Hálfgerðir englar og allur fjandinn

Flestar limrurnar á þessari síðu birtust upphaflega í handhægu kveri sem kom fyrst út árið 2006 og síðan breytt og endurbætt nokkrum árum seinna. Frá því að kverið var prentað í seinna skiptið hefur slatti af limrum smokrað sér inn á viðeigandi stöðum en prentaða kverið heldur þó gildi sínu og vilji fólk eignast eintak getur það pantað hér og fengið heimsent. Í „hefðbundinni“ limrugerð þykir góður siður að kynna persónu til sögunnar í fyrstu línu og staðsetja hana um leið og sett er af stað einhver atburðarás. Þeirri reglu er að vissu leyti fylgt í limrunum hérna en þó þannig að oft er persóna nefnd í titlinum og henni skipað í hlutverk þar. Hin leikræna heildarhugsun sem  vakti fyrir skáldinu skilar sér vonandi að einhverju leyti ásamt sprellinu með persónur sem sumar hverjar koma fyrir aftur og aftur.  Kaflaskiptingin helgast af leik sem ýmist snýr útúr eða snýst á einn eða annan hátt í kringum hinar meintu sjö dauðasyndir sem löngum hafa verið skáldinu hugleiknar.

 

 

 

 1. Hroka- og derringslimrur

 

Grandalaus morgunhani

 

Öll þjóðin hún gefur mér gætur.
Mig grunar að ég þyki sætur.
Ég lifna sé við,
allt landið og mið,
um leið og ég dríf mig á fætur.

 

Baldur magister mælir fyrir um legstein sinn

 

Ég léti mér líka sem nár
þótt legsteinninn minn yrði blár
og fagnaði hlyti
hann fjölbreytta liti
svo fremi hann endaði grár.

 

Anna Lísa heldur fyrirlestur í hússtjórnarskólanum

 

Því litla sem Guð manni gaf
skal gorta sig óhikað af.
Það hljómar sem skrýtið
en hógværð um lítið
er hroki og drýgindaskraf.

 

Spenna undir niðri í gleðigöngu

 

Ég pósa sem drottning og dama
í dressi og síst veldur ama
þitt stílfærða spé
að strákur ég sé.
Mér stendur hið innra á sama.

 

Baldur magister í þröngri lyftunni

 

Þér gumpur, vér áminnum yður
því ekki telst háttprúður siður
þín loftræstisynd
að leysa hér vind.
Vér líðum það ekki, því miður.

 

Gósenland Nonna þó

 

Ég elskunum ekki það lái
þótt einlægt þær vininn minn þrái.
Ef dama við minn
vill daðra um sinn
þá drýpur sko smjörið af strái.

 

Kalt á toppnum

 

Ég finn vel að höfuðið hækkar
því hitinn á kollinum lækkar.
Á gránandi hnjúk
er gustur og fjúk
og gróðurlaus blettur sem stækkar.

 

 Lítilsvirt prentvilla öðlast hlutdeild í eilífðinni

 

Þótt lesendum geri ég gramt
í geði skal stoltið mér tamt
og víst telst ég skaði
sem villa í blaði
en villa í Mogganum samt.

 

Hulda mín leysir af sem birgðastjóri hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar

 

Að hagræða hlutum er brýnt;
ég hef á þeim skipulag fínt.
Á lagernum tóma
er lífið til sóma
og leitun að því sem er týnt.

 

Járngerður matráðskona í eldhúsbílnum kjaftstoppar göngufólkið

 

Ef sjóða skal sjálfdauðar ær
í sérstakan pott fara þær
sem brytarnir græja
en bomsurnar nægja
ef barasta sjóða skal tær.

 

Lúlli vinur gerist kóngur um stund

 

Á loðið og lágvaxið hross
legg ég minn hnakk og verð boss:
Með réttu ég sjálfur
á ríki og álfur
ef ruglar mig smávegis hoss.

 

Hyggni ráðgjafinn

 

Hvað ég ætla og vona og vil
ég veit svei mér ekki og skil
enn síður hvað veldur
og set mér því heldur
að segja þeim rugluðu til.

 

Nonni þó á eintali við Baldur magister

 

„Svo hissa ég höfðinu sný:
Við heila er kvenþjóðin frí.”
„Sá vandi er slunginn,
þær vantar sko punginn
sem vant er að geyma hann í.”

 

Baldur magister hlustar eftir samræðum á næsta borði

 

Um prísundir spekingar spjalla
og spámannlegt finnst mér það varla
en furðulegt hitt
að fangelsi mitt
er frelsið sem umlykur alla.

 

Nonni þó dæsir yfir velgengni sinni

 

Við karl þennan lífið nú leikur
en linkuna samtímis eykur
það klappar mér dús
sem kötturinn mús;
ég kvíði og gerist nú smeykur.

 

Fréttir fram í tímann

 

Senn virðist öll bjartsýni búin
því brostin er hagvaxtartrúin.
Nú tapa menn bara;
allt traustið að fara
og túristamakríllinn flúinn.

 

Vitundarnámskeið hjá iðjuþjálfanum Sísí Fors

 

Oft hentar í næðinu núvitund
og nauðsynleg finnst mörgum sú vitund
en stundum í hópum
má standa með hrópum
í stúkum og iðka þar húh-vitund.

 

Beggi Stínu fellur á meiraprófinu

 

Menn vita að flest læt ég flakka.
Mér fjölmargir hugrekkið þakka.
Ég sagt hef við menn
og segi það enn:
Það segir mér enginn að bakka.

 

 Baldur magister ávarpar Nonna þó

 

Hvort veit ég að veit ég, það segi
ég vinur minn heiminum eigi.
Ég veit bara það
sem veit ég sko, að
mest vit er í því sem ég þegi.

 

Hátíðarræða í Perlunni

 

Menn segja að Ísland sé annes
þó eigum við til dæmis Hannes.
Hann syngur í kór, en
hún Soffía Lóren
– hún sést ekki lengur í Cannes.

 

 

 

2. Ágirndar- og græðgislimrur

 

Bíbí straujar angistina

 

Alltaf svo kokhraust á útsölur fer ég
þó ergir mörg summan, það sver ég
– en korti ég veifa
það kvíðann vill deyfa:
Ég kaupi og þess vegna er ég.

 

Engar afsakanir í vanskilum

 

Það tekst oft með tækni að hanka menn
því tilboðum frábærum jánka menn.
Ég skil þetta vel
sem skuldirnar tel
og skúrkana þekki sem banka menn.

 

Júlí að norðan í Víðidalnum

 

Ég skil vel að gleðjist nú gumar
við grillið með sveppi og humar
og kaldranann hér
þeir klæði af sér
því komið er hávaðasumar.

 

Léttir í leikskólanum

 

Nú birtist það blessaða vorið,
og burt fer úr nebbanum horið
þá hljóðnar allt pex
en hláturinn vex
og hleypt verður fjöri í sporið.

 

Lúlli vinur freistar gæfunnar í Smáralind

 

Þau kort öll á kassanum taka
en klókur ég seðlunum blaka.
Í verslunum má
oft vextina fá
ef vitlaust er gefið til baka.

 

Bráðlátur vinningshafi

 

Ég lifi sem höfðingi hátt,
fæ happdrættisvinninginn brátt
en bölva svo einu
með betlið á hreinu:
Að bíð’ ekki fram yfir drátt.

 

Beggi Stínu fer um Hálfdán í hauströkkrinu

 

Tvílráð er trú mín á heiðinni
en treysta má sjálfrennireiðinni.
Ég bensínið gef
í botn en ég hef
samt bremsurnar niðri í leiðinni.

 

Stundakennari í hagfræði ályktar um úthald og aflabrögð

 

Þeir liðtæku hlutinn sinn hljóta
og hlunninda ágætra njóta.
Við færið er glatt;
hið fornkveðna satt:
Þeir fiska sem róa með kvóta.

 

Lúlli vinur sér ljósið í kreppunni

 

Víst kemur, ef nánar menn kanna,
með kreppunni hamingjan sanna.
Það glatast margt drasl
en gjaldþrot og basl
er gósentíð bölsýnismanna.

 

Beggi Stínu enn og aftur andvaka

 

Ég veit jú að lífið er lotterí
og lukka mín hreinasta smotterí
því drasl bara vinn ég
en dormandi finn ég
hve draumheimi mínum allt flott er í.

 

Frændinn að vestan metur tíðarfarið

 

Um veðrið hér segi ég satt,
það sumpartinn hefur mann glatt.
Mörg lægðin er ágæt
og lífshætta fágæt
þótt lognið sé andskoti hratt.

 

Lúlli vinur gerist metrósexúal

 

Karlmannlegt klúður vill há mér
svo krullujárn þarf ég að fá mér.
Ég hressist í vetur
ef hugsa ég betur
um hárin í nösunum á mér.

 

Lúlli vinur játar áfergju sína

 

Ég þrái svo mikið og meira
af mörgu og ef til vill fleira
sem lumar þú á
mig langar að fá.
Æ lofðu mér af því að heyra.

 

Lúlli vinur rifjar upp óþægilegt atvik og andstreymi sem hann mætti á sínum yngri árum í Vesturbænum

 

Einn tappi á Tómasarhaga
var tregur að láta mig draga
sig þrengingum úr;
var þrútinn og súr …
En það er nú alltönnur saga.

 

Beggi Stínu finnur sjálfan sig

 

Mitt líf snýst um leitandi mann
sem loksins þó sjálfan sig fann.
Þann stóra ég hreppti
er sturtu ég sleppti
því strax ég á lyktina rann.

 

Uppákoma í græna hliðinu

 

Hér geturðu góssið þitt lagt
og ganga mun hratt get ég sagt
í töskunum leitin
því tollvarðasveitin
í teiti skal strax eftir vakt.

 

 Beggi Stínu slær af lífgæðakröfunum

 

Ég sættist við neyslumörk neðri;
mér nægir einn jeppi með leðri.
Og konubíll grár!
Og kannski einn blár
því klæðast skal bíl eftir veðri.

 

Eftirköst á sólardegi við Þingvallavatn

 

Ein murta lét blekkjast af beitu
sem bauð ég í vatninu heitu
en greyið var smátt
ég gladdist við fátt
og greindist með áfallastreitu.

 

Okkar maður útskýrir hvers vegna honum fipast iðulega þótt hann fái tækifærin upp í hendurnar

 

Oft þegar ég gæsina gríp
af gamni ég í hana klíp
en sorrí og hvumpin
hún sýnir mér gumpinn
og segir loks: Djöfulsins kríp.

 

 

 

3. Öfundar- og afbrýðislimrur

 

Sérstakur áhugamaður rannsakar málin og leysir gátuna

 

Minn grunur að grannanum beindist.
Margt gruggugt í fari hans leyndist
og sönnun ég fann
því sekur loks hann
um sakleysið algera reyndist.

 

Passíusálmainngangur

 

Um svikin, um píslir og pakk,
um Pílatus, Júdas og makk
þú, drottinn, varst hljóður
en djöfulli góður
að deyja samt fyrir mig, takk.

 

Kantmaður

 

Ég læt mér um lífsreglur annt
og lifi því mest upp á kant
við nákvæmnisbjálfann
og nördinn, mig sjálfan,
sem normin vill skoða of grannt.

 

Fréttir úr ónefndu byggðarlagi (þó ekki af Álftanesi)

 

Einn karl inn í kvenfélag vildi,
það kvinna í stjórn ekki skildi.
Hún fékk hann þó inn
og fann þá um sinn
að fullgildan meðlim hún þyldi.

 

Samráð á réttardansleiknum

 

Nú verður sko Leifi einn lítinn að fá.
Við læknum hann alveg af staminu þá
og hiksti á fréttunum
sem heyrð’ann í réttunum:
Á Hallbera gamla á Á á á?

 

Erfitt nábýli

 

Þeir kumpánar Einhver og Annar
ná aldrei að þrífast sem grannar
þótt Einhver með leynd
sé Annar í reynd
það einungis ruglinginn sannar.

 

Félagsmálatröll í enn einu boðinu á Bessó

 

Það er lyg’ að ég líkist helst peði
og lítið að mér hérna kveði
enn geng ég um samkvæmi
og geispana framkvæmi
af grimmd og með lífið að veði.

 

Hamingja undir súðinni

 

Ég dvel oft á drifhvítu lakinu
og dissað get rokið á þakinu
en kemst ljúf og dreymin
í kyrrláta heiminn
ef klóran mín virkar á bakinu.

 

Játningar í opinskáu viðtali

 

Ég eyrnastór fyrir því finn
að forvitnir glápa um sinn
og dylgjur ég þekki
en dapur verð ekki
því Doddi er vinurinn minn.

 

Sumar á landinu bláa

 

Sjá, lúpínan blánar við brún
því bærilegt samband á hún
við gróðursins höfund
– en grænir af öfund
hér gerast nú dalir og tún.

 

 Íslensk góðkunningjalimra

 

Þú færð aldrei sakleysið sannað
þótt sérhvert þitt spor verði kannað
því siðvenjan er
að sekur telst hver
uns samböndin vitna um annað.

 

Blendin fagnaðarlæti

 

Þegar ég rímurnar rappaði
með rytmanum salurinn stappaði
og barfólkið kátt
það blístraði hátt
en bara sá einhenti klappaði.

 

Þúsund mínútur á færibandinu

 

Mér finnst eins og nú þokist nær
það nú sem að áður var fjær
svo nú fæ ég kannað
eitt nú sem telst annað
en núið sem var hér í gær.

 

Gamall félagi rifjar upp samböndin

 

Ég var aldrei valinn í liðið,
það vildi mig enginn á sviðið;
en Kristur var memm
í KFUM –
hann kemur mér innfyrir hliðið.

 

Einmana sjálfboðaliði hringir óvænt í vinalínuna

 

Hér stend ég í stanslausu puði.
Ég sting upp í mannkynið snuði.
En vinn allt á laun.
Þið viljið í raun
fátt vita af mér, henni Guði.

 

Helgir dagar í athafnalífinu

 

Ef nóttin er nöpur og dimm
þá nagar mig tilveran grimm
en dagarnir líða
án drunga og kvíða
með Dolly frá níu til fimm.

 

Haust í Þingholtunum

 

Það komst eitt sinn kenning á sveim
um kyrran og laufgrænan heim.
Af rigningum barið
er reynitréð farið
að ryðga í fræðunum þeim.

 

 Nonni þó harmar örlög sín

 

Á landsmóti gobbedí gobb
fékk graddinn mitt uppáhalds djobb;
að stæra sig pínu
af stóðlífi sínu
og stunda svo afkvæmagrobb.

 

Baldur magister með flokksbræðrum í Höfn

 

Ef ekki má stíga á strik
er stefnan mest vöflur og hik
sem stunda menn þverir
sú staðreynd mér gerir
á Strikinu erfitt um vik.

 

 Anna Lísa uppfartar á skáldaþingi í Reykholti

 

Þótt heyrist í skáldunum skrifandi
og skeiðklukka þeirra sé tifandi
spyr tilvistarefið:
Skal taka sem gefið
að telja þau hvert og eitt lifandi?

 

Bíbí enn og aftur á bæjarrötlinu

 

Allt liðið í bænum er bíó
og blús spilar miðsvetrar tríó.
Hér króknar fólk bara,
minn kroppur vill fara
á karnival suður í Ríó.

 

Lúlli vinur fjalla um stjórnmálaviðhorfið

 

Hér lofa menn löngum sitt fullveldi
en láta þó stjórnast af sullveldi.
Það afsakar drauma
sem inní þeim krauma:
hin eilífu stórkarla bullveldi.

 

 Hulda mín raðar upp páskaeggjum

 

Við erum svo góð í að gleyma,
svo gjörn á að lát’ okkur teyma;
við brosandi hlaupum
í búðir og kaupum
nú brúnegg sem þangað inn streyma.

 

Limran um Maríurnar

 

Á Melunum bjuggu tvær Maríur.
Sú máttugri tók stundum aríur
og heimtaði stríð
gegn helvítis lýð
ef hurfu af snúrunum naríur.

 

 

 

4. Reiði- og ólundarlimrur

 

Einelti af verstu sort

 

Ég margsagði: Þekki ég þig?
við þrjótinn sem reið mér á slig.
Ég spenntist af stressi
er spjátrungur þessi
úr speglinum glápti á mig.

 

Spakur að vanda gefur Baldur magister ráð í fjármálakrísu

 

Ef miðlarar markaðsins falla
á miðla í staðinn skal kalla;
margt falið þeir sjá
og fólk þarf að ná
í framliðnu bankana alla.

 

Sjálfstætt starfandi álitsgjafi í vettvangsferð

 

Af vonbrigðum víbrar allt hverfið
því verðbólgan reynist svo erfið.
En langi nú fólk
í lítra af mjólk
það lofsyngur raðgreiðslukerfið.

 

Septembermorgunn á Skólavörðuholtinu

 

Það blæs nú af ruddaskap rokið
svo reyndar er mér öllum lokið;
hér skelf ég sem strá
og skiljanlegt þá
að skuli í mig geta fokið.

 

Skapstilling í Keiluhöllinni

 

Þegar ég kúlunni kasta
að keilunum engan ég lasta
þótt straumar frá þér
– stjaki við mér.
Þar standa þær. Punktur og basta.

 

Anna Lísa á vísindavefnum

 

Ég spurt margan spekinginn hef
úr spjörunum: Til hvers er nef?
Þeir hrylla sig bara
og hnerrandi svara:
Svo hægt sé að vera með kvef.

 

Nonni þó trúr yfir litlu

 

Ég þyki víst nettur að neðan
og nánast því aldrei hef séð ‘ann.
Ein frauka var hér
að fikta í mér
og flísatöng hafð’ún á meðan.

 

Óvæntur gestur úr fortíðinni

 

Það gleymdist í fataskáp frakki
sem fékkstu í jólagjöf krakki.
En kvöld eitt í haust
þú kjaftshöggið hlaust:
Hann kom út úr skápnum sem jakki.

 

Pottþéttur pragmatisti

 

Það sat maður í mannætupotti
og mælti um leið og hann glotti:
Víst sýður í mér
en sannleikur er
að sokkunum veitt’ ekk’ af þvotti.

 

Anna Lísa hittir samferðafólkið á opnum borgarafundi óvirkra í Ölkjallaranum

 

Það örlar á fússi í fasinu.
Um fjandann er losnað í masinu.
Já, tíðin er breytt,
fólk töluvert heitt
og tekið að hvessa í glasinu.

 

Hulda mín hittir gamla minningabókavinkonu á tjalstæðinu í Skaftafelli

 

Ég hef alltaf lifað í lukku
samt lít ég nú einstaka hrukku
sem ekki var kunn
við augu og munn
og enda í förðunarkrukku!

 

 Sjálfstætt starfandi útskýrir heimpólitíkina

 

Við umberum fáráðlingsfíra
samt finnst manni erfitt að skýra
hví orðin er rútína
að einrækta pútína
sem einmenningsheimsveldum stýra.

 

 

 

5. Leti- og dugleysislimrur

 

Iðjuþjálfinn Sísí Fors í svefnrofunum

 

Í bæli er bannað að slóra,
enn bíður mín hlutverkið stóra,
öll vinnan í dag
og vaninn, mitt fag,
og verkefnið mikla að tóra.

 

Skammdegismorgunn í Leifsstöð

 

Ef birtist með vetrinum vandinn,
mun viturlegt ráð, segir landinn,
að stelast á brott
í strandlífið gott
og stinga þar hausnum í sandinn.

 

Frjálslegur andi á ritstjórninni

 

Ég sannleikann set niðrá blað
ef samviskan býður mér það;
hún kvelur og meiðir
en kaupið mér greiðir
sem kemur í óvissu stað.

 

Bíbí ákveður að drífa sig á fætur

 

Ég varla fæ breytt mínum vana nú.
Útí vitleysu nýja ég ana nú
því aldrei skal hikað
við óráð né hvikað.
Ég er bara svona og hananú!

 

Hulda mín á góðum degi í Hólminum

 

Það ágerist einkennaleysið;
ófötluð geng ég um pleisið.
Allt virkar svo flott
og veðrið er gott
en volæðið hreint ekki beysið.

 

Guðmundur eilífðarstúdent ver doktorsritgerð sína á Næsta bar

 

Við fræðimenn reynda ég ræði
um rannsóknir mínar í næði;
þó kvelst ég og brenn
því kaos er enn
mín kenning og aðferðafræði.

 

Lúlli vinur eftir þriðja bjór í óvissuferðinni

 

Það svíður að mig enginn meti
þótt maður sé frískur og geti,
ef djobbi ég tek,
sýnt dæmalaust þrek
og dugnað við framkvæmd á leti.

 

Iðrandi vinnuþjarkur

 

Á vinnu- og verkefnafundum
mín vitund og ég sosum undum.
Nú jarm þess er trist
sem jafnvel gat misst
af jarðarför sinni á stundum.

 

Gamall trabbi lítur yfir farinn veg á 17. júní

 

Menn álíta andvörp mín hátíð
því afrekin segja þeir fátíð.
Það álit er hart.
Ég afreka margt
en einkum og langmest í þátíð.

 

Nonni þó grípur mækinn og fjallar um stöðu sína í samfélaginu

 

Ég sannlega sagt get hvað blús er
því sérhæfing mín er sko lúser;
þótt vinning ég fái
og velmegun sjái
til volæðis ávallt ég fús er.

 

 Anna Lísa hitar upp fyrir hugvísindaþingið

 

Ef kemst ég á kraftbendilssýningu
ég kætist við sérfræðirýningu
en pæli þó mest
ef passlega sést
í prófessorsermi og líningu.

 

 Bíbí speglar sig í búðarglugganum

 

Ef hjálpast að þroski og þrjóska
fæst þónokkur uppfylling óska
að fimmtíu plús
sé fullkominn blús
það fatta ég ekki sem ljóska.

 

Kunnuglegt andlit í anddyri gamla Íslandsbankahússins við Lækjartorg

 

Með grímunni gengst ég við nafni
þótt gjaldkerinn fýldur mér hafni.
En sólin mín rís
til sigranna vís.
Ég syndirnar hef fyrir stafni.

 

Spássíulimra

 

Það löngum gaf lífinu meiningu
að leggjast í orðræðugreiningu
og skapa sér heim
úr skoðunum þeim
sem skiljast og mynda loks einingu.

 

María Júlía býr sig undir það að ævisagnaritarinn Guðjón Friðriksson sýni henni óvænt áhuga í borgargönguferð en minnist þess um leið að Jean-Paul Sartre tók aldrei eftir Kristjáni Albertssyni á Café de Flore – svo vitað sé.

 

Á langri og litríkri ævi
ég leitaði án þess ég svæfi
í fjölmarga kró
en fékk hvergi ró
né fann ég mér eðli við hæfi.

 

 Beggi Stínu allur af vilja gerður

 

Ég reynt hef margt tækið og tólið
og talsvert ég sótti í hólið
hjá fólki í denn
en fæ ekkert enn
þótt finni ég margoft upp hjólið.

  

Farandbiskupinn Helgi helgi hugleiðir sköpunarsögu norrænna manna 

 

Hann Benson frá Berkley í USA
af bókum fór eitthvað að hnusa
en vakti svo máls:
Ef viljinn er frjáls
þá var engin Auðhumlu-kusa.

 

Lúlli vinur rifjar upp feril sinn sem hlaupakappi

 

Frækilegt afrek var árangur minn.
Mér annálar hömpuðu talsvert um sinn.
Það mátti sem dæmi
engu mun’ að ég kæmi
í markið á undan þeim síðasta inn.

 

 

 

6. Munúðar- og lostalimrur

 

Anna Lísa fílósóferar á snyrtivörukynningu í Debenhams

 

Ef velja skal varalit gilda
varfærnir litir sem milda
og róandi telst
sá rauðasti helst
því rautt merkir stöðvunarskylda.

 

Tröllasaga að austan

 

Í fangið á ferlegri skessu
reið fjallkóngur vor eftir messu.
Hún blessaði það
en bóndi, hann kvað:
Ég botna nú ekkert í þessu.

 

Lúlli vinur útnefnir besta hjálpartæki ástarlífsins

 

Með ástarlífs tækjum og tólum
má tryggja sér viðreisn í bólum:
Oft virkar það eitt
ef vinan kveðst þreytt
að vera þá allur á hjólum.

 

Beggi Stínu leystur úr álögum

 

Ég fæ það í froskmannabúningi
hjá frúnni og uni þeim snúningi
því konan er þrá
vill krónprinsi ná
með kjassi og örvandi núningi.

 

Óvæntur sjortari á Suðurnesjum

 

Hann stamaði: Viltu einn stuttan?
Hún stundi þá: Komdu með guttann.
Og másaði fyrst
en mælti svo byrst:
Ég meint’ ekki litlasta puttann.

 

Veðurspá í Grafarvoginum

 

Nú líður mér þannig í lendinni
að lægð hygg ég vera í grenndinni,
sagði konan á túr
en karlinn varð súr
og kippt’ undan pilsinu hendinni.

 

María Júlía andvaka og ástarþurfi á hótel Norðurljósum

 

Hjá þér get ég dundað á dýnum
í draumheimi mjúkum og fínum
og gæfi mig skjótt
að gleði í nótt
ef gleymdi ég hrotunum þínum.

 

Draumkonan ávarpar Nonna þó

 

Ef lobban er lufin og beik
en laturinn giðar um neik
við gelúðugt spæði
hjá glúbíða tæði
fær gotíran belandi speik.

 

Kosmískar sveiflur

 

Öll sólkerfin glitra og glansa
því gleðin vill hreint ekki stansa;
í taktinum sæl
sinn tangó með stæl
þau Tunga og Snípur nú dansa.

 

Unga stúlkan og eldhúsverkin

 

Ef biðlarnir bónorðum flíka
er best fyrir meyna sem slíka
að gæinn sé vitrari
en G-blettatitrari
þá græjar hann uppvaskið líka.

 

Eilítið um smáfugla og páfugla

 

Ef smá fugl hér smælandi sá fugl
um smáfugl oft hugsaði þá fugl
Eitt er að þrá fugl
annað hvað má fugl.
Hvað á fugl að gera sem páfugl?

 

 Tjúlla bæbæ missir sig á fundi hjá ferðafélaginu

 

Er ofan af klettum ég kíki
á kraftinn í fossanna ríki
fær lotningin mál
í lítilli sál
með lýriska vatnsorkusýki.

 

Gamall húsgangur

 

Einn piltur var talsverður Tarsan.
Í trjánum fór stúlka að kjass’ann.
Svo vildu þau fleira.
Samt varð ekkert meira.
Það vantaði náttúrupassann.

 

Bíbí meldar sig í líkamsrækt fyrir húmanista

 

Í heilsurækt hentar mér flest
en heimilisleikfimin best.
Ef mjaðmir skal liðka
ég mannkærleik iðka
og máttvana ligg fyrir rest.

 

Nonni þó á tröppum fullorðinsbúðar

 

Á mig ekki bætir að benda.
Í búllunni hillur á enda
var klámefni falt.
Ég keypti það allt
af kurteisi til þess að henda.

 

Nonni þó minnir á eðlislæga fórnfýsi sína og vanmetna hjálpsemina

 

Sem talsmaður tillans á mér
ég tíðum á barina fer.
Í sjálfboðavinnu
vil sjarmera kvinnu
en sjaldan í fokki ég er.

 

Baldur magister hugleiðir á dansbúllu

 

Ég flekklaus að dömunni dáist –
en drottinn minn, ætli það það sjáist
að neðan á mér
einn náungi er
sem núna af erfðasynd þjáist?

 

 Skáld rifjar upp útistöðu sína í tunglsljósinu

 

Mér stóð er ég stóð útvið skóg.
Þar streymdi af álfunum nóg.
Svo heltók mig lotningin
er heilsaði drottningin
sem hló og bauð glimrandi sjó.

 

Farandbiskupinn Helgi helgi segir sögu af páfa

 

Það var páfi í rysjóttu Róma
sem reiðhestinn sinn vildi góma
og fékk tak á makka,
en fæddi þá krakka
og fargaði ungmeyjarblóma.

 

 

 

7. Óhófs- og bílífislimrur

 

Geirþrúður rifjar upp helgarferð í Eden

 

Ég kallaði rósina rós
og rósunum á hana jós
því rósu skal kjósa
og rósinni hrósa
uns rósirnar koma í ljós.

 

Basic work-out undir morgunleikfimi útvarpsins

 

Það lúkka best kallar og kellingar
sem kyrr æfa liggjandi stellingar
því minna ber á
að mikli sig þá
við miðbikið óþarfa fellingar.

 

Nonni þó mætir á Voginn

 

Til ógagns var ofneyslan svert
því öllum má vera það bert
að hún ein er líknin
ef hófsemd er fíknin
og hófsemisfíkill þú ert.

 

Borðbæn í föstulok

 

Ég finn það á lokkandi lyktinni
að leggja má blessaðri vigtinni.
Við hátíðlegt smjatt
skal haft fyrir satt
að hamingjan mælist í þykktinni.

 

Jóna í heimsókn og Anna Lísa opnar sig

 

Ég heyrði að bragðið var blátt
ég beit sko í sjóðandi hrátt
og lina ég sá
jú lyktina þá
af lagi úr hvorugri átt.

 

Bíbí kemur til dyranna eins og hún er klædd

 

Í hverskonar föt á að fara?
Oft finnst mér því erfitt að svara.
Í kvöld á samt við
hið klassíska snið;
ég klæðist því loftinu bara.

 

Anna Lísa fer yfir strauma og stefnur í beinni

 

Það toppar fátt doppóttan topp
sem toppar einn gloppóttan kropp.
Að hoppa í slopp
og hoppedí skopp
er hoppandi poppara flopp.

 

Vandræði í könnunarleiðangri

 

Jú, flest virðist Kringlunni flott í
og framboðið verslunum gott í
en blankheit mig hrjá
ég biðja þig má –
að bíma mig upp, kæri Scotty.

 

Baldur magister gefur út yfirlýsingu vegna fjárhagsstöðu sinnar

 

Mér leiðist hún, lausafjárkrísan.
Ég lystauka hvergi á vísan
því kampavínsfrír
og kavíarsrýr
er kosturinn: þverskorna ýsan.

 

Anna Lísa biður menn að fara varlega með orð

 

Þótt varúð sé viðhöfð í slúðrinu
þá valda samt orð mörgu klúðrinu:
Þær gellur má jarða
sem gráta með farða;
það getur sko vöknað í púðrinu.

 

Bíbí með útskýringar daginn eftir afmælisfund í saumaklúbbnum

 

Ég gærdagsins lexíu læri
og léttvínið alls ekki mæri.
Ég talaði hátt
og tafsaði brátt
þótt töluvert edrú ég væri.

 

Hulda mín í kraftgöngu á Egilsstöðum

 

Ég geng allan guðslangan daginn
af geðveikum krafti um bæinn
svo brosi ég móð
ef brennslan var góð
og brjóstin ná framar en maginn.

 

Óvæntur koss og eftirleikur

 

Í dinnernum Kata mig kyssti.
Mér krossbrá og andlitið missti
ég niður á gólf
en náði um tólf
að nudda því á mig og gisti.

 

Dúddi tamingarmaður heldur námskeið hjá handprjónasambandinu

 

Með lagninni legg ég á Skjóna
en læt hann svo fara að prjóna.
Í krúttlega sokka
fer kannski ein dokka
ef klárinn vill gera því skóna.

 

Hulda mín rápar um borgina á menningarnótt

 

Á öllum sést bjartsýnisbragur
því batnandi telst okkar hagur;
hvert meterslangt hlaup
fær maraþonsraup
og menningarnóttin er dagur.

 

 Bíbí greinir frá sumleyfinu

 

Á sælureit suður í Toscana
fólk situr og hlustar á froskana
í mýrum þar hjá
er mikið um þá
en minna um ýsur og þorskana.

 

Gömul fréttalimra frá liðinni öld

 

Frú Marcos í Manilla bjó
og mátaði sexþúsund skó.
Á fésið kom gretta
hún fann enga rétta
þeir fengur hjá Axeli Ó.

 

Anton sjálfur biður um orðið

 

Ég tel á því talsverðar líkur
að tali ég sjálfur sem slíkur
sé persónan fín
en prókúran grín.
Ég passa því. Tilvitnun lýkur.

Syrpa: Ljóðahljóðarall á degi ljóðsins

 

Samræða á degi ljóðsins

Mér finnst eins og ég hafi verið fugl
í fyrra lífi. Fugl.

Þú ert sami sveimhuginn og hefur ekkert breyst.
Fugl. Himinn. Frelsi.
Bla, bla, bla!

Kannski var ég ekta landnámshæna, ha?

Kannski varstu akurhæna. Plaff, plaff, plaff!

Mér finnst eins og ég sé ennþá ég
í fyrra lífi. Fugl. Ég er kíví-
fugl. Ég er mörgæs.
Ég er eimönd.
Ég er kakapúi.
Ég er kasúi, emúi, strútur.
Ég er nandúi. Fugl.
Ég er fugl. Ég er fugl. Ég er fugl.

 

Ávarp á degi ljóðsins

Hvað er ljóð? spurði sokkur
sem fann að teygjan var farin

svo hann
bara
rann

niður fótlegg mannsins
sem stóð á fætur og
gekk með reisn
inn eftir fagnandi sal til að halda ávarp.

 

Tiltal á degi ljóðsins

Næði trufla hrynþung hljóð.
Hljóð vill skáld og næði.
Kvæði telst oft lipurt ljóð.
Ljóð er sjaldan kvæði.

 

Söngur tuskudýranna á degi ljóðsins

bí bí krunk krunk bra bra voff
mu mu mu-u
me me me-e
gagg-alla nöff nöff í-hí hí

bra bra mjá mjá voff voff nöff
mu mu mö
mö mö mu
mu mö mu me bí bí-bí

err-err arr
arr-arr err
err arr urr arr irr arr orr

krunk krunk kvakk kvakk
mjá mjá mjá
me voff
mu voff
krí-krí krí

me me mu mu í-hí hí
mjá mjá bra bra bíbí-bí

 

Eintal á degi ljóðsins

Þú situr við borð ásamt ljóði.
Þú situr þar dag eftir dag
situr og glápir út í loftið.

Þú sem ert ég sem er skáldið
ég ávarpa þig
til þess að fjarlægjast mig
til þess að geta ráðið þér heilt.

Hlustaðu á mig!

Reyndu að horfast í augu við ljóðið
uns kemur í ljós
hvort ykkar verður fyrst til að líta undan.

Stattu svo upp þegar það verður ljóst.
Gakktu þá út til að anda
án þess að túlka eitt eða neitt.

 

Upplestur á degi ljóðsins

Lesarinn ungi
setur nýja tímareim
í gamla ljóðið.

 

Ákvæði á degi ljóðsins

Ég sem les og yrki
ég sem les þig ljóð mitt
legg svo á og mæli um að þú
verðir að flúgandi móðu báli fjalli
verðir að fuglinum stóra stóra
sem enginn kemst yfir
nema ég nema ég
nema ég sem
les þig ljóð
og yrki.

 

Erindi á degi ljóðsins

Fleiri vegir. Fleiri bílar.
Fleiri erindisleysur.
Þannig ortu skáldin í gamla daga.

Um erindi þeirra og erindisleysur
snýst erindi mitt í dag.

Þetta voru fyrsta og annað erindi ljóðsins.
Þau báru með sér djarfar fullyrðingar.
Hér í þriðja erindinu vaknar spurning
þar sem vottar fyrir efa mínum:
Hvaða erindi á ég við ykkur núna í dag?

Fjórða erindið er eins konar millispil
upptaktur að dramatísku loka-erindi:

Ég hef ekkert erindi.
Ég á ekkert erindi.
Ég er erindið. Ég er erindisleysan.

  

Tilboð á degi ljóðsins

Þetta líf allt er ruglað partí. Halló
viltu kaupa ljóð? spyr þessi gaur. Vá!
segi ég: Aldrei að vita. Á hvað?

Tuttugu þúsund! Og ég bara: Ha?
Maður skítur ekki peningum. Tíu?
segir þá gaurinn. Lítið fyrir afbragðs

efni sem örvar. Nei, ég hef engan
áhuga. Skilið? Má kannski bjóða
þér eina línu? Held það sé dagur

ljóðsins og kvöld eða nótt.
Má kannski bjóða þér eina línu?

 

Köll á degi ljóðsins

Taktu hundinn með þér, kallaði kallinn.
Kallaðu á hundinn, kallaði kallinn.

Komdu hingað kallinn
kallaði ég á hundinn.
Þá kallaði hann kallinn.
Afhverju ertu að kalla á hundinn?
Afhverju ertu að taka með þér hundinn?

Þannig kallaði kallinn.
Hann kallaði kallinn.
Hann kallaði kallaði kallinn.

 

Bannorð á degi ljóðsins

maurildi

og

knattspyrna

eða

gyllinæð

sem

vorfögur

langtímafjárfesting

elskast

er

enginn

valkostur

 

DADA-rímur á degi ljóðsins

Fyrsta ríma; ferskeytt

Dada dada dada da
dada dada dada.
Dada dada dada da
dada dada dada.

Erindið skal endurtaka þar til rímunni lýkur.

Önnur ríma; dverghent

Dada dada dada da
dada dada
Dada dada dada da
dada dada

Erindið skal endurtaka uns næsta ríma birtist.

Þriðja ríma; stefjahrun

Dada dada dada da
dada dada da.
Dada dada dada da
dada dada da.

Erindið skal endurtaka fram að pásu

Fjórða ríma, gagaraljóð

Dada dada dada da
dada dada dada da
Dada dada dada da
dada dada dada da

Erindið skal endurtaka svo lengi sem þurfa þykir.

Fimmta ríma, draghent

Dada dada dada dada
dada dada dada
Dada dada dada dada
dada dada dada

Erindið skal endurtaka þar til rímunni lýkur.

 

Hvatning á degi ljóðsins

Ekki skrifa niður.
Ekki skrifa hugsanir þínar niður.

Skrifaðu til að hugsa.
Skrifaðu til að hugsa upp.
Skrifaðu þínar hugsanir upp.

 

Fyrirmæli á degi ljóðsins

Finndu kjötið í grænmetinu.
Finndu safann í mjölinu.
Finndu allt þitt eftirlæti umbúðalaust.

Settu óvænt ljóð á pokasvæði.
Settu óvænt ljóð á pokasvæði.

Hinkraðu eftir merkingu.

Fáðu kvittun fyrir tilveru.
Fáðu kvittun fyrir tilveru þinni.

 

Koddahjal á degi ljóðsins

Komdu draumur drauma minna
draumatök þín vil ég finna
þér af heilum huga sinna
hangs og yndi saman tvinna.

Komdu næturverk að vinna
værð og ró má hingað ginna
harðstjórn vits þá loks mun linna
lona hneit og gjoðið klinna.

Kondi móm og donni dvinna
dænið mumm að hníða jinna
henað gven og blonúð blinna
blútið glinna flinna hjinna.

Kondi kondi ninna ninna
ninna kninna onn og hninna.

 

 

Ávarp fjallkonunnar

á Austurvelli 17. júní 2021

 

Ein vil ég mæla fyrir okkur öll. Setjum grið.
Virðum tifandi mosann
mosabreiðuna
mosalagið sem hjúpar jörð og nærir líf.

Setjum grið á öllum stöðum
nefndum og ónefndum
milli okkar og mosans. Setjum grið
í móum. Setjum grið í mýrum. Í tjörnum.
Í glitrandi lækjum og lindum.
Á hraunbungum
og í snjódældum.
Á þurrum melakollum og í votlendi.
Setjum grið á brunahrauni
og í botni skógar
þar sem söngvarinn ljúfi tyllir sér á grein.

Hægt, hægt vex undramjúkur mosinn
vex dúandi mosinn sem fæstir kunnu áður að nefna
viðkvæmur mosinn sem margur vild’ ei neitt af vita
glóandi mosinn sem breiddi úr sér
fyrir augum allra án þess að sjást.

Engin mannskepna skal fara með óþarfa traðki út á mosann
enginn málmdreki ógna honum með eiturgufum
og ekki skal ógætileg framrás beittra klaufa
skera í mosann sár
sem óheftir vindar vilja ýfa upp.

Setjum grið á láglendi
setjum grið á hálendi.
alin og óborin,
getin og ógetin,
nefnd og ónefnd
veitum tryggðir og ævitryggðir
mætar tryggðir og megintryggðir
sem skulu haldast meðan mosi og manneskjur lifa.

Allt það líf sem enginn minntist á fyrrum kalla ég fram.
Komið þið silfurhnokki, snúinskeggi, kelduskæna!
Komið dýjahnappur, lindaskart, rauðburi, móabrúskur.
Komið tildurmosi og hraungambri
komið og breiðið úr ykkur til allra átta.

Verum sátt hvert við annað, við jörðina, við gróskuna
við umhverfið sæla, við fjölbreytnina.
Setjum grið, verum ólík en sátt
nemum kyrrð, nemum þolinmæði mosans
sem breiðir lifandi mýkt yfir harðneskju hraunsins.

Ég mæli fyrir mig, fyrir okkur öll. Setjum grið.
Við mælum öll sem ein og setjum grið.

 

 

 

 

 

 

 

Ljóð um plöntur og fugla

Ljóð um plöntur og fugla

Haust í Þingholtunum

Það komst eitt sinn kenning á sveim
um kyrran og laufgrænan heim.
Af rigningum barið
er reynitréð farið
að ryðga í fræðunum þeim.

 

Grjót. Mosi. Vatn.

Grjót. Mosi. Vatn.
Vatn. Mosi. Grjót.

Grjót. Vatn. Mosi.
Mosi. Grjót. Vatn.

Vatn. Grjót. Mosi.
Mosi. Vatn. Grjót.

Land, okkar land.

 

Ljóðið um hjartapuntinn

Hvers vegna nefnir enginn hjartapuntinn
sem bara vex í Grafarvogi?

Það hvín oft í stráum
og grösum í sveitinni.
Hlustum frekar á hjartapuntinn
sem hvergi vex nema í Grafarvogi.

Við gætum átt svo góðar stundir.

Förum og leitum að hjartapuntinum
sem bara vex í Grafarvogi.

 

Sumar á landinu bláa

Sjá, lúpínan blánar við brún
því bærilegt samband á hún
við gróðursins höfund
– en grænir af öfund
hér gerast nú dalir og tún.

 

aðalbláber

gæti verið ágætis titill á ljóði!
Og þetta er þá afrek mitt í dag:
Ég hef plokkað orðið aðalbláber upp úr bók.
Ég veit það má finna bláber
í öðrum verkum. Og kannski
grunar mig líka mun handan orða
þótt ég komi hvorki fyrir mig bragði né lit.
Ekki verður aðalbláberið
aðalbláber eitt og sér.
aðalbláber. Alltaf skal mínu óviti
heppnast að slíta orðin úr samhengi.
En hver eru vensl mín við þetta?
Gegnum hana mömmu?
Já, gegnum hana mömmu.

Stundum á haustin tíndi hún berin fyrir vestan.
það er freistandi að skrifa: hún las, en
hún tíndi berin á æskustöðvunum fyrir vestan.

Aðalbláber náttúrunnar spruttu
eflaust í öðrum landshlutum
og þau vekja ekki áhuga minn.
Enda hef ég fátt að gera við heiminn
þarna úti. Og minna við samheiti.
En dugar aðalbláber sem líking
í sambandi okkar mæðgina?
Var ég aðalbláberið hennar?

Nei, ég mun aldrei framar yrkja ljóð.
Mér líður ekki einsog.
Nú reyni ég að einbeita
mér að lestrinum, nei, ég les ekki meir.

 

Undir hamrinum

Eitt hægt skref.
Annað.
Hægt skref.

Eitt. Og annað.
Eitt.
Og annað.

Þar til undirförul skriðan
nær ekki lengur til mín
með efasemdir og hrakspár.

Við hamarinn lít ég fyrst upp.

Skáhallt út úr berginu
teygir sig hvít hönd
og blessar yfir mig:

Klettafrúin.

Ég þakka lífinu.
Tvístígandi þakka ég lífinu hvert skref.

 

Vísur um vetrarblóm
 
Vorið sýnir vinarþel

með vetrarblómi.

Losar mig úr læstri skel
og leiðans tómi.
 
Eftir langan mæðumel

sést mikill ljómi.
Vorið sýnir vinarþel
með vetrarblómi.
 

 

Haust í Reykjavíkurskógi

Allir eiga sér eftirlætisfugl.

Reynitréð nefnir engan
en þrösturinn kemur til greina. 

 

Sambrýnda konan

Segjum brúnirnar hennar dökku:
Örninn í uppstreymi ennis.

En hvaða mófugl hefur þá orpið þessum augum?

 

Flugatvik í Dyradal

Hrafn átti við mig nokkur krunk
í Dyradalnum.

Hann uppi í klettunum.
Ég niðri á göngustígnum.

Allt í einu steypti hann sér af syllunni
flaug í áttina til mín, fór
hring í loftinu, sneri
kviðnum upp, opnaði gogginn.

Opnaði gogginn og gleypti loftanda.

Gleypti loftanda.

Það skil ég heima
þegar ég fletti upp í gamalli bók
sem útskýrir atferli hrafna.

 

Bjargfuglinn

Á syllu sem var ekki neitt neitt.
Þar sat langvían.

Perulaga egg langvíunnar
snýst um sjálft sig
stjaki einhver við því.

Veltur ekki svo glatt fram af brúninni.

Það má aðlagast umhverfinu.
Með tíð og tíma má aðlagast umhverfinu.

 

Reykjavíkurannáll

Alvörugefinn var hann
þessi nýliðni vetur.

Stundum mátti þó kætast í myrkrinu.
Snemma morguns í desember
barst mér til eyrna lóusöngur
ofan úr tré
við Gunnarsbrautina.

Allan þann dag
leið mér töluvert betur.

Mig grunaði auðvitað starrann.
Engar heimildir geta þess að hann
kveði burt snjóinn og leiðindin.

Merkilegt samt
hvað þykjustan getur.

 

Horft til himins af planinu hjá sjúkraþjálfaranum

Mér heyrðist hálfvegis klappað
uppi við þakbrún
þegar ég gekk yfir planið til sjúkraþjálfarans.

Eitt augnablik sá ég dúfur flögra í hring
og hverfa.

Einu sinni var ég alltaf dúfa.
Einu sinni flaug ég alltaf um í hóp.

Ég man ekki nákvæmlega hvað gerðist svo.

Ég veit bara að núna er ég á leið í sjúkraþjálfun
með stífan olnboga
eftir líf og starf við eitthvað annað.

 

Skoðunarferð um nágrennið

Má ég kynna ljótustu blokkina
í ljótasta hverfinu
ljótustu
ljótustu blokkina.

Á annarri hæð býr maður með finkur
sem tísta og syngja
ótal finkur sem tísta
og syngja
og tísta
í ótal búrum
í heilu herbergi.

Ég hef hitt þennan mann.

Hann sat við næsta borð
og hafði fengið sér bjór
en ég trúi honum samt.

Í ljótustu blokkinni
í ljótasta hverfinu
býr sá
sem á
herbergi fullt af finkum.

 
 
sunnudagsfeðgar
 
dugar öskjuhlíðin sem ísland
og náttúra? ég spyr. sjáðu
fuglinn, segi ég upphátt við drenginn
 
sem lítur á mig með hvað? á vör.
 
gláptu ekki hingað, þú ert
barn og enginn hvolpur
átt hvorki að vakta puttann
né kvíslgreina stöðugt
vísifingursorðin.
 
það er lóa, manstu
í vísnabókinni, lóa!
 
og lóan hún söng dirrindí
hjá skáldinu, en sumir
hallast að öfugum tvílið.
 
margur daninn gisti hér lengi
án þess að læra íslensku
og um kjörlendi kana þarf ég ekki að fjölyrða.
 
spurðu því ekki hvaðan
þessi sumargestur komi eða hverjir
fyllist heimþrá
þegar hann syngur.
 
við getum hampað bæði vísnabók og tungu
eignað okkur hlíð og söng og fugl.
 
 
Hækusyrpa um fugla
 
Suðrið færir mér   

vorið kátt með fjaðraþyt

hrossasælugauks.
 
Kötturinn eltir

svartþröstinn kringum runnann.

Ég elti köttinn.
 
Í eyrað berst krí.

Söngvakeppni evrópskra 

varpstöðva hafin.
  
Frelsarann trompar
flórgoðapar sem taktvisst
dansar á vatni.
 
Alltaf jafn óvænt  
fýkur Máríuerla
í blankalogni.
 
Súla í kasti.
Ég á mínum daglegu
hugmyndaveiðum.
 
Hér í Corfino

gladdi það mig að haninn

gól á íslensku.
 
Starrinn í trénu

hermir eftir lóusöng

á svarta morgni.
 
Hér lengir daginn

og um leið vaknar flugþrá 

á suðurhveli.
 
Snjór yfir öllu

og ekki létt að eygja

hvítu hrafnana.
 
 
Fuglaskrúð
 
Við fjörð einn er fuglaeyja

sem fólk segir gróðurskrúð

þar líkt og við Laugaveginn

er lundi í hverri búð.
 
Ég fjölbreytni sé og fýla,

mitt fiðraða skyldulið,

og súlu í kasti knúsa

uns kemst hún í næturfrið.
 
Svo fuglarnir ráði ríkjum

má reka burt karl og hrút

en seint bætir fólkið fyrir 

þá fogla sem dóu út.
 
 
 
Samræða á degi ljóðsins
 
Mér finnst eins og ég hafi verið fugl

í fyrra lífi. Fugl.
 
Þú ert sami sveimhuginn og hefur ekkert breyst.

Fugl. Himinn. Frelsi.

Bla, bla, bla!
 
Kannski var ég ekta landnámshæna, ha?
 
Kannski varstu akurhæna. Plaff, plaff, plaff!
 
Mér finnst eins og ég sé ennþá ég

í fyrra lífi. Fugl. Ég er kíví-

fugl. Ég er mörgæs.

Ég er eimönd.

Ég er kakapúi.

Ég er kasúi, emúi, strútur.

Ég er nandúi. Fugl.

Ég er fugl. Ég er fugl. Ég er fugl.
 
 
Tvær vorvísur
 
Ekki held ég hætt við því

að hríslur neinar bogni;

viðra tíu tásur í

tveggja stafa logni.
 
Oná tjörn nú áðan var

allt á fullu spani;

ljótir andarungar þar

eltu hvíta svani.
 
 
 
Mýrisnípa
 
Mýrisnípa flæmist
undan mér í votlendinu
 
ég hrekk við 
og heyri
 
ýmist hrellingu fugls og kvak
eða hjartslátt í brjósti mér.
 
 
Sumarnótt við þjóðveginn
 
Stopp var stationbifreið

um stund í vegarbrún.

Þá gat miðað maður
s
em mændi út á tún.
 
Blundað var á bæjum

þótt byssa segði ræs.

Enginn virtist vera

að vakta sparigæs.
 
Óljós gæs hlaut örlög

sem aldrei skildi hún.

Stopp var stationbifreið

um stund í vegarbrún.
 
 
Eilítið um smáfugla og páfugla
 
Ef smá fugl hér smælandi sá fugl 
um smáfugl oft hugsaði þá fugl.
Eitt er að þrá fugl.

annað hvað má fugl.

Hvað á fugl að gera sem páfugl?
 
 
Fuglarvísur í bústaðnum
 
Skógarþröstur kringum kjarr
krafsar einsog mýslan
uns á grein hann ber sitt barr
blessuð hrísihvíslan.
 
Hrossagauk ég hrek í rugl,
hann er stressuð týpa.
Mér er kærri friðsæll fugl
fjarlæg mýrisnípa.
 
Þó svo veður komi kyrrt
kvikstélurinn fýkur
fær upp margan molann hirt
máríerlu líkur.
 
Fuglamergðir margir sjá,
meira aðrir greina
telja þrúfutittling grá-
tíslu klára’ og hreina.
 
Út til hliðar held ég mér
hrekkjum orðinn vanur
oft er víst í veröld hér
vatnarjúpan svanur.
 
Falleg nöfn með fögrum hljóm
fuglar einatt bera
ekkert nema nöfnin tóm
nokkrir reynast vera.
 
Aldrei sjá nú augu mín
oní skurði fara
lækjarkráku, keldusvín
kofra, rindilþvara.
 
Fjölda nafna fugl oft ber
flúgandi um sveitir
man svo einn með sjálfum sér
sjaldnast hvað hann heitir.
 
 
Fuglavísur í Göttingen
 
Milli trjánna skjórinn skýst

skrafar margt við heiminn.

Ég sit kjur en jörðin snýst

jákvæð mjög og dreymin.
 
Svartþröst einn með gulan gogg

garðálfarnir mana.

Ég les mæðið moggablogg

mest af gömlum vana.
 
Flotmeisan sem fræið tók

fer og kemur aftur.

Ég held að með bók og bók

berist undrakraftur.
 
Krákan iðkar krákuhopp;

krákustígagaman.

Ég á rauðu stend oft stopp,

stundum dögum saman.
 
Kirsuberin borða enn 

brúnu gráspörvarnir.

Ég græt einn því innri menn

úr mér virðast farnir.
 
Yfir mæninn margoft sjást

múrsvölungar þjóta.

Ég með hægð vil hafa ást

heima til að njóta.
 
Þegar frelsið flýgur greitt

fagurt er í heimi.

Ég flýg sjálfur naumast neitt

nema þá mig deymi.
 
 
Krákur í Göttingen
 
Fugl sem ekki þekkir þú
þörf er á að nefna.
Einhver corvus krunkar nú. 
Kannski það sé hrefna.  
 
Öruggt heiti eða nafn
er svo gott að hafa.
Krákan þarna! Hún er hrafn.
Hann er það án vafa.
 
Svarblár goggur, svarblár haus
svarblátt stél og vængur;
gikkur sá með garg og raus
gæti verið blængur.
 
Margur furðufuglinn hér
fíflast eins og strákur
ef hann stríðinn þykir þér 
þá er fuglinn krákur.
 
 
Fuglavísur á degi íslenskrar tungu í Göttingen
 
Ísaland við lægðarugl

löngum getur rifist. 

Kulvís eða feiminn fugl 

fær þar aldrei þrifist.
 
Íslenskan er annað mál,

öllu vænna svæði; 

dreymi vængi draumasál

dafnar allt í næði.
 
Íslenska á undrin spræk

inní gróðurlundum.

Þar á greinum skjór og skræk-

skaði leynast stundum.
 
Oft í málin krækir klóm

krákan fingralanga

lætur ekki orðin tóm

ein í lofti hanga.
 
Úr því veður vill í bland

væntingarnar rugla

íslenskan er óskaland

ævintýrafugla.
 
 

Verslunarljóð og limrur

Verslunarljóð og limrur

Dagur í mollinu

Tilgangur lífsins klæðist aldrei jakkafötum
þegar hann fer að kaupa í matinn.
Hann mætir í gömlum pólóbol
og hnésíðum buxum.

Tilgangur lífsins ýtir á undan sér innkaupakerrunni
berfættur í fótlaga sandölum
og allir sem vilja geta haft á því skoðun
hvort hann mætti fara oftar í fótsnyrtingu.

Kona sér hann koma með pokana út á bílastæðið.
Hún hallar sér að eiginmanninum og spyr:
Svenni, getur þetta verið tilgangur lífsins?

Svei mér þá, segir maðurinn og ræsir jeppann.
Þetta er tilgangur lífsins.
Hann er bara ekki í jakkafötum.

 

Bíbí straujar angistina

Alltaf svo kokhraust á útsölur fer ég
þó ergir mörg summan, það sver ég
– en korti ég veifa
það kvíðann vill deyfa:
Ég kaupi og þess vegna er ég.

Búðarþula

Það fæst ekki hér.
Það er búið.
Það er uppselt.
Kondu þér burt. Það fæst ekki lengur.

Reyndu ekki að biðja um brennimerkt siðgæði.
Þú færð ekki að smakka neina stóriðjuhneigð.
Hún er búin.
Hún er búin.

Hér fæst ekki niðursoðin einstaklingshyggja.
Við bjóðum ekki hráan samtakamátt.

Frændsemin er uppseld.
Kunningjatengslin þrotin.
Flokkadrættirnir kláruðust í gær.

Ekki koma og biðja um meðvirkni og þögn.
Ekki koma og spyrja um augu sem líta undan.
Þetta dót er allt búið.
Það er búið og hillurnar tómar.

Við erum að loka. Farðu.

Hér færðu ekki heimagerða þrælslund.
Hún fæst ekki lengur.
Hún er ekki til.
Ekki biðja um þannig krúsidúllur. Þær fást ekki hér.

Þetta gamla dót er allt búið.
Það vill þetta enginn lengur.

Það er búið.
Það er búið.

 

Eftirmiðdagur í mátunarklefanum

Gráu buxurnar passa.
Þær klæða mig vel.
Þær lykta vel.
Ég held ég taki þær gráu.

Þessar svörtu eru þó betri í mittið.
Einsog sniðnar á mig.
Ég tek þær frekar.
Já.
Kannski ég taki þær svörtu frekar.

Skálmarnar eru samt víðari á þeim gráu.
Ég ætti bara að skella mér á þær.

En það getur svosem verið um fleira að velja.
Ég þarf ekkert að kaupa buxur hérna.
Ég lofaði engu þótt ég fengi að máta.

Þegiðu.
Þótt mér líki þessar svörtu
og þótt ég vilji þessar gráu
get ég gengið héðan út eins og ekkert sé.

Það eru hundrað verslanir neðar í götunni.
Það er nóg af buxum í heiminum.
Maður þarf ekkert að binda sig við svart.
Á góðum degi má líka hugleiða
annað en grátt.
Hver segir að ég vilji ekki skræpótt?

Ég gæti fundið aðra verslun ef mér bara sýndist.
Ég gæti fundið aðra verslunargötu eða jafnvel hverfi.
Ég gæti fundið heilu verslunarmiðstöðvarnar
sem bara selja buxur.

Ég þarf ekkert að ákveða mig strax.
Aldrei.
Mín bíða alltaf endalausir möguleikar
neðar í götunni.

 

Rauðu skórnir

Ég mátaði rauða skó í London.
Stúlkan sagði: Þetta er síðasta parið.

Ég ákvað samt að bíða.
Hver trúir sölufólkinu?
Ég ákvað að ganga einn hring í verslunarmiðstöðinni.

Þetta var góður dagur og margt að sjá.

Þegar ég kom til baka voru skórnir farnir.
Hún þóttist ekkert vita.

Það eru bráðum liðin fjörutíu ár.
Engir skór hafa enst mér eins vel.

 

Fornbókasalan

Skyndilega kallaði fornbókasalinn:
Ég verð enga stund.

Það mátti heyra dyrnar opnast.
Það heyrðist í bíl fyrir utan.
Það heyrðist í fólki.
Svo lokuðust dyrnar og allt varð hljótt.

Ég var í miðri skáldsögu.
Hinkraði við.
Hélt svo áfram að fletta.

Þá fór síminn að hringja
og hringja aftur
innan við diskinn.

Enginn kom til að svara og síminn
hélt áfram að hringja og hringja
uns hann hætti að hringja og allt varð hljótt.

Það var undarlegt að standa þarna einn
í miðri sögu.

Þá heyrði ég þrusk eða andvarp.

Ég hikaði. Kíkti loks fyrir endann
á hillu og horfði í augu sem kíktu
fyrir endann á hillu innar í búðinni.

Síðan birtust önnur augu
ennþá innar í búðinni
inni í sagnfræðiskotinu
og enn önnur birtust hjá ljóðunum
og enn önnur birtust hjá þjóðlegum fróðleik.

Allt í einu var undarlegt að vera ekki einn
í miðju
einhverju.

Þá, einmitt þá
hurfu þau
öll þessi augu
bak við ótal hillur
bak við alls konar fræði
og allt var svo hljótt og svo hljótt
og síminn var löngu hættur að hringja.

 

Hulda mín leysir af sem birgðastjóri
hjá Kaupfélagi Patreksfjarðar

Að hagræða hlutum er brýnt;
ég hef á þeim skipulag fínt.
Á lagernum tóma
er lífið til sóma
og leitun að því sem er týnt.

 

Prófarkalesari ávarpar tómatana

Illa sofinn prófarkalesari
rápaði inn í ávaxta- og grænmetiskæli
á einhvers konar föstudegi.

Þá heyrðist rödd. Það heyrðist rödd. Já rödd.

Tómatur í kös
í bláum kassa
kallaði og spurði:
Svara þú mér, spekingur:
Hvort er tómaturinn ávöxtur eða grænmeti?

Þetta var í hádeginu á föstudegi.
Þarna var ekki neinn til svara
nema illa sofinn prófarkalesari.

Skyndilega risu gúrkurnar upp.
Þær tóku dansspor og sungu viðlag:
Hvað er ég?
Hver er ég?
Hvert er eðli mitt?

Prófarkalesarinn hristi af sér drungann.
Hann taldi í
og svaraði
með mjaðmasveiflum:

Tómaturinn er kóróna sköpunarverksins
en margir
margir
aðrir
hafa eitthvað sér til ágætis.

Frammí brauðinu stendur karl.
Inní mjólkinni stendur kona.
Okkur hin kalla sumir grænmeti.
Okkur hin kalla aðrir ávexti.

Prófum nú aðra spurningu:
Hvaða rullu spila ég
í þessu ágæta lífi?

Það ræðst af hlutverki okkar í borðhaldinu
hvað við erum
í raun og veru.

Húrra, hrópuðu tómatar í bláum kassa.
Það var lagið, góluðu paprikur og epli.
Meira meira, kyrjuðu spergilkál og vínber.

Gúrkurnar tóku fleiri dansspor
og sungu annað viðlag:
Síld og fiskur.
Bókmenntir og listir. Heimurinn og ég.

Þetta var í ávaxta- og grænmetiskælinum
á einhvers konar föstudegi.

 

Anna Lísa fílósóferar á snyrtivörukynningu í Debenhams

Ef velja skal varalit gilda
varfærnir litir sem milda
og róandi telst
sá rauðasti helst
því rautt merkir stöðvunarskylda.

 

Einleikur án undirleiks

Röðin við kassann er löng og hún lengist.
Hún lengist og lengist. Ég bíð og ég bíð.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.
Það er fólk fyrir aftan. Það bíður og bíður.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.
Ég lít ekki um öxl. Ég veit að það sér mig.
Það er ekki heimild. Það þekkir mig enginn.

Það þekkir mig enginn. Það er komið að mér.
Ég ætla að ferðast. Ég bíð og ég bíð.
Dansa frá mér vitið á karnivali í Ríó.
Gantast við norðurljós allsber í potti.
Syndi með höfrungum. Reyki hass.
Helvítis stelpan. Það er ekki heimild.

Það er ekki heimild. Ég lít ekki um öxl.
Mæti í úthverfri peysu. Set iljar í sandinn.
Mér hitnar í kinnum. Mín fróun er núna.
Fæ bréf í pósti frá öðrum en banka.
Það bíður og bíður. Ég bíð og ég bíð.

Ég bíð og ég bíð. Það er komið að mér.
Ég næ sáttum við líf mitt. Það bíður og bíður.
Ég reiðist og öskra. Það er ekki heimild.
Loks segi ég: Nei. Mér hitnar í kinnum.

Mér hitnar í kinnum. Helvítis stelpan.
Finn handleggi hlýja um háls minn að nýju.
Það skrjáfar í poka. Ég lít ekki um öxl.

Ég lít ekki um öxl. Það er fólk fyrir aftan.
Mér hitnar í kinnum. Það er komið að mér.

Það er komið að mér. Ég bíð og ég bíð.

Pin It on Pinterest