til vinnu.
Ég er ein í húsinu.

Ég hlusta á útvarpið.
Ég elska þögnina í byrjun dags.

Ég borða morgunverðinn ein.
Ég er ekki vanur að borða á morgnana.

 •

Hvernig er spáin?

Spáin er góð.

Hverjir mæta?

Mætingin verður góð.

Andvari kemur
Blíða með honum
Gola og Gjóla
og Lygna og Blær
Stilla og Molla
Gustur og Garri
Garður og Hviða
Roka og Bylur
Næðingur líka
og Strekkingur lætur sig sjaldan vanta
svo jafnvel má búast við Stormi.

Síðan koma Súsan og Húgó að vestan.

 •

Einu sinni ég er ég.
Tvisvar sinnum ég.
Er ég
þrisvar sinnum?

Ég er ég fjórum sinnum.
Ég er ég fimm sinnum ég.
Er ég sex?
Sinnum ég er ég sjö.
Sinnum ég er ég átta sinnum ég
er ég níu sinnum ég
er
ég.

Ég man alltaf þegar ég fæddist.
Það rigndi.
Það var vor.

Svartþröstur hoppaði um garðinn.
Þrífættur köttur gægðist fyrir horn.

Ég missti af lest í Kaupmannahöfn.
Ég missti af stúdentauppreisninni.
Ég missti af skiltinu Gæsavatnaleið.
Ég missti af Hale Bopp-halastjörnunni.
Ég missti af Paul McCartney á píanóbarnum.

Ég missti af útsölunni hjá Guðsteini.
Ég missti af uppsveiflunni.
Ég missti af niðursveiflunni.
Ég missti af skilafrestinum.

Ég missi ekki af þér.

Af hreinni heimsku opnaði ég augun í dag.
Sama dillan hrjáði mig í gær.
Og daginn þar á undan.
Ég er afglapinn.
Ég er bjálfinn sem ekkert skilur.

Vitrir menn og spekingar hafa reynt að tala um fyrir mér.
Þeir hafa sagt: Þetta er þinn síðasti dagur
á morgun muntu ekki opna augun.

Af hreinni heimsku hef ég opnað augun.
Ég finn mér nýja og nýja blekkingu
og afhjúpa drauma mína fyrir öðrum.

Þeir segja: Þessu kemurðu aldrei í verk.
Og þegar þeir vilja hrósa sigri og inna mig eftir framkvæmdum
hef ég löngu gleymt því fyrirtæki og farið á hausinn með önnur.

Ég er bjálfinn sem ekkert skilur.
Jafnvel hæðnishlátur þeirra örvar mig til nýrra afglapa.

Grjót. Mosi. Vatn.
Vatn. Mosi. Grjót.

Grjót. Vatn. Mosi.
Mosi. Grjót. Vatn.

Vatn. Grjót. Mosi.
Mosi. Vatn. Grjót.

Land, okkar land.

Hér allt um kinrg var mikið berjaland í æsku minni
Krækiber, bláber og ekki síst aðalbláber.

Hversu mikið sem við tíndum
þá var alltaf jafnmikið eftir.

Dalurinn var allur grasi vaxinn.
Það var nóg af fugli
og það var fiskur í vatninu.

Samt var það eitthvað sem togaði í fólkið.

Ég var meðal þeirra síðustu sem fermdust hérna.
Síðasti ábúandinn hélt út í nokkur ár eftir það.
Hann endaði á elliheimili í Firðinum.
Þar varð honum tíðrætt um draum.

Honum þótti sem hann væri kominn til himna.
Lykla-Pétur leiddi hann inn í dýrðina.
Hann litaðist um og spurði: Hvar er mitt fólk?

Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur.
Þitt fólk er allt farið suður.

 •

Allar fengu boðskort nema ég.
Allar töluðu um það hvernig yrði nema ég.

Auðvitað kemurðu, sögðu þær samt.
Alltaf þegar ég segi eitthvað þagna þær.

Ég mæti í nýjum kjól og enginn tekur eftir mér.
Ég mæti í nýjum kjól og allir glápa.

Ég vil bara vera eins.
Ég vil ekkert skera mig úr.

Ég vil ekkert vera eins.
Ég vil bara skera mig úr.

 •

Nei, er það ekki hann sjálfur?
Drottinn minn dýri!
Eftir öll þessi ár.

Að ég skyldi hitta þig hér.
Að við skyldum hittast hér.
Á ég að trúa því?
Kvíðinn sjálfur!
Þú hefur ekkert breyst.

Ertu skyldur þessu fólki?

Manstu þegar við spáðum saman
í mistökin
í sigrana
í mig
og lífið.

Og hér ertu þá aftur.
Gamli.
Kvíðinn sjálfur.
Gaman að ég skyldi þó þekkja einhvern.

 •

Ég hélt það kæmi nýr dagur
hélt það kæmi alltaf nýr dagur
en þennan
hef ég séð áður
og er þó ekki viss um að hann hafi
verið föstudagur þá
og ekki var hann í júní
heldur í mars
drungalegur og þungbúinn
og á allan hátt niðurdrepandi.

Allt er breytt
allt er öðruvísi en ég veit
að þetta er hann
leiðinlegi dagurinn
frá því í mars í fyrra
mættur í gervi annars
sem átti að vera nýr.

Hvað varð þá um þann nýja
varð hann veikur á leiðinni
og þurfti þessi gamli að stökkva inn
fyrir hann?

Það er þá huggun
maður veit að verði einn veikur
þá hleypur annar í skarðið
og þeir halda áfram.

Það er skárra að fá einn leiðinlegan
en að enginn mæti.

 •

Ekki amast við geitungnum, elskan mín.
Láttu mig ekki segja þetta aftur.

Ekki amast við geitungnum.
Hann er fulltrúi lífsins.
Hér á þessum stað.

Þetta vill lifa.
Þetta veit ekki betur.
Vill koma sér upp afkomendum.

Ekki bölva.
Ekki amast við geitungnum.
Elskan mín.

Við hittumst alltof sjaldan.
Segðu mér eitthvað af þér.

Og hvað er að frétta af honum þarna …?

Það gerist ekki neitt.

Ekkert hefur gerst.

Það gerist ekki neitt.

Tvisvar.

Ekki neitt.
Og núna endurtekur það sig.

Enn eina ferðina.

Ekki neitt.

Ekki neitt.
Ekki ekki neitt.
Ekki ekki ekki ekki
ekki ekki neitt.

Og endurtekur sig bara.

 •

Tvö og hálft barn.

Það er kjarnafjölskyldan.

Kvótinn hefur ekkert breyst;
pabbi, mamma,
Stebbi, Dóra og ég.

Stebbi eðlilegur.
Dóra kúl.
Og ég er víst alltaf hálfgert barn.

 •

Hver erum við?
Hvar erum við?
Erum við
við?

Ég er við.
Þú ert við.
Hann er við.
Hún er við.
Við erum við.

Hvar erum við við?

Hér erum við við.
Heima við.
Í vinnunni við.
Í börnunum við.

Í málæðinu við.
Í orðunum við.
Í mistökunum við.
Í draumunum við.
Í eldamennskunni við.
Í kássunni við.

Við við.

Alltaf við.

Við.

 •

Sjáið þið, krakkar
þarna í holtinu fórum við í fuglaleik.
Ég var kría
setti saman hreiður
úr alls kyns drasli
og fann mér síðan litla steina
sem ég verpti í hreiðrið.

Sjáið þið afa fyrir ykkur?

 •

Þú hefðir getað verið hérna
hefðir getað verið í fótbolta með krökkunum.

Af hverju þetta?

Það hefði verið hægt að gera svo margt annað.
Það hefði verið hægt að hlusta á Vilhjálm og gráta.
Það hefði verið hægt að leggja sig og sofna.

Hefði verið hægt að hringja í mig.
Hefði verið hægt að gera eitthvað annað.

Hefði verið hægt að fara í fótbolta með krökkunum.

Hvers vegna á ég að hengja haus
og skammast mín?

 •

Mig langar í eitthvað.
Ég veit ekki hvað
samt opna ég alltaf ísskápinn.

Það kemur engin hugmynd.

Áður en ég opna
finnst mér skápurinn vera fullur.

Því oftar sem ég glápi inn í hann
því minna er í honum.

Maður er ekki endilega svangur
mann langar bara í eitthvað
opnar ísskápinn
sér ekki neitt
og lokar honum aftur.

Mig langar í eitthvað.

 •

Nei, við frændurnir heilsumst ekki lengur.

Ég hjálpaði honum heilan dag í flutningum
burðaðist með kassa niður af þriðju hæð í Hlíðunum
og síðan upp fjórar hæðir í Vesturbænum.

Heilan laugardag
og fékk ekki einu sinni bjór.

Þegar ég kom seinna í búðina til hans
átti ég þó hálfpartinn von á góðum afslætti.

Hann minntist ekki einu orði á burðinn.

Ég þarf ekkert að heilsa.
Ég læt ekki frændsemina sliga mig.

 •

Ég kann ekki við mig í bænum.

Ég fer út
ég fer á barinn

hleyp svo heim
leggst til svefns
vakna og stekk fram úr.

Ég slepp hvergi undan mér.

 •

Hann er hérna morðinginn.
Líka hann er hér á meðal okkar.

Ég heilsaði
ég hugsaði
þetta er höndin sem reiddi til höggs
fyrir tuttugu árum.

Hvað er hann að gera hérna?
Heldur hann að allt sé gleymt?

Við erum að skemmta okkur!

Hvað er maður lengi morðingi?
Hvað er maður lengi maður?

 •

Ég vil lambakjöt.
Skyr.
Ég vil skyr.
Og pönnsur.
Ég vil eitthvað íslenskt.
Ég vil kaffi.

Þá er bara að fíra upp í andskotans grillinu.
Finna til marineringuna.
Lambakjötið klikkar aldrei.
Lambakjötið klikkar aldrei með skyri.

Enga sveppi og lauk.
Engan hvítlauk.
Ekkert andskotans kál.

Allir saman nú:

Ég vil lambakjöt.
Skyr.
Ég vil skyr.
Og pönnsur.
Ég vil eitthvað íslenskt.
Ég vil kaffi.

Ég á eftir að koma heim.

Það er hægt að fara land úr landi
skipta um nafn
skipta um kennitölu
skipta um maka
skipta um kyn
flýja frá frændum
feðrum og mæðrum
en það er ekki hægt að sleppa.

Til hvers að venja sig við leiðinlega vinnufélaga?
Venja sig við sjálfan sig?

Ættin heldur sér
hérna
inní mér
hérna.

Ég á eftir að koma heim.

 •

Við verðum að fara að hittast.

Hérna stöndum við
og kætumst yfir endurfundum.

Höfum þó ekki hugmyndaflug
til annars en að tyggja upp sömu setninguna
aftur og aftur.

Við verðum að fara að hittast.

Komum okkur aldrei að neinu efni.
Hittumst loks og höfum bara eitt að segja
allt kvöldið:

Við verðum að fara að hittast.

 •

Vill einhver rétta mér saltið?
Það hlýtur að vera salt.

Það hlustar enginn.
Enginn hlustar á mig.

Það er hægt að velja sér álegg
en ekki velur maður fjölskyldu
ættingja
land
eða uppruna.

Það má þó biðja um salt.
Það hlýtur að vera salt.

Hvað er svo glatt
undir bláhimni blíðsumarnætur?

Lítil fjóla grær við skriðufót
landið okkar góða, þú og ég.

Ég trúi ekki á orðin þín.
Hér á reiki er margur óhreinn andinn.

Fyrr var oft í koti kátt.
Hlýtt ég tók í hönd á Kötu.
Ennþá geymist það mér í minni, María María.

Ef ég væri ógnarlangur áll
og ef ég væri orðin lítil fluga.

 •

Ef ég bara gæti stoppað tímann.

Tími. Stopp.
Hingað og ekki lengra.

Bíddu eitt augnablik
meðan ég klára.
Leyfðu mér aðeins að hugsa.

Ég þarf að slaka á.
Ég þarf að lifa.
Ég þarf.
Ég þarf.

Tími.
Ég þarf.

 •

Er þetta niðjatalið?

Já, þetta er niðjatalið.
Svona tala niðjarnir.

Ég nenni ekki lengur að þrífa.

Ég átti börn með tveimur.
Svo kom Hannes.

Það var alltaf sama sagan
ég ryksugaði alla íbúðina
ég þreif ísskápinn
ég þreif klósettið.

Hann sagði: Þú gast átt börn með Gísla.
Þú gast átt börn með Dengsa.
Þú getur ekki átt börn með mér.

Ég hringdi í vinkonurnar.
Ég mátaði buxur.
Svo tók ég ákvörðun og henti honum út.

Eitt hefur breyst
engir gulir taumar
utan á klósettskálinni lengur.

 •

Það vilja auðvitað allir ná í mig.
Þetta er minn sími.
Ég nenni ekki að svara.

Ég skilaði ekki af mér í gær.
Ég skilaði ekki af mér í dag.

Ég á ekki að vera hérna uppi í sveit.
Á eyðibýli.
Með huldufólki.
Mín er beðið annars staðar.

 •

Ég get ekkert sagt.
Ég er sonur mömmu.
Ég er frændi. Ég er mágur. Ég er vanhæf.
Ég er dóttir pabba. Ég er frænka.
Ég get ekkert sagt.

Ég er ömmubarn. Ég er afabarn.
Ég er langafabarn. Ég er systir.
Ég er kjörsonur.
Ég get ekkert sagt.

Ég er barnabarn. Ég er barnabarnabarn.
Ég er faðir.
Ég get ekkert sagt.

Ég er vanhæfur. Ég er vanhæf.
Ég er föðurbróðir. Ég er móðursystir.
Ég get ekkert sagt.

Ég er bróðir. Ég er systir.
Ég er sonur. Ég er dóttir.
Ég er frændi. Ég er frænka.
Ég er systursonur, systurdóttir
bróðursonur, bróðurdóttir
tengdasonur, tengdadóttir
tengdapabbi, tengdamamma.

Ég er vanhæfur. Ég er vanhæf.
Ég get ekkert sagt.

Ég hef alltaf verið mesta skutlan.

Sextán sautján átján
alltaf mesta skutlan
með alla á eftir mér
skutla skutla.

Nítján tuttugu
tuttugu og eins
tuttugu og fimm
og tuttugu og sjö.

Mesta skutlan.

Þá komu krakkarnir.
Þá varð breyting um tíma
fyrst var ég á eftir þeim
nú eru þeir á eftir mér:
Skutla skutla.

Það er leikskólinn og skólinn
ballettinn og tónó
tónó og ballettinn
skólinn og leikskólinn.

Ég hef alltaf verið mesta skutlan
aðalskutlan
skutla skutla.

 Mér líður eins og ég hafi gleypt brunnklukku í morgun.

Ég finn að hún nagar sig í gegnum innyflin.

Hún nartar í lifrina.

Þú mátt hlæja.
Og ég skal hlæja með þér.
Samt finn ég fyrir brunnklukkunni innvortis.

 •

Aldrei segir hún neitt.
Heilsar mér varla í stigaganginum.

Kallinn hennar kemur alltaf til að rukka hússjóðinn.
Argast yfir því að strákarnir séu með hjólin á ganginum.

Ég kann ekki að meta þessar kvartbuxur hennar.
Ég veit ekki hvað hún er alltaf að fara í litun.

Hún gæti sagt eitthvað.
Hún gæti gert eitthvað.

Þegar strákarnir eru yfir helgi hjá Dodda
kemur hann enn eina ferðina með þennan blessaða hússjóð sinn
leitar lags með þennan hússjóð sinn, argast
yfir því að strákarnir séu með hjólin á ganginum.

Svo leyfir þetta helvíti sér að ríða mér á stofugólfinu.

 •

Ekki hæla mér fyrir dugnað.
Ég lærði á klukku fimm ára.
Síðan hef ég alltaf mætt á réttum tíma.

Ég sinnti öllu sem ætlast var til af mér.
Stóð alltaf í skilum.
Var engum til ama.

Ekki hæla mér fyrir dugnað.
Ég sat af mér lífið í ágætu starfi.

 •

Leiðinlegt fólk finnst mér skemmtilegt.
Ég tala nú ekki um ef það þegir mikið.
Ef það þegir mikið og lengi.

Ég hef gaman af leiðinlegu fólki.

Skemmtilegt fólk er leiðinlegt.
Einkum ef það dregur athygli frá mér
þegar ég ætla að vera fyndinn.

Núna áðan var ég næstum því kominn
með sniðugt tilsvar fram á varirnar.

Tókuð þið eftir því?

Þá birtist skemmtilegur maður
og reif frá mér athyglina.

Skemmtilegt fólk hefur einstakt lag á því að dúkka upp
þegar aðrir ætla að vera fyndnir.
Þessu hef ég oft tekið eftir.

Skemmtilegt fólk þolir ekki aðra.
Leiðinlegt fólk finnst mér miklu skemmtilegra.

 •

Ég sakna föstudagsins langa.

Það gerðist ekkert
allan daginn.

Hvar er þessi dagur núna?
Ég gæti vel þegið hann núna.

Ég sakna
föstudagsins
langa.

 •

Ertu þá ekki farinn að kíkja á stelpurnar? Veistu …

Margir strákar skemma hann á sér með vitlausu fikti;
þegar þeir svo hitta stelpur þá verða þær ekki hrifnar.

Þú ættir ekki að drekka kók.
Það fer ekki vel með eistun.
Það fer illa með eistun að drekka kók. Veistu …

Ég get leiðbeint þér með stelpurnar;
ég get sýnt þér hvernig á að eiga við kónginn
án þess að skemma neitt.

Ekki núna, ekki hérna. Seinna.
Ég er með nýjustu diskana úti í bíl. Viltu heyra?

Það gladdi mig að heyra um strandað skip í fréttunum.

Áhöfnin komst í land.
Það var gott.

Þetta var upplífgandi fréttatími.
Engin sprengjutilræði úti í heimi.
Bara strandað skip hér heima.

 •

Einu sinni þvældist Ég alltaf fyrir Mér
og Mér fannst Ég alveg óþolandi.

Ekki þoldi Ég heldur Mig
og hvar sem Ég var
og hvert sem Ég fór
þá fór
Ég
líka í Mig.

Það var aldrei friður.
Ég var alltaf öðruvísi.

Ég jafnaðist aldrei á við Mig.
Ég líktist aldrei Mér.
Ég gat aldrei verið eins og Mín.

Oft grét Ég fram á nótt.
Svo kom alltaf einhver dagur.

Tilveran hefur aldrei verið einföld.
Tilveran hefur aldrei verið eins.
Tilveran er alltaf sitt á hvað.
Það er vetur.
Það er sumar.
Það er vor og það er haust.

Núorðið hef Ég tekið Mig í sátt.
Núorðið hef Ég vanist Mér.
Núorðið er jafnvel spurning hvort Ég geti lifað án Mín.

Þótt ég hafi tæmt sparibauk barnanna
horfi ég stolt framan í heiminn
ég er ennþá Íslendingur
ég á ennþá nokkur hundruð
þúsund tonn af þorski í hafinu.

Þótt þeir hafi lokað fyrir símann
hitann og rafmagnið
hef ég ekki yfir neinu að kvarta
sjálf á ég 40 þúsund kílóvatta raforkuver
og nokkur óvirkjuð stórfljót að auki.
Þótt börnin séu nokkrum krónum fátækari
þá er ég alltaf rík

ég á börnin.

 •

Íslendingur er maður
sem leitar að öðrum.

Á krá erlendis
líta fæstir upp úr kollunni
þótt einhver síðbúinn komi inn.

Bara einn lítur til dyra.
Hann væntir þess alltaf að hitta annan.

Það besta sem ég sagði í dag var: Nei.
Nei. Nei. Nei.

Eftir daga og ár.
Eftir blóð svita og tár.

Loksins, loksins: Nei.
Í dag sagði ég: Nei!
Nei. Nei. Nei.

Nei.

Það var jákvætt: Nei.
Það vekur von um bjartsýni: Nei.
Fyrir lífið: Nei.

Gott að ég sagði: Nei.
Full af bjartsýni segi ég: Nei.

Nú segi ég bara: Nei.
Ég var alltaf útundan
valdi mig aldrei í liðið
fékk mig ekki til að vera með.

 Einn sagði að mamma sín hefði verið á Benidorm.

Kom í vetur.
Sagði að mamma sín hefði verið á Benidorm.

Vitiði hvað: Mick Jagger var með svítuna
á einmitt þessu hóteli
og einn daginn lentu þau saman í lyftunni.

Sagði hann.

Vitiði hvað mamma sagði?
Sagði hann.
Hann var svo lítill.
Sagði mamma.
Sagði hann.
Svo lítill.

Ég hef svo sem heyrt þetta áður.
Sástu Bítlana? spurði ég systur mína
þegar hún kom frá Englandi ’66.

Nei.
En ég sá þegar Rolling Stones
var hent út af hóteli í Manchester.

Já, já, já, já.

Það hendir bara enginn Stones út af hóteli.

Það segir enginn að Mick Jagger sé lítill.
Sólin sest aldrei í ríki hans.
Sólin sest aldrei í ríki Rolling Stones.

 •

Mér leiddist kvabbið
og ég beit frá mér.
Fékk loksins frið.

Nú sakna ég þess að einhver hringi.

 •

Ekki segja að þú skiljir tilfinningar mínar.
Ekki segja að þú skiljir hvernig mér líður.

Svaraðu mér bara.
Hvar er prívatið?
Hvar finnur maður prívatið á þessum stað?

Ég man Sjaldan.
Ég man Oft.
Ég man bæði Sjaldan og Oft.

Ég elskaði Oft.
Ég hataði Sjaldan.

 •

Á svona nóttu er ekki hægt að sofa.

Hann býður mér upp.
Býður mér upp í dans.

Og ég dansa
alla nóttina.

Alla nóttina
alla eindaganóttina stíg ég dans.

Eindagarúmbu.
Eindagavals.

 •

Óþolandi þessi flegni bolur.
Óþolandi hvernig hún brosir til þeirra.
Óþolandi hvað hún lætur glápa á sig.

 •

Ég veit ekki hvað ég segi vitlaust.
Einhver verður að vera sá misheppnaði.
Það gæti verið ég, kallinn þinn.

En þú þarft ekki alltaf að skamma mig fyrir það sem ég segi.
Og þú þarft ekki alltaf að minna á það sem ég hef ekki gert.

Kondu frekar í pottinn.
Það er farið að fara í pottinn.

 •

Nafn mitt á eftir að lifa.
Símaskráin frá 1994 þykir nú þegar safngripur.
Í henni stendur nafn mitt.

Ég finn fyrir stolti
þótt konan hafi neitað að skrá titilinn hryðjuverkamaður.

Það skiptir ekki alltaf máli hvað maður gerir
eða hvort maður gerir yfirleitt eitthvað.

Nafnið lifir.

Í gær var ég slæm
en í dag er ég góð.

Veit samt ekki hvernig ég verð á morgun.

Það hjálpar mér enginn
það er sama hvern ég spyr
allir hafa það einhvern veginn verra en ég.

Ég var góð í gær
en í dag er ég slæm.

Á ég að skrifa undir?
Á ég að segja nei?

Ég vil ekki þekkja þá
sem vilja þekkja mig
en þeir sem ég vil þekkja
vilja ekki þekkja mig.

Á ég að vera á móti?
Á ég að vera með?

Hvað er að frétta? spyrðu.

Hvað ertu að gera? spyr ég
kvöld eftir kvöld.
Heima.

Ekkert.
Alltaf sama svarið: Ekkert.
Hvað er svona fyndið?

Baðvörðurinn, eftirlitsmaðurinn, þjálfarinn.
Nú þyki ég of gamall fyrir rullurnar.

Hann svarar mér engu.

Hvað ertu að gera?

Ég ráfa um íbúðina.
Ekkert.
Alltaf sama svarið: Ekkert.
Hvað ertu að hugsa?

Ekkert
ekkert ekkert.

Ég er að fitna.
Ég er að verða gamall.

 •

Þær eru mikið í þessu núna.

Horfðu á mig!
Lít ég út fyrir að vera fimmtug?

Brjóstin á mér sem engin eru – hver vill þau?

Kötturinn segir: ekki ég.
Hundurinn segir: ekki ég.
Svínið segir: ekki ég.

Litla gula hænan segir:
Dama vekur alltaf athygli.

Það er ekkert að marka kallana.
Sést í tútturnar, hugsa þeir.

Í hverju er hún? spyrjum við.

Halló er hérna staddur læknir?
Það er neyðarástand. Það er hjartað.

Halló. Læknir.
Eða eðlisfræðingur kannski.
Það gæti verið eðlið.

Já, það er eðlið.
En líka hjartað.
Þvílíkt ástand.

Komið með lækni.
Komið með eðlisfræðing.
Komið með karlmann, með eitthvað.

Ég er sjúk.
Ég er frísk.
Ég er sjúklega frísk og þarf að fá eitthvað.

Ég er sjúklega frísk.
Það er neyðarástand.
Það er hjartað, það er eðlið.

Halló er hérna staddur læknir?
Eðlisfræðingur?
Eitthvað?

 •

Það hefur verið settur upp markaður í gamla sláturhúsinu.
Ekki það að vanti fé.
Ef þarf að slátra
verður að slátra samkvæmt stöðlum Evrópusambandsins
og þá þarf að keyra féð um hálft landið.

Svo nú er búið að setja upp handverksmarkað í gamla sláturhúsinu.

Þær sem prjóna selja peysur.
Svo eru konur sem sulta
og ein selur harðfisk
og handmálaða ramma.

Það er aftur líf í gamla sláturhúsinu.

 •

Það kemur enginn lengur
enginn tekur sénsinn á því að lenda á henni.

Hún gæti verið á því.

 •

Ef ég missi sjónina
get ég alltaf hlustað á hlátur þinn.

Og ef heyrnin bilar
finn ég hönd þína strjúka hörund mitt.

 •

Á vissan hátt hef ég alltaf verið ég.

Þarna ert þú, segir fólk.
Það heilsar.
En aldrei mér.
Það heilsar einhverri annarri en mér.

Ég hef aldrei verið sú sem aðrir héldu að ég væri.

Allir þóttust vita hver ég væri
og hvernig ég væri
en ég hef bara látist vera ég.

 •

Nú ætla þeir að hækka á okkur skattana
það geta þeir
hækkað skattana.

Það er sama rassgatið undir þeim öllum
sama hvernig þeir snúa sér
sama hvernig þeir vinda uppá sig
sama hvernig þeir skipta um flokk
rassinn er alltaf á sínum stað.

Á einhverju verða menn að sitja
og það er sama rassgatið
við komumst aldrei frá því.

 •

Það er í mér eitthvert slen.

Ég veit ekki.

Ætli ég nenni nokkuð?
Ætli ég vilji nokkuð?

Það er í mér eitthvert slen.

Ætli eitthvað sé að ganga?
Ætli lífið sé að ganga?

 •

Farangurinn fór annað.

Þarna stöndum við meðan aðrir tínast út.

Farangurinn kemur ekki.
Enginn frá ferðaskrifstofunni til að svara.

Vélinni seinkaði.
Hótelið glatað.
Skoðunarferðin hreinn horror.

Og farangurinn fór annað.

 •

Sækona festist á öngli
hjá manni sem var að veiðum
skammt undan landi við Stykkishólm.

Öngullinn hafði krækst undir beltið hennar
og maðurinn dró hana um borð
án þess að hún gæti nokkuð að gert.

Þennan dag var hæglætisveður við Breiðafjörð.

Sækonan bað manninn að hleypa sér aftur í sjóinn.
Hann var tregur til
og því tregari sem hann horfði lengur á konuna.

Þá bauðst hún til þess að þýðast manninn
ef hann skilaði henni aftur eftir þrjá vetur.

Maðurinn féllst að lokum á þessa skilmála
og eftir samvistir í umsaminn tíma
sleppti hann sækonunni á sömu miðum.

En barni þeirra hélt hann eftir.

Sagan er að líkindum frá manninum komin.
Enginn þekkir frásögn konunnar.

Við afkomendurnir staðfestum tilvist hennar.
Um æðar okkar streymir blóð hennar
streymir löngun eftir sjónum
streymir löngun til að komast heim.

Þegar ég geng frá kirkjunni hugsa ég
það sem ég veit að ég má ekki hugsa:
Af hverju þú
þegar svo mörg fífl fá að lifa?

Allir þeir sem ég þekki ekki neitt
þeir lifa
en af hverju ekki þú?

Ég fékk fötin af bræðrum mínum.

Ég eignaðist hvítan jakka, manstu
var í honum þegar við fórum í Tívolí
hann var fóðraður og fóðrið slitið
veskið datt milli laga.

Ég sakna hans ennþá.

Ég man líka eftir ljósbláum gallabuxum.
Ég man eftir teinóttum jakkafötum.

Ég hef aldrei þurft að skammast mín.

Samt er eins og ég geti ekkert eins og þeir.
Samt er eins og ég sé öðruvísi.

 •

Þeir kölluðu mann alltaf Ísland.
Allra þjóða kvikindi.
Ágætir strákar.

Við erum eins, þetta fólk.
Sama harkan.

Eitt kvöldið fórum við á nýja krá.
Þegar við höfðum verið þar um stund
tók ég eftir því að þar var ekkert kvenfólk.

Nú er þetta allt viðurkennt.

Svo voru klefar
þar settust menn niður
gat á miðjum vegg
handan veggjar stóð einhver
sem setti bísperrtan vininn í gegn og vildi þjónustu.

Hvað segirðu um þetta, Ísland?

Þeir hlógu og sýndu mér þetta allt.
Ætluðu víst að gera lítið úr mínum.

Þetta var uppúr þorskastríðinu
maður var nú harður af sér þá.

Ég lét ekki bera á neinu.

 •

Sölumennirnir hringja um kvöldmatarleytið
segja þau
og kynna frábær tilboð.

En það hringir enginn í mig.
Enginn spyr hvað ég ætli að kjósa
hvar ég ætli að ávaxta
eða hvað ég ætli að borða.

Ég sit ein yfir ýsunni og kartöflunum.

 •

Eftir að ég hætti fer ég stundum inn eftir.
Þeir hafa bara gaman af því að ég líti í kaffi, þessir gömlu.

Annars er allt breytt. Og að sjá þessa krakka.
Af hverju er þessu ekki kennt að vinna?

Ég þarf nú ekki nema að fara út á stétt.
Það var bara í vikunni.
Ég sé þau koma
strák og stelpu
hún með fangið fullt af rusli og greinum
og strákurinn á eftir
fimmtán ára kannski
heldur á grein
heldur á einni grein.

Þá var mér öllum lokið.

Ég kallaði nú bara til hans:
Passaðu þig að ofreyna þig ekki, vinurinn.

Þetta var öðruvísi þegar maður var látinn bera poka á eyrinni
fimmtíu kíló með pabba gamla
þrettán ára
með kallinum
sem orti níðvísur um allt og alla.

Það vantar alveg einhvern til að yrkja níðvísur núna.

 •

Ég man ekki hvort hann sveik mig
um kaupið. Ég man ekki allt.
Til allrar hamingju man ég ekki allt.

Ef ég væri skáld
myndi ég yrkja lofsöng um gleymskuna.

Það hafa margir ort um Guð
um guði
um gyðjur
um gvuð má vita hvað.

En ef einhver á skilið að fá lofsöng
þá er það gleymskan.

Hún hreinsar burt það sem er óþarft.
Hún tekur af mér byrðar sem ég vil ekki bera.

Hvað haldiði að ég muni þetta?
Til allrar hamingju man ég ekki allt.

Ég er hérna til þess að gleðjast.

Ég mátaði rauða skó í London.
Stúlkan sagði: Þetta er síðasta parið.

Ég ákvað samt að bíða.
Hver trúir sölufólkinu?
Ég ákvað að ganga einn hring í verslunarmiðstöðinni.

Þetta var góður dagur og margt að sjá.
Þegar ég kom til baka voru skórnir farnir.

Hún þóttist ekkert vita.

Það eru bráðum liðin fjörutíu ár.
Engir skór hafa enst mér eins vel.

 •

Öll mín góðu áform
og ýmsar hugmyndir
sem mætti koma í verk
á ég ennþá í fórum mínum.

Líttu inn hjá mér einhvern daginn.
Þú færð þetta allt fyrir lítið
ef þú lítur inn.

Láttu bara í þér heyra.
Hafðu bara samband.

Komdu.

Ég er alltaf við.
Ég fer aldrei neitt.

Talaðu við mig.
Segðu eitthvað.

Hlustaðu á mig. Hringdu.

Menn segja að ég hafi lokið störfum.
Það segir enginn að ég sé einskis nýtur.

Ekki batnar mér af ellinni.

 •

Núna kemur hann dag eftir dag
boðunarmaðurinn.
Dag eftir dag
til að birta mér stefnu, dag eftir dag.

Hvað hefur fallið á mig?
Ég man ekki til þess að hafa skrifað uppá neitt.
Við svörum ekki.

Slökkvum ljósin.
Svörum ekki.

 •

Það er komið að hópmyndinni.

Hvar er skeggjaða konan?
Hvar er risinn?
Hvar er dvergurinn?

Hvar er samviskan?
Hvar er lygin?
Hvar er gleðin?

 •

Ég finn alltaf verk.
Hef lengi fundið verk.

Í síðunni hef ég fundið verk.
Í höfðinu hef ég fundið verk.
Í vinstra hnénu hef ég fundið verk.

Það gefur mér enginn von
um veikindafrí eða afsökun
fyrir því að sleppa.

Ekkert merkilegt með mig.
Ekkert finnst.
Það finnst aldrei neitt.
Það finnst aldrei neitt nema lífið.

 •

Það fær mig enginn í garðinn.
Hvað hef ég að gera í garðinn?

Ég á ekkert erindi í garðinn.

Ekkert erindi
segi ég
í garðinn
enn.

 •

Fyrst kunni ég ekki við að hringja.
Hvað átti ég að vera að hringja
þótt ég hefði frétt að hún væri veik?

Hvað gat fólk verið að halda um mig?

Svo hringi ég.
Svo hef ég mig í það að hringja.
Ekki bara einu sinni
heldur aftur og aftur.

Aftur og aftur
sama röddin:
Hér býr ekki neinn með þessu nafni.

Því miður, vitlaust númer.

Hættu að hringja, segir röddin.
Hættu að hringja.

 •

Nú er hann aftur látinn
elsti Íslendingurinn.

Dáinn horfinn
harmafregn.

En varla á heimsvísu
elsti jarðarbúinn kvað vera dáinn líka.

Samt eru bara nokkrar vikur
síðan hann dó síðast.

Svo er páfinn nýlega dáinn
og konungurinn
er hann ekki eilíft dáinn?

Jú, konungurinn er dáinn.
Lifi konungurinn.

Það deyr allt sem getur dáið
deyr bara og deyr
það deyr og deyr
aftur og aftur.

Elsti Íslendingurinn er látinn.

Lifi elsti Íslendingurinn.

 

 

Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð

Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð

Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð kom út í bókarformi árið 2011, örfáum árum eftir hrun. Þetta er sundulaust verk þar sem skáldið reynir að fanga anda eftirhrunsáranna og kastast milli ljóða sem lýsa ýmist einhvers konar þrá eftir náttúru landsins eða nöturlegum samskiptum fólks í borgarumhverfi. Líkt og groddalegur titillinn gefur í skyn liggja undir niðri samfélagslegar pælingar um hvað sé mitt og hvað sé þitt og hvað sé okkar sameign.

——-

Tannbursti skíðafélagsins

Við sátum á sögulegum fundi
og ræddum stöðu ljóðsins: Gamall
kennari, þurrkað skáld, unglingur
úr menntaskóla
og auðvitað ég.

Ljóðið er ekki fyrir alla.
Ljóðið er fyrir allan heiminn.
Ljóðið er bara fyrir útvalda.
Ljóðið er ekkert einkamál.

Þá komst þú yfir að borðinu
og hafðir ekki séð mig lengi.
Enginn bauð þér að setjast.
Enginn nema þú sjálfur bauð þér að taka þátt í umræðum.

Þú sagðir frá nýlegri ferð inn á Seljalandsdal
og frá manni sem gæti hafa heitið Bernódus eða Sigurgísli.
Þú sagðir í það minnsta frá manni sem var að vestan eins og þú.

Eitt kvöldið stóðuð þið tveir inni á snyrtingu
í skálanum og burstuðuð tennur. Inn kemur sá þriðji.

Sá svipast um og leitar hátt og lágt
en snýr sér loks að vininum
hvað sem hann nú hét
snýr sér að honum með viðbjóði:

Tókstu tannburstann minn?

Svarið lét ekki á sér standa innan úr tannkremsfroðunni: Fyrirgefðu!
Ég hélt þetta væri tannbursti skíðafélagsins.

Þannig svaraði Bernódus
eða Sigurgísli
eða hvað hann nú hét.
Þannig svaraði maður sem er að vestan eins og þú.
Ég hélt þetta væri tannbursti skíðafélagsins.

Allir vita hvað er tannbursti.
Allir vita hvað er skíðafélag.
Allir vita hvað er ljóð.

Þótt ljóð sé ekki öllum ætlað
þá gerir það líka sitt gagn.

Ljóðið er tannbursti skíðafélagsins.
Ljóðið er tannbursti skíðafélagsins.
Ljóðið er tannbursti skíðafélagsins.

 

Morgunkaffi

Ekki veit ég hvar minna krafta gæti verið þörf í dag.

Líti ég í kringum mig í eldhúsinu
virðist augljóst að flesta gagnlega hluti er búið að finna upp:
Ísskápinn. Kaffivélina. Brauðristina.

Líti ég út um gluggann
sé ég að ekki aðeins hafa menn sett tíma og orku
í að finna upp bifreiðina
heldur einnig kantsteinana á gangstéttarbrúninni.

Jafnvel myndavélina sem regnblautur ferðamaðurinn
mundar þarna á horninu
hefur einhver fundið upp.

Nei, ég ætti ekki að gera lítið úr mér.

Ég ætti að fást við eitthvað gagnlegt.
Ég gæti hellt í bollann.
Ég gæti smurt brauðsneiðina.

 

Áleiðis

Framundan melur
og heiðló á þúfu.
Að baki sýndur urriði
í tærum hyl.

Á vinstri hönd fífan.
Til hægri ekkert
nema víðáttan
sjálf.

Uppi blámi og þytur
hrossagauks. Undir
flóinn sem dúar
við hvert okkar skref.

Við reynum að ná áttum. Eitthvað
framundan. Eitthvað að baki.
Til vinstri. Til hægri. Uppi. Undir.

Hægt, hægt
færist miðja alheimsins úr stað.

Hún færist úr stað með okkur
sem kunnum að stíga hamingjuspor
svo lengi sem við höldum áfram
án viðstöðu, án afláts
á dýjamosanum
án
afláts.

 

Leikir barna og fullorðinna

Ég heyrði hvísl og hróp og köll.
Frammi. Uppi.
Í næsta herbergi.
Heyrði nöldrað og líka grátið.

Kristján, þú ert fundinn!
Anna Jóna fundin! Mummi fundinn!

Svo hljóðnaði allt.

Ég fylltist óljósri spennu.
Þorði varla að anda.
Bærði ekki á mér í fataskápnum.

Ég heyrði hjartað slá í brjósti mér.
Annars var hljótt.

Það leið eilífð á hleri
uns ég skildi grínið:
Allir farnir út að leika.

Ég alltaf sóló í einhverjum skáp.
Ég alltaf sóló undir þykkum skráp.

Nú er liðin eilífð margra ára.
Aftur legg ég við hlustir.
Heyri nöfn skólasystkina kölluð upp.
Heyri nöfn vina, samstarfsfólks og ættingja kölluð upp.

Svo hljóðnar allt.
Aftur þessi óljósa spenna.

Og enn slær hjartað í brjósti mér.

 

Föstudagur

Fara í bankann.
Kíkja á þvottavélar.
Kaupa í matinn.
Skila Sigga bókinni.
Frelsa heiminn.
Þvo bílinn.

 

Lágnætti

Hér í lundinum
fer allt loft úr krefjandi vindum.

Mín vegna
mætti eilífðin helga sér þennan stað.

Enginn amast við náttfiðrildi
eins og mér.

Puntstráin veita mér selskap
en spyrja einskis.

 

Í skriðunni

Ég renn til í hverju skrefi, renn.

Ég sem ætlaði mér bara að stunda göngur
stunda nú hreinar ógöngur.

Ég renn til í hverju skrefi, renn.

Og allar þessar ógöngur
allar mínar ógöngur
tókst mér að velja án hjálpar annarra.

Ég renn til í hverju skrefi.

Renn.

Renn til í hverju skrefi, renn.

 

Eftirmiðdagur á Selfossi

Ég man síðast eftir mér á Klaustri.
Ranka svo við mér á Selfossi.

Það reynist auðratað um járnbrautarstöðina
og lestin til Reykjavíkur
stendur mikið rétt við brautarpall númer fjögur.

Klukkan þrettán mínútur gengin í sex
og það er þriðjudagur í maí
en hvergi get ég komið auga á neitt ártal.

Ég ætla samt að halda áfram.

 

Sporin í snjónum

Einn á ferð gaumgæfi ég spor í snjónum.

Í miðjum skógi kvíslast stígurinn.
Hópur fólks gekk í norður.
Stakur göngumaður tók stefnuna vestur.

Ég hika.

Skelf af kulda
skelf af kvíða
og get ekki valið leið.

Mig hryllir við staðreyndum lífsins:

Meirihlutinn hefur sjaldnast rétt fyrir sér.
Þrjóskur einfari nær ekki alltaf á leiðarenda.

 

Flugatvik í Dyradal

Hrafn átti við mig nokkur krunk
í Dyradalnum.

Hann uppi í klettunum.
Ég niðri á göngustígnum.

Allt í einu steypti hann sér af syllunni
flaug í áttina til mín, fór
hring í loftinu, sneri
kviðnum upp, opnaði gogginn.

Opnaði gogginn og gleypti loftanda.

Gleypti loftanda.

Það skil ég heima
þegar ég fletti upp í gamalli bók
sem útskýrir atferli hrafna.

 

 Pizza angoscia

 Tvær síðustu pizzasneiðarnar eru misstórar.

Þú segir: Gjörðu svo vel!

Á ég bara að hugsa um eigin hag og taka þá stærri?
Á ég bara að hugsa um eigin hag og taka þá minni?

 

Fundið ljóð

 Trúin á skilvirkni einstaklingsins 

dregur mig hingað: Úllen dúllen doff.
Frambjóðandi með hávært bindi!
Sá vænti ég að sitji örugglega á tveimur stólum
gegni fullu starfi ásamt þingmennskunni
og stýri að auki ótal nefndum.

Ég er bara viðkvæmt skáld. Heill
og óskiptur sinni ég hverri grillu.
Minn stíll var aldrei tvennt í einu — og núna
þegar ég hugðist munda blýantinn og krossa
varð ég að hætta jórtrinu og losa mig við tugguna.

Ég lauma henni undir stólsetuna.
Viti menn: Þar er ein fyrir. Steingerð!

Ég þreifa. Ég fálma. Ég ýti tjaldinu frá og kíki.
Stofan, kjördeildin, æska mín! Enn
og aftur læt ég fingurgómana
leika um steingerða tugguna. Nú er ég sannfærður.
Þetta eru tannaförin þín, Ragnhildur!
Þessi tugga var í munni þínum.
Þessi tugga lék á vörum þínum og blés út í kúlu sem sprakk.

Kemurðu með á ballið í kvöld?

Ragnhildur. Þetta var einmitt sama kvöldið
og við strákarnir
urðum að redda framtíð heimsins.

Þú mátt brosa, vinan, brosa
þegar fréttamaðurinn segir: Margt skrýtið leynist í kössunum!
Og les síðan þessi orð mín
meðan þjóðin
bíður eftir næstu tölum.

Ég hugleiði aðrar tölur, Ragnhildur: Tuttugu ár!
Og hverju kom nokkur til leiðar?
Ég hefði betur kosið þig. Valið þig og andartakið, valið ástina, já
elskan mín, ég kem
japlaðu á mér í kvöld.

Hugsaðu þér allar vísurnar sem ég hefði getað ort handa þér.
Hugsaðu þér allt útstáelsið sem þú hefðir getað fyrirgefið mér.

Og með þér hefði jafnvel frami minn orðið annar.
Hæverska, biðlaun, opnuviðtal:
Mér leiddist alltaf þingmennskan
ég er framkvæmdamaður, vík frá mér þras!

Þú mátt brosa, vinan, brosa
en tilfinningarnar kunna sig ekki
og viljinn þráir enn að eiga mök við glaðar hendur
sem dreymir um að fæða heilbrigð verk.

Hvar ertu þá núna, Ragnhildur?
Hvar ertu núna, æska?
Og líf mitt, steingert líf mitt — hvar ert þú?

Vill eitthvert ykkar í það minnsta hringja?

 

Bjargfuglinn

Þarna verpir langvían.
Á syllu sem er ekki neitt neitt.

Perulaga eggið
snýst um sjálft sig
stjaki einhver við því.

Veltur ekki svo glatt fram af brúninni.

Það má aðlagast umhverfinu.
Með tíð og tíma má aðlagast umhverfinu.

 

Miðaldra helgi

 Í rauninni vantar okkur hjónin ekki neitt.

Upp úr hádegi á föstudögum
skreppum við í Hagkaup
og Ikea
til að rekast á gamla vini og kunningja.

Fáum fréttir af börnum og barnabörnum.

Nú sitjum við hérna
miðaldra
á laugardagsmorgni. Hvað næst?

Matinn getum við borðað. En hvað
eigum við að gera við lampann
fataslána
og speglana?

Ættum við að leigja söluborð í Kolaportinu
til að geta hitt fleiri gamla vini?

Fara svo með innkomuna
á Vínbarinn í kvöld
og ná restinni?

 

Fundur í hádeginu

Ég mundi strax eftir andlitinu.
Hann sagði: Blessaður.
Helvíti líturðu vel út.
Alltaf jafn flottur.

Þú ert líka flottur.
Hefði verið gaman að segja.

En hann tók af mér orðið:
Heyrðu!
Máttu nokkuð sjá af þrjúhundruð krónum?

Sem ég er hættur að nota?
Hefði ég getað spurt og hlegið.

Sem þú ert hættur að nota!
Hefði hann getað svarað og hlegið dátt á móti.

Ég greiddi mitt gjald fyrir að líta vel út.
Með það fór hann í Ríkið.
Ég tók stefnuna heim.
Flottur.

 

Aflraunir

Þeir heita gáfulegum nöfnum;
Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur.
Það er samt ekkert vit í þessu grjóti
þessum hnullungum, þessum steinum.

Steinn gerir afar fá mistök.
Steinn skiptir sjaldan um skoðun.
Steinn lendir aldrei í mótsögn við sjálfan sig.

Ég er heill og óskiptur, tuldrar steinninn.
Annars segir hann ekki margt að fyrra bragði.

Ef þú vilt berja hausnum við stein
og reyna að lyfta honum upp
má vera að heyrist spurt:
Hvað heldurðu að þú getir?

Aldrei spyr neinn óvænt: Í hverju liggur þungi?
Aldrei hugsar neinn í alvöru: Í hverju liggur styrkur?

Viltu þá reyna að lyfta þessum hnullungum á stall?
Eða ganga burt
með sæmd?

Það kemur enginn viti fyrir grjótið.

 

7 x ávarp fjallkonunnar

eða I miss iceland

 1

Það er bara óreiðufólk sem notar ekki smokk.
Það var hún amma mín vön að segja.
Bara óreiðufólk.

Við afi þinn notuðum alltaf smokk.
Það sagði hún amma mín oft og tíðum.
Alltaf smokk.

Við sýndum alltaf fyrirhyggju.
Útí skemmu.
Inní búri.
Uppá lofti.
Á morgnana í hádeginu um sólarlagsbil.
Smokk smokk smokk.

Grandvarar manneskjur notuðu smokk.
Við afi þinn notuðum alltaf smokk.
Það var hún amma mín vön að segja.

2

Það er svo mikið af hval í hafinu að hann étur allan þorskinn.
Það er svo mikið af þorski í hafinu að hann étur alla loðnuna.
Það er svo mikið af loðnu í hafinu að hún étur allt sandsíli.
Það er svo mikið af sandsíli í hafinu að það étur allan fiskifræðing.
Það er svo mikið af fiskifræðingi í hafinu að hann étur allan sægreifa.
Það er svo mikið af sægreifa í hafinu að hann étur allan íslending.
Það er svo mikið af íslendingi í hafinu að hann étur allan hvalinn.

3

Mig langar í sparnað.
Mig langar í lífeyrissjóð.
Mig langar svo mikið í lífeyrissjóð.
Ó gvuð hvað mig langar í lífeyrissjóð.

Mig vantar svo handsmíðað úr.
Mig vantar svo brekku í Ölpunum.
Mig vantar svo fótboltalið.
Mig vantar svo nýja klósettpappírinn frá Gucci.

Mig vantar svo vantar svo
vantar svo vantar svo vantar svo
vantar svo vantar svo vantar svo
vantar

4

Ég bið ekki um þakklæti
en vissulega fyllist ég stolti
yfir framlagi mínu til samfélagsins
ég finn til skyldleika með alþýðunni
hef ekkert á móti því að mínar hægðir
blandi geði við vandalausa í holræsum borgarinnar.

Öll erum við Íslendingar.

Við erum eina þjóðin í heiminum sem les Njálu á frummálinu
segir forsetinn.

Sagði forsetinn.
Fyrrverandi.

Við erum eina þjóðin í heiminum
segir forsetinn.

Við erum stolt þjóð.
Við erum dugmikil þjóð.
Við erum menntuð þjóð og stefnum alltaf hærra.
Við þurfum ekki að skeina gamalmenni eins og Taílendingar.
Við þurfum ekki að verka fisk eins og einhverjir Pólverjar.
Við látum ekki kúga okkur.
Við Íslendingar.

5

Ekki hafa þeir dauðu miklar áhyggjur
ekki kvíða þeir dauðu morgundeginum
samt eru þeir alltaf í fréttunum

en hér ligg ég
andvaka og ein
hálfsjötug óbyrja
lýðveldið Ísland
lýðskrumið Ísland
vörumerkið Ísland
ungfrú Ísland í vetrargarðinum
hver ef ekki ég er fjallkonan sjálf
hálfsjötug óbyrja með talsverðar áhyggjur.

Hvað verður um barnabörnin mín?

Heimspressan fjallar ekkert um það
bara eitthvert fólk að deyja í Bagdað.

Hvernig eiga barnabörnin mín
nokkurn tíma að geta borgað sínar stöðumælasektir?
Ekkert fjallar heimspressan um það.

Hvar eru meðulin mín?
Hvar eru náðarmeðulin mín?
Núna eru liðnir fjórir dagar
síðan ég fékk að heyra í hagfræðingi
ég veit ekki hvort ég þoli þetta ástand mikið lengur.

 6

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Það er gífurlega mikilvægt að reiði almennings fái útrás.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Enginn mannlegur máttur bætir krónuna en réttlætið sigrar.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Þjóðin fær kost á því að koma með beinum hætti að refsingum.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Líkt og fyrrum verður eiginkonum þeirra gert skylt að bera auðkenni.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Allar bænaskrár fara til Franeks landstjóra og jafnvel beint til Evu sjálfrar.

Lýðheilsustofnun gjörir kunnugt:
Guð blessar Ísland og refsar hann refsar hann refsar hann refsar og refsar og refsar.

7

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum á blogginu
gekk kona frá Grenivík niður Strikið á fimmtudaginn
núna á fimmtudaginn
niður Strikið
í mesta sakleysi

þá glotti danskur kaupmaður!

Það glotti danskur kaupmaður:
Það hata allir Íslendinga.

Það hata allir Íslendinga.
Það grætur enginn Íslending
yst á ránar slóðum.

Yst á ránar slóðum er sumarnóttin hörð.
Yst á ránar slóðum er lengi vakað frameftir.
Yst á ránar slóðum finnst öllum erfitt að lifa daginn eftir.

Jafnvel í hefðbundnu kaffisamsæti okkar framsóknarmanna
hafa silfurskeiðarnar bauga undir augum.

Ég lenti bara í því að vera í flokki.
Ég lenti bara í því að segja já og amen.
Ég lenti bara í því að eiga frændur og vini.
Ég lenti bara í því að gera tæknileg mistök.

Hvar ertu Hekla?
Það vantar svo samúð.
Það vantar svo samband.
Það vantar svo samtaka þjóð.

Nú væri gott að fá eldgos
vaknaðu vinan
drífðu þig Hekla að gjósa.

Haust í Reykjavíkurskógi

Allir eiga sér eftirlætisfugl.

Reynitréð nefnir engan
en þrösturinn kemur til greina.

 

Fyrirburðir á heiði

Við leituðum skjóls undan hrottafengnu slagveðri
kynntumst í staðinn saggafullum kofa
þar sem kuldaboli stendur tjóðraður á bás og fnæsir.

Við leggjum traust okkar á gamla kamínu
nokkrar fúaspýtur
og kassastrimil sem einhver grefur úr vasa sínum.

Við erum ekki stór hópur.
Til allrar hamingju
virðist þó enginn skortur á sérfræðingum
sem telja sig geta afrekað meira
en næsti maður á undan.

Hvað sem góðum áformum líður
mistekst öllum að kveikja upp.

Hver birtist þá ekki óvænt meðal okkar
nema þjóðsagnapersóna
sem enginn hélt að væri til
þótt allir hafi heyrt hennar getið:

Síðasta Eldspýtan.

 

Var

Verður þú var?

Jájá.
Ég verð var.

Verð var við fluguna.
Verð var við kyrrðina.

Verð var við hjartslátt minn.
Var við toppöndina sem flýgur hjá.

Já.

Ég verð var. Verð
var.

 

Mynd á veggnum

 Aftur sé ég að myndin á veggnun er skökk.

Enn á ný stend ég á fætur og rétti hana af.

Hvað skekkir myndina?
Hver skekkir eiginlega myndina?

Trekk í trekk stend ég á fætur og rétti myndina af.
Aldrei kemst samt á jafnvægi í lífi mínu.

 

Óvænt kvöldvaka

Undir miðnætti logar á kerti
utan við tjald í Hrafnkelsdal.

Allir viðstaddir bíða átekta
himinninn
dalurinn
þú
og ég.

Aldrei að vita
nema kyrrðin
hafi eitthvað að segja.

 

Nágrannavarsla

Ég sá hann koma út bakdyramegin.
Hann lokaði á eftir sér.
Hann hljóp af stað.
Nokkur skref.
Stoppaði.
Hlustaði.
Heyrði kannski símann hringja inni.

Hann lagði frá sér íþróttatöskuna.
Seildist í vasann.
Tók upp lykla.
Fór svo aftur inn án þess að loka á eftir sér.

Þegar leið á kvöldið bifaðist hurðin.
Skelltist loks aftur í golunni.

Daginn eftir var taskan enn á sama stað.
Það rigndi um hádegið.

Tíðin var einstök allan júlímánuð.
Við tókum bústað í ágúst.
Svo var allt í einu kominn september.

Í landsynningnum stendur hann hérna milli húsanna.
Aldrei haggaðist þó taskan.
Laufið fauk af trjánum.
Aldrei haggaðist taskan.

Það festi ekki snjó fyrr en uppúr miðjum janúar.
Blá taskan áberandi á kyrrum dögum.
Skaftið á badmintonspaðanum alltaf jafnt sperrt.

Vorið hefur komið og farið.
Góðir kaflar inn á milli.
Það er liðið heilt ár.

Í morgun var taskan horfin.

 

Komur

Vélin lenti fyrir tíu mínútum.

Fólk hraðar sér inn í flugstöðina.
Það kaupir súkkulaði og vín í fríhöfninni.
Bíður við færibandið.
Fer í gegnum græna hliðið.

Fyrir utan bíð ég.

Karl í svörtum frakka með handfarangur.
Miðaldra kona með þrjár rauðar ferðatöskur.
Hjón með tvíburakerru, með koffort
með reiðhjól, með hálfa búslóðina.

Ég bíð þín.

Vélin lenti fyrir hálftíma.
Vélin lenti fyrir klukkutíma.
Síðasti farþeginn kominn út.

Alltaf skal ég bíða þín.

Vélin lenti fyrir sólarhring.
Fyrir tveimur dögum.
Fyrir viku.
Mánuði
Ári.

 

Vorganga í Dölum

Held jafnvægi á öðrum fæti

og stíg

hinum

með fullum þunga
á mis
vel skorðaða
steinana

helgarnar í lífi mínu
sem standa uppúr ánni.

 

Ástand kattanna

Fyrir þrjátíu árum kom ég í þetta hús
kom ég í þetta herbergi.

Ekkert virðist hafa breyst.

Sama munstrið á veggjunum.
Sama teppið á gólfinu.
Sama skrifborðið undir glugganum.

Og beddinn?

Hann er eins.

Þessir hlutir hafa beðið eftir mér.
Ekki mundi ég eftir þeim.

Ég man samt morgun að vori.
Ég leit út um gluggann.
Á garðveggnum hímdi læða.

Fressin voru sjö
í röð fyrir neðan.

Nú stend ég við gluggann þrjátíu árum síðar.
Skyldi vera læða á veggnum?
Það er aldrei neinn köttur nema maður gái.

Nei. Núna hímir engin læða á veggnum.
Hún situr efst í kjallaratröppum nágrannans.

Önnur læða. Sama ástand.
Önnur fress. Sama þrá.
Annar tími. Sama líf.

 

Eyðidalurinn

Við stóðum þarna hjá tóftum
á miðju sumri
með sóleyjum í gömlu túni.

Utar í hlíðinni var kletturinn.

Einhver spurði: Hvað
varð um huldufólkið
eftir að fór í eyði?

 

Íslandsvinur

Hún var frá Kyoto.

Sagðist hafa litið á hnattlíkan
í leit að landi sem væri langt í burtu
og fátt um fólk.

Hún skrifaði nafn sitt í gestabókina og trítlaði upp.
Svo gerðist ekki neitt í sólarhring.
Þá fórum við að hlusta við herbergisdyrnar.

Þegar hún lét loksins sjá sig niðri
fengum við skýringu.

Hún þoldi ekki fólkið
troðninginn, var þreytt
og vildi bara komast burt til að sofa.

Hún fór í gönguferð um miðbæinn
og kom brosandi og hissa til baka.
Ég rakst ekki á neinn.
Það ýtti enginn við mér.

Það komst aldrei á dagskrá að tala um Gullfoss og Geysi.

Heima fær hún eflaust spurninguna:
Hvað fannst þér svo um Ísland?

Ég svaf.

 

Einsöngur án undirleiks

Röðin við kassann er löng og hún lengist.
Hún lengist og lengist. Ég bíð og ég bíð.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.
Það er fólk fyrir aftan. Það bíður og bíður.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.
Ég lít ekki um öxl. Ég veit að það sér mig.
Það er ekki heimild. Það þekkir mig enginn.

Það þekkir mig enginn. Það er komið að mér.
Ég ætla að ferðast. Ég bíð og ég bíð.
Dansa frá mér vitið á karnivali í Ríó.
Gantast við norðurljós allsber í potti.
Syndi með höfrungum. Reyki hass.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.

Það er ekki heimild. Ég lít ekki um öxl.
Mæti í úthverfri peysu. Set iljar í sandinn.
Mér hitnar í kinnum. Mín fróun er núna.
Fæ bréf í pósti frá öðrum en banka.
Það bíður og bíður. Ég bíð og ég bíð.

Ég bíð og ég bíð. Það er komið að mér.
Ég næ sáttum við líf mitt. Það bíður og bíður.
Ég reiðist og öskra. Það er ekki heimild.
Loks segi ég: Nei. Mér hitnar í kinnum.

Mér hitnar í kinnum. Helvítis stelpan.
Finn handleggi hlýja um háls minn að nýju.
Það skrjáfar í poka. Ég lít ekki um öxl.

Ég lít ekki um öxl. Það er fólk fyrir aftan.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.

Það er komið að mér. Ég bíð og ég bíð.

 

Átthagar

 Á tjaldstæði í Bæjaralandi
hvarf labrador hollenskrar fjölskyldu en gelti
hálfu ári síðar á tröppunum
heima í Amsterdam.

Allt samkvæmt Morgunblaðinu, Reuters og
minni mínu. Kannski var þó húsið
í annarri borg, tjaldstæðið
í öðru landi
og labradorinn
sjeffer en fyrirsögnina
ættu allir að muna:
Gekk yfir þvera Evrópu.

Annað eins gerist. Jafnvel
hér um slóðir. Þið munið köttinn
sem lokaðist inni í flutningabílnum
á Bragagötunni
og komst til Hornafjarðar
en skilaði sér heim.

Það er lengi von á einum.
Hér um kvöldið var einhver snuðrandi við húsið.
Ég fór niður.
Hver stendur þá ekki geltandi fyrir utan
nema úrvinda reiði mín.

Aðrar tilfinningar hljóta að skila sér líka.
Af gleðinni frétti ég síðast á krá í miðbænum.
Eflaust var strætó hættur að ganga og engan leigubíl að fá.

 

Samræður við fjall

Hvernig á að hefja samræður við fjall
sem maður hefur aldrei áður hitt?

Ekki talar maður um þungar áhyggjur
og þær byrðar sem á manni hvíla
við fjall sem hefur haft á sér heilan ísaldarjökul um aldir.

Góðan daginn.

Hvað svo?
Hvað heitir þetta fjall?
Hvaða fjall er þetta eiginlega?

Þeir sem búa í dalnum hérna megin kunna eitt nafn.
Þeir sem búa handan fjallsins kunna annað.
Þeir sem lásu ritvillu af korti kunna það þriðja.

 

Á Þingvöllum

Ég veit nákvæmlega hvar Ásgrímur stóð
þegar hann málaði Ármannsfellið.

Málaði hann ekki Ármannsfellið?

Einhver málaði Ármannsfellið.

Einhver stóð nákvæmlega hérna.
Ef ekki Ásgrímur
og ef ekki Kjarval
þá stóð hérna amerískur kvikmyndaleikari, nei
stóð hérna heimsfrægur gítarleikari, nei
stóð hérna japanskur ferðamaður
og tók mynd af fjallinu.

Ég stend í sporum hans.

 

Dauði í fjölskyldunni

Ég skildi aldrei hvað ég hafði gert honum.
Ég skildi það ekki fimm ára.
Ég skildi það ekki fimmtán ára.

Honum leið illa á morgnana.
Honum leið illa í sumarfríum.
Honum leið illa um jól og áramót.

Mamma bað mig alltaf að fara inn til hans
og biðjast fyrirgefningar
en ég skildi aldrei hvað ég hafði gert honum.

Kannski hló ég of hátt.

Kannski þagði ég of lengi.

Núna á ég dóttur sjálf. Það er morgunn.
Við erum í sumarbústaðnum.

Ég er mamma en ég er ekki mamma.
Ég er sáttfús en ég vil engar sættir.
Ég banna henni að fara inn til hans.

Ég skil ekki ennþá hvað ég hef gert honum.

 

Nótt í Munaðarnesi

 Ef til vill má velta fyrir sér lífinu 

við stofuborðið í bústað stéttarfélagsins
andvaka
yfir krossgátu
sem fyrri gestir náðu ekki að klára.

Í það minnsta má skrúfa sundur penna
ósjálfrátt og annars hugar
en eyða síðan löngum tíma í leit að gormi
sem óvænt skaust út í loftið.

Það er óttalegt fikt, þetta líf.

Að lokum er bara að gefast upp.
Krossgátan verður ekki ráðin.
Gormurinn finnst aldrei.

Frekar en nokkur lausn.

Út úr leiðindum er þá hægt að draga tjöldin frá.
Uppgötva að enn er ljós í nágrannabústaðnum.
Draga þá í hvelli fyrir til að sjást ekki.

Draga síðan hægt frá aftur.
Til að láta sem ekkert sé.
Til að gefa í skyn að ekkert sé að fela.

Uppí rúmi má svo hlusta á andardrátt við hlið sér.
Spá í skilaboðin sem heimurinn fær:
Dregið frá og fyrir
og samstundis frá aftur.
Hvernig skilja aðrir þetta merkjamál?

Þá kemur hann sem kann svörin
við öllu
hann sem leysir allar gátur, svefninn.

 

Undir hamrinum

 Eitt hægt skref. 

Annað.
Hægt skref.

Eitt. Og annað.
Eitt.
Og annað.

Þar til undirförul skriðan
nær ekki lengur til mín
með efasemdir og hrakspár.

Við hamarinn lít ég fyrst upp.

Skáhallt út úr berginu
teygir sig hvít hönd
og blessar yfir mig:

Klettafrúin.

Ég þakka lífinu.
Tvístígandi þakka ég lífinu hvert skref.

 

Það gerðist ekki neitt

Hann tók mig í einkatíma fyrir prófin.
Það var eftir símtal frá mömmu.
Þau höfðu verið saman í skóla.

Hann strauk mér um lærið.
Hann byrjaði á því að strjúka mér um lærið.

Ég var tólf ára.
Ég var langt frá því að vera til.
Ég var langt frá því að vera manneskja.

Aldrei stóð ég undir væntingum.
Hann vildi fá mig aftur og aftur.

Löngu seinna sagði ég mömmu frá því sem gerðist.
Hún reyndi að fá mig til að kæra.
Í mörg mörg ár reyndi hún að fá mig til að kæra.

Ég gerði ekki neitt.

Ég var ekki neitt.

Ég var ekki til.

Núna þakkar skólinn honum störf sem hann leysti vel af hendi.
Gamlir nemendur slá í glas og rifja upp kynni sín af manninum.

Ég segi ekki neitt.
Trúlega gerðist ekki neitt.
Nei.
Það gerðist ekki neitt.

 

Vekjaraklukkan

 Mamma sendi mig út 

til að leita að vekjaraklukku.

Við bjuggum í risinu
en ég komst á augabragði niður stigana
og út á blett.

Ég fann samt ekki klukkuna.

Núorðið skemmti ég gestum
með frásögum af eldri systur minni:
Hún var úrill á morgnana.
Þoldi ekki að uppfarta á matstofunni.

Einu sinni henti hún vekjaraklukkunni út um gluggann.

Stundum henti hún vekjaraklukkunni út um gluggann.

Hún henti alltaf vekjaraklukkunni út um gluggann.

Þannig var æska mín.
Ég leitaði og leitaði.
Aldrei fann ég samt neina vekjaraklukku.

 

Ódauðlegt ljóð á tindinum

Það var útsýni úr ferðabókunum heima
og það var útsýni úr frásögnum vina
sem vissu að ég stefndi á tindinn.

Ég taldi ekki skrefin á leiðinni upp.
Það voru mistök.
Uppi var bara þokan.

Þar sem ég hímdi í þokunni
datt mér ekki neitt í hug
hafði ég ekki um neitt að tala.

Það var bara þokan.

Bara þokan
og ekki rétta tækifærið
til að láta ferðafélaga heyra
það sem hefði getað orðið ódauðlegt tilsvar
ljóð sem ég orti fyrirfram
innblásin orð um að víðsýni hefji jafnvel mig
yfir svekkelsi skuggsælla daga.

 

Pottur með eyru

Í gærkvöldi læddist ég niður
til að hlera hvað þeir væru að segja.

Einhver sagðist hafa heimþrá
til sinna líka.

Annar sagði:
Ég er framandi í þessu landi
en þetta land er ekki framandi í mér.

Þriðji sagði:
Ég er ekki neitt.
Aldrei verð ég neitt.

Kemur þá ekki mín
ekki veit ég hvaðan
með þennan líka tón:

Sprengjan er stillt á tuttugu mínútur yfir eitt.

Eftir það var vonlaust að ég færi upp að sofa.

 

Hveravellir

 Oft hugsa ég til Hveravalla.

Þangað kom ég í ágústmánuði.
Það var á björtum degi.

Það var á björtum degi og ég með sólgleraugu.
Ég lagði þau frá mér á stein.
Ætlaði mér rétt sem snöggvast að taka mynd.

Allt í einu var ég svo staddur í sjoppu á Blönduósi.
Þá mundi ég eftir sólgleraugunum.

Ég man alltaf eftir Hveravöllum.
Þar gleymdi ég sólgleraugum.

Ég gleymi aldrei Hveravöllum.

 

Refurinn í Hornvík

 Ég lagðist í hvönnina

lauk aftur augum
hlustaði á bjargið.

Þá heyrði ég þrusk
leit upp
og beint í augun á rebba.

Hvað ert þú að gera hér?
spurði hann.

Af hverju fórstu ekki með hinum?
Er lofthræðslan að drepa þig?

Æ þegiðu, svaraði ég
og lagði mig aftur.

 

Símtöl í september

Þú hringdir um nótt.
Ætlaðir að hengja þig.

Næst hringdi konan.

 

Á fullu tungli í borginni

Ég sagði honum hvert ég vildi fara.
Ég þóttist vita hvert för minni væri heitið.
Leiðin getur ekki legið um þessar aðþrengdu hliðargötur.

Nú segi ég honum að stoppa.
Hér geri ég bílinn upp.
Héðan mætti án efa ganga.

Eitt augnablik birtast augu hans í speglinum.
Engin spurning. Hann fer lengri leið.
Skítt með peningana. Núna gildir annað.

Ég breiði úr mér í aftursætinu.
Sýni engin merki hræðslu.
Ég ítreka áfangastaðinn og minnist á breiðstrætin.

Hann læst ekki heyra. Hann ekur hratt.
Fer örugglega aðra leið. Á fullu tungli aðra leið og annað.

 

Dagbókarfærsla að norðan

Dauðinn býr ekki á Skagaströnd.
Það getur ekki verið.
Ég hefði orðið hans var.

Ég átti lengstan dag á Skagaströnd.
Þar fékk ég ábót.
Þar fékk ég hugmynd.
Nei.
Dauðinn býr ekki á Skagaströnd.

 

Eyrun á Blesa

Mikið hafa eyrun á Blesa það gott.

Þau hafa útsýni yfir hagann
og niður að ánni, hlusta á spóa
lóu og gæs.

Þau eru samtaka, eyrun á Blesa
dilla sér og dansa
en einstaklingseðlið virðist þó skýrt:
Komi fluga að því vinstra
kvartar það eitt og sér.

Mikið hafa eyrum á Blesa það gott.
Þau hafa félagsskap hvort af öðru
horfast í augu og hlæja.

Annað er með eyrun á mér.
Á milli þeirra er ekkert
nema eintómur heili og vit.

Mikið hafa eyrun á Blesa það gott.

 

Nýja Ísland

Það gæti verið morgunn hjá spákonunni.
Fyrsta retta dagsins mætt í munnvikið.
Pakki af Chesterfield í viðbragðsstöðu á borðinu.

Stök rúlla þrjóskast ennþá í skjannahvítu hárinu.
Alltaf röndin þar sem liturinn byrjar að vaxa úr.

Hvítur sloppur og undirkjóllinn hvítur.
Húðin samt hvítari og heilagur andi fer hjá sér.

Sú fyrsta réttir þeirri næstu glóðina.
Boðhlaup dagsins hafið.

Kaffið teiknar í bollann.
Það sjást gleðigloppur.
Það sjást lukkustólpar.

 

Rúnir

Í þessu landi snýst allt um ritstörf.
Líka í óbyggðum.
Það hef ég séð með eigin augum.

Hér og þar
hafa verið ristar rúnir í klappir.
Með góðum vilja má túlka þær
lesa sögur og speki
löngu horfinna jökla.

Strá sem bærast
reynast oftar en ekki fjaðurpennar
hripandi ódauðleg ljóð í vindinn.

Jafnvel ólæsar ær
skrá stefnu sína
í moldargöturnar.

Þær stefna alltaf í norður.

 

Bensínstöð við þjóðveginn

 Meðan ég dældi bensíni á bílinn 

horfði ég inn eftir dalnum.

Ég ákvað að snúa aftur við betra tækifæri.
Kanna dalinn.

Ári seinna
stend ég aftur á sama stað og dæli bensíni á bílinn.

Ég horfi inn eftir dalnum
og hugsa með mér:
Hingað verð ég að koma.
Skoða mig um.
Tjalda á grónum stað og kanna dalinn.

Ég gefst ekki upp.

Næsta sumar ætla ég að koma hingað aftur
dæla bensíni á bílinn og horfa inn eftir dalnum.

 

Reykjavíkurannáll

 Alvörugefinn var hann

þessi nýliðni vetur.

Stundum mátti þó kætast í myrkrinu.
Snemma morguns í desember
barst mér til eyrna lóusöngur
ofan úr tré
við Gunnarsbrautina.

Allan þann dag
leið mér töluvert betur.

Mig grunaði auðvitað starrann.
Engar heimildir geta þess að hann
kveði burt snjóinn og leiðindin.

Merkilegt samt
hvað þykjustan getur.

 

Eftirleit

Ég veit ekki hvað er að mér.
Ég geng yfir hálsinn
ég geng og ég geng og ég geng.

Ég geng niður dalinn
geng upp gljúfrið
ég geng.

Ég geng og ég þramma, ég arka
ég mjaka mér áfram
feta mig áfram
ég lalla
ég labba
ég ramba, ég rölti
ég spranga, ég stika
ég geng og ég geng.

Ég geng um í leit að sögu
ég geng um í leit að orðum
í leit að gömlum og nýjum orðum
orðum sem gætu bent mér á steina og grös
og hjálpað mér við að koma auga á landið.

Ég geng og ég geng og ég geng.

 

Huldubókasafnið í Hafnarfirði

I

 Í háskólasafninu fann ég ekki heldur Grænmeti

og ber allt árið; hin lokkandi fyrirheit Helgu Sig.
Þá var fullreynt. En þrjóskan bauð mér far
til æskustöðvanna í Hafnarfirði
svo ég skaust inn á landsbókasafn huldufólksins
sem er staðsett í hamri við Flensborgarskólann.

Nú kemur að þankastriki — Hafnarfjörður
kallast í daglegu tali Fjörðurinn
og fyrrgreindur hamar er aldrei
nefndur annað en Hamarinn. Af Hamrinum er útsýni
en þar fyrir neðan miklast þó lækur
sem heitir einfaldlega Lækurinn.

Nema hvað: Afgreiðslumærin
svaraði fyrirspurn minni á orðlausu máli
og kvaðst ekki hafa bækur á íslensku.

Efins lét ég augu hvarfla um hillur og kili. Þarna!
Þetta er bókin sem ég hef reynt að fá í allan dag!
Og í nýlegri útgáfu! En afgreiðslumærin brosti:
Við notum ykkar stafróf, ykkar letur en okkar
mál er annað og fleira en þér kann að virðast á prenti.
Þetta er ekki verkið sem þú nefndir, heldur þýðing
á ljóðaflokki eftir sjálfan Gian Michele Milani! Hann
orti svo vel um heiminn, útskýrði frumeindakenningu
Demókrítosar og hin vélrænu lögmál hreyfinga.

Grænmeti og ber allt árið
þýdd á huldumál
sýnist þér vera Snorra-Edda á íslensku
en Snorra-Eddu á huldumáli
sérðu sem Vegahandbókina.

Hún bauð mér þær allar og minnti á síðasta skiladag:
36. ágúst, sem er þó ekki 5. sept.

II

 Heimkominn heyri ég þig kalla:
Það stendur ekkert um rifsberjasultu!

Bíðum við! Hvernig myndu skáldin svara þér
sem ólst upp suður með sjó?

Þú hampar bók: Hér birtist ágætis
uppskrift að hugsun
og ef til vill að lífi — en ekki að sultu!

Ég svara: Nei, þessa fékk ég í Norræna húsinu.
Hún fjallar um dauðann …
Ég stari á bókina. Síðan á þig.

Við rýnum í sama letrið en framreiðum ólíkar krásir.
Sömu stafir, önnur merking, annað verk.
Huldukona úr Keflavík!
Hver tryði því að óreyndu?

En hvað veit ég? Bók. Heimur. Sulta. Líf.
Öll þessi orð lærði ég í Hafnarfirði.
Þar stendur örugglega hamar.
Þar miklast jú lækur.
Loks hef ég fyrir satt að í Firðinum sé himinn alltaf blár!

 

 

 

Pin It on Pinterest